Grenada
Grenada | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Ever Conscious of God We Aspire, Build and Advance as One People | |
Þjóðsöngur: Hail Grenada | |
![]() | |
Höfuðborg | St. George's |
Opinbert tungumál | enska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungstjórn
|
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Cécile La Grenade[1] |
Forsætisráðherra | Keith Mitchell |
Sjálfstæði | |
- frá Sambandsríki Vestur-Indía | 7. febrúar 1974 |
Flatarmál - Samtals - Vatn (%) |
217. sæti 344 km² 1,6 |
Mannfjöldi - Samtals (2012) - Þéttleiki byggðar |
180. sæti 107.850 314/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2012 |
- Samtals | 1,467 millj. dala (172. sæti) |
- Á mann | 13.900 dalir (72. sæti) |
Gjaldmiðill | austurkarabískur dalur (XCD) |
Tímabelti | UTC-4 |
Þjóðarlén | .gd |
Landsnúmer | +1-473 |
Grenada (opinbert heiti State of Grenada) er eyríki í suðausturhluta Karíbahafsins og nær, auk eyjunnar Grenada, yfir syðsta hluta Grenadíneyja. Það er norðan við Trínidad og Tóbagó og sunnan við Sankti Vinsent og Grenadíneyjar. Grenada er hluti Kulborðseyja sem eru syðstar Antillaeyja.
Grenada er einn af stærstu framleiðendum múskats í heimi. Íbúar eru um 108 þúsund (2012) og þar af býr tæpur þriðjungur í höfuðborginni St. George's. Langflestir íbúa Grenada eru afkomendur afrískra þræla sem voru fluttir til eyjarinnar til að vinna á plantekrum. Yfir helmingur er kaþólskur. Þjóðarfugl Grenada er grenadadúfan sem er í útrýmingarhættu.
Grenada var byggð Karíbum þegar Frakkar stofnuðu þar nýlendu árið 1649. Frumbyggjum eyjarinnar var nánast útrýmt eftir átök við frönsku landnemana árið 1654. Bretar lögðu eyjuna undir sig í Sjö ára stríðinu árið 1762 og fengu hana í sinn hlut með Parísarsáttmálanum árið eftir. Grenada var gerð að krúnunýlendu árið 1877. Eyjan var hluti af Sambandsríki Vestur-Indía frá 1958 til 1974 en það ár fékk hún sjálfstæði. Í kjölfar herforingjabyltingar árið 1983 gerðu Bandaríkin innrás sem var harðlega gagnrýnd af alþjóðasamfélaginu. Eftir innrásina tók eldri stjórnarskrá landsins aftur gildi. Eyjan varð fyrir tveimur stórum fellibyljum árin 2004 og 2005 sem ollu gríðarlegu tjóni.
Landafræði[breyta | breyta frumkóða]
Grenada er stærst Grenadíneyja. Smærri eyjar eru meðal annars Carriacou, Petit Martinique, Ronde Island, Caille Island, Diamond Island, Large Island, Saline Island og Frigate Island. Langflestir búa á Grenada þar sem stærstu bæir landsins eru, höfuðborgin St. George's, Grenville og Gouyave. Stærsta byggðin utan Grenada er Hillsborough á Carriacou.
Eyjarnar eru eldfjallaeyjar og miðbik Grenada er mjög fjalllent. Hæsta fjallið er Mount St. Catherine sem nær 840 metra hæð. Margar ár renna úr fjöllunum til sjávar. Á eyjunum ríkir hitabeltisloftslag með heitt og rakt regntímabil og þurrkatímabil með svölum staðvindum. Grenada er syðst í fellibyljabeltinu og hefur aðeins orðið fyrir þremur fellibyljum á síðustu hálfri öld.
Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]
Langvinsælasta íþróttin á Grenada er krikket en á alþjóðavettvangi keppa íbúar landsins undir merkjum Vestur-Indía í greininni. Heimsmeistarakeppnin í krikket var haldin í Vestur-Indíum árið 2007 og fóru nokkrir kappleikir fram í St. George´s. Telst það stærsti íþróttaviðburðurinn í sögu þjóðarinnar.
Grenada hefur tekið þátt í Ólympíuleikunum allt frá leikunum Los Angeles 1984. Flestir keppendur landsins hafa tekið þátt í frjálsum íþróttum. Spretthlauparinn Kirani James hlaut gullverðlaun í 400 metra hlaupi í Lundúnum 2012 og silfur í sömu grein í Ríó 2016.
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
