Martinique
Martinique | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: La Marseillaise | |
Höfuðborg | Fort-de-France |
Opinbert tungumál | franska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Emmanuel Macron |
Héraðsforseti | Serge Letchimy |
Franskt handanhafshérað | |
• Nýlenda | 1635 |
• Handanhafshérað | 1946 |
Flatarmál • Samtals |
1.128 km² |
Mannfjöldi • Samtals (2024) • Þéttleiki byggðar |
349.925 354/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2022 |
• Samtals | 9,9 millj. dala |
• Á mann | 28.265 dalir |
Gjaldmiðill | evra |
Tímabelti | UTC-4 |
Þjóðarlén | .mq |
Landsnúmer | +596 |
Martinique (frönsk antilleyska: Matinik eða Matnik; kalinago: Madinina eða Madiana) er eyja í austanverðu Karíbahafi. Eyjan er hluti af Litlu-Antillaeyjum í Vestur Indíum, norðan við Sankti Lúsíu og sunnan við Dóminíku. Eyjan er eitt af handanhafshéruðum Frakklands.
Eyjan varð frönsk nýlenda árið 1635. Frakkar ráku frumbyggja eyjarinnar burt árið 1660 og fluttu inn þræla frá Afríku til að vinna þar á plantekrum. Joséphine de Beauharnais, kona Napóleons fæddist á Martinique árið 1763. Hún var dóttir franskra plantekrueigenda. Upphaflega var höfuðborg eyjarinnar Saint-Pierre en bærinn eyðilagðist þegar eldfjallið Mont Pelée gaus 1902 með þeim afleiðingum að 30.000 íbúar létust. Eftir það var höfuðborgin flutt til Fort-de-France.
Martinique er um 1100 km2 að stærð og íbúar voru um 350 þúsund árið 2024.[1] Margir íbúar tala franska antilleysku þótt franska sé opinbert tungumál. Líkt og önnur héruð Frakklands er Martinique hluti af Evrópusambandinu og notar evru sem gjaldmiðil. Eyjan er samt ekki hluti af Schengen-svæðinu eða Tollabandalagi Evrópu. Eyjan á áheyrnarfulltrúa hjá CARICOM.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Heiti eyjunnar á frönsku, Martinique, er dregið af taínósku heiti hennar, Madiana/Madinina, sem merkir „blómaeyja“, eða Matinino, „kvennaeyja“, samkvæmt Kólumbusi sem sigldi til eyjarinnar árið 1502.[2] Samkvæmt sagnfræðingnum Sydney Daney nefndu Karíbar eyjuna Jouanacaëra eða Wanakaera sem merkir „kembueyja“.[3]
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Martinique er hluti af Antillaeyjum á mörkum Karíbahafs og Atlantshafs. Eyjan er um 450 km norðaustan við strönd Suður-Ameríku og um 700 km suðaustan við Dóminíska lýðveldið. Eyjan er norðan við Sankti Lúsíu, norðvestan við Barbados, og sunnan við Dóminíku.
Martinique er alls 1.128 km2 að stærð og þar af eru 40 km2 vatn.[2] Eyjan er sú þriðja stærsta af Litlu-Antillaeyjum, á eftir Trínidad og Guadeloupe. Hún er 70 km á lengd og 30 km á breidd. Hæsti tindur eyjarinnar er Pelée-fjall, 1.397 metrar yfir sjávarmáli. Við austurströndina er fjöldi smáeyja.
Atlantshafsströndin (kulborðsströndin) á Martinique er erfið aðkomu fyrir skip. Þar eru klettóttar strendur, kóralrif og sandrif sem gera þennan hluta hættulegan fyrir siglingar. Caravelle-skagi skiptir á milli suðurstrandarinnar og norðurstrandarinnar Atlantshafsmegin.
Karíbahafsströndin (hléborðsmegin) er auðveldari fyrir skipaumferð. Eyjan skýlir ströndinni fyrir staðvindum í Atlantshafi og ströndin dýpkar snögglega þegar komið er frá landi. Þetta kemur í veg fyrir vöxt kóralla.
Norðurhluti eyjarinnar er mjög fjalllendur. Þar eru fjögur pitons (eldfjöll) og mornes (fjöll): Piton Conil, sem rís yfir Dóminíkusundi í norðri; virka eldfjallið Pelée-fjall; Morne Jacob; og Pitons du Carbet, fimm útdauð eldfjöll þakin regnskógi sem rísa í 1.196 metra hæð yfir víkina við Fort de France. Eldfjallaaska úr Pelée-fjalli hefur skapað gráar og svartar strendur í norðrinu (sérstaklega milli Anse Ceron og Anse des Gallets), gerólíkar hvítum sandinum við Les Salines í suðrinu.
