Skrælingjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skrælingi)

Skrælingja nefndu norrænir menn á miðöldum þá þjóðflokka sem þeir hittu fyrir á þeim landsvæðum sem þeir nefndu Helluland, Markland og Vínland og síðar meir einnig á Grænlandi.

Orðið skrælingi hefur öðlast sjálfstæðan sess í íslensku sem fúkyrði eða niðurlægandi hugtak.

Skrælingjar á Hellulandi, Marklandi og Vínlandi[breyta | breyta frumkóða]

Fólksfluttningar á árunum 900 til 1500. Græni liturinn sýnir Dorset-fólk, blái Thule-inuíta, rauði norræna menn, guli Innu-indjána og appelsínugule Beothuk-indjána

Elstu ummæli um skrælingja eru úr Íslendingabók Ara fróða. Þar segir eftir að lýst hefur verið landnámi Eiríks rauða (orðrétt eftir elsta varðveitta handriti Íslendingabókar - AM 113 a fol. samkvæmt útgáfu Finns Jónssonar 1930): „Þeir fundo þar manna vister bæþi austr oc vestr á landi. oc kæipla brot oc steinsmiþi þat es af þvi má scilia at þar hafþi þess conar þióþ farit es Vinland hefir bygt oc Grœnlenndingar calla Scræliŋa. [1]“ (Sjá einnig [2]) Af þessu má skilja að Ari hefur gert ráð fyrir að lesendur hafi heyrt talað um skrælingja svo óþarfi sé að lýsa þeim nánar og einnig að norrænir menn hafi ekki fyrirhitt þá á Grænlandi. Fer það heim og saman við fundi fornleifafræðinga. Í Íslendingasögum koma þessir skrælingjar nokkrum sinnum við sögu. Meðal annars í Eiríks sögu rauða þar sem þeim er svo lýst: „Þeir váru svartir menn ok illiligir ok höfðu illt hár á höfði. Þeir váru mjök eygðir ok breiðir í kinnum. [3]“ Þeir koma einnig við sögu í Grænlendinga sögu og Grænlendingaþætti. Í þessum sögum er sagt bæði frá verslunarviðskiptum og blóðugum skærum norrænna manna og skrælingja. Margir, bæði fræðimenn og leikmenn, hafa reynt að lesa úr lýsingum þessum hvaða þjóðflokka hafi hér verið um að ræða og sýnist þar sitt hverjum.

Þrátt fyrir að fáar ritaðar heimildir séu til um samskipti yfir Davíðssund bendir fjöldi fornleifafunda til að þau hafi átt sér stað um langan tíma og kanski verið umfangsmikil. Við uppgröft á Bænum undir sandinum hafa meðal annars fundist hár af feldi brúnbjarnar (Ursus arctos) og vísunda (Bison bison) sem hafa sennilega borist þangað í verslunarviðskiptum við skrælingja.

Á þeim öldum sem byggð norrænna manna stóð á Grænlandi urðu talsverð menningarleg umskipti og tilflutningur fólks á Hellulandi, Marklandi og Vínlandi fyrir utan sjálft Grænland. En þeir þjóðflokkar sem sennilegast hafa átt samskipti við norræna Grænlendinga eru:

Dorset-menning. Dorset-fólk sem er forn heimskautamenning sem var forveri Thule-menningarinnar og nútíma Ínuíta. Dorset-fólk lifði á því svæði sem nú er austurhluti kanadíska heimskautasvæðisins og á Norður-Grænlandi á fyrstu öldum norræna landnámsins á Grænlandi, frá um það bil 1000 fram til 1200. Þetta fólk hafði ekki hunda og þar af leiðandi ekki hundasleða, þeir notuðu heldur ekki boga og örvar og því ósennilegt að þeir hafi verið skæðir norrænum könnuðum og veiðimönnum. Þeir lifðu í fámennum fjölskylduhópum og veiddu seli, ísbirni og rostunga (en ekki hvali) auk fisks, fugla, hreindýra og sauðnauta. Fundist hefur mikið af útskornum myndum af mönnum og dýrum frá þessu fólki. Ýmsir hlutir af norrænum uppruna, til dæmis trjábútar og járn af evrópskum uppruna og bútar af ofnu efni úr sauðarull, héra-, vísunda og geitarhári hafa fundist á bæjarstæðum Dorset-fólks við Hudson-flóa, á Baffins-eyju og á Norðvestur-Grænlandi. Að auki hafa fundist útskorin trélíkneski á Skrælingjaeyju sem hafa evrópskt andlitslag og klæðnað og eitt þeirra með krossmark framan á sér.

