Fara í innihald

Bahamaeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samveldið Bahamaeyjar
Commonwealth of the Bahamas
Fáni Bahamaeyja Skjaldarmerki Bahamaeyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Forward Upward Onward Together (enska)
Fram á við, upp á við, áfram saman
Þjóðsöngur:
March On, Bahamaland
Staðsetning Bahamaeyja
Höfuðborg Nassá
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Landstjóri Cornelius A. Smith
Forsætisráðherra Philip Davis
Sjálfstæði
 • frá Bretlandi 10. júlí 1973 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
155. sæti
13.878 km²
28
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
177. sæti
400.516
25,21/km²
VLF (KMJ) áætl. 2022
 • Samtals 16,130 millj. dala (148. sæti)
 • Á mann 40.274 dalir (40. sæti)
VÞL (2021) 0.811 (55. sæti)
Gjaldmiðill bahamaeyjadalur (BSD)
Tímabelti UTC-5 (-4 á sumrin)
Þjóðarlén .bs
Landsnúmer +1-242

Bahamaeyjar eru eyríki á eyjaklasa sem telur um 700 eyjar og sandrif í Atlantshafi, rétt austan við Flórídaskaga í Bandaríkjunum, fyrir norðan Kúbu og Hispaníólu og vestan við Turks- og Caicoseyjar sem tilheyra sama eyjaklasa.

Upphaflega voru eyjarnar byggðar Lúkíum (Aravökum). Talið er að Kristófer Kólumbus hafi fyrst lent í Nýja heiminum á eyjunni San Salvador í eyjaklasanum en Spánverjar stofnuðu aldrei nýlendu á eyjunum. Þeir rændu þó fólki þaðan sem þeir seldu í þrældóm á Hispaníólu. Árið 1648 settust enskir landnemar frá Bermúda að á eyjunni Eleuthera. Eyjarnar voru griðastaður sjóræningja þar til þær urðu bresk krúnunýlenda árið 1718. Eftir Sjálfstæðisstríð Bandaríkjanna flutti breska stjórnin marga konungssinna til Bahamaeyja þar sem þeir fengu landareignir og hófu plantekrubúskap. Eftir að Bretar gerðu þrælahald ólöglegt flutti Breski flotinn þræla sem þeir höfðu frelsað af þrælaskipum í Atlantshafi til eyjanna. Þangað flúðu líka svartir þrælar frá Flórída. Árið 1973 urðu eyjarnar sjálfstætt ríki innan Breska samveldisins með Bretadrottningu sem þjóðhöfðingja.

Bahamaeyjar eru eitt af auðugustu ríkjum Ameríku þegar miðað er við verga landsframleiðslu á mann. Ferðaþjónusta stendur ein undir 60% af vergri landsframleiðslu Bahamaeyja. Fjármálaþjónusta er um 15% af landsframleiðslu. 70% íbúa búa á eyjunni New Providence þar sem höfuðborgin Nassá stendur. New Providence heyrir undir ríkisstjórn eyjanna.

Bahamaeyjar draga nafn sitt líklega annað hvort af taínóísku orðunum ba ha ma („stóra efra miðland“), sem frumbyggjar nefndu svæðið,[1] eða mögulega af spænsku orðunum baja mar („grunnsævi“), sem vísar þá til grynninga á svæðinu. Nafnið gæti líka hugsanlega verið dregið af heitinu Guanahani sem óvíst er hvað þýðir.[2]

Formlegt heiti landsins á ensku er „The Bahamas“, með ákveðnum greini rituðum með stórum staf, eins og í Stjórnarskrá Bahamaeyja.[3]

Fyrstu íbúar eyjanna voru Taínóar sem fluttu þangað frá Hispaníólu og Kúbu í mill 8. og 11. aldar, eftir að hafa flust þangað frá Suður-Ameríku. Þessir frumbyggjar voru kallaðir Lúkajar.[4] Talið er að um 30.000 Lúkajar hafi búið á eyjunum þegar Kristófer Kólumbus kom þangað árið 1492.[5]

Kólumbus kom fyrst í land í Nýja heiminum á eyju sem hann nefndi San Salvador (sem Lúkajar nefndu Guanahani). Almennt er talið að þessi eyja hafi verið meðal Bahamaeyja, en deilt er um það hver hún nákvæmlega hafi verið. Sumir telja að hún hafi verið eyjan sem í dag nefnist San Salvador-eyja (áður Watlings-eyja) í suðvesturhluta eyjaklasans, en samkvæmt annarri kenningu kom Kólumbus fyrst í land á Samana-rifi, samkvæmt útreikningum Joseph Judge sem birtust í National Geographic 1986.[4]

Tordesillas-sáttmálinn skipti löndum Nýja heimsins milli Konungsríkisins Kastilíu og Portúgals. Bahamaeyjar lentu Spánarmegin, en Spánverjar gerðu ekki mikið til að tryggja tilkall sitt til eyjanna, fyrir utan að hneppa íbúana í þrældóm og selja þá mansali til Hispaníólu.[4] Þessir þrælar máttu þola mikið harðræði og létust flestir úr smitsjúkdómum sem þeir höfðu enga mótstöðu gegn. Helmingur Taínóa lést úr bólusótt einni.[6] Vegna þessa hrundi íbúafjöldi eyjanna.[7]

Ensk nýlenda

[breyta | breyta frumkóða]

