Fara í innihald

Vidkun Quisling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vidkun Quisling
Forsætisráðherra Noregs
Í embætti
1. febrúar 1942 – 9. maí 1945
LandstjóriJosef Terboven
ForveriJohan Nygaardsvold
EftirmaðurJohan Nygaardsvold
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. júlí 1887
Fyresdal, Telemark, Noregi
Látinn24. október 1945 (58 ára) Akershus Festning, Ósló, Noregi
DánarorsökAftaka
StjórnmálaflokkurNasjonal Samling
StarfVarnarmálaráðherra og seinna forsætisráðherra Noregs
Þekktur fyrirFyrir að hafa svikið Noregi í hendur nasista í seinni heimsstyjöld og fyrir að vera forsætisráðherra Noregs í stríðinu
Undirskrift

Vidkun Abraham Lauritz Jonssøn Quisling (18. júlí 188724. október 1945) var norskur stjórnmálamaður, herforingi og diplómati. Hann starfaði ásamt Fridtjof Nansen á árunum 1921-1922 við að skipuleggja hjálparstarf vegna hungursneyðar í Sovétríkjunum og var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Bændaflokksins 1931-1933. Árið 1933 sagði hann skilið við ríkisstjórnina og tók þátt í stofnun þjóðernissinnaflokksins Nasjonal Samling (Þjóðfundarflokkurinn), en stefna flokksins einkenndist af ákafri þjóðernishyggju og andstöðu við kommúnisma og verkalýðshreyfingu. Flokkurinn fékk sáralítið fylgi í þingkosningum, 2,23% í kosningunum 1933 og 1,83% í kosningunum 1936[1]. Í september 1939, þegar seinni heimsstyrjöldin hafði skollið á, sótti Quisling Hitler heim og tókst að beina athygli hans að Norðurlöndum. Þjóðverjar gerðu innrás í Noreg 9. apríl 1940 og sama kvöld lýsti Quisling því yfir að stjórnin væri fallin og hann væri nýr forsætisráðherra. Quisling var þó einungis skamma stund við völd í þetta sinn. Þjóðverjar gerðu hins vegar Quisling að forsætisráðherra í leppstjórn sinni 1942 og hélt hann því embætti til stríðsloka 1945. Hann var ákærður og dæmdur til dauða fyrir landráð og ýmsa aðra stríðsglæpi eftir stríð. Hann var tekinn af lífi 24. október 1945.

Á fjölmörgum tungumálum hefur nafn Quislings orðið að samheiti fyrir föðurlandssvikara[2]. Á íslensku er orðið iðulega skrifað „kvislingur“ sem merkir, samkvæmt Íslenskri orðabók, „landráðamaður, sá sem svíkur land sitt í hendur óvinahers”.[3]

Vidkun Quisling fæddist 18. júlí 1887 í Fyresdal í Þelamörk á bænum Moland. Móðir hans hét Anna Karoline Bang og faðir hans Jon Quisling, en hann var sóknarprestur í Fyresdal. Aðeins einu og hálfu ári eftir að Vidkun fæddist, fæddist bróðir hans Jørgen Quisling en þeir voru alla tíð mjög nánir. Vidkun bjó á Moland fyrstu sex ár ævi sinnar en árið 1893 fluttist fjölskyldan til Drammen. Sumarið 1900 fluttist fjölskyldan aftur til Þelamerkur þar sem faðir hans starfaði sem prestur í Gjerpen og Skien. Vidkun og bróðir hans Jørgen fóru í latínuskóla í Skien og urðu brátt með bestu nemendum skólans og þóttu báðir mjög greindir. Vidkun sýndi sérstakan áhuga á stærðfræði og sögu en heimspekin átti eftir að vekja áhuga hans seinna meir.[4] Að loknu stúdentsprófi 1905 ákvað Vidkun Quisling að velja framtíð innan hersins. Hann lauk námi frá herskóla 1907 og frá Herháskólanum 1911 og þótti eiga mikla framtíð fyrir sér innan hersins.

Alþjóðastarf

[breyta | breyta frumkóða]

Í mars 1918 var hann sendur til Sankti Pétursborgar sem hernaðarsendifulltrúi við norska sendiráðið. Veran þar var þó stutt. Í desember var sendiráðinu lokað í kjölfar átaka og kúgunar bolsévíka. Ári síðar, í desember 1919, tók hann við stöðu hernaðarsendifulltrúa við sendiráðið í Helsingfors.

