Fara í innihald

Pólland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Rzeczpospolita Polska)
Lýðveldið Pólland
Rzeczpospolita Polska
Fáni Póllands Skjaldarmerki Póllands
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Mazurek Dąbrowskiego
Staðsetning Póllands
Höfuðborg Varsjá
Opinbert tungumál pólska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Andrzej Duda
Forsætisráðherra Donald Tusk
Stofnun
 • Kristnitakan 14. apríl 966 
 • Konungsríkið Pólland 1. maí 992 
 • Pólsk-litáíska samveldið 1. júlí 1569 
 • Skiptingar Póllands 24. október 1795 
 • Hertogadæmið Varsjá 22. júlí 1807 
 • Sameining Póllands 11. nóvember 1918 
 • Innrásin í Pólland 1. september 1939 
 • Alþýðulýðveldið Pólland 8. apríl 1945 
 • Lýðveldið Pólland 13. september 1989 
Evrópusambandsaðild 2004
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
69. sæti
312.696 km²
1,48
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
38. sæti
38.268.000
123/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 1.363 millj. dala (19. sæti)
 • Á mann 35.957 dalir (39. sæti)
VÞL (2019) 0.880 (35. sæti)
Gjaldmiðill Pólskt slot (zł) (PLN)
Tímabelti UTC+1 (UTC+2 á sumrin)
Þjóðarlén .pl
Landsnúmer +48

Pólland (pólska: Polska), formlega Lýðveldið Pólland, er land í Mið-Evrópu. Það á landamæri að Þýskalandi í vestri, Tékklandi og Slóvakíu í suðri, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Litáen í austri og Rússlandi (Kalíníngrad) í norðri.[1] Landið á strönd að Eystrasalti og renna þar árnar Odra og Visla í sjó. Pólland er landfræðilega fjölbreytt land sem nær að Súdetalandi og Karpatafjöllum í suðri. Pólland er 312.679 ferkílómetrar að flatarmáli og er níunda stærsta land Evrópu. Íbúar Póllands eru rúmlega 38 milljónir og það er sjötta fjölmennasta ríki Evrópusambandsins. Varsjá er höfuðborg landsins og stærsta borgin. Aðrar helstu borgir Póllands eru Kraká, Łódź, Wrocław, Poznań, Gdańsk og Szczecin.

Saga Póllands nær þúsundir ára aftur í tímann. Á síðfornöld settust ýmsir þjóðflokkar og ættbálkar að á Norður-Evrópusléttunni. Vestur-Pólanar lögðu hluta svæðisins undir sig og landið dregur nafn sitt af þeim. Stofnun ríkis í Póllandi má rekja til ársins 966 þegar Mieszko 1., fursti yfir landsvæði sem samsvarar nokkurn veginn núverandi ríki, tók kristni og snerist til rómversk-kaþólskrar trúar. Konungsríkið Pólland var stofnað árið 1025 og árið 1569 gekk það í konungssamband við Stórhertogadæmið Litáen með Lublinsamningnum. Pólsk-litáíska samveldið var eitt af stærstu og fjölmennustu ríkjum Evrópu á 16. og 17. öld með einstaklega frjálslynt stjórnkerfi sem tók upp fyrstu stjórnarskrá Evrópu.[2][3][4]

Pólska gullöldin leið undir lok við skiptingar Póllands af hálfu nágrannaríkja undir lok 18. aldar. Landið fékk aftur sjálfstæði þegar Annað pólska lýðveldið var stofnað eftir Versalasamningana 1918. Eftir röð átaka um yfirráðasvæði komst Pólland til áhrifa í evrópskum stjórnmálum á ný. Síðari heimsstyrjöldin hófst með innrás Þjóðverja í Pólland og síðan innrás Sovétríkjanna í kjölfarið, samkvæmt Molotov-Ribbentrop-sáttmálanum milli ríkjanna. Um sex milljón Pólverjar, þar á meðal þrjár milljónir gyðinga, týndu lífinu í styrjöldinni.[5] Eftir stríðið varð Pólland hluti af Austurblokkinni og Pólska alþýðulýðveldið var stofnað. Landið var einn af stofnaðilum Varsjárbandalagsins í Kalda stríðinu. Árið 1989 hófust mótmæli gegn kommúnistastjórninni og verkföll verkalýðsfélaga Samstöðu. Stjórn Sameinaða pólska verkamannaflokksins féll og Póllandi var breytt úr flokksræði í forsetaþingræði.

Pólland er með þróað markaðshagkerfi[6] og telst til miðvelda. Hagkerfi Póllands er það sjötta stærsta í Evrópusambandinu að nafnvirði og það fimmta stærsta kaupmáttarjafnað.[7] Póllandi situr hátt á lista yfir lönd eftir lífsgæðum, og skorar hátt fyrir öryggi[8] og viðskiptafrelsi.[9][10] Háskólamenntun og heilbrigðisþjónusta eru opinber og gjaldfrjáls.[11][12] Pólland á aðild að Schengen-svæðinu, Evrópusambandinu, Evrópska efnahagssvæðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, Sameinuðu þjóðunum, Höfunum þremur, Visegrád-hópnum og NATO.

