Bahamaeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Samveldi Bahamaeyja
Commonwealth of the Bahamas
Fáni Bahamaeyja Skjaldarmerki Bahamaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Forward Upward Onward Together (enska)
Fram á við, upp á við, áfram saman
Þjóðsöngur:
March On, Bahamaland
Staðsetning Bahamaeyja
Höfuðborg Nassá
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning Elísabet 2.
Landstjóri Cornelius A. Smith
Forsætisráðherra Philip Davis
Sjálfstæði
 - frá Bretlandi 10. júlí 1973 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
155. sæti
13.878 km²
28
Mannfjöldi
 - Samtals (2018)
 - Þéttleiki byggðar
177. sæti
385.637
25,21/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 - Samtals 12,612 millj. dala (130. sæti)
 - Á mann 33.494 dalir (40. sæti)
VÞL (2019) Increase2.svg 0.814 (58. sæti)
Gjaldmiðill bahamaeyjadalur (BSD)
Tímabelti UTC-5 (-4 á sumrin)
Þjóðarlén .bs
Landsnúmer +1-242

Bahamaeyjar eru eyríki á eyjaklasa sem telur um 700 eyjar og sandrif í Atlantshafi, rétt austan við Flórídaskaga í Bandaríkjunum, fyrir norðan Kúbu og Hispaníólu og vestan við Turks- og Caicoseyjar sem tilheyra sama eyjaklasa.

Upphaflega voru eyjarnar byggðar Lúkíum (Aravökum). Talið er að Kristófer Kólumbus hafi fyrst lent í Nýja heiminum á eyjunni San Salvador í eyjaklasanum en Spánverjar stofnuðu aldrei nýlendu á eyjunum. Þeir rændu þó fólki þaðan sem þeir seldu í þrældóm á Hispaníólu. Árið 1648 settust enskir landnemar frá Bermúda að á eyjunni Eleuthera. Eyjarnar voru griðastaður sjóræningja þar til þær urðu bresk krúnunýlenda árið 1718. Eftir Sjálfstæðisstríð Bandaríkjanna flutti breska stjórnin marga konungssinna til Bahamaeyja þar sem þeir fengu landareignir og hófu plantekrubúskap. Eftir að Bretar gerðu þrælahald ólöglegt flutti Breski flotinn þræla sem þeir höfðu frelsað af þrælaskipum í Atlantshafi til eyjanna. Þangað flúðu líka svartir þrælar frá Flórída. Árið 1973 urðu eyjarnar sjálfstætt ríki innan Breska samveldisins með Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja.

Bahamaeyjar eru eitt af auðugustu ríkjum Ameríku þegar miðað er við verga landsframleiðslu á mann. Ferðaþjónusta stendur ein undir 60% af vergri landsframleiðslu Bahamaeyja. Fjármálaþjónusta er um 15% af landsframleiðslu. 70% íbúa búa á eyjunni New Providence þar sem höfuðborgin Nassá stendur. New Providence heyrir undir ríkisstjórn eyjanna.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Bahamaeyjar draga nafn sitt líklega annað hvort af taínóísku orðunum ba ha ma („stóra efra miðland“), sem frumbyggjar nefndu svæðið,[1] eða mögulega af spænsku orðunum baja mar („grunnsævi“), sem vísar þá til grynninga á svæðinu. Nafnið gæti líka hugsanlega verið dregið af heitinu Guanahani sem óvíst er hvað þýðir.[2]

Formlegt heiti landsins á ensku er „The Bahamas“, með ákveðnum greini rituðum með stórum staf, eins og í Stjórnarskrá Bahamaeyja.[3]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Bahamaeyjar eru stór eyjaklasi sem dreifist um 800 ferkílómetra svæði í Atlantshafi, austan við Flórída í Bandaríkjunum, norðan við Kúbu og Hispaníólu, og vestan við bresku eyjarnar Turks- og Caicos-eyjar (sem ásamt Bahamaeyjum mynda Lúkajaeyjar). Eyjarnar liggja milli 20. og 28. breiddargráðu norður og 72. og 80. lengdargráðu vestur. Þær liggja báðum megin Krabbabaugs.[4] Eyjarnar eru 700 og rifin 2.400 alls (þar af 30 byggð), og heildarþurrlendi er 10.010 ferkílómetrar.[4][5]

