Fara í innihald

Grenada

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Grenada
Gwenad
Fáni Grenada Skjaldarmerki Grenada
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Ever Conscious of God We Aspire, Build and Advance as One People
Þjóðsöngur:
Hail Grenada
Staðsetning Grenada
Höfuðborg St. George's
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Cécile La Grenade[1]
Forsætisráðherra Dickon Mitchell
Sjálfstæði
 • frá Sambandsríki Vestur-Indía 7. febrúar 1974 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
185. sæti
348,5 km²
1,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
179. sæti
124.610
319/km²
VLF (KMJ) áætl. 2023
 • Samtals 2,3 millj. dala (182. sæti)
 • Á mann 20.195 dalir (76. sæti)
VÞL (2022) 0.793 (73. sæti)
Gjaldmiðill austurkarabískur dalur (XCD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .gd
Landsnúmer +1-473

Grenada (grenadíska: Gwenad) er eyríki í suðausturhluta Karíbahafsins og nær, auk eyjunnar Grenada, yfir syðsta hluta Grenadíneyja. Það er norðan við Trínidad og Tóbagó og sunnan við Sankti Vinsent og Grenadíneyjar. Grenada er hluti Kulborðseyja sem eru syðstar Antillaeyja. Grenada nær yfir aðaleyjuna, Grenada, ásamt tveimur minni eyjum; Carriacou og Petite Martinique, auk margra smáeyja norðan við aðaleyjuna. Þessar minni eyjar eru allar hluti af eyjaklasanum Grenadínum sem er kenndur við Grenada. Grenada er um 350 ferkílómetrar að stærð.

Grenada er einn af stærstu framleiðendum múskats í heimi og er af þeim sökum stundum kölluð „Kryddeyjan“. Íbúar eru um 125 þúsund (2021) og þar af býr tæpur þriðjungur í höfuðborginni St. George's. Langflestir íbúa Grenada eru afkomendur afrískra þræla sem voru fluttir til eyjarinnar til að vinna á plantekrum. Rúmlega þriðjungur er kaþólskur. Þjóðarfugl Grenada er grenadadúfan sem er í útrýmingarhættu.

Grenada var byggð Karíbum þegar Frakkar stofnuðu þar nýlendu árið 1649. Frumbyggjum eyjarinnar var nánast útrýmt eftir átök við frönsku landnemana árið 1654. Bretar lögðu eyjuna undir sig í sjö ára stríðinu árið 1762 og fengu hana í sinn hlut með Parísarsáttmálanum árið eftir. Grenada var gerð að krúnunýlendu árið 1877. Eyjan var hluti af Sambandsríki Vestur-Indía frá 1958 til 1974 en það ár fékk hún sjálfstæði. Í kjölfar herforingjabyltingar árið 1983 gerðu Bandaríkin innrás sem var harðlega gagnrýnd af alþjóðasamfélaginu. Eftir innrásina tók eldri stjórnarskrá landsins aftur gildi. Eyjan varð fyrir tveimur stórum fellibyljum árin 2004 og 2005 sem ollu miklu tjóni.

Grenada er hluti af Breska samveldinu. Landið gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1974. Grenada á aðild að CARICOM og Samtökum Austur-Karíbahafsríkja (OECS).

Aravakar, sem bjuggu á eyjunni áður en Evrópubúar komu þangað, kölluðu hana Camajuya sem merkir „elding“.[2] Kristófer Kólumbus kom auga á Grenada og Tóbagó í þriðju ferð sinni 1498 og er talinn hafa nefnt Grenada La Concepción til heiðurs Maríu guðsmóður. Talið er að Tóbagó hafi fengið nafnið Assumpción. Þetta er þó óvíst þar sem hann nefndi eyjarnar eftir að hafa séð þær úr fjarska og ekki er víst hvor eyjan fékk hvaða nafn.[3] Árið eftir kom ítalski landkönnuðurinn Amerigo Vespucci þangað með spænska könnuðinum Alonso de Ojeda og kortagerðarmanninum Juan de la Cosa. Vespucci er sagður hafa nefnt eyjuna Mayo, en það nafn kemur ekki fyrir á neinum öðrum kortum.[4]

Uppruni nafnsins „Grenada“ er óviss, en líklegt þykir að spænskir sjómenn hafi nefnt eyjuna eftir andalúsísku borginni Granada.[5][3] Nafnið „Granada“ birtist á spænskum kortum frá 3. áratug 16. aldar, meðan eyjarnar norðan við Grenada voru nefndar „Los Granadillos“ („litlu Granödurnar“).[6] Eyjarnar voru merktar sem eign Spánarkonungs, en Spánverjar gerðu enga tilraun til að setjast þar að.[4] Þegar Frakkar hófu landnám á Grenada árið 1649 nefndu þeir eyjuna „La Grenade“.[6] Þann 10. febrúar 1763 fengu Bretar yfirráð yfir eyjunni samkvæmt Parísarsáttmálanum. Bretar breyttu nafninu í Grenada.[7]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Grenada er stærst Grenadíneyja. Smærri eyjar eru meðal annars Carriacou, Petit Martinique, Ronde Island, Caille Island, Diamond Island, Large Island, Saline Island og Frigate Island. Langflestir búa á Grenada þar sem stærstu bæir landsins eru, höfuðborgin St. George's, Grenville, Victoria og Gouyave. Stærsta byggðin utan Grenada er Hillsborough á Carriacou.