Á pólsku heitir landið Polska.[13] Nafnið er dregið af heiti Pólana, vesturslavnesks þjóðarbrots sem bjó við Warta-á frá 6. til 8. aldar.[14] Heiti þjóðarbrotsins er dregið af frumslavneska orðinu pole sem merkir „akur“ og er dregið af frumindóevrópska orðinu *pleh₂- „flatlendi“.[15] Orðið vísar til landfræði svæðisins og flatlendrar sléttunnar í Póllandi hinu meira.[16][17]

Landið hét áður fyrr Pólínaland og íbúar þess Pólínar á íslensku, en frá miðri 19. öld var farið að notast við orðmyndina Pólland. Nafn landsins var þýtt sem „Sléttumannaland“ í 4. hefti Fjölnis.[18] Latneska heitið Polonia var almennt notað í Evrópu á miðöldum.[19]

Annað fornt norrænt heiti á íbúum landsins er Læsir, dregið af forna heitinu Lechia sem er uppruni heitis Póllands á ungversku, litáísku og persnesku.[20] Nafnið er dregið af sagnkonungnum Lech sem átti að hafa stofnað ríki í Póllandi hinu minna.[21][22] Orðið er skylt fornpólska orðinu lęda „slétta“.[23] Bæði nöfnin Lechia og Polonia voru notuð af sagnariturum á miðöldum.[24]

Forsögulegur tími

[breyta | breyta frumkóða]

Elstu merki um mannabyggð (Homo erectus) á svæðinu eru um það bil 500.000 ára gömul, en ísaldir sem fylgdu í kjölfarið hafa gert varanlega byggð ómögulega.[25] Vísbendingar eru um að hópar neanderdalsmanna hafi hafst við í suðurhéruðum Póllands á Eem-hlýskeiðinu (128.000-115.000 f.o.t.) og næstu árþúsund.[26] Koma nútímamanna fór saman við lok síðustu ísaldar (10.000 f.Kr.) þegar Pólland varð byggilegt.[27] Minjar frá nýsteinöld sýna umtalsverða þróun mannabyggða á svæðinu; elstu dæmi um ostagerð í Evrópu (5500 f.Kr.) fundust í Kujavíu,[28] og Bronicice-potturinn er grafinn með mynstri sem gæti verið elstu þekktu myndir af hjóli (3400 f.Kr.).[29]

Bronsöld hófst í Póllandi um 2400 f.Kr. en járnöld hófst um 750 f.Kr.[30] Á þessum tíma varð Lúsatíumenningin, sem nær frá bronsöld til járnaldar, áberandi á svæðinu. Frægasti fornleifafundur frá forsögulegum tíma í Póllandi er víggirta byggðin í Biskupin (endurbyggð sem útisafn), sem er frá Lúsatíumenningunni á síðbronsöld, um 748 f.Kr.[31]

Mörg aðskilin menningarsamfélög settust að á svæðinu á klassískri fornöld, sérstaklega Keltar, Skýþar, Germanar, Sarmatar, Slavar og Eystrasaltsbúar.[32] Fornleifarannsóknir hafa auk þess staðfest að rómverskar herdeildir hafi komið til svæðisins.[33] Þetta hafa líklega verið könnunarsveitir sendar til að verja flutninga rafs um Rafleiðina. Pólskir ættbálkar komu fram á þjóðflutningatímabilinu um miðja 6. öld.[34] Þetta voru aðallega Vestur-Slavar og Lekítar að uppruna, en blönduðust öðrum hópum sem búið höfðu á svæðinu í þúsundir ára.[35] Elstu ættbálkasamfélögin gætu tengst Wielbark-menningunni og Przeworsk-menningunni.[36][37]

Pólland undir stjórn Mieszko 1., en kristnun hans markar upphaf ríkis í Póllandi árið 966.

Ríki tók að myndast í Póllandi um miðja 10. öld þegar Piast-ætt barðist til valda.[38] Árið 966 tók Mieszko 1. kristni og gerði að ríkistrú.[39] Bréf um hann frá um 1080 sem ber titilinn Dagome iudex skilgreinir landamæri Póllands, segir höfuðborgina vera Gniezno og staðfestir að konungur landsins sé undir verndarvæng Páfadóms.[40] Saga Póllands var fyrst sögð af sagnaritaranum Gallus Anonymus í ritinu Gesta principum Polonorum.[41] Mikilvægur atburður á miðöldum var þegar Aðalbert af Prag var myrtur af heiðingjum árið 997 og líkamsleifar hans keyptar fyrir þyngd þeirra í gulli af eftirmanni Mieszkos, Bolesław 1.[40]

Árið 1000 lagði Bolesław grunninn að því sem síðar varð sjálfstætt konungsríki. Hann fékk skrýðingarleyfi frá Ottó 3. keisara sem samþykkti stofnun biskupsdæma.[40] Fyrstu pólsku biskupsdæmin voru stofnuð í Kraká, Kołobrzeg og Wrocław.[42] Á þinginu í Gniezno gaf Ottó Bolesław konungstákn og eftirmynd af spjótinu helga fyrir krýningu hans sem fyrsta konungs Póllands í kringum 1025.[43] Bolesław stækkaði ríkið umtalsvert með því að hertaka hluta af Lúsatíu, Mæri, Efra-Ungverjalandi og svæði sem Garðaríki réði yfir.[44]

Kasimír 3. er eini pólski konungurinn sem hefur hlotið auknefnið „hinn mikli“. Hann reisti margar byggingar og endurbætti her Póllands og lögbók í valdatíð sinni.

Umskiptin frá slavneskri heiðni til kristni í Póllandi urðu ekki umsvifalaus og leiddu til andspyrnu pólskra heiðingja á 4. áratug 11. aldar.[45] Árið 1031 missti Mieszko 2. konungstitilinn og flúði eftir átök.[46] Ófriðurinn leiddi til þess að höfuðborgin var flutt til Krakár af Kasimír 1.[47] Árið 1076 endurreisti Bolesław 2. konungdæmið, en var síðan bannfærður árið 1079 fyrir að myrða andstæðing sinn, Stanislaus biskup.[48] Árið 1138 var landinu skipt í fimm furstadæmi þegar Bolesław 3. skipti því milli sona sinna.[21] Þessi furstadæmi voru Pólland hið meira, Pólland hið minna, Slésía, Masóvía og Sandomierz, sem stundum náði líka yfir Pommern.[49] Árið 1226 bað Konráður 1. af Masóvíu Þýsku riddarana að hjálpa sér gegn hinum heiðnu baltnesku Prússum. Sú ákvörðun leiddi á endanum til stríðs gegn riddurunum.[50]