Þegar Fridtjof Nansen fékk það verkefni frá Alþjóða Rauða krossinum að skipuleggja aðstoð vegna hungursneyðar í Sovétríkjunum árið 1921 fékk hann Quisling í lið með sér. Quisling hafði bækistöðvar í Kharkov í Úkraínu og dvaldi þar fram til september 1922. Samkvæmt öllum heimildum var hann mjög framkvæmdasamur og góður verkstjóri. Tókst þessu verkefni Rauða krossins að bjarga milljónum frá sultardauða og varð Quisling frægur fyrir það heima í Noregi.

Í Úkraínu kvongaðist Quisling sextán ára stúlku, Alexöndru Voroninu, og fylgdi hún með honum til Noregs. Nansen óskaði aftur eftir aðstoð Quislings í febrúar 1923 og héldu þau hjónin þá aftur til Úkraínu. Þar hélt Quisling áfram störfum fyrir Rauða krossinn en kvæntist einnig í annað sinn, í þetta skipti Mariu Pasetsjnikovu. Þegar Quisling sneri aftur til Noregs seint á árinu 1923 fylgdi Maria með honum. Alexandra hélt til Parísar og Quisling tilkynnti að hún myndi þar eftir verða kjördóttir hans. Hvenær þau skildu er óljóst. Maria og Alexandra bjuggu saman, ýmist í Ósló eða París á árunum 1923 til 1926, og bjó Quisling með þeim báðum eftir því sem best er vitað.[5]

Á árunum 1925 til 1926 vann Quisling fyrir Þjóðabandalagið að flóttamannaaðstoð á Balkanskaganum og í sovétlýðveldinu Armeníu.

Sumarið 1926 hélt Quisling enn í austurveg. Hann hafði fengið stöðu við norska sendiráðið í Moskvu og var verkefnið að sjá um samskipti Bretlands og Sovétríkjanna, en þau höfðu þá slitið diplómatískum samskiptum. Quisling þótti standa sig vel í þessu verkefni og 1929 var hann sæmdur bresku orðunni Order of the British Empire sem heiðursforingi. Hann var sviptur orðunni 22. maí 1944. Quisling sneri svo endanlega aftur til Noregs 1929 og fylgdi Maria með honum, en Alexandra varð eftir í Sovétríkjunum. Hún hélt síðan til Kína og þaðan til Bandaríkjanna 1947.[6]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Merki Nasjonal Samling

Quisling fór að skrifa greinar í blöð í Noregi. Greinarnar vöktu mikla athygli og fljótlega fór hann að fá heimsóknarboð frá ýmsum embættismönnum og stjórnmálamönnum. Hann var oft beðinn um að halda ræður sem þóttu með þeim betri. Quisling var síðan valinn í ríkistjórn árið 1931 þrátt fyrir að tilheyra ekki neinum sérstökum flokki og án þess að hafa verið í framboði. Peder Kolstad ákvað að gera Quisling að varnarmálaráðherra.[7]

Eftir tvö erfið ár í ríkisstjórn (á þessum árum voru erfiðir tímar í Noregi sökum efnahagskreppu) stofnuðu Quisling og félagar sinn eigin flokk, Nasjonal Samling eða Þjóðfundarflokkinn (sem líka var kallaður Quislingflokkurinn í íslenskum blöðum). Kjarninn í flokknum voru Quisling og félagi hans Fredrik Prytz. Strax vorið 1930 höfðu þessir menn byrjað að safna að sér hópi háskólamenntaðra embættismanna. Hópur þessi hittist reglulega heim hjá Prytz þar sem stjórnmál voru ætíð aðalumræðuefnið. Hópurinn varð síðan uppistaðan í hinum nýja flokki.

Flokkurinn fékk 3,5% fylgi í sínum fyrstu kosningum árið 1933, sem voru mikil vonbrigði. En Quisling lét það ekki á sig fá og lagði mikið á sig til að halda flokknum saman.[8] Flokkurinn og Quisling urðu á þessum árum meira og meira fyrir áhrifum frá hugmyndum nasista í Þýskalandi og Nasjonal Samling hefur stundum verið kallaður norski nasistaflokkurinn. Þrátt fyrir þessar breytingar á stefnu flokksins og ötulli vinnu innan flokksins gekk enn verr í kosningunum 1936.

