Ísbjörn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ísbjörn

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Bjarndýr (Ursidae)
Ættkvísl: Bjarnarættkvísl (Ursus)
Tegund:
U. maritimus

Tvínefni
Ursus maritimus
Phipps, 1774

Ísbjörn eða hvítabjörn (fræðiheiti: Ursus maritimus sem er latína og þýðir sjávarbjörn), er sérstök tegund af stórum bjarndýrum sem lifa á hafís umhverfis Norðurheimskautið.

Útlit[breyta | breyta frumkóða]

Hvítabjörninn er stærsta núlifandi rándýr sem fyrirfinnst á landi. Hann er um tvisvar sinnum þyngri en Síberíutígrar og ljón. Flest karldýrin eru um 400 til 600 kíló að þyngd, en geta náð allt að 800 kg þyngd. Stærsti hvítabjörn sem viktaður hefur verið var veiddur í Alaska árið 1960. Hann var um 880 kg og uppreistur var hann 3,38 metrar.

Kvendýrið (sem kallað er birna) er u.þ.b. helmingi minna en karldýrið eða um 200 til 300 kg. Skrokklengd karldýra er að jafnaði um 2,6 metrar en kvendýra 2,1 metrar. Afkvæmi bjarna nefnast húnar og vega um 600 til 700 grömm við fæðingu.

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Búsvæði[breyta | breyta frumkóða]

Ísbirnir hafast við með ströndum og á hafís á norðurskautssvæðinu. Stundum reika þeir langt inn í land eða fljóta mörg hundruð kílómetra til hafs á ís. Þeir mynda ákveðna stofna, ætíð á sömu slóðum. Dýrin eru mjög víðförul og leggja oft upp í langferðir, að því er virðist án þess að hafa nokkurn sérstakan ákvörðunarstað, og fara þeir í ferðum sínum milli Alaska, Svalbarða og norðurstranda Síberíu.

Hvítabirni er að finna á eftirfarandi landsvæðum:

Hvítabirnir lifa frekar óreglulegu lífi. Þeir skipta til dæmis ekki sólarhringnum niður í dag og nótt, stundum sofa þeir ekki í marga daga, en þess á milli liggja birnirnir í leti. Talið er að þetta óreglulega líf ísbjarnanna sé vegna þess að þeir lifa á heimskautasvæðinu, þar sem dagar eru mislangir með miðnætursól á sumrin.

Ísbjörn á vappi

Fæðuval[breyta | breyta frumkóða]

Gagnstætt skógarbirni frænda sínum er ísbjörn algert rándýr. Hann lifir nær einungis á kjöti og hann étur langmest af sel sem er um 90% af fæðu ísbjarna. Ísbirnir eru ágætlega syndir og synda mjög örugglega en hægt. Ísbjörn getur verið í kafi í u.þ.b. 2 mínútur en selir geta verið í kafi í hálftíma, þannig að ísbjörn getur ekki veitt sel á sundi. Hann veiðir selinn með því að gera skyndiárás og kemur honum þannig á óvart. Ísbirnir eru afar leiknir við að læðast að bráð sinni og fara mjög varlega. Ísbjörninn er líka í góðum felubúningi, alveg snjóhvítur. Hann situr fyrir selnum með því að loka undankomuleiðum til sjávar. Hann veiðir einnig með því að bíða í sjónum og stökkva svo upp á land eftir selnum. Þriðja aðferðin við að ná selnum er að liggja uppi á ísnum hjá loftopi og bíða eftir að selur komi. Þar sýna ísbirnir mikla þolinmæði og geta legið hreyfingarlausir í margar klukkustundir.

Ísbirnir éta allar selategundir, auk þess éta þeir stundum rostunga sem eru erfiðari bráð, enda geta þeir vegið allt 1500 kíló. Ísbirnir éta að auki hræ af öllum gerðum. Á sumrin gæða þeir sér einnig á alls kyns gróðri til að bæta meltinguna og éta jafnvel þara.

Ísbirnir geta hlaupið mjög hratt, en þreytast fljótt og verða stundum svo uppgefnir að þeir standa ekki í lappirnar. Ef þeir eru eltir reyna þeir sem fyrst að forða sér í sjóinn og geta synt jafnvel dögum saman.

Vetrardvali[breyta | breyta frumkóða]

Einungis birnur sem ganga með húna, og þær sem eiga ársgamla húna, leggjast í dvala í híði yfir veturinn. Vetrardvalinn er einskonar svefn, og er líkamsstarfsemi dýranna þá í lágmarki, til þess að spara orku. Karldýrin eru virk allan veturinn, en grafa sig stöku sinnum í skafl til að hlífa sér við óveðrum. Fullorðnir ísbirnir eru miklir einfarar og ef þeir sjá hver annan halda þeir fjarlægð sín á milli sem á helst ekki að vera minni en 100 metrar. Deilur eru sjaldséðar.