Höfuðborg eyjanna, Nassá, er á eyjunni New Providence. Aðrar helstu byggðu eyjar eru Grand Bahama, Eleuthera, Cat Island, Rum Cay, Long Island, San Salvador Island, Ragged Island, Acklins, Crooked Island, Exuma, Berry Islands, Mayaguana, Bíminíeyjar, Great Abaco og Great Inagua. Stærsta eyjan er Andros.[5]

Allar eyjarnar eru láglendar og flatlendar, og hæðardrög eru aldrei hærri en 15 til 20 metrar. Hæsti punktur eyjanna er Alvernia-fjall (áður Como-hæð) á Cat Island, 64 metrar á hæð.[4]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Her[breyta | breyta frumkóða]

Her eyjanna nefnist Konunglegt varnarlið Bahamaeyja eða Royal Bahamas Defence Force (RBDF).[6] Herinn er aðeins með flota, en undir hann heyra sveit landgönguliða og flugdeild. Samkvæmt lögum um herinn er hlutverk hans að verja fullveldi eyjanna, í nafni drottningar, gæta að landhelgi þeirra, veita aðstoð við náttúruhamfarir, gæta að lögum og reglu í samstarfi við lögreglulið eyjanna og önnur verkefni sem öryggisráð eyjanna felur honum.[7] Varnarliðið á aðild að öryggisgæslusveitum CARICOM.[6]

Varnarliðið var stofnað 31. mars 1980. Það fæst einkum við að stöðva eiturlyfjasmygl, ólöglega innflytjendur og veiðiþjófnað, og aðstoð við sjófarendur. Varnarliðið ræður yfir 26 varðskipum og minni gæslubátum og er með yfir 1.100 starfsmenn, þar á meðal eru 65 yfirmenn og 74 konur.[8]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir utan New Providence, sem heyrir beint undir ríkisstjórn Bahamaeyja, skiptast eyjarnar í 31 stjórnsýsluumdæmi:

Umdæmi Bahamaeyja
 1. Acklins
 2. Berry Islands
 3. Bimini
 4. Black Point, Exuma
 5. Cat Island
 6. Central Abaco
 7. Central Andros
 8. Central Eleuthera
 9. City of Freeport, Grand Bahama
 10. Crooked Island
 11. East Grand Bahama
 12. Exuma
 13. Grand Cay, Abaco
 14. Harbour Island, Eleuthera
 15. Hope Town, Abaco
 16. Inagua
 1. Long Island
 2. Mangrove Cay, Andros
 3. Mayaguana
 4. Moore's Island, Abaco
 5. North Abaco
 6. North Andros
 7. North Eleuthera
 8. Ragged Island
 9. Rum Cay
 10. San Salvador
 11. South Abaco
 12. South Andros
 13. South Eleuthera
 14. Spanish Wells, Eleuthera
 15. West Grand Bahama

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Peter Barratt (2004). Bahama Saga: The epic story of The Bahama Islands. bls. 47.
 2. Harper, Douglas. „bahamas“. Online Etymology Dictionary.
 3. Government of the Bahamas "Constitution of The Commonwealth of The Bahamas", Government of The Bahamas, Nassau, 9 July 1973. Sótt 18. desember 2018.
 4. 4,0 4,1 4,2 „CIA World Factbook – The Bahamas“. Sótt 21. júlí 2019.
 5. 5,0 5,1 „Encyclopedia Britannica – The Bahamas“. Sótt 22. júlí 2019.
 6. 6,0 6,1 Snið:Cite report
 7. Snið:Cite act
 8. „Our Mandat“. rbdf.gov.bs. Sótt 4. febrúar 2021.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.