Eftir lélegt gengi í tveimur kosningum var flokkurinn mjög illa staddur. Hann naut ekki stuðnings meðal almennings og félagar fóru að efast um að Quisling væri rétt maðurinn til að leiða flokkinn.[9] Þetta breyttist um leið og Seinni heimsstyrjöldin braust út 3. september 1939. Quisling hafði þá í mörg ár varað við stríði og sagt að Noregur yrði að taka afstöðu með eða á móti Þýskalandi. Flokksfélagar og fleiri landsmenn sáu þá að Quisling hafði haft rétt fyrir sér og efasemdir um hann hættu snarlega.[10]

Seinni heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]

Stríðið setti Noreg í mjög erfiða stöðu. Flestir Norðmenn vildu að landið yrði hlutlaust eins og í Fyrri heimsstyrjöldinni og Noregur, ásamt hinum Norðurlöndunum, lýsti yfir hlutleysi sínu mjög snemma. Fremstu leiðtogar þessara landa hittust á fundi í Kaupmannahöfn 18.-19. september og tóku sameiginlega ákvörðun um að löndin skyldu standa saman í hlutleysi sínu.

Þegar leið á stríðið var ljóst að þetta yrði erfitt í reynd. Í fyrsta lagi var Noregur með mjög langa strandlengju sem gæti orðið mjög mikilvægt vopn, bæði fyrir Breta og Þjóðverja, ef til átaka kæmi á sjó. Í öðru lagi þurfti Noregur að hætta nær allri verslun til landa sem voru þátttakendur í stríðinu. Verslun við Breta setti þá upp á móti Þjóðverjum og verslun við Þjóðverja setti þá upp á móti Bretum.[11]

Erfiðir tímar kalla á erfiðar ákvarðanir. Quisling stóð með Adolf Hitler og nasistum og jafnvel eru til heimildir um að hann hafi sent Hitler afmæliskveðjur. Þann 10. desember 1939 fór Quisling til Berlínar en þýski sendiherrann í Ósló, Curt Bräuer, hafði reynt að fá hann ofan af því. Bräuer varaði meira að segja yfirmenn sína í utanríkisráðneytinu í Þýskalandi við og sagði að Quisling og flokkur hans hefðu lítinn stuðning í Noregi og að Quisling hefði ekkert til brunns að bera sem stjórnmálamaður. Yfirmenn hans voru honum sammála en Quisling náði sínu fram, og með aðstoð Alfreds Rosenberg og Raeders náði hann að koma á fundi með Hitler. Hann hitti leiðtogann tvisvar, 14. og 18. desember. Tilgangur fundanna var að fá Hitler til að aðstoða hann við að ná völdum í Noregi. Quisling sannfærði hann um að hann nyti stuðnings samstarfsmanna sinna í Noregi og að konungur myndi beygja sig fyrir vilja hans myndu Þjóðverjar gera innrás.[12]

Það kann að virðast skrítið, en Quisling taldi að hann væri að gera það eina rétta fyrir Noreg. Þjóðverjar höfðu mikla yfirburði í Evrópu og þóttu mun sterkari en flest önnur lönd. Quisling og stuðningsmenn hans töldu því að það væri betra að vera með þeim í liði en treysta á Breta og Frakka.

Nasistar réðust á Noreg 9. apríl 1940. Um hálfáttaleytið að kvöldi 9. apríl lýsti Quisling því yfir í útvarpi landsmanna að núverandi stjórn hefði flúið og ný stjórn hefði tekið við, stjórn sem hann hefði myndað með hann sem forsætisráðherra. Seinna um kvöldið kom hann aftur fram í útvarpi og sagði þá nánar frá þessari nýju stjórn og hvatti Norðmenn til að veita Þjóðverjum enga mótspyrnu. Orð Quislings komu flatt upp á bæði Norðmenn og Þjóðverja en það var Hitler sjálfur sem brást fyrstur við, viðurkenndi nýju stjórnina og skipaði Bräuer að fara á fund konungs og neyða hann til að samþykkja stjórnarskiptin.

Quisling, Heinrich Himmler, Nikolaus von Falkenhorst og Josef Terboven.

Quisling hafði þá framið nokkurs konar valdarán í Noregi með hjálp Hitlers, eins og hann hafði lagt til á fundum sínum með Hitler í desember 1939. Ekki er vitað hvort heimsókn hans til Þýskalands hafi hvatt Þjóðverja til að ráðast inn í Noreg eða hvort afskipti hans hafi ekki haft neitt að segja um þróun mála. En á þessum tímapunkti hafði hann svikið landa sína með því að neyða uppá þá stjórn sem studdi innrás annarra þjóða og með því að reyna að fá aðra þjóð til að ráðast á landið. Eftir stríðið komst það einnig upp að á þessum fundum sínum hafði Quisling lekið leynilegum og mikilvægum upplýsingum um hermál í Noregi.[13]

Forsætisráðherrastarfið gekk ekki eins vel og Quisling vonaði. Í fyrsta lagi neitaði gamla stjórnin að víkja til hliðar og hún hafði einnig stuðning konungsins á bak við sig. Um miðjan apríl ríktu því tvær stjórnir í Noregi sem skapaði sundrung meðal landsmanna jafnt sem stjórnarmeðlima.

