Bresku Jómfrúaeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Virgin Islands
Fáni Bresku Jómfrúaeyja Skjaldarmerki Bresku Jómfrúaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Vigilate
(latína: Verið árvökur)
Þjóðsöngur:
God Save the Queen
Staðsetning Bresku Jómfrúaeyja
Höfuðborg Road Town
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning
Landstjóri
Forsætisráðherra
Elísabet 2.
John Duncan
Orlando Smith
Breskt yfirráðasvæði
 - Heimastjórn 1967 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
216. sæti
153 km²
1,6
Mannfjöldi
 - Samtals (2012)
 - Þéttleiki byggðar
212. sæti
27.800
260/km²
VLF (KMJ) áætl. 2012
 - Samtals 0,8534 millj. dala (*. sæti)
 - Á mann 43.366 dalir (*. sæti)
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur
Tímabelti UTC -4
Þjóðarlén .vg
Landsnúmer +1-284

Bresku Jómfrúaeyjar, Bresku Jómfrúreyjar eða Bresku Meyjaeyjar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Eyjarnar eru um fimmtíu talsins og eru nyrst í Litlu-Antillaeyjaklasanum. Þær eru hluti af Jómfrúaeyjaklasanum ásamt Bandarísku Jómfrúaeyjum og Spænsku Jómfrúaeyjum. Stærsta eyjan er Tortóla þar sem höfuðstaðurinn Road Town er.

Opinbert heiti Bresku Jómfrúaeyja er einfaldlega Jómfrúaeyjar (Virgin Islands) og er það nafn notað á opinber gögn.

Stærstu eyjarnar eru Tortóla, Virgin Gorda, Anegada og Jost Van Dyke, en auk þeirra tilheyra Bresku Jómfrúaeyjum um fimmtíu smáeyjar og rif. Fimmtán af eyjunum eru byggðar. Nokkrar eyjanna eru í einkaeigu, svo sem Necker-eyja sem er í eigu breska auðkýfingsins Richards Bransons. Um 23 þúsund af tæplega 28 þúsund íbúum búa á Tortólu. Eyjarnar fengu heimastjórn árið 1967 og íbúar hafa haft breskan ríkisborgararétt frá 2002, en eyjarnar eru þó ekki hluti af Evrópusambandinu. Helstu undirstöður efnahagslífs eyjanna eru fjármálaþjónusta og ferðaþjónusta. Yfir helmingur tekna ríkisstjórnar eyjanna kemur til vegna skráningar aflandsfyrirtækja.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Aravakar frá Suður-Ameríku urðu fyrstir til að nema land á eyjunum um 100 f.Kr. þótt menjar hafi fundist um byggð Indíána á eyjunum allt frá 1500 f.Kr. Á 15. öld komu Karíbar frá Litlu-Antillaeyjum og hröktu Aravaka burt.

Fyrsti Evrópumaðurinn sem kom til eyjanna var Kristófer Kólumbus sem kom þangað í annarri ferð sinni 1493. Hann gaf eyjunum nafnið Santa Ursula y las Once Mil Vírgenes (heilög Úrsúla og jómfrúrnar 11.000), stytt í Las Vírgenes (jómfrúrnar). Spænska heimsveldið gerði tilkall til eyjanna en stofnaði ekki nýlendu þar og næstu ár tókust Spánn, England, Frakkland, Holland og Danmörk á um yfirráð yfir eyjunum sem urðu þekktur griðastaður sjóræningja.

Hollendingar stofnuðu byggð á Tortólu árið 1648. Árið 1672 náðu Englendingar eyjunni af Hollendingum og lögðu Anegada og Virgin Gorda undir sig í kjölfarið. Skömmu síðar lögðu Danir eyjarnar Saint Thomas, Saint John og Saint Croix undir sig.

Vegna átaka Evrópuveldanna á svæðinu og sífelldra árása var lengi vel lítið um byggð á eyjunum. Á 18. öld voru fluttir þangað þrælar frá Afríku til að vinna á sykurplantekrum. Eyjarnar voru lengi griðastaður sjóræningja og þar ríkti hálfgert stjórnleysi alla 18. öldina. Afnám þrælahalds 1834, samkeppni á sykurmarkaði og fellibylir sem gengu yfir eyjarnar á 19. öld leiddu til efnahagslegrar hnignunar.

Bresku Jómfrúaeyjar voru frá 1833 hluti af nýlendunni Bresku Hléborðseyjum, ásamt Sankti Kristófer og Nevis. Um miðja 20. öld var farið að þrýsta meira á um aukna sjálfstjórn. Árið 1960 urðu eyjarnar sjálfstæð nýlenda og árið 1967 fengu þær heimastjórn. Frá þeim tíma hefur efnahagur eyjanna vænkast, aðallega vegna fjármálaþjónustu, og þær eru nú eitt auðugasta land Vestur-Indía.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Bresku Jómfrúaeyjar eru um sextíu hitabeltiseyjar. Stærst þeirra er Tortóla, 20 km löng og 5 km breið. Þær eru í Jómfrúaeyjaklasanum, nokkrum kílómetrum austan við Bandarísku Jómfrúaeyjar. Norðan við eyjarnar er Atlantshaf og sunnan við þær er Karíbahaf. Flestar eyjarnar eru upphaflega eldfjallaeyjar og landslag er hæðótt og skorið. Anegada er jarðfræðilega ólík hinum eyjunum sem eru eldfjallaeyjar, hún er flöt og mynduð úr kalksteini og kóral.

Auk aðaleyjanna fjögurra, Tortólu, Virgin Gorda, Anegada og Jost Van Dyke, eru eyjarnar:

Kort af Bresku Jómfrúaeyjum (Ath: Anegada er lengra frá hinum eyjunum en þarna birtist)

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Á Bresku Jómfrúaeyjum er þingræði. Á þingi Bresku Jómfrúaeyja sitja 13 kjörnir fulltrúar (9 kjördæmakjörnir og 4 landskjörnir) auk yfirsaksóknara og þingforseta í einni deild. Framkvæmdavaldið er formlega í höndum Bretadrottningar, Elísabetar 2., en fulltrúi hennar er landstjóri Bresku Jómfrúaeyja sem hún skipar að höfðu samráði við ríkisstjórn Bretlands. Bretland sér um varnarmál og flest utanríkismál eyjanna.

Síðasta stjórnarskrá Bresku Jómfrúaeyja er frá 2007. Þeir flokkar sem ná meirihluta eftir þingkosningar mynda ríkisstjórn sem er skipuð af forsætisráðherra Bresku Jómfrúaeyja eftir að hann hefur fengið stjórnarmyndunarumboð frá landstjóra. Kosningar eru haldnar á fjögurra ára fresti.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Á Bresku Jómfrúaeyjum eru níu kjördæmi, þar af átta á Tortólu og nærliggjandi eyjum. Eitt kjördæmi nær yfir Virgin Gorda og Anegada og er það eina sem ekki nær yfir einhvern hluta Tortólu. Auk níu kjördæmakjörinna þingmanna kjósa íbúar fjóra landskjörna þingmenn.

Eyjunum er líka skipt í fimm stjórnsýsluumdæmi (fjögur fyrir hverja af stærstu eyjunum og eitt fyrir allar hinar) og sex skráningarumdæmi (þrjú á Tortólu, Jost Van Dyke, Virgin Gorda og Anegada).

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.