Fara í innihald

Hans Hedtoft

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hans Hedtoft
Forsætisráðherra Danmerkur
Í embætti
13. nóvember 1947 – 30. október 1950
ÞjóðhöfðingiFriðrik 9.
ForveriKnud Kristensen
EftirmaðurErik Eriksen
Í embætti
30. september 1953 – 29. janúar 1955
ÞjóðhöfðingiFriðrik 9.
ForveriErik Eriksen
EftirmaðurH. C. Hansen
Persónulegar upplýsingar
Fæddur21. apríl 1903
Árósum, Danmörku
Látinn29. janúar 1955 (51 árs) Stokkhólmi, Svíþjóð
ÞjóðerniDanskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiElla Hedtoft (g. 1927)
AtvinnaPrentari

Hans Christian Hedtoft Hansen (21. apríl 1903 – 29. janúar 1955[1]) var forsætisráðherra Danmerkur frá 13. nóvember 1947 til 30. október 1950 og aftur frá 30. september 1953 til dauðadags þann 29. janúar 1955. Hann sat á danska þinginu fyrir Jafnaðarmannaflokkinn. Hann hét upphaflega Hansen en breytti nafni sínu í Hedtoft-Hansen á fjórða áratugnum og síðar í bara Hedtoft.

Bakgrunnur[breyta | breyta frumkóða]

Hedtoft fæddist þann 21. apríl 1903 á Lollandsgade 23 í Árósum. Hann var yngstur úr ellefu barna systkinahópi. Faðir hans var skraddari og vann í kjallara fjölskylduheimilisins. Hedtoft var góður nemandi en ótímabær dauði föður hans setti námsferil hans úr skorðum. Hann hætti í skóla og hóf nám í prenttækni í Graven í Árósum. Þar hófst áhugi hans á stjórnmálum. Þegar Hedtoft var sextán ára varð hann formaður iðnnemafélagsins í Árósum og hann skráði sig síðar í hina nýstofnuðu ungliðahreyfingu danska Jafnaðarmannaflokksins.[2] Hann varð formaður ungliðahreyfingarinnar árið 1927 og gekk í flokksháskóla jafnaðarmanna í Tinz í Þýringalandi í Þýskalandi. Þar kynntist hann Ellu Holleufer, sem varð síðar eiginkona hans.

Árið 1929 flutti Hedtoft til Kaupmannahafnar þar sem Thorvald Stauning réð hann sem aðstoðarmann og ritara þingflokks jafnaðarmanna.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Hedtoft í forsætisráðuneytinu árið 1954.

Heftoft var kjörinn á danska þingið árið 1935. Árið 1939 tók hann við af Thorvald Stauning sem formaður Jafnaðarmannaflokksins en hann var þvingaður til að segja af sér af hernámsliði Þjóðverja árið 1941. Hann var þó áfram virkur í dönskum stjórnmálum og tók þátt í að skapa tengsl milli stjórnmálamanna og andspyrnuhreyfingarinnar.

Árið 1945 varð Hedtoft aftur flokksformaður Jafnaðarmanna og hann hélt þeirri stöðu til dauðadags. Hann varð atvinnu- og félagsmálaráðherra í stjórninni sem tók við eftir að hernáminu lauk árið 1945.

Eftir að stjórn Knuds Kristensen féll varð Hans Hedtoft forsætisráðherra Danmerkur í minnihlutastjórn Jafnaðarmanna frá 13. nóvember 1947 til 30. október 1950. Hedtoft var ötull stuðningsmaður norrænnar samvinnu og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hugmyndir um norrænt varnarbandalag fóru út um þúfur. Áætlanirnar mistókust þar sem Noregur vildi gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu, sem leiddi til þess að Danir gengu einnig í bandalagið árið 1949.

Þann 22. janúar 1948 lagði breski utanríkisráðherrann Ernest Bevin fram tillögu um varnarbandalag milli Bretlands, Frakklands, Hollands og Lúxemborgar en nefndi Norðurlöndin ekki þar sem hann vildi ekki setja þau í óþægilega stöðu gagnvart Sovétríkjunum. Þann 22. febrúar sama ár brást Jósef Stalín við með því að gera Juho Kusti Paasikivi, forseta Finnlands, tilboð um samstarfssamning af sama tagi og Sovétríkin höfðu gert við Ungverjaland og Rúmeníu. Samningurinn gerði ráð fyrir talsverðri skerðingu á sjálfsstjórn Finnlands. Í byrjun mars fékk norska utanríkisráðuneytið upplýsingar frá fulltrúum sínum í Moskvu, Helsinki, Varsjá og Washington um að Norðmenn yrðu næstir til að fá tilboð af þessu tagi. Kommúnistar höfðu þá tekið völd í Tékkóslóvakíu í lok febrúar 1948 og vestrænir fjölmiðlar óttuðust að Sovétmenn hygðust leggja undir sig Norðurlönd. Í mars 1948 var hart vegið að danskri hernaðar- og utanríkisstefnu í sovéskum fjölmiðlum og áhyggjur af því að kommúnistar kynnu að fremja valdarán í Danmörku urðu útbreiddar. Í kringum páskana settu danski herinn og lögreglan af stað viðbragðsáætlun eftir að danska erindrekanum í Prag var tjáð að „Danmörk [væri] næst í röðinni á eftir Tékkóslóvakíu.“ Andrúmsloftið var orðið svo spennuþrungið um páskana að þegar Hedtoft vaknaði einn morgun við vélarhljóð hélt hann að Sovétríkin hefðu hafið innrás. Í raun komu hljóðin frá landbúnaðarvélum á leið á markaðinn.[3]

Árið 1950 varð Hedtoft að segja af sér sem forsætisráðherra en honum tókst að stofna nýja jafnaðarstjórn eftir að stjórn Eriks Eriksen féll þann 30. september 1953. Hann gegndi embættinu til dauðadags árið 1955. Hann varð fyrsti forseti Norðurlandaráðs árið 1953 og lést úr hjartaáfalli á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi árið 1955.

Ritverk[breyta | breyta frumkóða]

  • Mennesket i centrum. Fremad, 1953.
  • Den politiske situation og det fremtidige politiske arbejde. 1949.
  • Ásamt Chr. Christiansen: Haandbog i socialdemokratisk Ungdomsarbejde. Arbejderungdommens forlag, 1940.
  • Haandbog i socialdemokratisk Ungdomsarbejde. Hovedorganisationernes Informations- og Propaganda Afdeling, 1939.
  • Kommunisterne splitter – et Stridsskrift mod det kommunistiske Splittelsesarbejde indenfor Arbejderorganisationerne, Hovedorganisationernes Informations- og Propaganda Afdeling 1933

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hans Christian Hedtoft“. gravsted.dk.
  2. Ólafur Gunnarsson (1. janúar 1955). „Hans Hedtoft“. Akranes. bls. 11; 30.
  3. Sven Holtsmark: "A.M.Kollontaj og forholdet Norge-Sovjetunionen", fra "Revolusjon, kjærlighet, diplomati", forlaget Unipub, ISBN 978-82-7477-287-8


Fyrirrennari:
Knud Kristensen
Forsætisráðherra Danmerkur
(13. nóvember 194730. október 1950)
Eftirmaður:
Erik Eriksen
Fyrirrennari:
Erik Eriksen
Forsætisráðherra Danmerkur
(30. september 195329. janúar 1955)
Eftirmaður:
H. C. Hansen