Æxlun og meðganga[breyta | breyta frumkóða]

Ungviði ásamt móður sinni.

Fengitíminn er frá mars til maí, einkum þó í apríl. Meðgöngutíminn er 7-8 mánuðir og eignast ísbirnir yfirleitt tvo húna. Þeir verða kynþroska 4-5 ára gamlir og hámarksaldur þeirra er 25-30 ár. Stofninn er talinn vera um 20 þúsund dýr og eru dýrin í útrýmingarhættu og þess vegna alfriðuð.

Karldýrin koma til birnanna, dveljast hjá þeim í nokkra daga og maka sig. Síðan yfirgefa þeir þær strax aftur. Svo gerist ekkert fyrr en um haustið því að frjóvguð eggin bíða þangað til, en þá byrjar eggið að þroskast. Þegar hafið leggur fara birnurnar í land og gera sér vetrarhíði undir skafli. Síðan snjóar í opið og híðið lokast alveg nema nokkur loftgöt.

Raunverulegur þroskatími fóstra er ekki nema um tveir mánuðir og fæðast húnarnir því um áramótin. Þeir eru litlir, vanþroska og hjálparlausir. Þeir liggja marga mánuði í híðinu og lifa á móðurmjólkinni. Birnan er mjög hreinleg, hún gerir stundum gat á híðið til að koma út skít og þvagi frá ungviðinu, sjálf hefur hún enga meltingu né hægðir.

Um mánaðamótin mars – apríl fer birnan að fara út með húna sína við og við. Þeir vega þá um 10-12 kíló en skortir úthald og eru ekki færir um að fara langt. Húnarnir eru um 18 mánuði á spena en byrja samt snemma að háma í sig selkjöt. Venjulega eru þeir með móður sinni til tveggja og hálfs árs aldurs, svo verða þeir kynþroska á 4. eða 5. ári. Birnur sjást oft á ráfi í kringum híðin sín á vorin, það eru mæður sem misst hafa húna sína.

Friðun ísbjarna og samlíf með mönnum[breyta | breyta frumkóða]

Þótt ísbirnir séu alfriðaðir gildir sú undantekning að frumbyggjaþjóðir eins og inúítar og jakútar mega veiða þá samkvæmt gömlum hefðum. Þær veiðar eru aðeins leyfðar til eigin neyslu eða til annars brúks.

Um miðja 20. öldina voru þeir réttdræpir hvar sem þeir fundust og voru stundaðar miklar veiðar á ísbjörnum. Amerískir auðjöfrar stunduðu t.d. það sport að skjóta þá úr flugvélum og einnig úr snjóbílum í Alaska. Þá fór að fækka ört í stofninum og er giskað á að ísbirnir hafi verið á milli 5-20 þúsund, og er seinni talan sú tala sem oftast er talað um núna, áður en Sovétmenn friðuðu ísbirni árið 1956. Fylgdu svo fleiri þjóðir í kjölfarið þangað til hvítabjörninn var loks alfriðaður 1966. Nú er stofninn talinn vera um 20 þúsund dýr. Samkvæmt mati IUCN sérfræðingahóps um ísbirni, þá eru 19 þekktir undirstofnar ísbjarna, fjöldi í einum þeirra er að aukast, þrír eru stöðugir og átta er að hnigna (ekki eru til nægilega góð gögn til að meta hina undirstofnana).

Þar sem ísbjarnaveiðar eru stundaðar verða dýrin afar tortryggin gagnvart mönnum, en á afskekktari stöðum þar sem þeir eru látnir í friði eru þeir forvitnir um menn og framandi hluti eins og tjöld og báta. Ekki eru miklar líkur á að vel á sig kominn ísbjörn ráðist á menn, en það getur breyst ef hann er svangur, særður, reittur til reiði eða hræddur. Hann varar þó við með því að gnísta tönnum eða hvæsa áður hann leggur til atlögu. Íbúar í Norður-Síberíu hafa kvartað yfir því að vegna friðunar hræðist birnirnir ekki menn lengur og geti þess vegna orðið mjög hættulegir. Um 1965 kom upp vandamál í Churchill við Hudsonflóa, sem er lítill bær með um 2000 íbúum. Ísbirnir komu inn í bæinn á haustin þar sem fóru út um allt og sóttu sérstaklega í ruslahauga. Þetta varð svo mikið vandamál að nokkrir birnir voru drepnir og margir fluttir burt og gefið var leyfi til að handsama alla birni sem voru til vandræða eða drepa þá.