Englendingar lýstu yfir áhuga sínum á Bahamaeyjum þegar árið 1629, en fyrstu ensku landnemarnir komu ekki þangað fyrr en 1648. Þetta var hópur landnema með William Sayle sem leiðtoga sem fluttust þangað frá Bermúda í leit að trúfrelsi. Þessir ensku púrítanar stofnuðu fyrstu varanlegu evrópsku landnemabyggðina á eyju sem þeir nefndu Eleuthera (sem merkir „frjáls“ á grísku). Seinna stofnuðu þeir nýlendu á New Providence og nefndu hana Sayles-eyju. Lífið á eyjunum reyndist þeim þó erfiðara en þeir ætluðu í fyrstu og margir þeirra, Sayle þar á meðal, kusu að snúa aftur til Bermúda.[4] Þeir landnemar sem urðu eftir drógu fram lífið með því að safna strandgóssi úr skipsflökum.

Árið 1670 fékk Karl 2. Englandskonungur eigendum Karólínu stjórn eyjanna í hendur. Þeir leigðu eyjarnar af konungi með einkarétti á verslun, skattlagningu og skipan landstjóra, frá höfuðstöðvum þeirra á New Providence.[8][4] Sjórán og árásir óvinveittra erlendra ríkja voru stöðug ógn við íbúa eyjanna. Árið 1684 rændi spænskur sjóræningi, Juan de Alcon, höfuðborgina Charles Town (sem seinna fékk nafnið Nassá),[9] og árið 1703 hertók sameinaður spænskur og franskur floti Nassá um stutt skeið í spænska erfðastríðinu.[10][11]

Landgönguliðar meginlandshersins fara í land á New Providence í orrustunni um Nassá 1776.
Minnismerki um hundruð bandarískra þræla sem flúðu til Bahamaeyja.

Meðan á félagsræðinu stóð urðu Bahamaeyjar að athvarfi sjóræningja eins og hins alræmda Svartskeggs (um 1680-1718) og þar stóð „Sjóræningjalýðveldið“ frá 1706.[12] Breska stjórnin ákvað því að gera eyjarnar að krúnunýlendu árið 1718 og settu Woodes Rogers yfir þær sem landstjóra.[4] Honum tókst að binda enda á aðsókn sjóræningja eftir erfiða baráttu.[13] Árið 1720 réðust Spánverjar á Nassá í fjórveldastríðinu. Árið 1729 var komið á þingi fyrir bresku landnemana sem við það fengu takmarkaða heimastjórn.[4][14]

Í bandaríska frelsisstríðinu seint á 18. öld urðu eyjarnar skotmark bandarískra herskipa. Esek Hopkins hertók Nassá í nokkra daga árið 1776. Árið 1782 birtist spænskur floti undan strönd Nassá og borgin gafst upp án mótspyrnu. Seinna heimsótti Vilhjálmur Bretaprins (síðar Vilhjálmur 4.) Luis de Unzaga á Havana og gerði samkomulag um fangaskipti og fyrirkomulagið sem samþykkt var í Parísarsáttmálanum um að Bahamaeyjar fengjust í skiptum fyrir Spænsku Flórída. Eftir þetta voru Bahamaeyjar lýstar ensk nýlenda 1784.[15]

Þegar Bandaríkin fengu sjálfstæði fluttu Bretar um 7.300 konungssinna til eyjanna ásamt afrískum þrælum þeirra, þar á meðal 2000 manns frá New York,[16] og að minnsta kosti 1.033 Evrópumenn, 2.214 af afrískum uppruna og nokkra frumbyggja frá Vestur-Flórída sem Spánverjar lögðu undir sig.[17] Ríkisstjórnin lét landeigendum í té jarðir í samræmi við þær sem þeir höfðu misst á meginlandinu. Meðal þessara konungssinna voru Andrew Deveaux og Dunmore lávarður sem stofnuðu plantekrur á nokkrum eyjum og gerðust pólitískir leiðtogar í höfuðstaðnum.[4]

Lög um þrælahald 1807 afnámu þrælaverslun til breskra nýlendna, þar á meðal Bahamaeyja. Bretland beitti önnur ríki þrýstingi til að hætta þrælaverslun og gaf Breska flotanum leyfi til að hertaka þrælaskip á úthöfunum.[18][19] Þúsundum manna frá Afríku sem voru leystir af slíkum skipum var komið fyrir á Bahamaeyjum.

Á 3. áratug 19. aldar, meðan Seminólastríðin stóðu í Flórída, flúðu hundruð amerískra þræla og Seminóla til Bahamaeyja þaðan. Þau settust aðallega að á norðvesturhluta Androseyjar þar sem þau byggðu þorpið Red Bays. Samtímaheimildir segja frá því að 300 hafi sloppið þangað með aðstoð eyjarskeggja á Bahamaeyjum, á 27 seglskútum, meðan aðrir notuðust við kanóa. Þessara atburða var minnst með stóru minningaspjaldi í Bill Baggs Cape Florida State Park.[20][21] Sumir afkomendur þeirra í Red Bays halda enn í hefðir frá Seminólum, eins og í körfugerð og leiðamerkjum.[22]

Árið 1818[23] ákvað innanríkisráðuneytið í London að allir þrælar sem kæmu til Bahamaeyja frá stöðum utan Bresku Vestur-Indía skyldu frelsaðir. Næstum 300 þrælar í eigu Bandaríkjamanna voru þannir frelsaðir milli 1830 og 1835.[24] Bandarísku þrælaskipin Comet og Encomium sem fluttu þræla meðfram strönd Bandaríkjanna, strönduðu við Abaco-eyju í desember 1830 og febrúar 1834. Þrælarnir voru frelsaðir af embættismönnum í Nassá, þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjamanna. Á Comet voru 165 þrælar og 48 um borð í Encomium. Bretar greiddu að lokum bætur til Bandaríkjanna fyrir þessi tvö skip árið 1855, samkvæmt samningi um kröfur frá 1853 sem átti að binda enda á nokkur svipuð mál milli ríkjanna.[25][26]

Vitinn Great Isaac Lighthouse á Great Isaac Cay.