Um miðja 13. öld reyndu Hinrik hinn skeggjaði og Hinrik hinn frómi að sameina hertogadæmin, en innrás Mongóla í Pólland og lát Hinriks fróma í orrustunni við Legnica komu í veg fyrir sameiningu.[51][52] Eyðilegging og mannfækkun í kjölfar innrásanna og eftirspurn eftir faglærðu vinnuafli leiddu til innflutnings þýskra og flæmskra handverksmanna til Póllands, sem pólsku hertogarnir studdu.[53] Árið 1264 fengu Gyðingar mikið sjálfstæði með Kalisz-sáttmálanum.[54] Árið 1320 varð Vladislás 1. af Póllandi fyrsti konungur sameinaðs Póllands frá 1296[55] og var sá fyrsti sem var krýndur í Wawel-dómkirkju í Kraká.[56]

Kasimír 3. hóf að reisa net kastala, bæta herinn og laga- og dómskerfi landsins og efla alþjóðatengsl.[57][58] Undir hans stjórn gerðist Pólland stórveldi í Evrópu. Hann lagði Rúþeníu undir pólska stjórn árið 1340 og setti reglur um sóttkví sem komu í veg fyrir útbreiðslu svarta dauða.[59][60] Árið 1364 stofnaði hann háskóla í Kraká sem er ein af elstu háskólastofnunum Evrópu.[61] Andlát hans árið 1370 markaði endalok valdatíðar Piast-ættar.[62] Eftirmaður hans var næsti karlkyns ættingi hans, Loðvík af Anjou, sem ríkti yfir Póllandi, Ungverjalandi og Króatíu með konungssambandi.[63] Yngri dóttir Loðvíks, Jadwiga, varð fyrsta ríkjandi drottning Póllands árið 1384.[63]

Jagiellon-ætt

[breyta | breyta frumkóða]
Í orrustunni við Grunwald barðist pólska konungsríkið gegn þýsku riddurunum og hafði sigur þann 15. júlí 1410.

Árið 1386 gekk Jadwiga af Póllandi að eiga Władysław 2. Jagiełło, stórhertoga af Litháen. Þar með tók Jagiellon-ætt við völdum í konungssambandi sem nefndist Pólsk-litháíska sambandið og ríkti frá lokum síðmiðalda til upphafs árnýaldar.[64] Stórhertogadæmið var þá miklu stærra en Litháen er í dag og átti seinna eftir að verða enn stærra. Pólsk-litháíska sambandið varð þannig eitt af stærstu og fjölbreyttustu ríkjum Evrópu á þeim tíma.[65]

Átök Pólverja og Litháa við þýsku riddarana héldu áfram og náðu hámarki í orrustunni við Grunwald árið 1410, þar sem sameinaður her gersigraði riddarana.[66] Árið 1466, eftir þrettán ára stríðið, gekk Kasimír 4. JagiellonThorn-friðnum sem leiddi til stofnunar hertogadæmis í Prússlandi undir pólska konungdæminu og neyddi ráðamenn í Prússlandi til að greiða skatt.[21] Jagiellon-ættin náði líka yfirráðum yfir konungsríkjum í Bæheimi og Ungverjalandi.[67] Í suðri barðist ríkið gegn Tyrkjaveldi og Krímkanatinu, og í austri gegn Rússlandi.[21]

Pólland breyttist í lénsveldi sem byggðist á landbúnaði með sífellt valdameiri lendan aðal þar sem bændur unnu sem leiguliðar á stórjarðeignum.[68] Árið 1493 samþykkti Jóhann 1. Albert stofnun þings í tveimur deildum: Sejm (neðri deild) og öldungadeild.[69] Nihil novi voru lög sem pólska þingið samþykkti árið 1505 og fólu í sér að löggjafarvald fluttist frá konungi til þingsins. Sá atburður markar upphaf svokallaðs gyllts frelsis, þegar landið breyttist í samveldi pólskra aðalsmanna sem voru jafningjar að nafninu til.[70]

Wawel-kastali í Kraká var höfuðstöðvar pólskra konunga frá 1038 þar til höfuðborgin var flutt til Varsjár árið 1596.

Á 16. öld náðu siðaskiptin til Póllands og leiddu til aukins trúfrelsis, sem var einstakt í evrópsku samhengi.[71] Það varð til þess að landið slapp við trúarátök og styrjaldir sem á þeim tíma einkenndu aðra hluta Evrópu.[71] Pólska bræðralagið boðaði andþrenningartrú og skildi sig frá kalvínskum rótum sínum. Bræðralagið átti seinna þátt í stofnun únítarahreyfingarinnar.[72]

Í valdatíð Sigmundar gamla og Sigmundar 2. barst endurreisnin til Póllands og leiddi til upphafs pólsku gullaldarinnar þegar efnahagur og menningarlíf blómstraði í landinu.[21] Eiginkona Sigmundar gamla, Bona Sforza, dóttir hertogans af Mílanó, Gian Galeazzo Sforza, hafði mikil áhrif á pólskan arkitektúr, pólska matargerð, tungumál og hirðsiði í Wawel-kastala.[21]

Pólsk-litháíska samveldið

[breyta | breyta frumkóða]
Pólsk-litháíska samveldið þegar það var stærst, árið 1619.

