Qaanaaq

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Hnit: 77°28′00″N 69°14′00″V / 77.46667°N 69.23333°V / 77.46667; -69.23333 Qaanaaq er þorp í sveitarfélaginu Qaasuitsup á norðvestur Grænlandi. Það er eini eiginlegi byggðakjarninn á Norður-Grænlandi (Avannaa). Upphaf hans var verslunarstöðin "Kap York Stationen Thule" sem stofnuð var af Knud Rasmussen og Peter Freuchen árið 1910. Núverandi byggðarlag varð til þegar allir íbúar gamla Thule-þorpsins voru fluttir þangað árið 1953.

Þorpið[breyta | breyta frumkóða]

Qaanaaq-þorpið

Í þorpinu Qaanaaq búa um 640 íbúar, og í ásamt nágrannabyggðum um 850 í byrjun árs 2005). Auk aðalþorpsins eru fimm önnur byggðarlög í nágrenni:

  • Savissivik: íbúafjöldi 78, á norðurströnd í Melville-flóa í suðurhluta sveitarfélagsins
  • Moriusaq: íbúafjöldi 21 (um 30 km frá Thule herstöðinni)
  • Qeqertat: íbúafjöldi 22 (á Harward Ø)
  • Qeqertarsuaq: íbúafjöldi 2 (á Herbert Ø)
  • Siorapaluk: íbúafjöldi 87 (nyrsta byggða ból á jörðu (burtséð frá tímabundnum rannsóknarstöðum) á 77°47'N)

Mállýska íbúana í Qaanaaq er talvert frábrugðin þeirri grænlensku sem töluð er sunnar í landinu og miklu líkar þeirri inuítamállýsku sem töluð er í Nunavut héraðinu í Kanada.

Öll byggðarlög fyrir utan aðalþorpið eiga í hættu að fara í eyði á næstu árum [1]. Þetta er sama þróun og sjá má um allt Grænland, að útsveitir fara í eyði og íbúar flytjast í aðal þéttbyggðarsvæðið. Eitt af þessum byggðarlögum er Etah sem lá 78 km norðvestur frá Siorapaluk (á 78°19'N) og var nyrsta byggð í heimi meðan búið var þar.

Um þetta svæði fóru allir þeir innflytjendahópar sem numið hafa land á Grænlandi, ef frá eru taldir norrænir menn á miðöldum. Enda er skammt á milli Grænlands og Ellesmere eyju, þar sem styst er á Kennedy sundi (Kennedy kanalen, hluti af Nares sundi) er einungis 24 km milli landanna. Hér hafa fundist fornleifar eftir alla þessa menningarheima og er menning forfeðra nútíma Inuíta kennd við þetta svæði, Thule-inuítar, enda hér sem fornleifafræðingar fyrst skilgreindu þennan menningarheim. Hér hafa einnig fundist munir sem koma frá hinum norrænu Grænlendingum og hafa verið upp getgátur um að þeir hafi sjálfir siglt hingað norður. Það er þó með öllu óvíst, þessir hlutir gætu allt eins hafa borist hingað í skiptiverslun Inuíta á milli. Það var skotinn John Ross sem árið 1818 kom hingað fyrstur nútíma Evrópumanna og nefndi íbúana pólar-eskimóa. Nýjasti innflytjendahópurinn að vestan fluttist hingað frá Baffin-eyju fyrir 150 árum síðan.

Sveitarfélagið nær yfir 225,500 km², og er megnið af því svæði undir jökli. Að flatarmáli er þetta víðfeðmasta sveitarfélag í heimi enda stærra en England, Skotland og Wales samanlögð. Að sunnan liggur það að Upernavik sveitarfélaginu, austan að Þjóðgarði Grænlands, að Íshafinu til norðurs, og að Nares sundi til vesturs. Nares sund aðskilur Ellesmere eyju í Nunavut héraðinu í Kanada frá Grænlandi.

Kort af Grænlandi

Herstöðin[breyta | breyta frumkóða]

Bandaríkjaher byggði herstöð í næsta nágrenni við Thule-þorpið árið 1951 sem nefnt var Thule Air Base og er þar enn. Aðalhlutverk stöðvarinnar var að vera útvörður í varnakerfi Bandaríkjanna gegn Sovétríkjunum á kaldastríðs árunum. Var þar byggð mikil radarstöð og einnig höfðu sprengiflugvélar aðsetur þar. Íbúar þorpsins fóru fljótlega að mótmæla við dönsk yfirvöld yfir yfirgangi hersins og að öll veiðiaðstaða versnaði til muna. Það endaði með því að allir íbúar gamla Thule-þorpsins voru fluttir burtu árið 1953 norður þar sem þorpið Qaanaaq stendur nú um 130 km norðan við upphaflega þorpið. Fengu nokkurra daga frest til að yfirgefa híbýli og eigur. Undu þeir því afar illa enda miklu verra veiðisvæði en þar sem þeir bjuggu áður. Urðu úr þessu miklar deilur bæði á Grænlandi og í Danmörku á næstu áratugum. Þeir sem höfðu verið fluttir á brott og afkomendur þeirra stofnuðu síðan samtökin Hingitaq ’53 og hófu málaferli gegn danska ríkinu. Það var ekki fyrr en árið 1999 sem endanlegur dómur gekk í málinu í Hæstarétti Danmerkur og var þar úrskurðað að íbúarnir hefðu verið neyddir til að flytja og var þeim dæmdar minniháttar skaðabætur fyrir. Auk skaðabótanna lagði danska ríkisstjórnin 210 miljónir danskra króna í flugvallarbyggingu í Qaanaaq. Nýi flugvöllurinn var tilbúinn 2002, fram að þeim tíma var herflugvöllurinn í Thule Air Base (Pituffik flugvöllurinn) eini flugvöllurinn á öllu norður Grænlandi. Þurftu allir, jafnt heimamenn sem aðrir, að sækja um leyfi hjá bandarískum heryfirvöldum til að komast í og úr almenningsflugi sem þar lenti. Thule herstöðin heyrir ekki undir sveitarfélagið Qaanaaq en er undir stjórn bandaríkjahers.

Þann 22. janúar 1968 fórst B-52 sprengjuflugvél 11 km sunnan við herstöðina. Fjórar vetnissprengjur sem voru um borð tíndust og geislavirk málmbrot dreifðust um stórt svæði. Það var ekki fyrr en 1996 sem dönsk yfirvöld viðurkenndu að um geislavirkni hafi verið um að ræða og gengust á að greiða þeim sem unnið höfðu við hreinsun á svæðinu 50.000 danskar krónur á mann í skaðabætur fyrir heilsutap og í mörgum tilvikum dauða úr krabbameini.

Smilla[breyta | breyta frumkóða]

Í bókinni Lesið í snjóinn, lætur Peter Høeg höfundur bókarinnar aðalsöguhetjuna, Smillu, vera fædda og uppalda í Qaanaaq og móðir hennar innfæddur Grænlendingur.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]