Þrælahald var afnumið í Breska heimsveldinu 1. ágúst 1834.[4] Eftir það frelsuðu breskir embættismenn í nýlendunni 78 þræla af skipinu Enterprise árið 1835, og 38 af skipinu Hermosa sem strandaði við Abaco-eyju árið 1840.[27] Frægasta málið var skipið Creole árið 1841 þar sem þrælar gerðu uppreisn og sigldu skipinu til Nassá. Um borð voru 135 þrælar frá Virginíu sem áttu að fara á markað í New Orleans. Embættismenn á Bahamaeyjum frelsuðu 128 þræla sem kusu að setjast þar að. Uppreisninni á Creole hefur verið lýst sem best heppnuðu þrælauppreisn í sögu Bandaríkjanna.[28]

Þessi atvik, þar sem 447 þrælar í eigu Bandaríkjamanna voru frelsaðir milli 1830 og 1842, juku á spennu milli Bandaríkjanna og Bretlands. Ríkin tvö höfðu átt í samstarfi um strandgæslu til að draga úr alþjóðlegri þrælaverslun, en nú höfðu Bandaríkin áhyggjur af hinni miklu innanlandsverslun með þræla og færðu rök fyrir því að Bretar ættu ekki að fara með bandarísk skip í höfnum nýlendanna eins og skip í alþjóðaversluninni. Bandaríkin óttuðust að sagan um uppreisnina á Creole myndi hvetja til fleiri þrælauppreisna á kaupskipum.

Í þrælastríðinu á 7. áratugnum blómstraði efnahagur eyjanna um stutt skeið vegna smyglara sem smygluðu vörum framhjá hafnbanni á Suðurríkin.[29][30]

Hertoginn af Windsor, fyrrum Bretlandskonungur, var landstjóri Bahamaeyja á stríðsárunum.

Í upphafi 20. aldar var efnahagur eyjanna staðnaður og mikil fátækt meðal íbúa sem margir drógu fram lífið á sjálfsþurftarbúskap eða fiskveiðum.[4] Í ágúst 1940 var Játvarður hertogi af Windsor og fyrrum Bretlandskonungur skipaður landstjóri Bahamaeyja. Hann kom til eyjanna ásamt eiginkonu sinni, Wallis Simpson. Landstjórahöllin var þá í niðurníðslu, en þau reyndu að gera það besta úr aðstæðum.[31] Játvarður var ekki ánægður með stöðuna og talaði um eyjarnar sem „þriðja flokks breska nýlendu“.[32] Hann setti lítið heimaþing 29. október 1940. Sama ár heimsóttu hjónin úteyjar um borð í lystisnekkju sænska auðmannsins Axel Wenner-Gren.[33] Breska utanríkisráðuneytið gagnrýndi það harðlega þar sem bandaríska leyniþjónustan taldi að Wenner-Gren væri náinn vinur þýska nasistaforingjans Hermanns Göring.[33][34]

Hertoginn fékk hrós fyrir tilraunir sínar til að berjast gegn fátækt á eyjunum. Í ævisögu hans eftir Philip Ziegler frá 1991 er því hins vegar lýst hvernig hann leit niður á þeldökka íbúa eyjanna og aðra íbúa breska heimsveldisins sem ekki voru af evrópskum uppruna. Í júní 1942 fékk hann aftur hrós fyrir framgöngu sína til að kveða niður uppþot í Nassá vegna lágra launa.[35] Í bók Ziegler kemur fram að hertoginn kenndi óróaseggjum og kommúnistum um uppþotin, auk manna af austurevrópskum gyðingauppruna sem hefðu tryggt sér störf til að komast hjá herþjónustu.[36] Hertoginn sagði af sér landstjóraembættinu 16. mars 1945.[37]

Eftir styrjöldina hófst stjórnmálaþróun á eyjunum fyrir alvöru. Fyrstu stjórnmálaflokkarnir voru stofnaðir á 6. áratugnum og skiptust eftir uppruna. Sameinaði bahamíski flokkurinn var þannig fulltrúi eyjarskeggja af breskum uppruna (sem voru kallaðir „Bay Street Boys“)[38] en Framsækni frjálslyndi flokkurinn var fulltrúi meirihluta þeldökkra íbúa.[4]

