Aðalvík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aðalvík

Aðalvík er um 7 km breið vík yst (vestast) á Hornstrandakjálkanum. Þar voru forðum sjávarþorpin Látrar (120 íbúar 1920) og Sæból (80 íbúar 1900) en byggðin fór í eyði um miðja 20. öld. Síðustu ábúendur fluttu frá Látrum og Sæbóli 1952. Yfirleit er talað um Sæból vestast, Miðvík og Látra austast. Á fjallinu Darra ofan við Aðalvík reistu Bretar herstöð sem enn má sjá leifar af, m.a. loftvarnarbyssu, byggingar og veg. Vestan við Látra á Straumnesfjalli voru reist hernaðarmannvirki 1953 sem enn má sjá leifar af. Þá var líka byggður flugvöllur innan við þorpið. Þoka mun hafa hamlað því að hermenn kæmust að landi á Hornströndum. Jakobína Sigurðardóttir orti kvæðið Hugsað til Hornstranda gegn hernaðarbrölti þar:

Víða liggja „Verndaranna“ brautir.
Vart mun sagt um þá,
að þeir hafi óttast mennskar þrautir,
eða hvarflað frá,
þótt þeim enga auðnu muni hyggja
Íslandströllin forn,
Mér er sagt þeir ætli að endurbyggja
Aðalvík og Horn.

Seinna orti Jakobína annað ljóð „Hvort var þá hlegið í Hamri?“ þar sem hún lýsir þokunni sem gjörningaþoku vætta.[1] Mörgum húsanna í Aðalvík er haldið við af eigendum og þar er nokkur sumarbyggð.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Vikan 46 tbl. 1963 bls. 31

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.