Suðrið er auðveldara yfirferðar þótt þar séu líka áhugaverðir landslagsþættir. Vegna þess að það er láglendara og með margar strendur, er ferðaþjónusta mest í suðurhlutanum. Strendurnar frá Pointe de Bout suður að Les Salines eru vinsælar.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Martinique skiptist í fjögur sýsluhverfi (arrondissements) og 34 sveitarfélög (communes). 45 kantónur voru lagðar niður árið 2015. Hverfin eru:
- Fort-de-France er eina lögsagnarumdæmið á Martinique. Það nær yfir miðhluta eyjarinnar. Þar eru fjögur sveitarfélög. Árið 2021 var íbúafjöldi þar 150.038.[4] Fyrir utan höfuðborgina eru þar bæirnir Saint-Joseph og Schœlcher.
- La Trinité er eitt af þremur undirumdæmum á eyjunni og nær yfir norðausturhlutann. Þar eru 10 sveitarfélög. Árið 2021 voru íbúar 73.291.[4] La Trinité nær yfir bæina La Trinité, Ajoupa-Bouillon, Basse-Pointe, Le Gros-Morne, Le Lorrain, Macouba, Le Marigot, Le Robert og Sainte-Marie.
- Le Marin, annað undirumdæmið á Martinique, nær yfir suðurhluta eyjarinnar. Þar eru 12 sveitarfélög. Árið 2021 voru íbúar 115.068.[4] Umdæmið nær yfir bæina Le Marin, Les Anses d'Arlet, Le Diamant, Ducos, Le François, Rivière-Pilote, Rivière-Salée, Sainte-Anne, Sainte-Luce, Saint-Esprit, Les Trois-Îlets og Le Vauclin.
- Saint-Pierre er þriðja undirumdæmið. Þar eru 8 sveitarfélög, á norðvesturhluta eyjarinnar. Árið 2021 voru íbúar 22.352.[4] Ásamt Saint-Pierre eru þar bæirnir Le Carbet, Case-Pilote-Bellefontaine, Le Morne-Rouge og Le Prêcheur.
Efnahagslíf
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2014 var verg landsframleiðsla á Martinique 8,4 milljarðar evra. Efnahagslíf eyjarinnar er að miklu leyti háð ferðaþjónustu, takmörkuðum landbúnaði, og fjárframlögum frá franska ríkinu.[2]
Sögulega séð byggðist efnahagur Martinique á landbúnaði, sérstaklega sykri og banönum, en við upphaf 21. aldar hafði þessi iðnaður dregist verulega saman. Sykurframleiðslan hefur minnkað og mest af sykurreyrnum er nú notaður í framleiðslu á rommi.[2] Bananaútflutningur hefur aukist og fer að mestu til Frakklands. Skordýraeitrið klórdekón sem var notað í bananaræktuninni áður en það var bannað árið 1993, reyndist hafa mengað ræktarlönd, ár og fiska, og haft áhrif á heilsu íbúanna. Afleiðingarnar voru að bæði fiskveiðar og landbúnaður voru lögð niður á menguðum svæðum með miklum neikvæðum áhrifum fyrir efnahaginn.[5] Megnið af því kjöti, grænmeti og korni sem eyjarskeggjar þurfa er innflutt. Þetta veldur neikvæðum viðskiptajöfnuði sem kallar á há fjárframlög frá franska ríkinu árlega.[2]
Allar vörur sem fluttar eru inn til Martinique bera „sjótoll“ sem getur verið allt að 30% af virði farmsins og stendur undir 40% af tekjum eyjarinnar. Auk þess innheimtir stjórnin 1-2,5% „árgjald“ og 2,2-8,5% virðisaukaskatt.[6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Estimation de population par région, sexe et grande classe d'âge – Années 1975 à 2024“ (franska). Afrit af uppruna á 19. janúar 2024. Sótt 17. janúar 2024.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 „Encyclopedia Britannica- Martinique“. Sótt 10. júlí 2019.
- ↑ „Martinique (English)“. French II. Sótt 21. september 2020.
- ↑ 4,0 4,1 4,2 4,3 „Populations légales 2021: 972 Martinique“ (PDF). INSEE. desember 2023.
- ↑ „Pesticide poisoned French paradise islands in Caribbean“. BBC News (bresk enska). 24. október 2019. Afrit af uppruna á 22. janúar 2021. Sótt 4. janúar 2021.
- ↑ Informations Economie Martinique, afrit af upprunalegu geymt þann 28. maí 2007, sótt 15. september 2013