Arúba

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Aruba
Fáni Arúba Skjaldarmerki Arúba
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Aruba Dushi Tera
Staðsetning Arúba
Höfuðborg Oranjestad
Opinbert tungumál Hollenska og papiamento
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Vilhjálmur Alexander
Landstjóri Alfonso Boekhoudt
Forsætisráðherra Evelyn Wever-Croes
Sjálfstjórnarsvæði
 • frá Hollensku Antillaeyjum 1. janúar 1986 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

180 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
193. sæti
116.576
624/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 4,4 millj. dala
 • Á mann 37.576 dalir
Gjaldmiðill Arúbaflórína (AWG)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .aw
Landsnúmer +297

Arúba er eyja í Karíbahafi, aðeins 25 km norðan við Paraguaná-skaga í Venesúela. Stjórnsýslulega er eyjan sjálfstjórnarsvæði sem heyrir undir Konungsríkið Holland og var skipt út úr Hollensku Antillaeyjum árið 1986. Ólíkt því sem gerist á öðrum eyjum í Karíbahafi er loftslag á eyjunni þurrt, sem hefur gert hana að vinsælum ferðamannastað. Ferðaþjónusta stendur undir þremur fjórðu hlutum landsframleiðslu Arúba en aðrar mikilvægar undirstöður undir efnahagslífi eyjarinnar eru gull- og fosfatnámur og olíuhreinsun.

Eyjan er 33 km að lengd, að mestu flöt og laus við ár og vötn. Hvítar sandstrendur er að finna á suður- og vesturströnd eyjarinnar þar sem skjól er fyrir hafstraumum. Austan megin við Arúba eru eyjarnar Bonaire og Curaçao sem mynda suðvesturhluta Hollensku Antillaeyja.

Upphaflegir íbúar Arúba voru caquetio-mælandi Aravakindíánar. Spánverjar lögðu eyjuna undir sig um 1500 en Hollendingar unnu hana af þeim árið 1636. Árið 1928 var olíuhreinsistöð opnuð á eyjunni sem jók velmegun og ýtti undir kröfur um sjálfstæði. Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1977 reyndust yfir 80% íbúa vera fylgjandi sjálfstæði og í kjölfarið hófust samningaviðræður við Holland. Árið 1990 var sjálfstæðisferlinu frestað um óákveðinn tíma.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Það eru til nokkrar kenningar um uppruna heitis Arúba:[1][2]

  • Úr spænsku Oro hubo sem merkir „það var gull“[1]
  • Úr kalinagó Oruba sem merkir „vel staðsett“[1]
  • Úr kalinagó Ora („skel“) og Oubao („eyja“)[3]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Arúba er frekar flatlend, þurrlend eyja. Hún er hluti Hléborðseyja sem eru syðri hluti Litlu Antillaeyja í Karíbahafi. Eyjan er 77 km vestan við Curaçao og 29 km norður af Paraguaná-skaga í Venesúela.[4] Á Arúba er að finna hvítar sandstrendur á vestur- og suðurströnd eyjunnar, í skjóli frá sterkum hafstraumum.[4][5] Þar býr líka meirihluti íbúa og þar hefur ferðaþjónustan helst þróast.[5][1] Við norður- og austurströndina er meira brim og þar er landið að mestu ósnert.

Innar á eyjunni eru hæðir, eins og Hooiberg (165 metrar) og Jamanota-fjall, hæsti tindur eyjarinnar, 188 metrar yfir sjávarmáli.[4][1] Höfuðborgin, Oranjestad, er á 12°31′01″N 70°02′04″V / 12.51694°N 70.03444°V / 12.51694; -70.03444.

Steinboginn Natural Bridge var stór kalksteinsmyndun á norðurströnd eyjarinnar. Hann var vinsæll ferðamannastaður þar til hann hrundi árið 2005.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Héruð[breyta | breyta frumkóða]

Arúba skiptist í átta héruð sem eru ekki stjórnsýslueiningar heldur aðeins til að auðvelda söfnun tölfræðiupplýsinga.

Heiti Flatarmál (km²) Íbúar
Manntal 1991
Íbúar
Manntal 2000
Íbúar
Manntal 2010
Noord / Tanki Leendert 34,62 10.056 16.944 21.495
Oranjestad West 9,29 8.779 12.131 13.976
Oranjestad Oost 12,88 11.266 14.224 14.318
Paradera 20,49 6.189 9.037 12.024
San Nicolas Noord 23,19 8.206 10.118 10.433
San Nicolas Zuid 9,64 5.304 5.730 4.850
Santa Cruz 41,04 9.587 12.326 12.870
Savaneta 27,76 7.273 9.996 11.518
Arúba alls 178,91 66.687 90.506 101.484

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 „CIA World Factbook - Aruba“. Sótt 28. júlí 2019.
  2. „Historia di Aruba“. Afrit af uppruna á 9. apríl 2013. Sótt 28. júlí 2019.
  3. Brushaber, Susan; Greenberg, Arnold (2001). Aruba, Bonaire & Curacao Alive!. Hunter Publishing, Inc. bls. 38. ISBN 978-1-58843-259-9.
  4. 4,0 4,1 4,2 Aruba. Afrit af uppruna á 15. maí 2015. Sótt 28. júlí 2019.
  5. 5,0 5,1 Canoe inc. (22. júní 2011). „Aruba: the happy island“. Slam.canoe.ca. Afrit af uppruna á 13. apríl 2014. Sótt 15. júlí 2014.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.