Thule-menning. Upp úr aldamótunum 1200 fer ný menning inuíta sem kennd er við Thule að breiðast út vestan frá Alaska og leggur undir sig norðurhluta núverandi Kanada og Grænland á skömmum tíma. Thule-inuítar voru mun betur búnir til bæði veiða og ferðalaga en Dorset-fólkið hafði verið. Þeir veiddu stórhveli og rostunga og notuðu hunda og hundasleða og bjuggu þar að auki oft í stærri samfélögum. Bogar þeirra hafa eflaust verið hættulegir í skærum við norræna keppinauta. Mikið af hlutum af norrænum uppruna hafa fundist hér og þar um allan austurhluta kanadíska heimskautasvæðisins og á Norður-Grænlandi á búsetusvæðum Thule-inuíta. Mætti því álíta að það sýni að miklu meiri samskipti hafi verið milli norrænna manna og Thule-inuíta en við Dorset-fólk. En sagnfræðingum og fornleifafræðingum ber ekki saman um hvernig beri að túlka þessa fundi. Sumir halda því fram að þetta sýni óefað að mikil samskipti hafi átt sér stað en aðrir halda því fram að megnið af þessum hlutum gæti hafa komið frá einu eða fleiri skipum norrænna manna sem hafi brotnað í ís.

Innu-indjánar. Ef Markland hefur verið það sem nú heitir Labrador hafa hinir norrænu Grænlendingar að öllum líkindum hitt fyrir Innu-indjána sem þar bjuggu. Engir hlutir af norrænum uppruna hafa fundist í fornum bústöðum þeirra. Hins vegar fannst örvaroddur úr steini við uppgröft á Sandnesi í Vestribyggð sem að öllum líkindum kom frá Labrador og var af þeirri gerð sem Innu-indjánar notuðu. Hvernig þessi örvaroddur barst til Grænlands er algjörlega óvíst. Innu-indjánar bjuggu í skinntjöldum og lifðu aðallega á því að veiða hreindýr og önur hjartardýr.

Beothuk-indjánar. Þeir bjuggu í fámennum fjölskylduhópum á eyju þeirri sem nú heitir Nýfundnaland. Þeir lifðu aðallega á sel- og hreindýraveiðum. Beothuk-indjánar máluðu sig gjarnan með rauðum lit og er hugtakið rauðskinni dregið af því.

Mikmaq-indjánar. Á þessum tima bjuggu þeir þar sem nú er Nova Scotia og New Brunswick í Kanada og í hluta af Quebec, og einnig þar sem nú er Maine í Bandaríkjunum. Þeir veiddu elgi, dádýr, hreindýr og birni auk þess að vera miklir fiskimenn. Aðallega var það lax, þorskur og skelfiskur sem þeir veiddu. Í fornum bústað Mikmaq-indjána í Penobscot Bay í Maine fannst silfurmynt slegin í Noregi á valdatíma Ólafs kyrra á síðari hluta 11. aldar. Með öllu er óvíst hvernig þessi peningur hefur borist þangað en flestir fræðimenn hallast að því að hann hafi fengist í vöruskiptaverslun við Dorset-fólk.

Skrælingjar á Grænlandi[breyta | breyta frumkóða]

Eins og að ofan er nefnt var engin byggð á sunnanverðu Grænlandi þegar norrænir menn hófu landnám sitt þar. Það var einungis við Smith-sund, nyrst á Grænlandi, sem Dorset-fólk hafði búsetu á þessum tíma. Það er með öllu óvíst hvenær norrænu Grænlendingarnir hittu fyrir aðra íbúa í landinu. Skælingjar á Grænlandi eru nefndir á ýmsum stöðum í bréfum og öðrum miðaldaheimildum. En enginn efi er á að samskipti voru mjög stopul fyrstu aldirnar.