Pólsk-litháíska samveldið var stofnað með Lublin-samningnum árið 1569. Þetta var sameinað lénsveldi með kjörkonung, sem aðallinn ríkti yfir að mestu.[73] Stofnunin fór saman við uppgangstíma í sögu landsins sem varð leiðandi afl og menningarmiðstöð með mikil áhrif um alla Mið-, Austur- og Suðaustur-Evrópu.[74][75] Innanlands fór fram pólskuvæðing sem mætti andstöðu, sérstaklega í löndum sem nýlega höfðu verið innlimuð í ríkið og meðal trúarlegra minnihlutahópa.[73]

Árið 1573 fullgilti fyrsti kjörkonungurinn, Hinrik af Valois, Hinriksgreinarnar sem skuldbundu framtíðarkonunga landsins til að virða réttindi aðalsins.[76] Eftirmaður hans, Stefán Báthory, gerði innrás í Lífland í Líflandsstríðinu og stækkaði þannig ríkið norður eftir strönd Eystrasalts.[77] Stjórn ríkisins var að mestu í höndum kanslarans, Jan Zamoyski.[78] Árið 1592 tók Sigmundur 3. af Póllandi við af föður sínum, Jóhanni Vasa, sem konungur Svíþjóðar.[79] Pólsk-sænska bandalagið stóð til 1599 þegar Svíar settu hann frá völdum.[80]

Jóhann 3. Sobieski sigraði Tyrkjaveldi í orrustunni um Vín 12. september 1683.

Árið 1609 gerði Sigmundur innrás í Rússaveldi þar sem rósturtímarnir stóðu yfir.[21] Ári síðar hertóku vængjaðir húsarar, undir stjórn Stanisław Żółkiewski, Moskvu, og héldu henni í tvö ár eftir ósigur Rússa í orrustunni við Klusjino.[21] Sigmundur barðist líka gegn Tyrkjaveldi í suðaustri. Jan Karol Chodkiewicz vann afgerandi sigur gegn Tyrkjum í orrustunni um Khotyn árið 1621, sem flýtti fyrir falli soldánsins Ósmans 2.[81][82]

Löng valdatíð Sigmundar í Póllandi var kölluð „silfuröld“.[83] Hinn frjálslyndi konungur Vladislás 4. Vasa náði að viðhalda yfirráðum Póllands yfir löndum sínum, en eftir lát hans tóku innri átök og stöðugur hernaður að draga úr mætti ríkisins.[84][85] Árið 1648 var Kmelnitskíjuppreisnin gerð í Úkraínu[86] og þar á eftir fylgdi Sænska syndaflóðið sem olli mikill eyðileggingu.[87] Prússland varð sjálfstætt 1657 með Brombergsáttmálanum.[87] Árið 1683 sýndi Jóhann 3. Sobieski fram á hernaðarmátt ríkisins að nýju þegar hann stöðvaði innrás Tyrkjaveldis í orrustunni um Vín.[88] Eftir hans tíð tók Wettin-ætt við völdum og í valdatíð Ágústusar 2. og Ágústusar 3. efldust nágrannalönd Póllands eftir Norðurlandaófriðinn mikla (1700) og Pólska erfðastríðið (1733).[89]

Stanislás 2. Ágústus, síðasti konungur Póllands, sem ríkti frá 1764 fram að afsögn sinni 25. nóvember 1795.

Konungskjör í Póllandi 1764 varð til þess að Stanislás 2. Ágústus varð konungur.[90] Framboð hans var styrkt af fyrrum ástkonu hans, Katrínu miklu keisaraynju Rússlands.[91] Nýi konungurinn sveiflaðist milli þess að koma á nútímalegri stjórnháttum og halda frið við nágrannaríkin.[92] Umbætur hans leiddu til uppreisnar aðalsmanna í Barbandalaginu gegn honum og erlendum áhrifum almennt, sem sóttust eftir að viðhalda sérréttindum aðalsins.[93] Misheppnaðar tilraunir til umbóta í stjórnkerfinu og innanlandsófriður urðu til þess að nágrannaríkin kusu að grípa inn í.[94]

Árið 1772 var fyrsta skipting Póllands samþykkt af Prússlandi, Rússlandi og Austurríki. Pólska þingið samþykkti hana sem orðinn hlut eftir mikinn þrýsting.[95] Árið 1773 var gerð áætlun um róttækar umbætur í landinu þar sem meðal annars var stofnuð fyrsta opinbera menntastofnun Evrópu, Menntaráð Póllands.[96] Líkamlegar refsingar gegn börnum voru bannaðar með lögum árið 1783. Stanislás var leiðandi í pólsku upplýsingunni, hvatti til iðnþróunar og studdi við byggingarlist í nýklassískum anda.[97] Vegna þessa var hann gerður að félaga í Konunglega breska vísindafélaginu.[98]

Árið 1791 samþykkti stórþingið Maístjórnarskrána, fyrstu stjórnarskrá landsins sem kom á þingbundinni konungsstjórn.[99] Targowica-bandalagið, samtök aðalsmanna sem voru andsnúnir stjórnarskránni, sneri sér til Katrínar miklu sem hóf stríð Póllands og Rússlands 1792.[100] Rússar og Prússar óttuðust vaxandi styrk Pólverja og framkvæmdu því aðra skiptingu Póllands 1793. Eftir það var landið rúið sínum mikilvægustu landsvæðum og í reynd ófært um að viðhalda sjálfstæði sínu. Eftir þriðju skiptingu Póllands 24. október 1795 var landið ekki lengur til.[101][102] Síðasti konungur Póllands, Stanislás Ágústus, sagði af sér þann 25. nóvember 1795.[103]

Skiptingar Póllands milli Prússlands (blár), Rússlands (brúnn) og Austurríkis (grænn).

Pólverjar gerðu nokkrar uppreisnir gegn hernámsliðum ríkjanna sem höfðu skipt landinu milli sín. Árið 1794 var Kościuszko-uppreisnin gerð, þar sem vinsæll herforingi, Tadeusz Kościuszko, sem hafði áður barist með George Washington í frelsisstríði Bandaríkjanna, leiddi uppreisnarmenn.[104] Þrátt fyrir sigur í orrustunni við Racławice varð ósigur hans á endanum til þess að vonin um endurheimt sjálfstæðis dó.[105]

Árið 1806 leiddi Jan Henryk Dąbrowski uppreisn rétt fyrir innrás Napóleons inn í Rússland í fjórða bandalagsstríðinu. Með Tilsitsáttmálanum lýsti Napóleon yfir stofnun hertogadæmisins Varsjár 1807. Hertogadæmið var leppríki undir stjórn bandamanns hans, Friðriks af Saxlandi. Pólverjar studdu franska herinn í Napóleonsstyrjöldunum, sérstaklega lið undir stjórn Józef Poniatowski sem varð hermarskálkur skömmu fyrir andlát sitt í orrustuna um Leipzig 1813.[106] Eftir að Napóleon var hrakinn í útlegð var hertogadæmið Varsjá lagt niður á Vínarþinginu 1815 og landi þess skipt milli Kongresskonungsríkisins Póllands undir stjórn Rússlands, Stórhertogadæmisins Posen undir stjórn Prússlands, og Austurríska Pólland með fríríkinu Kraká.[107]

Árið 1830 hófu foringjaefni úr herforingjaskóla í Varsjá Nóvemberuppreisnina.[108] Eftir að hún var brotin á bak aftur missti Kongressríkið Pólland sjálfstæði sitt, her og löggjafarþing.[109] Byltingarárið 1848 gerðu Pólverjar enn uppreisn gegn þýskuvæðingu vesturhéraðanna. Í kjölfarið varð stórhertogadæmið Posen að einföldu héraði sem var innlimað í Þýska keisaradæmið 1871.[110] Í Rússlandi var Janúaruppreisnin 1863-1864 barin niður með hörku og leiddi til brottflutnings Pólverja og pólskra gyðinga. Undir lok 19. aldar átti sér stað mikil iðnvæðing í Kongress-Póllandi og helstu útflutningsafurður urðu kol, sink, járn og textíll.[111][112]

Annað pólska lýðveldið

[breyta | breyta frumkóða]
Józef Piłsudski var sjálfstæðishetja Pólverja og helsti stjórnmálamaður landsins frá 1918 til dauðadags 1935.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina samþykktu bandamenn að endurreisa Pólland með Versalasamningunum í júní 1919.[113] Alls börðust 2 milljónir pólskra hermanna með hernámsliðunum þremur, og yfir 450.000 létu lífið.[114] Eftir undirritun vopnahlés við Þýskaland í nóvember 1918 lýstu Pólverjar yfir stofnun annars pólska lýðveldisins.[115] Næstu ár var sjálfstæði þess staðfest í röð stríðsátaka, sérstaklega stríði Póllands og Sovétríkjanna þar sem Pólverjar gersigruðu rauða herinn í orrustunni um Varsjá árið 1920.[116] Á þessum tíma tókst pólska lýðveldinu að sameina löndin sem áður höfðu skipst milli þriggja ríkja, í eitt þjóðríki.

Á millistríðsárunum fór í hönd nýtt tímabil í pólskum stjórnmálum. Áratugina á undan höfðu pólskir stjórnmálaleiðtogar mátt þola ritskoðun, og nú þurfti að skapa nýja stjórnmálaumræðu. Margir útlægir pólskir aðgerðasinnar, eins og Ignacy Paderewski (sem síðar varð forsætisráðherra), sneru nú aftur heim og margir þeirra gegndu lykilstöðum í stjórnkerfinu. Árið 1922 var fyrsti forseti Póllands, Gabriel Narutowicz, myrtur í Varsjá af hægriöfgamanninum Eligiusz Niewiadomski.[117]

Árið 1926 leiddi herforinginn og þjóðhetjan Józef Piłsudski valdarán og fól Sanacja-hreyfingunni stjórn landsins til að koma í veg fyrir að róttækar stjórnmálahreyfingar til hægri og vinstri næðu völdum.[118] Seint á 4. áratugnum varð óttinn við rótttækar hreyfingar svo mikill að stjórnvöld beittu sífellt meiri hörku og bönnuðu marga stjórnmálaflokka, þar á meðal kommúnista og þjóðernissinnaða flokka sem þau töldu ógna stöðugleikanum.[119]

Seinni heimsstyrjöld

[breyta | breyta frumkóða]
7TP-skriðdrekar pólska hersins á heræfingu skömmu fyrir innrásina í Pólland 1939.

Síðari heimsstyrjöld hófst þegar Þriðja ríkið gerði innrás í Pólland 1. september 1939. Í kjölfarið fylgdi innrás Sovétmanna í Pólland 17. september. Þann 28. september féll Varsjá. Samkvæmt Mólotov-Ribbentrop-samningnum var Póllandi skipt í tvennt milli hernámsliðanna. Frá 1939 til 1941 flutti Sovétherinn þúsundir Pólverja burt. Sovéska innanríkisráðuneytið NKVD myrti þúsundir pólskra stríðsfanga í Katyn-fjöldamorðunum áður en Þjóðverjar réðust á Sovétríkin í Barbarossa-aðgerðinni.[120] Í þýskum áætlunum var talað um „útrýmingu Pólverja“ árið 1939 og Generalplan Ost fól í sér þjóðarmorð.[121]

Pólskir flugmenn í No. 303 Polish Fighter Squadron í orrustunni um Bretland í október 1940.

Pólverjar lögðu til fjórða stærsta herlið Evrópu[122][123] [124] og pólskir hermenn börðust fyrir bæði útlagastjórn Póllands í vestri og Póllandsher undir stjórn Sovétríkjanna í austri. Pólskir hermenn léku stór hlutverk í Overlord-aðgerðinni, Ítalíuherförinni og Norður-Afríkuherförinni, og er sérstaklega minnst fyrir framgöngu sína í orrustunni um Monte Cassino. Pólskir njósnarar reyndust bandamönnum ómetanleg uppspretta upplýsinga innan úr Evrópu[125] og pólskum dulmálssérfræðingum tókst að ráða í Enigma-dulmálið.[126] Í austri barðist pólski fyrsti herinn með Sovéthernum í orrustum um Varsjá og Berlín.[127]

Pólska andspyrnuhreyfingin og Armia Krajowa („heimaherinn“) börðust gegn hernámi Þjóðverja og störfuðu eins og neðanjarðarríki, með virku menntakerfi og dómskerfi.[128] Andspyrnan leit á útlagastjórnina sem réttmæta stjórn landsins og hafnaði hugmyndinni um kommúnistastjórn yfir Póllandi. Af þeim orsökum hóf hún Stormaðgerðina 1944, en uppreisnin í Varsjá er þekktasti angi þeirrar aðgerðar.[127][129]

Kort af helförinni í Póllandi sem sýnir helstu flutningsleiðir og fjöldamorð. Helstu gettó gyðinga eru merkt með gulum stjörnum. Útrýmingarbúðir nasista eru merktar með hauskúpum í svörtum reitum. Landamærin milli Þýskalands og Sovétríkjanna 1941 eru merkt með rauðu.

Samkvæmt skipunum Hitlers reistu Þjóðverjar sex útrýmingarbúðir á hernámssvæðinu í Póllandi, þar á meðal Treblinka, Majdanek og Auschwitz. Þjóðverjar fluttu milljónir gyðinga alls staðar að úr Evrópu til búðanna þar sem þeir voru myrtir.[130][131] Talið er að um 3 milljónir pólskra gyðinga[132][133] – um 90% af öllum gyðingum í Póllandi - og milli 1,8 og 2,8 aðrir Pólverjar[134][135][136] hafi verið myrtir meðan á hernámi Póllands stóð, þar á meðal voru milli 50 og 100.000 pólskir menntamenn (háskólakennarar, læknar, lögfræðingar, aðalsmenn og prestar). Í uppreisninni í Varsjá einni voru 150.000 pólskir borgarar drepnir, flestir myrtir af Þjóðverjum í Wola og Ochota.[137][138] Um 150.000 pólskir almennir borgarar voru myrtir af Sovétmönnum milli 1939 og 1941 meðan á hernámi Sovétríkjanna í austurhluta Póllands stóð, og eins er talið að um 100.000 Pólverjar hafi verið myrtir af Uppreisnarher Úkraínu milli 1943 og 1944 í Volhynia og Austur-Galisíu.[139][140] Talið er að Pólland hafi misst hæsta hlutfall íbúa sinna í stríðinu, um 6 milljónir, yfir 1/6 af íbúafjöldanum fyrir stríð. Helmingur þeirra voru gyðingar.[141][142][143]

Árið 1945 voru bæði austur- og vesturlandamæri Póllands flutt í vesturátt. Yfir 2 milljónir pólskra íbúa Kresy voru reknir yfir Curzon-línuna af Jósef Stalín.[144] Vesturlandamærin voru sett við Oder-Neisse-línuna. Afleiðingin var að Pólland minnkaði um 20% eða 77.500 km². Þessi breyting leiddi til stórfelldra fólksflutninga Pólverja, Þjóðverja, Úkraínumanna og Gyðinga.[145][146][147]

Kommúnistastjórnin

[breyta | breyta frumkóða]
Stúdentar í Skotlandi safna undirskriftum handa Samstöðu í Edinborg árið 1981.

Samkvæmt kröfum Stalíns á Jaltaráðstefnunni var mynduð ný samsteypustjórn í Póllandi sem var hliðholl kommúnistum, en pólska útlagastjórnin í London hunsuð. Margir Pólverjar litu á þetta sem svik Vesturveldanna. Árið 1944 hafði Stalín heitið Winston Churchill og Franklin D. Roosevelt að virða fullveldi Póllands og heimila lýðræðislegar kosningar, en eftir að sigur vannst 1945 stóðu sovésk hernámsyfirvöld fyrir fölsun kosningaúrslita til að réttlæta yfirráð Sovétríkjanna yfir Póllandi. Sovétríkin komu á nýrri kommúnistastjórn í Póllandi eins og annars staðar í Austurblokkinni. Vopnuð andspyrna gegn hernámi Sovétmanna stóð fram á 6. áratuginn.[148]

Þrátt fyrir mótmæli samþykkti pólska stjórnin innlimun austurhéraða Póllands í Sovétríkin[149] (sérstaklega borgirnar Wilno og Lwów) og samþykkti varanlegar herstöðvar rauða hersins í Póllandi. Með Varsjárbandalaginu í kalda stríðinu voru hernaðarlegir hagsmunir Póllands og Sovétríkjanna sameinaðir.[150]

Nýja kommúnistastjórnin tók upp litlu stjórnarskrána þann 19. febrúar 1947. Pólska alþýðulýðveldið (Polska Rzeczpospolita Ludowa) var formlega stofnað árið 1952. Árið 1956, eftir andlát Bolesław Bierut, tók stjórn Władysław Gomułka við völdum sem var eilítið frjálslyndari um tíma, lét marga lausa úr fangelsi og jók einstaklingsfrelsi. Stjórnin batt líka enda á hina misheppnuðu samyrkjuvæðingu í pólskum landbúnaði. Svipað gerðist í valdatíð Edward Gierek á 8. áratugnum, en lengst af héldu ofsóknir gegn stjórnarandstöðu áfram. Þrátt fyrir það var Pólland oft talið minnsta alræðisríkið í Austurblokkinni.[151]

Vinnudeilur árið 1980 leiddu til stofnunar verkalýðsfélagsins Samstöðu (Solidarność) sem varð með tímanum að stjórnmálaafli. Þrátt fyrir ofsóknir og setningu herlaga árið 1981, gróf hún undan stjórn Sameinaða pólska verkamannaflokksins og árið 1989 voru fyrstu frjálsu kosningarnar haldnar í landinu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Leiðtogi Samstöðu, Lech Wałęsa, sigraði forsetakosningar árið 1990.[152]

Blóm við forsetahöllina í Varsjá eftir flugslysið 2010 þar sem margir pólskir ráðamenn fórust.

