Nanortalik
60°08′31″N 45°14′36″V / 60.14194°N 45.24333°V

Nanortalik er tíunda stærsta þorp á Grænlandi, á eyju sem einnig er nefnd Nanortalik, um 100 kílómetrum norðvestan við Hvarf, syðsta odda Grænlands. Nafnið Nanortalik þýðir „ísbjarnarstaður“.
Nanortalik var áður sérstakt sveitarfélag, en er nú hluti af sveitarfélaginu Kujalleq á suðurhorni Grænlands. Íbúar bæjarins voru um 1.300 (2013) en ásamt öðrum byggðum í grenndinni voru íbúar sveitarfélagsins 2.389. Flestir þeirra búa í Narsarmijit, Alluitsup Paa, Tasiusaq, Aappilattoq og Ammassivik.
Aðalatvinnugreinar eru smábátaútgerð, sela- og svartfuglaveiði og ferðaþjónusta. Gullnáma var opnuð árið 2004 um 30 km norðan við aðalþorpið. Um nokkurra áratuga skeið var einnig rekinn grafítnáma í nágrenni þorpsins.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Stór hluti Eystribyggðar Grænlendinga hinna fornu var á Nanortalik-svæðinu. Þar var meðal annars bærinn Herjólfsnes og stór hluti Vatnahverfis. Núverandi byggðakjarni fór að myndast um 1770. Árið 1797 var settur upp verslunarstaður sem var útibú frá Julianehåb.
Gróðurfar og dýralíf
[breyta | breyta frumkóða]Grænland er nær alveg skóglaust en í Qinngua-dalnum um 40 km norðan við Nanortalik-þorpið er eina svæðið sem kalla mætti skóg. Þar vex rjúpuvíðir og birki upp í margra metra hæð. Mikil gróðursæld er í dalnum og þar hafa fundist um 300 plöntutegundir.
Þrátt fyrir nafnið eru ísbirnir sjaldgæfir. Þá rekur einstaka sinnum á ísjökum frá Austur-Grænlandi á tímabilinu frá janúar til júní. Mikið er um svartfugl til sjávar og rjúpur inn til lands auk arna, fálka og snæuglu. Selir eru algengir með ströndum og langt inn með fjörðum.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Opinber vefur Nanortalik Geymt 23 desember 2005 í Wayback Machine
- Ferðaskrifstofa Nanortalik Geymt 15 júní 2006 í Wayback Machine
- Leiðalýsingar og aðrar upplýsingar fyrir göngufólk á Nanortaliksvæðinu Geymt 4 nóvember 2006 í Wayback Machine