Eyjarnar eru eldfjallaeyjar og miðbik Grenada er mjög fjalllent. Hæsta fjallið er Mount St. Catherine sem nær 840 metra hæð. Margar ár renna úr fjöllunum til sjávar. Á eyjunum ríkir hitabeltisloftslag með heitt og rakt regntímabil og þurrkatímabil með svölum staðvindum. Grenada er syðst í fellibyljabeltinu og hefur aðeins orðið fyrir þremur fellibyljum á síðustu hálfri öld.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Grenada skiptist í sex sóknir. Carriacou og Petite Martinique (syðri Grenadínur) eru skilgreindar sem hjálenda fremur en stjórnsýslueining.

Grenada ParishesSaint AndrewSaint DavidSaint GeorgeSaint JohnSaint MarkSaint PatrickSaint Andrew
Grenada Parishes
Eyjan Carriacou með aðrar Grenadínur í fjarska.

Íbúar Grenada eru rúmlega 100.000. Flestir tala kreólamálið grenadísku, en enska er opinbert tungumál. 85% aðhyllast kristni. Um helmingur er í ýmsum mótmælendasöfnuðum (þar á meðal ensku biskupakirkjunni) og um þriðjungur er kaþólskur. Meirihluti íbúa Grenada (82%) eru afkomendur afrískra þræla.[5][8] Eftir að Frakkar hófu landnám þar á 17. öld hurfu flestir innfæddir íbúar. Indverskt verkafólk var flutt inn á milli 1857 og 1885, aðallega frá Bihar og Uttar Pradesh, og afkomendur þeirra búa enn á Grenada. Grenadabúar af Indverskum uppruna eru um 2,2% íbúa.[5] Lítill hluti íbúa er af frönskum eða enskum uppruna.[8] Aðrir íbúar eru af blönduðum uppruna (13%).[9]

Líkt og margar aðrar Karíbahafseyjar býr Grenada við fólksflótta, þar sem mikið af ungu fólki freistar gæfunnar erlendis. Vinsælir áfangastaðir eru meðal annars aðrar Karíbahafseyjar (eins og Barbados), bandarískar og kanadískar borgir (New York-borg, Toronto og Montreal), og Bretland (sérstaklega London og Yorkshire).[10]

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Langvinsælasta íþróttin á Grenada er krikket en á alþjóðavettvangi keppa íbúar landsins undir merkjum Vestur-Indía í greininni. Heimsmeistarakeppnin í krikket var haldin í Vestur-Indíum árið 2007 og fóru nokkrir kappleikir fram í St. George´s. Telst það stærsti íþróttaviðburðurinn í sögu þjóðarinnar.

Grenada hefur tekið þátt í Ólympíuleikunum allt frá leikunum Los Angeles 1984. Flestir keppendur landsins hafa tekið þátt í frjálsum íþróttum. Spretthlauparinn Kirani James hlaut gullverðlaun í 400 metra hlaupi í Lundúnum 2012 og silfur í sömu grein í Ríó 2016.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. "Grenada Names First Female Governor General, Cecile La Grenade", Caribbean Journal, 10/04/2013
  2. Higman, B. W. (2021). A Concise History of the Caribbean (enska). Cambridge University Press. bls. 58. ISBN 978-1-108-48098-7.
  3. 3,0 3,1 Crask, Paul (2009). Grenada, Carriacou and Petite Martinique (enska). Bradt Travel Guides. bls. 5. ISBN 9781841622743.
  4. 4,0 4,1 Crask, Paul (2009). Grenada, Carriacou and Petite Martinique (enska). Bradt Travel Guides. bls. 6. ISBN 9781841622743.
  5. 5,0 5,1 5,2 „CIA World Factbook – Grenada“. Sótt 12. júlí 2019.
  6. 6,0 6,1 Martin, John Angus (2013). Island Caribs and French Settlers in Grenada: 1498-1763. St George's, Grenada: Grenada National Museum Press. ISBN 9781490472003.
  7. Crask, Paul (2009). Grenada, Carriacou and Petite Martinique (enska). Bradt Travel Guides. bls. 7. ISBN 9781841622743.
  8. 8,0 8,1 „Encyclopedia Britannica – Grenada“. Sótt 12. júlí 2019.
  9. „Grenada - The World Factbook“. The World Factbook. Central Intelligence Agency (CIA). Sótt 15. janúar 2021.
  10. „Yorkshire's Windrush generation to share their stories in new film“. Yorkshire Post. 12. september 2018. Sótt 7. maí 2022.