Fara í innihald

Norðurseta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norðurseta hefur sennilega verið á því svæði sem kortið sýnir

Norðurseta (sem einnig hefur verið stafað Norðursetur) var mikilvægasta veiðisvæði Grænlendinga hinna fornu. Það er óljóst nákvæmlega hvar þetta svæði var en sennilegast hefur það verið frá núverandi Sisimiut norður um Diskóflóa allt að Upernavik á vesturströnd Grænlands. Frá Eystribyggð voru um 1000 km til Norðursetu og um 600 km frá Vestribyggð.

Á og við Diskóflóa hafa í þúsundir ára verið bestu veiðistaðir á vesturströnd Grænlands, þar er enn helsta aðsetur rostunga og einnig ísbjarna.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fjölmargar heimildir nefna þetta veiðisvæði, meðal annars er sagt í Grænlandsannál í Hauks bók að: „Allir stórbændur á Grænlandi höfðu skip stór ok skútur bygðar til að senda í Norðursetu til að afla veiðiskap.“ Veiðimenn voru sennilega sendir norður í veiðar seinnipart sumars og fram á haust. Hinir svo nefndu Norðursetumenn höfðu viðlegu víða á svæðinu, meðal annars í Greipum þar sem nú er Sisimiut og Króksfjarðarheiði þar sem nú er Vaigat. Eina örugga örnefnið er skaginn og fjallgarðurinn Eysunes (einnig skrifað Eisunes) (eisa: að spúa eldi) sem er það sem nú heitir Nuussuaq. Þar er svo mikil olía í berginu að það kviknar iðulega í við skriðuföll. [1]

Veiði[breyta | breyta frumkóða]

Selir voru veiddir í Norðursetu en sérlega sóttust veiðimenn þar eftir eftir rostungum (Odobenus rosmarus), náhvölum (Monodon monoceros) og ísbjörnum (Ursus maritimus). Rostungstennur voru mikil verðmæti, þær voru seldar til erlendra kaupmanna í heilu lagi og heimamenn gerðu úr þeim margvíslega gripi. Rostungshúðin var skorin í langar lengjur og úr þeim gerð gífurlega sterk svarðreipi sem einnig voru flutt út. Náhvalstennur þóttu miklar gersemar enda héldu Evrópumenn að þær kæmu úr einhyrningum og hefðu mikla dulkynngi. Ísbjarnarfeldir voru einnig mjög eftirsóttir og þóttu verðug konungsgjöf. Á nokkrum stöðum er minnst á að lifandi ísbirnir hafi verið fluttir frá Grænlandi en það hljóta að hafa verið húnar og þeir sennilega ekki veiddir í Norðursetu.

Fornminjar[breyta | breyta frumkóða]

Fáar fornminjar hafa fundist sem staðfesta veru norrænna manna í Norðursetu og hafa þeir sennilegast hafst við í tjöldum og flutt sig til eftir veiðihorfum. En nyrst á Nuussuaq-skaga, um 150 km norðan við Ilulissat, er að finna nyrsta mannvirki sem með vissu má tengja við Norðursetumenn en það er mikið steinhús. Ekki er vitað með vissu til hvers þetta hús var notað en ein sennileg skýring er að þar hafi Norðursetumenn safnað húðum og tönnum meðan á vertíð stóð. Inuítar kölluðu þessar rústir „Bjarnargildruna“ og er hún þekkt í alþjóðaritum undir danska nafninu „Bjørnefælden“. Enn norðar, þar sem nú heitir Kingittorsuaq, norðvestur af Upernavik, fannst 1823 lítill rúnasteinn með áletruninni: „Erlingr Sighvats sonr ok Bjarni Þórðar sonr ok Eindriði Odds sonr laugardagin fyrir gagndag hlóðu varða þe[ssa] ok ... ....“. Þar hafa Norðursetumenn verið komnir langt norður fyrir venjulegar veiðislóðir, en áletrunin er samkvæmt rúnasérfræðingum sennilega frá lokum 13. aldar.

Norðursetumenn og skrælingjar[breyta | breyta frumkóða]

Allt bendir til þess að norrænir menn hafi hafið veiðiferðir í Norðursetu fljótlega eftir landnám. Þá var þetta svæði allt óbyggt, samkvæmt því sem fornleifafræðingar best vita, enda eru skrælingjar hvergi nefndir í samband við Grænland í elstu heimildum. Hins vegar bjuggu þá enn svo nefndir Dorset-menn við Smith-sund nyrst á Grænlandi. Þar elstu heimildir greina frá skrælingjum á Grænlandi, í ritinu Historia Norvegiae (sem sennilega var skráð í upphafi 12. aldar), er sennilegast átt við Dorset-menn. Þeir hverfa hins vegar af sjónarsviðinu skömmu síðar en í upphafi 13. aldar hefja Thule-inuítar landnám á Grænlandi. Þeir hafa sennilega verið farnir að venja komur sínar til Norðursetu um miðja þá öld og hafa þá hitt fyrir Norðursetumenn á sumarvertíðum. Með öllu er óvíst hvernig þau samskipti voru. Hugsanlegt er að fljótlega hafi komist á vöruskiptaverslun en engar heimildir eru til um það.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Vefsvæði um norræna, þar á meðal grænlenska, rúnasteina og rúnakefli

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Tsunami-generating rock fall and landslide on the south coast of Nuussuaq, central West Greenland“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 6. desember 2008. Sótt 17. júní 2008.