Fara í innihald

Barbados

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Barbados
Fáni Barbados Skjaldarmerki Barbados
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Pride and Industry (enska)
Stolt og iðjusemi
Þjóðsöngur:
In Plenty and In Time of Need
Staðsetning Barbados
Höfuðborg Bridgetown
Opinbert tungumál Enska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Sandra Mason
Forsætisráðherra Mia Mottley
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 30. nóvember 1966 
 • Lýðveldi stofnað 30. nóvember 2021 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
183. sæti
439 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
182. sæti
287.025
660/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 5,398 millj. dala (183. sæti)
 • Á mann 18.798 dalir (114. sæti)
VÞL (2019) 0.814 (58. sæti)
Gjaldmiðill Barbadosdalur (BBD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .bb
Landsnúmer +1-246

Barbados er eyríki í Vestur-Atlantshafi. Eyjan er um 100 km austan við Kulborðseyjar sem eru syðri hluti Litlu-Antillaeyja. Næstu nágrannaríki eru Sankti Vinsent og Grenadíneyjar og Sankti Lúsía í vesturátt. Barbados er 434,5 km norðaustur af strönd Venesúela. Eyjan er 430 km² að flatarmáli og er aðallega mynduð úr kóral og kalksteini. Hún er láglend en nokkuð hæðótt inni við miðju. Staðvindar eru ríkjandi.

Eyjan var byggð Aravökum þegar spænskir siglingamenn uppgötvuðu hana seint á 15. öld. Hún birtist fyrst á spænsku landakorti árið 1511. Portúgalir sigldu til eyjarinnar 1536 en létu nægja að sleppa þar svínum sem hægt væri að nota sem vistir síðar. Englendingar komu til eyjarinnar 1626 og eignuðu sér hana. Fyrstu ensku landnemarnir komu þangað 1627. Afrískir þrælar voru fluttir inn til að vinna á sykurplantekrum. Þeir fengu frelsi árið 1834. Árið 1958 varð Barbados eitt af þeim tíu löndum sem mynduðu Sambandsríki Vestur-Indía. Eftir að sambandið leystist upp varð Barbados aftur heimastjórnarnýlenda en árið 1966 samdi heimastjórnin um fullt sjálfstæði. Barbados er í Breska samveldinu.

Þegar Barbados hlaut sjálfstæði árið 1966 varð það þingbundið konungsríki og þjóðhöfðingi landsins varð Elísabet 2. Bretadrottning. Árið 2020 lýsti ríkisstjórn Barbados því hins vegar yfir að lýðveldi yrði stofnað í landinu árið 2021 og að innlendur forseti yrði þá kjörinn nýr þjóðhöfðingi.[1] Barbados var formlega lýst lýðveldi þann 30. nóvember 2021 og Sandra Mason tók við embætti sem fyrsti forseti landsins.[2]

Íbúar Barbados eru tæplega 300 þúsund. Nær 90% eru af blönduðum afrískum og karabískum uppruna. Enska er opinbert tungumál en flestir íbúa tala bajan sem er kreólamál byggt á ensku. 95% íbúa eru kristnir og þar af eru 40% í ensku biskupakirkjunni sem var ríkistrú landsins fram að sjálfstæði. Barbados er eitt af þeim löndum þar sem lífskjör eru hvað best í heiminum. Eyjan er vinsæll ferðamannastaður.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Barbados er eyja í Atlantshafi, nokkuð austan við aðrar Karíbahafseyjar. Barbados er austasta eyjan í Litlu-Antillaeyjum. Eyjan er flatlend miðað við næstu nágranna í vestri, Kulborðseyjar. Hún rís hægt upp að hálendi í miðju sem nefnist Skotlandsumdæmi. Hæsti punktur eyjarinnar er Hillaby-fjall, 340 metrar á hæð.[3]

Stærsta borg Barbados er Bridgetown í Saint Michael-sókn. Þar býr þriðjungur þjóðarinnar.[3] Aðrir helstu bæir á eyjunni eru Holetown, Oistins og Speightstown. Allir þessir þéttbýlisstaðir eru á vesturströndinni.

Barbados er staðsett þar sem Suður-Ameríkuflekinn gengur undir Karíbahafsflekann.[4] Við mörk flekanna safnast því upp set þar sem kórall myndast. Út af þessari setsöfnun hækkar Barbados um 25 mm á 1000 árum.[5] Kórallinn sem myndar eyjuna er um 90 metrar á þykkt ofan á setinu. Kóralrif umkringja nær alla eyjuna.[3]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Barbados skiptist í ellefu sóknir:


Íbúar[breyta | breyta frumkóða]

Hátt í 90% íbúa Barbados eru af afrókarabískum uppruna. Aðrir íbúar eru af evrópskum uppruna (aðallega frá Bretlandi og Írlandi) eða asískum uppruna (Kína og Indlandi). Almennt séð líta Barbadosbúar á alla innfædda sem „Bajan“ og „börn eyjarinnar“ óháð útliti eða uppruna.

Lífslíkur á Barbados eru að meðaltali 83 ár hjá konum og 78 ár hjá körlum (2019). Barbados er í þriðja sæti yfir flesta sem ná 100 ára aldri, á eftir Japan og Suður-Kóreu.

Fæðingartíðni er 12,23 á 1.000 íbúa og dánartíðni 8,39 á 1.000 íbúa. Barnadauði er 11,63 andlát á hverjar 1.000 fæðingar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Arnar Þór Ingólfsson (17. september 2020). „Barbadosar vilja losa sig við Elísabetu, arfleifð nýlendutímans“. Kjarninn. Sótt 17. september 2020.
  2. Ævar Örn Jósepsson (30. nóvember 2021). „Barbados orðið lýðveldi“. RÚV. Sótt 30. nóvember 2021.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Encyclopedia Britannica- Barbados“. Sótt 9. júlí 2019.
  4. Logan, Gabi. „Geologic History of Barbados Beaches“. USA Today. Afrit af uppruna á 22. mars 2012. Sótt 2. júlí 2011. „Barbados lies directly over the intersection of the Caribbean plate and the South American plate in a region known as a subduction zone. Beneath the ocean floor, the South American plate slowly slides below the Caribbean plate.“
  5. „Barbados Sightseeing – Animal Flower Cave“. Leigh Designs. Little Bay House. 2010. Afrit af uppruna á 12. desember 2011. Sótt 10. júlí 2011. „The Animal flower Cave is the island's lone accessible sea-cave and was discovered from the sea in 1780 by two English explorers. The cave's coral floor is estimated to be 400,000 to 500,000 years old and the "younger" coral section above the floor is about 126,000 years old. The dating was carried out by the German Geographical Institute, and visitors can see a "map" of the dating work in the bar and restaurant. The cave now stands some six feet above the high tide mark even though it was formed at sea level. This is because Barbados is rising about one inch per 1,000 years, which is yet another indication of the cave's age.“
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.