Þýski sendiherrann, Bäuer, vann einnig ötullega gegn Quisling, en Hitler var ekki ánægður með það og 24. apríl var Bäuer kallaður heim til Þýskalands. Maður að nafni Josef Terboven tók til starfa sem æðsti fulltrúi Þýskalands í Noregi. Stuðningur og trú Hitlers á Quisling fór hins vegar að dvína. Hann hafði ekki þann stuðning í Noregi sem hann hafði haldið fram og í júní 1940 neyddi Terboven hann til að stíga til hliðar.[14][15]

Stríðið hélt hins vegar áfram og þegar Þjóðverjar náðu Frakklandi varð krafan um nýja stjórn sem hefði hagsmuni Norðmanna að leiðarljósi, en gæti unnið með Þjóðverjum, æ háværari í Noregi. Þjóðverjar höfðu á þessum tíma lagt undir sig allt landið og réðu nær öllu í Noregi. Af þessu varð hins vegar ekki. Vegna yfirvofandi árásar Þjóðverja á Sovétríkin varð þörfin fyrir þýskt hervald í Noregi sterkari.

Í september 1940 lýsti Terboven því yfir að allir flokkar væru bannaðir nema Nasjonal Samling. Hann afnam jafnframt konungsvaldið og lagði niður þáverandi ríkistjórn. Ný stjórn var mynduð nær eingöngu með félögum úr Nasjonal Samling og Quisling sem stjórnarleiðtoga. Sú stjórn sat það sem eftir var stríðsins.[16]

Dómurinn og aftakan

[breyta | breyta frumkóða]

Í maí 1945 varð öllum ljóst að Hitler og nasistarnir höfðu tapað stríðinu. Var þá farið að vinna að því í Noregi að frelsa landið undan stjórn nasista. Byrjað var að leita uppi stuðningsmenn Hitlers í Noregi. Quisling var handtekinn 9. apríl 1945, en alls voru í kringum 53.000 Norðmenn handteknir fyrir að vinna með eða fyrir þýsku nasistana. Quisling var færður í fangelsi þar sem hann sat fram að réttarhöldunum.

Réttarhöldin hófust 20. ágúst 1945 og þann 7. september eftir tæplega þriggja vikna réttarhöld var dómur kveðinn upp. Dómurinn var langur og flókinn, en í meginatriðum var Quisling dæmdur til dauða fyrir stríðsglæpi, þá sérstaklega föðurlandssvik, stuðning við óvinaþjóð og fyrir meðvirkni og ábyrgð á morðum sem voru framin eftir ólögmætar stjórnarskrárbreytingar 22. janúar 1942. Þann 24. október 1945 var dómnum framfylgt og Quisling var skotinn í Akershus Festning klukkan hálf þrjú um nótt. Hans síðustu orð voru „Ég er saklaus”.[17]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. Norges offisielle statistikk, IX. 26 og IX. 107, Stortingsvalget 1933 og 1936
 2. Eða með orðum Winston Churchill: „the vile race of Quislings, which will carry the scorn of mankind down the centuries“. Sir Winston Churchill (1874-1965), Speech at St. James's Palace, London, June 1941 í Never Give In: The Best of Winston Churchill's Speeches, Hyperio, 2003.
 3. Íslensk orðabók, fjórða útgáfa, ritstjóri Mörður Árnason 2007. Edda útgáfa hf., Reykjavík.
 4. Dalh, Hans Fredrik. Quisling, en Norsk Tragedie. Aschehoug, Oslo 2004. Bls 25-13.
 5. Arve Juritzen, Quisling privat, Juritzen forlag, 2008.
 6. Alexandra Andreevna Voronine Yourieff Papers
 7. Dahl, Hans Fredrik. Bls 89-92.
 8. Dahl, Hans Fredrik. Bls 193-202.
 9. Dahl, Hans Fredrik. Bls 143 og bls 149
 10. Dahl, Hans Fredrik. Bls 157-159
 11. Nøkelby, Berit. Da krigen kom. Gyldendal Norsk Forlag, Oslo 1989.
 12. Dahl, Hans Fredrik. Bls 170 -181
 13. Dahl, Hans Fredrik. Bls 193-202
 14. Nøkleby, Berit. Bls 116-117
 15. Dahl, Hans Frederik. Bls 211-212
 16. Emblem, Terje o.fl. Norge 2, Norges historie etter 1850. J.W. Cappelens Forlag A.S, Oslo 1989.
 17. Dahl, Hans Frederik bls 466-478