Inuit Ataqatigiit

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Samfélag fólksins
Inuit Ataqatigiit
Formaður Múte B. Egede
Stofnár 1976; fyrir 48 árum (1976)
Höfuðstöðvar Nuuk, Grænlandi
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Sjálfstæði Grænlands, jafnaðarstefna, vinstriþjóðernishyggja
Einkennislitur Rauður og hvítur  
Landsþing Grænlands (Inatsisartut)
Danska þingið (grænlensk sæti)
Vefsíða ia.gl/

Inuit Ataqatigiit (íslenska: Samfélag fólksins), oft skammstafað IA, er vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur sem berst fyrir sjálfstæði Grænlands. Hann var stofnaður sem laustengd stjórnmálahreyfing árið 1976, en varð að formlegum stjórnmálaflokki tveimur árum síðar. Auk þess að berjast fyrir pólitísku sjálfstæði, leggur flokkurinn áherslu á umhverfisvernd. Formaður IA er Múte B. Egede og fulltrúi flokksins á danska þinginu er Aaja Chemnitz Larsen.

Saga og stefna[breyta | breyta frumkóða]

Inuit Ataqatigiit var stofnað í róttæknibylgju ungs fólks á áttunda áratugnum og hefur alla tíð verið staðsett lengst til vinstri á hinu pólitíska litrófi grænlenskra stjórnmála. Í fyrstu kosningum sínum til grænlenska þingsins árið 1979 hlaut flokkurinn innan við 5% atkvæða og engan fulltrúa. Á níunda áratugnum óx flokkurinn jafnt og þétt og naut þess líklega að flokksmenn voru áberandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 1982 þar sem Grænlendingar ákváðu að segja skilið við Efnahagsbandalag Evrópu.

Frá 1991 til 2005 fékk flokkurinn á bilinu 19-25% í kosningum og árið 2001 fékk IA í fyrsta sinn annan af tveimur fulltrúum Grænlands á danska þinginu. Eftir kosningarnar 2002 mynduðu IA og Siumut saman ríkisstjórn og eftir kosningarnar 2005 bættist þriðji flokkurinn, Atassut, við stjórnina. Upp úr samstarfinu slitnaði árið 2007 þegar IA sagði sig úr stjórninni vegna deilna um sjávarútvegsmál. Í kosningunum tveimur árum síðar vann IA sinn mesta sigur í sögunni, fékk 43,7% atkvæða og 14 af 31 þingsæti. Leiddi IA ríkisstjórnina það kjörtímabil með stuðningi smáflokka.

Ekki tókst að fylgja þessum árangri eftir í næstu kosningum, 2013, 2014 og 2018. Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut hefur leitt ríkisstjórnir eftir allar þessar kosningar en IA ýmist komið að samsteypustjórnum eða verið stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Í þingkosningum 6. apríl 2021 vann flokkurinn mikinn sigur, náði sínum næstbesta árangri í sögunni, 37,4% og hlaut 12 af 31 þingmanni á grænlenska þinginu og myndaði í kjölfarið ríkisstjórn.

Í fimm af síðustu sex kosningum (2001-2019) hefur IA fengið flest atkvæði í kosningunum til danska þingsins.

Stjórn (janúar 2017)[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]