Grænlenska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kalaallisut
Kalaallisut
Málsvæði Grænland (Danmörk)
Heimshluti Norður-Ameríka
Fjöldi málhafa um það bil 50 þúsund
Sæti Ekki meðal 100 efstu
Ætt Eskimó-aleútískt

 Inúítamál

Skrifletur Grænlenska stafrófið
Opinber staða
Opinbert
tungumál
Grænland (Danmörk)
Stýrt af Oqaasileriffik
Tungumálakóðar
ISO 639-1 kl
ISO 639-2 kal
ISO 639-3 kal
SIL KAL
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.

Grænlenska (kalaallit oqaasii eða kalaallisut) er Inúítamál af eskimó-aleútísku málaættinni sem töluð er á Grænlandi og er náskylt þeim málum sem Inúítar tala í Kanada og Bandaríska fylkinu Alaska. Um það bil 50.000 manns tala grænlensku en hluti þeirra er tvítyngdur og talar dönsku sem annað mál. Mælendur grænlensku eru þar með fleiri en mælendur allra annarra eskimó-aleútískra mála samanlagt.

Saga Grænlands hefur verið rannsökuð lengi og málvísindamenn og fornleifafræðingar eru nú á þeirri skoðun að forfeður núverandi Grænlendinga (burtséð frá evrópskum innflytjendum) hafi flust til landsins í fjórum lotum. Fólkið, sem settist þar að, var í öllum tilvikum Thule-inuítar. Mállýskurnar í grænlensku endurspegla á vissan hátt þessar lotur.

Stöðluð grænlenska sem nú er notuð í fjölmiðlum, skólum og opinberu samhengi hefur þróast aðallega úr miðvesturgrænlenska mállýskusvæðinu. Þar er höfuðborgin Nuuk, sem áður var kölluð á dönsku Godthåb. Grundvöllurinn að grænlenskri bókmenntahefð var lagður þar á árunum um 1860.

Þróun ritmáls[breyta | breyta frumkóða]

Þróun ritmáls á grænlensku á sér stutta sögu enda höfðu inuítar þar ekkert eigið ritmál fremur en aðrir inuítar fyrir komu evrópumanna til Grænlands í annað sinn. Fyrstu skipulögðu tilraunina til að skrifa grænlensku gerði Hans Egede (1680-1758) og meðhjálpara hans Albert Topp en árið 1728 gerðu þeir tilraun til þess að þýða sköpunarsögu Biblíunar. Sonur Hans Egedes, Poul Egede (1708-1789), gaf út orðabók á grænlensku, dönsku og latínu. Grundvöllur að fyrstu kerfisbundnu stafsetningunni lagði hins vegar mótmælendatrúboðinn, herrnhutarinn Samuel Kleinschmidt (1814-1886) árið 1851. Kleinschmidt var hljóðfræðingur sem bjó til grænlenska stafsetningu sem varðveitti form stofna og viðskeyta á líkan hátt í öllum samsetningum. Málið varð þess vegna auðvelt í lestri en stafsetningin erfið vegna þess að það voru engin augljós tengsl á milli hljóðs og ritunar. Framburður viðskeytanna fer nefnilega eftir umhverfinu. Stafsetning Kleinschmidts kom að góðum notum við þýðingu Biblíunnar en til þess varð að þróa grænlenskan orðaforða á fleiri sviðum, t.d. hugtök um samfélagstengsl, tegundir náttúru og siðfræðihugtök sem höfðu ekki verið áður til í grænlensku.

Réttritun Kleinschmidts var notuð fram til 1973 þegar tekin var upp ný hljóðfræðistafsetning sem auðveldaði ritun grænlensku mikið vegna þess að ritmálið endurspeglar nú að mestu framburðinn. Sjá grein um grænlenska stafrófið.

Grænlenskar mállýskur[breyta | breyta frumkóða]

Í grænlensku eru þrjár meginmállýskur: avanersuaq (nyrsti hluti Grænlands), tunu (Austur-Grænland) og kitaa (Vestur-Grænland). Innan þessara meginsvæða eru allmargar undirmállýskur, sérstaklega á það við um vesturgrænlensku. Þrátt fyrir að mállýskur ystu mállýskusvæðanna séu ekki beinlínis gagnkvæmt skiljanlegar er uppbygging tungumálsins á öllu svæðinu eins.

Nokkur einkenni grænlensku[breyta | breyta frumkóða]

Grænlenska, kalaallisut, er mjög greinilega frábrugðin indóevrópskum málum. Í þeim málum eru yfirleitt einn eða fáir stofnar í hverju orði (eins og t.d. skólabók sem er samsett af stofnunum skóli + bók) en í kalaallisut eru oftast margir stofnar í einu orði. Það hefur í för með sér að orðin eru löng og flókin. Tungumál þar sem stofnar eru límdir saman eru kölluð viðskeytamál.

Sérhvert orð getur tekið við næstum óendanlega mörgum myndum ummæla eða orðatiltækja. Viðskeytin geta stigbreyst, sýnt blæbrigði, tíma, staðfest eða hrakið o.s.frv. Það hefur stofn, mörg viðskeyti og persónuendingu. En einnig er hægt að tengja endingar við stofna og láta þar með í ljós ákveðið fall.

Fleirtala er mynduð með -t, þannig er inúit fleirtala af inúk sem merkir maður.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu