Fara í innihald

Qeqertarsuaq

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bærinn Qeqertarsuaq

Qeqertarsuaq eða Godhavn eins og bærinn heitir á dönsku (og var því nefndur Góðhöfn á íslensku) er um 850 (2013) manna þorp á suðurströnd Bjarneyjar (eða Diskó-eyju) sem á grænlensku heitir sömuleiðis Qeqertarsuaq, og er á Vestur-Grænlandi. Grænlenska nafnið þýðir stór eyja. Bjarney er einnig stærst eyja við Grænlandi, um 9700 km2. Qeqertarsuaq er hluti af sveitarfélaginu Avannaata.

Diskó-flói hefur verið ein helsta veiðistöð á Grænlandi frá því að menn fóru að flytjast þangað. Elstu fornminjar á Diskó-eyju eru um 5000 ára gamlar og þar hefur fundist mikið af minjum frá hinum ýmsu tímum búsetu Inuíta og forvera þeirra. Grænlendingar hinir fornu höfðu eflaust oft viðkomu á Diskó-eyju enda er hún í miðri Norðursetu. Líklegt er að sú Bjarney sem nefnd er í fornum heimildum hafi einmitt verið Diskó-eyja.

Þorpið Qeqertarsuaq var stofnað 1773 af hvalveiðimanninum Svend Sandgreen og kallaði hann staðinn Godhavn enda er hér mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Höfðu evrópskir hvalveiðimenn aðstöðu hér fram á 19. öld. Hvalveiðar eru nú lítið stundaðar enda fátt orðið um hvali. Þorpsbúar lifa aðallega á fiskveiði og fiskverkun auk selveiða.