Í dýragörðum eru ísbirnir taldir mjög hættulegir og óáreiðanlegir. Það er aldrei hægt að vita hverju þeir taka upp á. Þeir bindast aldrei vináttuböndum við starfsmenn eins og mörg önnur dýr gera. Þeir rjúka oft upp í ofsa ef þeir eru truflaðir og eru taldir hættulegustu rándýrin í görðunum. Gagnstætt skógarbjörnum er erfitt að ala ísbirni upp í dýragörðum. Það kemur fyrir að móðir afneitar húnum sínum og ræðst á þá, drepur og étur.

Ísbirnir við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Ísbirnir hafa ætíð verið gestir á Íslandi og borist hingað með rekís frá Svalbarða, Jan Mayen og Austur-Grænlandi. Á seinni tímum hefur þessum heimsóknum farið fækkandi því lítið hefur verið um hafís. Þó komu hér tveir ísbirnir á land árið 2008. Sá fyrri kom á land á Skaga, milli Húnaflóa og Skagafjarðar, í lok maí 2008, og var felldur þann 3. júní við Þverárfjallsveg, miðja vegu milli Sauðárkróks og Skagastrandar, (sjá sérgrein: Þverárfjallsbjörninn). Nokkrum dögum seinna, eða þann 16. júní, sást annar í grennd við bæinn Hraun á Skaga (sjá sérgrein: Hraunsbirnan). Þann 27. janúar árið 2010 var vart við lítinn hvítabjörn við Sævarland í Þistilfirði. Hann var felldur sama dag. Þann 2.mai árið 2011 kom ísbjörn í land á Ströndum við Vestfirði.

Ísbirnir í Íslendingasögunum[breyta | breyta frumkóða]

Víða er minnst á ísbirni í Íslendingasögum, en á þeim gömlu skinnblöðum er alltaf talað um bjarndýr eða hvítabirni. Segir t.d. frá hvítabirni í Króka-Refs sögu, en í þeirri sögu færir Bárður Haraldi konungi Sigurðssyni hvítabjörn að gjöf. Og í Landnámu segir frá Ingimundi, en...

Ingimundur fann beru og húna tvo hvíta á Húnavatni. Eftir það fór hann utan og gaf Haraldi konungi dýrin; ekki höfðu menn í Noregi áður séð hvítabjörnu.

Í Flóamanna sögu segir af ísbjarnardrápi, og segir svo frá í sögunni:

Það varð þar um veturinn að bjarndýr lagðist á fé manna og gerði mikinn skaða mörgum manni. Eru þá stefnur að áttar ef það mætti af ráðast og þar kom að fé var lagt til höfuðs dýrinu og gerðu menn úr hvorritveggju byggðinni. Fátt lét Eiríkur sér til finnast. Og um veturinn er á líður komu menn til kaupa við þá Þorgils og Þorstein og eru menn margir í útibúri því er varningurinn var í og þar var sveinninn Þorfinnur. Hann mælti við föður sinn: "Hér er kominn úti rakki fagur faðir minn og sá eg aldrei slíkan fyrr, svo er hann mikill." Þorgils segir: "Hirð eigi um það og gakk eigi út." Sveinninn hljóp þó út. Bjarndýrið var þar komið og hafði gengið af jöklum og svipti undir sig sveininum. Hann kvað við. Þorgils hljóp út þegar og hafði brugðið sverðið Jarðhússnaut. Dýrið hafði leikið við sveininn. Þorgils höggur milli hlustanna af miklu afli og reiði og klýfur allan hausinn á dýrinu og fellur það dautt niður. Þorgils tekur upp sveininn. Var hann lítt sakaður. Þorgils verður nú ágætur af þessu verki og þótti stór heill til hans falla. Lögðu margir góða þykkju til hans og færa margir honum bjarngjöldin. Ekki fannst Eiríki margt um þetta verk, lét þó gera til dýrið. Sögðu sumir menn Eiríki að Þorgils hefði haft til þessa verks illan átrúnað.

Einnig er minnst á ísbjörn í lok Grænlendinga þáttar, en þar gefur Kolbeinn konungi dýrið og segir svo frá því:

Þeir komu við Noreg. Kolbeinn hafði haft einn hvítabjörn af Grænlandi og fór með dýrið á fund Haralds konungs gilla og gaf honum og tjáði fyrir konungi hversu þungs hlutar Grænlendingar voru af verðir og færði þá mjög í róg. En konungur spurði annað síðar og þótti honum Kolbeinn hafa fals fyrir sig borðið og komu engi laun fyrir dýrið. Síðan hljóp Kolbeinn í flokk með Sigurði slembidjákn og gekk inn að Haraldi konungi gilla og veitti honum áverka. Og síðan er þeir fóru fyrir Danmörk og sigldu mjög en Kolbeinn var á eftirbáti en veður hvasst þá sleit frá bátinn og drukknaði Kolbeinn.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu