Bermúda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Bermuda
Fáni Bermúda Skjaldarmerki Bermúda
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Quo Fata Ferunt
(latína: Hvert sem örlagadísirnar bera okkur)
Þjóðsöngur:
God Save the Queen
Staðsetning Bermúda
Höfuðborg Hamilton
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning Elísabet 2.
Landstjóri John Rankin
Forsætisráðherra E. David Burt
Bresk hjálenda
 - Landnám 1609 
Flatarmál
 - Samtals

53,2 km²
Mannfjöldi
 - Samtals (2018)
 - Þéttleiki byggðar

71.176
1.338/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 - Samtals 5,47 millj. dala (161. sæti)
 - Á mann 102.192 dalir (4. sæti)
VÞL (2013) Increase2.svg 0.981
Gjaldmiðill bermúdadalur
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .bm
Landsnúmer +1-441

Bermúda (eða Bermúdaeyjar) er breskt yfirráðasvæði í Atlantshafi austan við strönd Bandaríkjanna, um 1.070 km austan við Hatterashöfða í Norður-Karólínu. Þær eru skattaskjól. Eyjarnar voru uppgötvaðar snemma á 16. öld, en búseta hófst þar ekki fyrr en skipið Sea Venture strandaði þar árið 1609. Þessi atburður gæti hafa orðið William Shakespeare innblástur að leikritinu Ofviðrið.

Fyrsti Evrópubúinn sem sá eyjarnar var spænski skipstjórinn Juan de Bermúdez árið 1503 og draga eyjarnar nafn sitt af honum. Hann gerði tilkall til eyjanna, sem þá voru óbyggðar, fyrir hönd Spænska heimsveldisins. Bermúdez heimsótti eyjarnar tvisvar og gerði kort af eyjaklasanum en steig aldrei á land. Portúgalskir skipbrotsmenn eru taldir hafa skilið eftir sig áletrun á steini frá 1543 og evrópskir sjómenn slepptu þar lausum svínum til að nota sem vistir. Þau fjölguðu sér mikið og voru orðin villt þegar landnám Evrópubúa hófst. Árið 1609 hóf Virginíufélagið landnám á eyjunum eftir að fellibylur neyddi skipverja skipsins Sea Venture til að stranda því á rifi við eyjarnar til að koma í veg fyrir að það sykki.

Stjórn eyjanna var í höndum nýlendustjórnar Virginíu til 1613. Tveimur árum síðar tók Somerseyjafélagið við og stjórnaði nýlendunni til 1684. Þá var leyfi félagsins afturkallað og enska krúnan tók við. Eyjarnar urðu bresk nýlenda eftir sambandslögin 1707. Þegar Nýfundnaland varð hluti af Kanada árið 1949 varð Bermúda elsta nýlenda Breta og eftir að Alþýðulýðveldið Kína tók við stjórn Hong Kong er hún líka fjölmennasta nýlenda Breta. Fyrsta höfuðborg eyjanna, St. George's, var stofnuð árið 1612 og er þar elsta samfellda byggð Breta í Nýja heiminum.

Efnahagur Bermúda byggist á aflandsfjármálaþjónustu, tryggingum og ferðaþjónustu. Mestan hluta 20. aldar var landsframleiðsla Bermúda með því mesta sem gerðist í heiminum en alþjóðlega fjármálakreppan 2007-8 olli niðursveiflu. Loftslag á Bermúda er heittemprað. Bermúda er við norðurhorn Bermúdaþríhyrningsins. Eyjarnar eru í fellibyljabeltinu en njóta nokkurs skjóls af kóralrifi sem umkringir þær.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Bermúda dregur nafn sitt af spænska sæfaranum Juan de Bermúdez sem uppgötvaði eyjarnar 1505.

Nafnið kemur einna fyrst fyrir í enskum textum í leikriti William Shakespeare, Ofviðrið, sem er innblásið af strandi skipsins Sea Venture, þótt það gerist ekki á eyjunum.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Bermúda liggur á nokkrum eldfjöllum við vesturmörk Þanghafsins í Atlantshafi, um 578 sjómílur aust-suðaustur af Hatterashöfða á Ytribanka Norður-Karólínu í Bandaríkjunum sem er næsta meginland.

Þótt Bermúda sé í eintölu eru eyjarnar 181 talsins, samtals 53,3 km² að flatarmáli. Stærsta eyjan er Main Island, sem stundum er kölluð Bermúda. Átta af stærri byggðu eyjunum eru tengdar saman með vegbrúm. Eyjarnar eru láglendar. Hæsti punktur þeirra er Town Hill á Main Island, 79 metrar yfir sjávarmáli.

Nokkur heiti á eyjum koma fyrir oftar en einu sinni í eyjaklasanum. Þannig eru tvær eyjar sem heita Long Island, þrjár víkur heita Long Bay og tvær heita Horsehoe Bay, tveir vegir sem liggja gegnum skörð heita Khyber Pass og tveir St. George's Town eru á Georgseyju í St. George's-sókn.

Bermúdaþríhyrningurinn dregur nafn sitt af Bermúda. Þar á samkvæmt goðsögninni að hafa orðið óvenjumikið af flugslysum og skipstöpum við dularfullar kringumstæður.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Bermúda er bresk hjálenda og framkvæmdavaldið er í höndum Bretadrottningar, Elísabetar 2., en landstjóri fer með það fyrir hennar hönd á eyjunum. Landstjóri Bermúda er skipaður af drottningu að ráði ríkisstjórnar Bretlands. John Rankin hefur verið landstjóri frá 5. desember 2016. Varalandstjóri er staðgengill landstjóra. Utanríkis- og varnarmál eru í höndum Bretlands, sem ber líka ábyrgð á því að eyjunum sé stjórnað í samræmi við góða stjórnsýslu. Allar breytingar á stjórnarskrá Bermúda þurfa að fá samþykki bresku stjórnarinnar. Bermúda er elsta hjálenda Bretlands með heimastjórn. Eyjarnar fengu takmarkaða sjálfstjórn með konunglegri yfirlýsingu árið 1620. Þing Bermúda er það fimmta elsta í heimi, á eftir Englandsþingi, Tynwald á Mön, Alþingi Íslendinga og Sejm í Póllandi.

Stjórnarskrá Bermúda tók gildi árið 1968 og hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan. Forsætisráðherra Bermúda er stjórnarleiðtogi sem tilnefnir stjórnarmeðlimi sem landstjórinn skipar formlega í embætti. Löggjafarvaldið er í höndum þings sem situr í tveimur deildum, samkvæmt Westminster-kerfinu, með 11 manna öldungadeild sem skipuð er af forsætisráðherra, landstjóra og leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og 36 manna fulltrúadeild sem er kosin til fimm ára með almennri leynilegri kosningu í einmenningskjördæmum.

Kosningar eru boðaðar á minnst fimm ára fresti. Síðast fóru kosningar fram árið 2017. Þá tók Framsækni verkamannaflokkurinn við völdum og Edward David Burt tók við embætti forsætisráðherra af Michael Dunkley frá Bermúdabandalaginu. Þetta voru einu tveir flokkarnir sem buðu fram.

Fá ríki eru með sendifulltrúa á Bermúda. Bandaríkin reka sendiráð á eyjunum auk þess að reka þjónustu Landamæraeftirlits Bandaríkjanna á L.F. Wade-alþjóðaflugvellinum. Bandaríkin eru helsta viðskiptaþjóð Bermúda. Þaðan koma 71% af innflutningi eyjanna, 85% af ferðamönnum og áætlaðar 163 milljónir dala í viðskiptum með tryggingar. Um 5% íbúa Bermúda eru bandarískir ríkisborgarar, eða 14% íbúa af erlendum uppruna.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Sóknir á Bermúda

Bermúda er skipt í níu sóknir og tvö sameinuð sveitarfélög.

Sameinuðu sveitarfélögin eru:

Tvö óformleg þorp eru á Bermúda:

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.