Þann 7. janúar 1964 gekk í gildi ný stjórnarskrá þar sem Bahamaeyjar fengu heimastjórn í eigin málum. Roland Symonette úr Sameinaða bahamíska flokknum varð fyrsti stjórnarformaður eyjanna.[39]: p.73 [40] Árið 1967 varð Lynden Pindling úr Framsækna frjálslynda flokknum fyrsti svarti stjórnarleiðtoginn og 1968 var stöðuheiti hans breytt í forsætisráðherra. Sama ár tilkynnti Pindling að eyjarnar myndu sækjast eftir fullu sjálfstæði.[41] Ný stjórnarskrá sem fól í sér aukna heimastjórn var tekin upp þetta sama ár.[42] Árið 1971 sameinaðist Sameinaði bahamíski flokkurinn klofningsframboði frá Framsækna frjálslynda flokknum og myndaði Frjálsu þjóðarhreyfinguna, mið-hægriflokk sem barðist gegn síauknum völdum flokks Pindlings.[43]

Breska lávarðadeildin samþykkti að veita Bahamaeyjum sjálfstæði 22. júní 1973.[44] Karl Bretaprins færði Lynden Pindling skjölin sem lýstu eyjarnar sjálfstætt ríki þann 10. júlí 1973.[45] Sá dagur er haldinn hátíðlegur sem þjóðhátíðardagur Bahamaeyja.[46] Eyjarnar gerðust aðilar að Samveldinu sama dag.[47] Milo Butler var skipaður fyrsti umboðsmaður Bretadrottningar á eyjunum skömmu eftir að þær fengu sjálfstæði.[48]

Eftir sjálfstæði

[breyta | breyta frumkóða]

Skömmu eftir að landið fékk sjálfstæði gerðust Bahameyjar aðilar að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Heimsbankanum 22. ágúst 1973,[49] og Sameinuðu þjóðunum 18. september sama ár.[50] Fyrstu tvo áratugina var Framsækni frjálsyndi flokkurinn (PLP) við völd, undir stjórn landsföðurins Lynden Pindling, þrátt fyrir ásakanir um spillingu, tengsl við eiturlyfjahringi og fjármálamisferli innan ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma var mikill hagvöxtur á eyjunum vegna annars vegar ferðaþjónustu og hins vegar fjármálaþjónustu. Lífskjör íbúa bötnuðu mikið sem varð til þess að eyjarnar löðuðu til sín innflytjendur, einkum frá Haítí.[4]

Eyðilegging í kjölfar fellibylsins Dorian.

Í þingkosningum árið 1992 náði Hubert Ingraham úr Frjálsa þjóðarflokknum (FNM) að steypa Pindling af stóli.[39]: p.78  Ingraham vann síðan kosningarnar 1997 en tapaði árið 2002 fyrir PLP undir stjórn Perry Christie.[39]: p.82  Ingraham náði aftur völdum 2007 og síðan Christie aftur 2012. Hagvöxtur fór minnkandi, en FNM náði aftur völdum 2017 undir stjórn Hubert Minnis.[4]

Í september 2019 gekk fellibylurinn Dorian á land á Abaco-eyjum og Grand Bahama þegar hann var 5 að styrk og lagði norðvesturhluta eyjanna í rúst. Áætlað tjón vegna fellibylsins er 7 milljarðar dala[51] og talið er að um 200 hafi látist, þótt sú tala sé líka álitin of lág vegna fjölda óskráðra haítískra innflytjenda.[52][53]

Í september 2021 tapaði Frjálsi þjóðarflokkurinn fyrir Framsækna frjálslynda flokknum í kosningum í miðri efnahagslægð sem var sú dýpsta síðan landið fékk sjálfstæði.[54][55] PLP náði 32 af 39 þingsætum og Frjálsi þjóðarflokkurinn fékk hin sætin.[56] Þann 17. september varð formaður PLP, Philip Davis nýr forsætisráðherra.[57]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Bahamaeyjar eru stór eyjaklasi sem dreifist um 800 ferkílómetra svæði í Atlantshafi, austan við Flórída í Bandaríkjunum, norðan við Kúbu og Hispaníólu, og vestan við bresku eyjarnar Turks- og Caicos-eyjar (sem ásamt Bahamaeyjum mynda Lúkajaeyjar). Eyjarnar liggja milli 20. og 28. breiddargráðu norður og 72. og 80. lengdargráðu vestur. Þær liggja báðum megin Krabbabaugs.[58] Eyjarnar eru 700 og rifin 2.400 alls (þar af 30 byggð), og heildarþurrlendi er 10.010 ferkílómetrar.[58][4]

Höfuðborg eyjanna, Nassá, er á eyjunni New Providence. Aðrar helstu byggðu eyjar eru Grand Bahama, Eleuthera, Cat Island, Rum Cay, Long Island, San Salvador Island, Ragged Island, Acklins, Crooked Island, Exuma, Berry Islands, Mayaguana, Bíminíeyjar, Great Abaco og Great Inagua. Stærsta eyjan er Andros.[4]

Allar eyjarnar eru láglendar og flatlendar, og hæðardrög eru aldrei hærri en 15 til 20 metrar. Hæsti punktur eyjanna er Alvernia-fjall (áður Como-hæð) á Cat Island, 64 metrar á hæð.[58]

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Þinghúsið í Nassá.