Í ritinu Historia Norvegiae sem sennilega var skráð í upphafi 12. aldar segir: „Trans Viridenses ad aquilonem quidam homunciones á venatoribus reperiuntur, quos Scrælinga appellant“, það er að segja „Norðan við Grænlendingana hafa veiðimenn fundið nokkrar litlar mannverur, sem þeir kalla Skrælingja". Að öllum líkindum hafa þetta verið Dorset-menn og sennilegast hefur fundum borið saman mjög norðanlega á vesturströndinni og þetta er elsta heimildin um samskipti norrænna manna og skrælingja á Grænlandi.

Í Hauksbók, sem skráð var í upphafi 14. aldar, er sagt frá því að sumarið 1266 hafi menn komið úr Norðursetu sem hafi farið lengra norður en áður hafi verið farið en ekki fundið nein merki um skrælingja þar sem þeir hafi áður verið við Króksfjarðarheiði. Sendu þá prestar skip norður til að kanna það svæði sem lá norðan við hefðbundnar veiðislóðir í Norðursetu. Fundu leitarmenn spor eftir skrælingja en enga menn.

Ber þessu vel saman við fornleifafundi sem sýna að á 13. öld hurfu Dorset-menn frá Grænlandi, fyrst frá Diskó-flóa og síðan frá svæðinu í kringum Smith-sund. Samkvæmt fundum námu Thule-inuítar land við Smith-sund á seinni hluta 13. aldar og fluttust á næstu öldum suður vesturströndina og einnig norðaustur yfir.

Hafa þeir fljótlega farið að hitta á norræna menn í Norðursetu. Óvíst er hvers eðlis þau kynni voru, engar frásagnir eru um verslunarviðskipti þó svo að þau hafi getað átt sér stað en allnokkrar frásagnir um skærur. Samkvæmt frásögu Ívars Bárðarsonar eru skrælingjar sestir að í Vestribyggð um miðja 14. öld. Þegar norrænir menn yfirgefa Grænland á seinnihluta 15. aldar búa skrælingjar meðfram allri strandlengjunni og eru einu íbúar landsins.

Skrælingjar í nútímaíslensku[breyta | breyta frumkóða]

Á nútímaíslensku hefur orðið skrælingi einungis niðurlægjandi merkingu sem samheiti við barbari, ósiðmenntaður maður eða villimaður. Sennilega hefur orðið fljótlega fengið merkinguna maður af ósiðmenntaðri þjóð eða þjóðflokki. Eru til um það heimildir allt frá miðja 18. öld.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Orðið skrælingi er hvergi þekkt úr miðaldaritum nema í samband við Grænland og ferðir Grænlendinga hinna fornu. Því má áætla að þeir hafi skapað þetta orð og er það sennilega það eina sem hefur varðveist af þeirri grænlensku mállýsku eða máli sem þeir hljóta að hafa skapað á þeim nærri 500 árum sem þeir bjuggu í landinu (ritað í Íslendingabók á Íslandi, löngu fyrir lok búsetu á Grænlandi).

Sennilegast á orðið uppruna í skrá, sem í fornnorrænu (og íslensku) þýddi þurrt skorpið skinn og sögninskrá í merkingunni að rita er einnig tengd þessu orði. Orðið skræða sem haft er um um bók er skylt nafnorðinu skrá sem og hákarlaskrápur. Grænlendingar hinir fornu gengu bæði í vaðmálsklæðum (samanber fatafundi á Herjólfsnesi) en sem hlífðarfatnað höfðu þeir skinnklæði, eins og skrælingjaþjóðir þær sem að ofan eru nefndar og Íslendingar til sjós.

Tilgátur hafa verið um að orði skrælingi sé dregið af orðinu skral sem til er í dönsku, norsku og sænsku og þýðir aumingjalegur eða við slæma heilsu. Nútíma málvísindamenn hafa sýnt fram á að það getur ekki verið vegna þessa að það orð berst inn í dönsku (og þaðan í norsku) og sænsku á 17. öld úr lágþýsku og virðist vera óþekkt í norrænu miðaldamáli.

Bæta má við að grænlenska orðið Kalaalleq, sem nútíma Grænlendingar kalla sjálfa sig á sínu máli, er sennilega dregið af orðinu skrælingi (eða klæði). Það er alla vega ekki af inuítauppruna og hefur enga þýðingu í sjálfu sér.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]