Turks- og Caicoseyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Turks and Caicos Islands
Fáni Turks- og Caicoseyja Skjaldarmerki Turks- og Caicoseyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Each Endeavouring, All Achieving
Þjóðsöngur:
God Save the Queen
Staðsetning Turks- og Caicoseyja
Höfuðborg Cockburn Town
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning Elísabet 2.
Landstjóri Nigel Dakin
Stjórnarleiðtogi Sharlene Cartwright-Robinson
Bresk
hjálenda
 - Sjálfstæð krúnunýlenda 31. maí 1962 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)

616,3 km²
~0
Mannfjöldi
 - Samtals (2020)
 - Þéttleiki byggðar
215. sæti
42.953
70/km²
Gjaldmiðill Bandaríkjadalur
Tímabelti UTC-5
Þjóðarlén .tc
Landsnúmer +1-649

Turks- og Caicoseyjar eru tveir eyjaklasar með samtals um þrjátíu eyjar suðaustan við Bahamaeyjar. Eyjaklasarnir eru hinar stærri Caicoseyjar og hinar minni Turkseyjar sem allar eru hluti af Lucayaneyjum sem einnig ná yfir Bahamaeyjar. Eyjarnar eru breskt yfirráðasvæði handan hafsins. Turks- og Caicoseyjar eru aðallega þekktar sem ferðamannastaður og fyrir aflandsbankaþjónustu. Meirihluti íbúanna, sem taldir eru vera rúm 40.000, búa á eyjunni Providenciales í Caicoseyjaklasanum.

Turks- og Caicoseyjar eru suðaustan við eyjuna Mayaguana í Bahamaeyjaklasanum, norðaustan við Kúbu og norðan við Hispaníólu (Haítí og Dóminíska lýðveldið). Frá 1766 hefur höfuðstaður eyjanna verið Cockburn Town á Grand Turk-eyju, um 1.042 km aust-suðaustan við Miami í Bandaríkjunum. Eyjarnar eru samtals um 616 ferkílómetrar að stærð.

Turks- og Caicoseyjar voru byggðar indíánum frá fornu fari. Evrópumenn sáu eyjarnar fyrst 1512. Næstu aldir gerðu ýmis Evrópuveldi tilkall til eyjanna. Á endanum féllu þær í hlut Breska heimsveldisins. Lengst af heyrðu eyjarnar undir aðrar breskar nýlendur, eins og Bermúda, Bahamaeyjar og Jamaíku. Eyjarnar urðu sérstök nýlenda undir landstjóra Jamaíku árið 1959 og þegar Jamaíka fékk sjálfstæði 1962 urðu þær sjálfstæð krúnunýlenda, en heyrðu undir landstjórann á Bahamaeyjum. Þegar þær fengu svo sjálfstæði 1973 fengu Turks- og Caicoseyjar fyrst eigin landstjóra.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Turks- og Caicoseyjar eru tveir eyjaklasar í Norður-Atlantshafi, suðaustan við Bahamaeyjar, norðaustan við Kúbu, um 160 km norðan við Hispaníólu, og um 1000 km frá Miami í Flórída í Bandaríkjunum. Eyjarnar eru hluti af Lúkajaeyjum, ásamt Bahamaeyjum. Turks Island-sund skilur milli eyjaklasanna tveggja. Caicos-sund skilur milli Caicos-eyja og næstu Bahamaeyja, Mayaguana og Great Inagua. Næsta erlenda eyja er smáeyjan Little Inagua, um 50 km frá West Caicos.

Eyjaklasarnir telja 8 stórar eyjar og yfir 22 smáeyjar sem samanlagt eru 616 ferkílómetrar að stærð. Eyjarnar eru flestar láglendar kalksteinseyjar með stórum mýrum og fenjaviðarskógum, auk 332 ferkílómetra af sandströndum. Hæstu tindar eyjanna eru Blue Hills á Providenciales og Flamingo Hill á East Caicos sem eru báðar 49 metrar á hæð. Veður á eyjunum er oftast sólríkt (sagt er að þar séu 350 sólardagar á ári[1]) og tiltölulega þurrt, en fellibylir ganga þar hlutfallslega oft yfir. Náttúrulegar ferskvatnsbirgðir á eyjunum eru takmarkaðar og regnvatni er safnað í vatnsþrær. Helstu náttúruauðlindir eyjanna eru svipukrabbi, kuðungar og aðrir skelfiskar. Þrenns konar vistsvæði eru skilgreind á eyjunum: bahamískur laufskógur, bahamískur furuskógur og antilleyskur fenjaskógur.[2]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Turks- og Caicoseyjar skiptast í fimm stjórnsýsluumdæmi (eitt á Turks-eyjum og fjögur á Caicos-eyjum), og eyjuna Grand Turk Island. Fjögur umdæmanna hafa umdæmisstjóra og Providenciales-umdæmi heyrir undir fastaritara yfirráðherra á Providenciales. Grand Turk Island heyrir beint undir ríkisstjórn eyjanna.[3]

Kort af Turks- og Caicos-eyjum.
Nr. Stjórnsýsluumdæmi Stjórnarsetur Stærð (km2)[4] Íbúar Kjördæmi
Caicos-eyjar
1 Providenciales (þar á meðal West Caicos) Providenciales 163,6 23.769 6
2 North Caicos Bottle Creek 144,9 1.443 2
3 Middle Caicos Conch Bar 144,2 168 1
4 South Caicos (þar á meðal East Caicos) Cockburn Harbour 136,8 1.139 2
Turks-eyjar
5 Grand Turk Grand Turk 17,6 4.831 4
6 Salt Cay Salt Cay 9,1 108 -
Alls Grand Turk 616,3 31.458 15


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Turks and Caicos In Numbers“. Beach House TCI. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. september 2015. Sótt 1. ágúst 2015.
  2. Dinerstein, Eric; og fleiri (2017). „An Ecoregion-Based Approach to Protecting Half the Terrestrial Realm“. BioScience. 67 (6): 534–545. doi:10.1093/biosci/bix014. ISSN 0006-3568.
  3. https://www.gov.tc/
  4. „TCI Physical Characteristics“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 25. júlí 2011. Sótt 13. mars 2013.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.