Stjórnarfar Bahamaeyja er þingbundin konungsstjórn þar sem Karl 3. Bretakonungur er þjóðhöfðingi og landstjóri Bahamaeyja er fulltrúi hans.[58] Núverandi landstjóri er Cornelius A. Smith. Stjórnmál og lagahefð eyjanna byggist alfarið á Westminster-kerfinu líkt og hjá mörgum öðrum samveldisríkjum.[59][60]

Forsætisráðherra Bahamaeyja er stjórnarleiðtogi landsins og er oftast leiðtogi þess flokks sem hefur flest þingsæti á þingi Bahamaeyja.[58][4] Ráðherrar í ríkisstjórn Bahamaeyja eru valdir af forsætisráðherra og fara með framkvæmdavaldið. Núverandi forsætisráðherra er Philip Davis.[58]

Þing Bahamaeyja kemur saman í tveimur deildum; fulltrúadeild með 38 fulltrúa sem eru kjörnir með meirihluta í einmenningskjördæmum, og öldungadeild með 16 fulltrúum sem eru skipaðir af landstjóranum, þar af níu samkvæmt ráði forsætisráðherra, fjórir samkvæmt ráði leiðtoga stjórnarandstöðunnar og þrír samkvæmt ráði forsætisráðherra eftir að hann hefur ráðfært sig við leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Líkt og í Westminster-kerfinu getur forsætisráðherra leyst upp þing og boðað til kosninga hvenær sem er áður en fimm ára kjörtímabili hans lýkur.[61]

Stjórnarskrá Bahamaeyja er með ákvæði sem vernda málfrelsi, fjölmiðlafrelsi, trúfrelsi, ferðafrelsi og félagafrelsi. Dómsvaldið á Bahamaeyjum er óháð framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi. Dómskerfið byggist á enskum rétti.[58]

Her eyjanna nefnist Konunglegt varnarlið Bahamaeyja eða Royal Bahamas Defence Force (RBDF).[62] Herinn er aðeins með flota, en undir hann heyra sveit landgönguliða og flugdeild. Samkvæmt lögum um herinn er hlutverk hans að verja fullveldi eyjanna, í nafni drottningar, gæta að landhelgi þeirra, veita aðstoð við náttúruhamfarir, gæta að lögum og reglu í samstarfi við lögreglulið eyjanna og önnur verkefni sem öryggisráð eyjanna felur honum.[63] Varnarliðið á aðild að öryggisgæslusveitum CARICOM.[62]

Varnarliðið var stofnað 31. mars 1980. Það fæst einkum við að stöðva eiturlyfjasmygl, ólöglega innflytjendur og veiðiþjófnað, og aðstoð við sjófarendur. Varnarliðið ræður yfir 26 varðskipum og minni gæslubátum og er með yfir 1.100 starfsmenn, þar á meðal eru 65 yfirmenn og 74 konur.[64]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir utan New Providence, sem heyrir beint undir ríkisstjórn Bahamaeyja, skiptast eyjarnar í 31 stjórnsýsluumdæmi:

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Hlutfall útflutnings frá Bahamaeyjum árið 2019.

Miðað við landsframleiðslu á mann eru Bahamaeyjar eitt af auðugustu löndum Ameríku.[65] Gjaldmiðill landsins, bahamadalur, er festur við bandaríkjadal á genginu 1 á móti 1.[66]

Ferðaþjónusta er helsta undirstaða efnahagslífs á Bahamaeyjum og stendur undir bæði helmingi landsframleiðslunnar og helmingi starfa á eyjunum. Fjöldi ferðamanna var 5,8 milljónir árið 2012, og yfir 70% þeirra komu með skemmtiferðaskipum.[67]

Næstmikilvægasti geirinn er banka- og fjármálaþjónusta, sem stendur undir 15% landsframleiðslunnar.[66] Í Panamaskjölunum kom fram að Bahamaeyjar væru það land sem hefði flestar skráningar aflandsfyrirtækja í heimi.[68]

Skattastefnan er mjög samkeppnishæf og eyjunum er oft lýst sem skattaskjóli. Ríkisstjórn eyjanna hefur tekjur af tollum, virðisaukaskatti, leyfisgjöldum og fasteignaskatti og stimpilgjöldum, en það er enginn tekjuskattur, fyrirtækjaskattur, fjármagnstekjuskattur eða eignarskattur. Almannatryggingar eru fjármagnaðar með launatengdum gjöldum þar sem launþeginn greiðir 3,9% og vinnuveitandinn 5,9%.[69] Árið 2010 voru skatttekjur 17,2% af vergri landsframleiðslu.[70]

Þriðji stærsti geiri atvinnulífs á Bahamaeyjum eru landbúnaður og iðnaður sem standa undir 5-7% af vergri landsframleiðslu.[66] Talið er að Bahamaeyjar flytji inn um 80% af matvælum sem seld eru á eyjunum. Helstu landbúnaðarafurðir eyjanna eru laukur, okra, tómatar, appelsínur, greipaldin, agúrkur, sykurreyr, sítrónur, límónur og sætar kartöflur.[71]

Aðgengi að líffræðilegri getu er miklu hærri á Bahamaeyjum en að meðaltali í heiminum. Árið 2016 höfðu eyjarnar 9,2 framleiðnihektara[72] á mann í landinu, sem er miklu hærra en heimsmeðaltalið 1,6 hektarar á mann.[73] Árið 2016 nýttu íbúar Bahamaeyja 3,7 hektara á mann sem vistspor neyslu, sem er mun minna en eyjarnar ráða við.[72]

Þróun íbúafjölda á Bahamaeyjum samkvæmt FAO.

