Ilulissat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Hnit: 69°13′N 51°06′V / 69.217°N 51.100°V / 69.217; -51.100

Ilulissat

Ilulissat, sem á dönsku heitir Jakobshavn er þriðja stærsta byggðarlagið á Grænlandi með um 4,500 íbúum. Það er hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup og er þar er aðsetur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnanna. Bærinn er á miðri vesturströndin landsins og um 200 kílómetrum norðan við norðurheimskautsbaug. Grænlenska nafn bæjarins Ilulissat þýðir Ísfjallið. Grænlensk-danski heimskautafarinn Knud Rasmussen fæddist og ólst upp í Ilulissat og er þar nú safn um hann og rannsóknir hans.

Í Ilulissat eru tvö fiskverkunarhús og eru það einkum rækjur og grálúða sem eru verkuð þar. Í hafinu fyrir utan er einnig mikið af sel, hvölum og þar eru mestu rostungagöngur við Grænland. Enda hefur þetta svæði verið kjörið veiðisvæði í þúsundir ára. Hér eru hundasleðar en notaðir enda eru um 6000 hundar í bænum. Fyrir utan fiskveiðar er ferðaþjónusta stöðugt vaxandi atvinnugrein.

Á vetrum er hitastig allt niður í -30°C (en hins vegar er mjög þurrt loftslag sem gerir að kuldinn verður bærilegur). Að sumri til er hitinn oft um 20-25°C.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifafræðingar hafa fundið vegsummerki um að búið hafi verið á þessu svæði í um það bil 4400 ár. Þó hefur hér verið mannlaust í aldaraðir á þessum tíma. Hér hafa fundist leifar eftir byggð Saqqit- og Dorset-fólk og frá Thule-inúítum (forfeðrum núverandi Grænlendinga) sem settust hér að um 1200. Þó engin vegsummerki hafi enn fundist er enginn efi á að hinir norrænu Grænlendingar á miðöldum komu hér við á veiðiferðum sínum enda er þetta á miðju þess svæðis sem þeir nefndu Norðursetu. Bæjarfélagið Ilulissat byggðist 2 km fyrir norðan þorpið Sermermiut. Það var langtum stærsta byggð inúíta á Grænlandi á þeim tíma. Árið 1727 komu danskir kaupmenn þangað fyrst og 1741 stofnaði danski kaupmaðurinn Jacob Severin verslunarstöðina Jacobshavn og samtímis stofnaði Poul Egede trúboðsstöð þar.

Ilulissat ísfjörðurinn[breyta | breyta frumkóða]

Loftmynd af Diskó-eyju og hluta af Diskó-flóa. Fyrir ofan miðju má sjá Iluissat ísfjörðinn fullan af ísjökum. Bæjarfélagið er rétt norðan við fjörðinn.

Ilulissat ísfjörðurinn (Ilulissat Kangerlua) er 40 kílómetra langur, um 7 km breiður og 1200 m djúpur fjörður sem byrjar við Grænlandsjökul og liggur út í Diskó flóa. Fjörðurinn er mjög sérkennilegt náttúrufyrirbæri enda fullur af ísjökum allt árið. Skriðjökullinn, sem á dönsku er nefndur Jakobshavn Isbræ og Sermeq Kujalleq á grænlensku rennur niður í austurenda fjarðarins. Þessi skriðjökull skilar af sér mesta jökulruðningi á norðurhveli jarðar. Hann rennur fram 20-35 metra á dag og skilar af sér um 20 miljónum tonna af ís út í fjörðinn á hverju ári. Ísjakarnir eru allt að 1000 metra háir og standa um 150 metra upp úr hafinu. Þrýstingur frá skriðjöklinum og sjávarföll gera að ísjakarnir fljóta smám saman út fjörðinn, í minni fjarðarins er hins vegar svo mikll jökulaur að dýpið er einungis um 300 metrar. Stóru ísjakarnir stranda því þarna en bráðna og brotna smám saman og fljóta áfram út í Diskó-flóa. Berast ísjakarnir þá fyrst norður Baffinsflóa med Vesturgrænlandsstraumi og síðan suður með kanadísku eyjunum og berast að lokum af Labradorstraumi út í Atlantshafið. Stærstu ísjakarnir hverfa ekki fyrr en þeir ná um það bil 40-45 gráðu norður, sem er sunnan við Bretland og á svipaðri breiddargráðu og New York.

Ilulissat ísfjörðurinn var tilnefndur á Heimsminjaskrá UNESCO árið 2004.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ilulissat Isfjord, 2004. GEUS, København, Danmark. ISBN 87-7871-134-7

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]