Snemma á 10. áratugnum hóf Leszek Balcerowicz lostmeðferð til að breyta efnahagslífi landsins úr sósíalískum áætlunarbúskap í markaðsbúskap.[153] Líkt og önnur fyrrum kommúnistaríki gekk Pólland í gegnum tímabil þar sem lífsgæði, efnahagur og félagsleg þjónusta drógust saman eftir fall kommúnistastjórnarinnar,[154] en landið varð síðan það fyrsta sem endurheimti verga landsframleiðslu frá því fyrir 1989 út af miklum hagvexti strax árið 1995.[155] Pólland gerðist aðili að Visegrád-hópnum árið 1991[156] og gekk í NATO árið 1999.[157] Pólska þjóðin kaus síðan að ganga í Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu 2003[158] og landið varð fullgildur meðlimur 1. maí 2004 eftir stækkun Evrópusambandsins 2004.[159]

Pólland gekk í Schengen-samstarfið árið 2007 og opnaði landamæri sín að öðrum Evrópusambandsríkjum.[160] Þann 10. apríl 2010 fórst forseti Póllands, Lech Kaczyński, ásamt 89 hátt settum pólskum ráðamönnum í flugslysi nærri Smolensk í Rússlandi.[161]

Árið 2011 sigraði Borgaralegur vettvangur þingkosningarnar.[162] Árið 2014 varð forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, forseti Evrópska ráðsins og sagði af sér embætti forsætisráðherra í kjölfarið.[163] Íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti með formanninum Jarosław Kaczyński sigraði þingkosningarnar árin 2015 og 2019.[164][165] Það hefur leitt til vaxandi andstöðu við stefnu Evrópusambandsins og gagnrýni frá sambandinu fyrir að vega að rétti kvenna, samkynhneigðra og dómskerfinu.[166][167] Í desember 2017 varð Mateusz Morawiecki nýr forsætisráðherra. Forsetinn Andrzej Duda rétt náði endurkjöri í forsetakosningum 2020.[168] Innrás Rússlands í Úkraínu 2022 olli því að yfir 5 milljón flóttamenn frá Úkraínu komu til Póllands.[169]

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Hæðakort af Póllandi.

Pólland er stórt land, og nær yfir um 312.696 ferkílómetra. 98,52% af þeim eru þurrlendi og 1,48% eru ár og vötn.[170] Landið er það 9. stærsta í Evrópu og í 69. sæti á heimsvísu. Pólland er landfræðilega fjölbreytt land með aðgang að sjó í norðri, fjöll í suðri og flatlenda sléttu í miðið.[171] Megnið af miðhlutanum er flöt slétta, en annars staðar eru mörg stöðuvötn, ár, hæðir, mýrar og skógar.[171]

Pólland á strönd við Eystrasalt í norðri, sem nær frá PommernflóaGdańsk-vík. Út frá ströndinni liggja margar eyrar, strandlón og sandöldur. [172] Ströndin er að mestu bein, en Szczecin-lón, Puck-flói og Vistula-lón ganga inn í hana.

Mið- og norðurhluti landsins eru á Norður-Evrópusléttunni. Ofan við hana eru hæðótt svæði mynduð úr jökulruðningum og jökullón sem mynduðust eftir síðustu ísöld, einkum í vatnasvæðinu í Pommern, vatnasvæðinu í Stóra-Póllandi, vatnasvæðinu í Kassúbíu og Masúríuvötnum.[173] Stærst þessara fjögurra vatnasvæða er Masúríuvatnasvæðið sem nær yfir megnið af norðausturhluta Póllands. Vatnasvæðin mynda röð jökulgarða meðfram suðurströnd Eystrasalts.[173]

Sunnan við Norður-Evrópusléttuna eru héruðin Lúsatía, Slesía og Masóvía, sem eru breiðir ísaldardalir.[174] Syðsti hluti Póllands er fjalllendur; hann nær frá Súdetafjöllum í vestri að Karpatafjöllum í austri. Hæsti hluti Karpatafjalla eru Tatrafjöll við suðurlandamæri Póllands.[175] Hæsti tindur Póllands er á fjallinu Rysy, 2.499 metrar.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Pólland er lýðveldi með fulltrúalýðræði þar sem forseti Póllands er þjóhöfðingi.[176] Ráðherraráð Póllands fer með framkvæmdavaldið og forsætisráðherra Póllands er stjórnarleiðtogi.[176] Ráðherrar í ráðherraráðinu eru valdir af forsætisráðherra, skipaðir af forseta með fulltingi þingsins.[176] Forsetinn er kosinn í almennum kosningum til fimm ára í senn.[177] Núverandi forseti er Andrzej Duda og Donald Tusk er forsætisráðherra.[178]

Pólska þingið kemur saman í tveimur deildum, með neðri deild (Sejm) með 460 þingmönnum, og efri deild (öldungadeild) með 100 þingmönnum.[179] Þingmenn eru kosnir í Sejm með hlutfallskosningu þar sem þingsætum er úthlutað með d'Hondt-aðferðinni.[180] Öldungadeildarþingmenn eru kosnir með meirihlutakosningu í einmenningskjördæmum.[181] Öldungadeildin getur breytt eða hafnað lögum sem Sejm samþykkir, en Sejm getur fellt þá ákvörðun úr gildi með einföldum meirihluta.[182]

Sejm er neðri deild pólska þingsins.