Samkvæmt manntali árið 2018 voru íbúar á Bahameyjum 407.906 talsins, þar af 25,9% 14 ára eða yngri, 67,2% 15 til 64 ára og 6,9% yfir 65 ára aldri. Ársfjölgun var 0,925% árið 2010 og fæðingartíðni 17,81/1000 íbúa, en dánartíðni 9,35/1000 íbúa og brottfluttir umfram aðflutta 2,13/1000.[74] Ungbarnadauði er 23,21 á 1000 lifandi fæðingar. Lífslíkur íbúa eru 69,87 ár. Heildarfrjósemishlutfall er 2 börn á konu (2010).[70] Áætlað er að fjöldi íbúa árið 2022 sé 400.516.

Fjölmennustu eyjarnar eru New Providence þar sem höfuðborgin, Nassá er staðsett, og Grand Bahama þar sem næststærsta borgin, Freeport er.[75]

Junkanoo-ganga í Nassá.

Menning eyjanna er blanda af afrískum, breskum og bandarískum hefðum. Tengslin við Bandaríkin eru sterk vegna fjölskyldutengsla, aðflutnings frelsaðra þræla frá Bandaríkjunum og vegna þess að flestir ferðamenn til eyjanna koma þaðan.[4]

Á Fjölskyldueyjum (úteyjum) eru afrískir alþýðugaldrar, obeah, stundaðir.[76] Obeah er ólöglegt á Bahamaeyjum og refsivert.[77] Þar eru líka búnar til hefðbundnar körfur og fleira úr pálmablöðum. Efnið er riðið í hatta og töskur sem eru vinsælir minjagripir hjá ferðamönnum.[78]

Junkanoo eru hefðbundnar afróbahamískar skrúðgöngur með tónlist og dansi sem eru haldnar í Nassá og öðrum bæjum á annan í jólum og nýársdag. Junkanoo er líka sett upp við önnur tilefni.[4]

Siglingakeppnir eru mikilvægir viðburðir á mörgum úteyjunum. Oftast fela þær í sér nokkurra daga keppni á gamaldags vinnubátum með hátíð í landi.[79]

Bahamísk matargerð endurspeglar fjölbreyttan uppruna íbúa með áhrifum frá karabískri, afrískri og evrópskri matarhefð. Í sumum bæjum eru hátíðir sem tengjast uppskeru þess svæðis, eins og „Ananashátíðin“ í Gregory Town á Eleuthera eða „Krabbahátíðin“ á Andros.

Sagnamennska er mikilvæg hefð á eyjunum þar sem er ríkuleg alþýðumenning. Þekktustu þjóðsagnaverur Bahamaeyja eru lusca og chickcharney á Andros, Pretty Molly á Exuma og týnda borgin Atlantis á Bimini. Þekktir bahamískir rithöfundar eru meðal annars Wendy Coakley-Thompson, Paul Albury og Susan J. Wallace. Meðal þekktustu íbúa eyjanna eru leikararnir Sidney Poitier og Roxie Roker, og sonur hennar, söngvarinn Lenny Kravitz.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Peter Barratt (2004). Bahama Saga: The epic story of The Bahama Islands. bls. 47.
  2. Harper, Douglas. „bahamas“. Online Etymology Dictionary.
  3. Government of the Bahamas "Constitution of The Commonwealth of The Bahamas", Government of The Bahamas, Nassau, 9 July 1973. Sótt 18. desember 2018.
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 4,10 4,11 4,12 4,13 4,14 4,15 4,16 4,17 „Encyclopædia Britannica – The Bahamas“. Afrit af uppruna á 26. apríl 2021. Sótt 22. júlí 2019.
  5. Keegan, William F. (1992). The people who discovered Columbus: the prehistory of the Bahamas. Jay I. Kislak Reference Collection (Library of Congress). Gainesville: University Press of Florida. bls. 25, 54–8, 86, 170–3. ISBN 0-8130-1137-X. OCLC 25317702.
  6. "Schools Grapple With Columbus's Legacy: Intrepid Explorer or Ruthless Conqueror?" Geymt 28 júlí 2020 í Wayback Machine, Education Week, 9 October 1991
  7. Dumene, Joanne E. (1990). „Looking for Columbus“. Five Hundred Magazine. 2 (1): 11–15. Afrit af upprunalegu geymt þann 19. september 2008.
  8. „Diocesan History“. Anglican Communications Department. 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. maí 2009. Sótt 7. maí 2009.
  9. Mancke/Shammas p. 255
  10. Marley (2005), p. 7.
  11. Marley (1998), p. 226.
  12. Headlam, Cecil (1930). America and West Indies: July 1716 | British History Online (enska) (Vol 29. útgáfa). London: His Majesty's Stationery Office. bls. 139–159. Afrit af uppruna á 31. ágúst 2018. Sótt 15. október 2017.
  13. Woodard, Colin (2010). The Republic of Pirates. Harcourt, Inc. bls. 166–168, 262–314. ISBN 978-0-15-603462-3.
  14. Dwight C. Hart (2004) The Bahamian parliament, 1729–2004: Commemorating the 275th anniversary Jones Publications, p4
  15. Cazorla, Frank, Baena, Rose, Polo, David, Reder Gadow, Marion (2019) The Governor Louis de Unzaga (1717–1793) Pioneer in the birth of the United States and liberalism, Foundation Malaga, pages 21, 154–155, 163–165, 172, 188–191
  16. Wertenbaker, Thomas Jefferson (1948). Father Knickerbocker Rebels: New York City during the Revolution. New York: Charles Scribner's Sons. bls. 260.
  17. Peters, Thelma (október 1961). „The Loyalist Migration from East Florida to the Bahama Islands“. The Florida Historical Quarterly. 40 (2): 123–141. JSTOR 30145777. p. 132, 136, 137
  18. Falola, Toyin; Warnock, Amanda (2007). Encyclopedia of the Middle Passage. Greenwood Press. bls. xxi, xxxiii–xxxiv. ISBN 9780313334801. Afrit af uppruna á 13. ágúst 2021. Sótt 22. febrúar 2021.
  19. Lovejoy, Paul E. (2000). Transformations in Slavery: A History of Slavery in Africa (2nd. útgáfa). New York: Cambridge University Press. bls. 290. ISBN 0521780128.
  20. "Bill Baggs Cape Florida State Park", Network to Freedom, National Park Service, 2010, accessed 10 April 2013
  21. Vignoles, Charles Blacker (1823) Observations on the Floridas, New York: E. Bliss & E. White, pp. 135–136
  22. Howard, R. (2006). „The "Wild Indians" of Andros Island: Black Seminole Legacy in The Bahamas“. Journal of Black Studies. 37 (2): 275. doi:10.1177/0021934705280085. S2CID 144613112.
  23. Appendix: "Brigs Encomium and Enterprise", Register of Debates in Congress, Gales & Seaton, 1837, pp. 251–253.
  24. Horne, p. 103
  25. Horne, p. 137
  26. Register of Debates in Congress, Gales & Seaton, 1837.
  27. Horne, pp. 107–108
  28. Williams, Michael Paul (11. febrúar 2002). „Brig Creole slaves“. Richmond Times-Dispatch. Richmond, Virginia. Afrit af uppruna á 10. júlí 2022. Sótt 25. október 2018.
  29. Grand Bahama Island – American Civil War Geymt 25 október 2007 í Wayback Machine The Islands of The Bahamas Official Tourism Site
  30. Stark, James. Stark's History and Guide to the Bahama Islands (James H. Stark, 1891). pg.93
  31. Higham, pp. 300–302
  32. Bloch, Michael (1982). The Duke of Windsor's War, London: Weidenfeld and Nicolson. ISBN 0-297-77947-8, p. 364.
  33. 33,0 33,1 Higham, pp. 307–309
  34. Bloch, Michael (1982). The Duke of Windsor's War. London: Weidenfeld and Nicolson. ISBN 0-297-77947-8, pp. 154–159, 230–233
  35. Higham, pp. 331–332
  36. Ziegler, Philip (1991). King Edward VIII: The Official Biography. New York: Alfred A. Knopf. ISBN 0-394-57730-2. pp. 471–472
  37. Matthew, H. C. G. (September 2004; online edition January 2008) "Edward VIII, later Prince Edward, Duke of Windsor (1894–1972)" Geymt 5 júní 2015 í Wayback Machine, Oxford Dictionary of National Biography, Oxford University Press, doi:10.1093/ref:odnb/31061, sótt 1. maí 2010 (Subscription required)
  38. „Bad News for the Boys“. Time. 20. janúar 1967. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. febrúar 2013.
  39. 39,0 39,1 39,2 Nohlen, D. (2005), Elections in the Americas: A data handbook, Volume I ISBN 978-0-19-928357-6
  40. „Bahamian Proposes Independence Move“. The Washington Post. United Press International. 19. ágúst 1966. bls. A20. Afrit af uppruna á 29. júní 2021. Sótt 10. júlí 2022.
  41. Bigart, Homer (7. janúar 1968). „Bahamas Will Ask Britain For More Independence“. The New York Times. bls. 1. Afrit af uppruna á 10. júlí 2022. Sótt 22. apríl 2020.
  42. Armstrong, Stephen V. (28. september 1968). „Britain and Bahamas Agree on Constitution“. The Washington Post. bls. A13. Afrit af uppruna á 28. júní 2021. Sótt 10. júlí 2022.
  43. Hughes, C (1981) Race and Politics in the Bahamas ISBN 978-0-312-66136-6
  44. „British grant independence to Bahamas“. The Baltimore Afro-American. 23. júní 1973. bls. 22. Afrit af uppruna á 28. júní 2021. Sótt 10. júlí 2022.
  45. „Bahamas gets deed“. Chicago Defender. United Press International. 11. júlí 1973. bls. 3. Afrit af uppruna á 26. janúar 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  46. „Bahamas Independence Day Holiday“. The Official Site of The Bahamas. The Bahamas Ministry of Tourism. Afrit af uppruna á 8. júlí 2020. Sótt 7. júlí 2020.
  47. „Bahama Independence“. Tri-State Defender. Memphis, Tennessee. 14. júlí 1973. bls. 16. Afrit af uppruna á 13. mars 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  48. Ciferri, Alberto (2019). An Overview of Historical and Socio-Economic Evolution in the Americas. Newcastle-upon-Tyne: Cambridge Scholars Publisher. bls. 313. ISBN 978-1-5275-3821-4. OCLC 1113890667. Afrit af uppruna á 10. júlí 2022. Sótt 21. júlí 2020.
  49. „Bahamas Joins IMF, World Bank“. The Washington Post. 23. ágúst 1973. bls. C2. Afrit af uppruna á 10. júlí 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  50. Alden, Robert (19. september 1973). „2 Germanys Join U.N. as Assembly Opens 28th Year“. The New York Times. bls. 1. Afrit af uppruna á 28. júní 2021. Sótt 10. júlí 2022.
  51. Fitz-Gibbon, Jorge (5. september 2019). „Hurricane Dorian causes $7B in property damage to Bahamas“. New York Post. Afrit af uppruna á 7. september 2019. Sótt 5. september 2019.
  52. Ava Turnquest (12. september 2019). „Missing List Falls To 1,300“. The Tribune. Afrit af uppruna á 22. september 2019. Sótt 22. september 2019.
  53. Norcross, Bryan (2. maí 2020). „New Hurricane Dorian report details forecast challenges, successes“. WPLG Local 10. Afrit af uppruna á 14. maí 2020. Sótt 12. maí 2020.
  54. „The Bahamas Election Results“. www.caribbeanelections.com. Afrit af uppruna á 17. desember 2021. Sótt 17. september 2021.
  55. „Bloomberg“. www.bloomberg.com. 17. september 2021. Afrit af uppruna á 31. mars 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  56. „Bahamas Election 2021: PLP election victory confirmed | Loop Caribbean News“. Loop News (enska). 20. september 2021. Afrit af uppruna á 26. maí 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  57. McLeod, Sheri-Kae (17. september 2021). „Phillip Davis Sworn in as Prime Minister of Bahamas “. Caribbean News (enska). Afrit af uppruna á 30. júní 2022. Sótt 10. júlí 2022.
  58. 58,0 58,1 58,2 58,3 58,4 58,5 58,6 „CIA World Factbook – The Bahamas“. Sótt 21. júlí 2019.
  59. Hydrant (http://www.hydrant.co.uk), Site designed and built by (15. ágúst 2013). „Bahamas, The“. The Commonwealth (enska). Afrit af uppruna á 9. mars 2018. Sótt 25. janúar 2021.
  60. Hunter, Josh (27. september 2012). „A more modern crown: changing the rules of succession in the Commonwealth Realms“. Commonwealth Law Bulletin. 38 (3): 423–466. doi:10.1080/03050718.2012.694997. S2CID 144518578. Afrit af uppruna á 10. júlí 2022. Sótt 15. nóvember 2020 – gegnum Taylor & Francis Online.
  61. „Bahamas 1973 (rev. 2002)“. Constitute. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. mars 2015. Sótt 17. mars 2015.
  62. 62,0 62,1 Central Intelligence Agency (2009). The CIA World Factbook 2010 (Report). Skyhorse Publishing. bls. 53.
  63. „Defence Act“. Act of 1980. bls. 211-14.
  64. „Our Mandat“. rbdf.gov.bs. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. febrúar 2021. Sótt 4. febrúar 2021.
  65. „Real GDP per capita“. CIA.gov. Afrit af uppruna á 5. apríl 2022. Sótt 9. júlí 2022.
  66. 66,0 66,1 66,2 Country Comparison :: GDP – per capita (PPP) Geymt 23 apríl 2015 í Wayback Machine. CIA World Factbook.
  67. Spencer, Andrew (14. júlí 2018). Travel and Tourism in the Caribbean: Challenges and Opportunities for Small Island Developing States (enska). Springer. ISBN 978-3-319-69581-5. Afrit af uppruna á 27. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
  68. „Panama Papers“. The International Consortium of Investigative Journalists. Afrit af uppruna á 10. maí 2016. Sótt 17. ágúst 2017.
  69. „Contributions Table“. The National Insurance Board of The Commonwealth of The Bahamas. 11. maí 2010. Afrit af uppruna á 15. janúar 2012. Sótt 22. desember 2011.
  70. 70,0 70,1 Bahamas, The Geymt 26 janúar 2021 í Wayback Machine. CIA World Factbook.
  71. Group, Taylor & Francis (2004). Europa World Year (enska). Taylor & Francis. ISBN 978-1-85743-254-1. Afrit af uppruna á 26. apríl 2021. Sótt 19. október 2020.
  72. 72,0 72,1 „Country Trends“. Global Footprint Network. Afrit af uppruna á 8. ágúst 2017. Sótt 4. júní 2020.
  73. Lin, David; Hanscom, Laurel; Murthy, Adeline; Galli, Alessandro; Evans, Mikel; Neill, Evan; Mancini, MariaSerena; Martindill, Jon; Medouar, FatimeZahra; Huang, Shiyu; Wackernagel, Mathis (2018). „Ecological Footprint Accounting for Countries: Updates and Results of the National Footprint Accounts, 2012–2018“. Resources (enska). 7 (3): 58. doi:10.3390/resources7030058.
  74. Country Comparison "Total fertility rate" Geymt 28 október 2009 í Wayback Machine, CIA World Factbook.
  75. „Population“. The Bahamas Guide. Sótt 28.9.2022.
  76. „International Religious Freedom Report 2005 – Bahamas“. United States Department of State. Afrit af uppruna á 21. desember 2019. Sótt 22. júlí 2012.
  77. "Practising Obeah, etc." Geymt 21 apríl 2017 í Wayback Machine, Ch. 84 Penal Code. laws.bahamas.gov.bs
  78. Hurbon, Laennec (1995). "American Fantasy and Haitian Vodou". Sacred Arts of Haitian Vodou. Ed. Donald J. Cosentino. Los Angeles: UCLA Fowler Museum of Cultural History, pp. 181–97.
  79. „Native Boat Regattas in The Bahamas“. World Nomads. Afrit af uppruna á 26. apríl 2021. Sótt 4. febrúar 2021.