Fyrir utan þjóðernisminnihlutahópa þurfa listar stjórnmálaflokka í Póllandi að fá minnst 5% atkvæða á landsvísu til að fá þingfulltrúa á Sejm.[181] Þingmenn beggja deilda eru kosnir til fjögurra ára í senn og njóta þinghelgi.[183] Samkvæmt núverandi lögum þarf frambjóðandi að hafa náð 21 árs aldri til að verða þingmaður, 30 til að verða öldungadeildarþingmaður og 35 til að bjóða sig fram til forseta.[183]

Báðar deildir mynda saman þjóðþing Póllands.[184] Þjóðþingið kemur saman af þrennu tilefni: þegar nýr forseti tekur við embætti, ef forseti sætir ákæru fyrir landsrétti, og ef því er lýst yfir að forseti geti ekki uppfyllt skyldur sínar vegna heilsufars.[184]

Við endurreisn Póllands eftir heimsstyrjöldina síðari var landinu skipt upp í 14 héruð (pl: województwo - þýðir upphaflega hertogadæmi). 1950 var þeim fjölgað í 17. Árið 1975 var stjórnkerfinu breytt og stjórnstigum fækkað um eitt. Héruðin urðu þá 49 talsins og hélst svo til næstu stjórnkerfisbreytingar árið 1999. Var héruðum þá aftur fækkað, að þessu sinni í 16:

Hérað Pólskt heiti Höfuðborg
Neðri-Slesía[185] Województwo dolnośląskie Wrocław
Kujavíska-Pommern Województwo kujawsko-pomorskie Bydgoszcz og Toruń
Lublin Województwo lubelskie Lublin
Lubusz Województwo lubuskie Gorzów Wielkopolski og Zielona Góra
Łódź Województwo łódzkie Łódź
Litla-Pólland[186] Województwo małopolskie Kraká (Kraków)
Masóvía[187] Województwo mazowieckie Varsjá (Warszawa)
Opole Województwo opolskie Opole
Neðri-Karpatía[187] Województwo podkarpackie Rzeszów
Podlasía Województwo podlaskie Białystok
Pommern Województwo pomorskie Gdańsk
Slesía[188] Województwo śląskie Katowice
Święty Krzyż Województwo świętokrzyskie Kielce
Ermland-Masúría[189] Województwo warmińsko-mazurskie Olsztyn
Stóra-Pólland Województwo wielkopolskie Poznań
Vestur-Pommern Województwo zachodniopomorskie Szczecin

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]

Hagkerfi Póllands mælt í vergri landsframleiðslu er nú það sjötta stærsta innan Evrópusambandsins að nafnvirði og það fimmta stærsta með kaupmáttarjöfnuði. Það er líka það hagkerfi innan sambandsins sem er í örustum vexti.[190] Um 61% mannaflans starfa innan þriðja geirans, 31% í framleiðsluiðnaði og 8% í landbúnaði.[191] Pólland er hluti af innra markaði Evrópusambandsins, en hefur þó ekki tekið upp evruna og opinber gjaldmiðill er enn pólskur złoty (zł, PLN).

Pólland er leiðandi efnahagsveldi í Mið-Evrópu með um 40% af 500 stærstu fyrirtækjum heimshlutans (miðað við tekjur) og háa hnattvæðingarvísitölu.[192] Stærstu fyrirtæki landsins eru hlutar af hlutabréfavísitölunum WIG20 og WIG30 í Kauphöllinni í Varsjá. Samkvæmt skýrslum til Seðlabanka Póllands var andvirði beinna erlendra fjárfestinga í Póllandi næstum 300 milljarðar pólsk zloty undir lok árs 2014. Tölfræðistofnun Póllands áætlaði að árið 2014 hefðu 1.437 pólsk fyrirtæki átt hlut í 3.194 erlendum fyrirtækjum.[193]

Bankakerfið í Póllandi er það stærsta í Mið-Evrópu[194] með 32,3 útibú á 100.000 fullorðna íbúa.[195] Pólska hagkerfið var það eina í Evrópu sem komst hjá alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008.[196] Landið er 20. stærsti útflytjandi á vörum og þjónustu í heiminum.[197] Útflutningur á vörum og þjónustu var talinn vera 56% af vergri landsframleiðslu árið 2020.[198] Í september 2018 var atvinnuleysi áætlað 5,7% sem var með því lægsta sem gerðist í Evrópusambandinu.[199] Árið 2019 voru sett lög í Póllandi sem gáfu launafólki undir 26 ára aldri undanþágu frá tekjuskatti.[200]

Íbúar Póllands voru rúmlega 38 milljónir árið 2021 og landið er því níunda fjölmennasta land Evrópu og fimmta stærsta aðildarríki Evrópusambandsins.[201] Íbúaþéttleiki er 122 á ferkílómetra.[202] Frjósemishlutfall var talið vera 1,42 börn á konu árið 2019, sem er með því lægsta sem gerist í heiminum.[203] Að auki eru íbúar Póllands að eldast töluvert og miðaldur er um 42 ár.[204]

Íbúar Póllands frá 1990 til 2010 taldir í milljónum.

Um 60% af íbúum búa í þéttbýli eða stórborgum og 40% í sveitahéruðum.[205] Árið 2020 bjó yfir helmingur Pólverja í einbýlishúsum og 44,3% í íbúðum.[206] Fjölmennasta sýsla Póllands er Masóvía og fjölmennasta borgin er höfuðborgin, Varsjá, með 1,8 milljón íbúa og aðrar 2-3 milljónir á stórborgarsvæðinu.[207][208][209] Stærsta þéttbýlissvæðið er stórborgarsvæði Katowice þar sem íbúar eru milli 2,7 milljón[210] og 5,3 milljón.[211] Íbúaþéttleiki er meiri í suðurhluta landsins og er mestur milli borganna Wrocław og Kraká.[212]

Í manntali árið 2011 töldu 37.310.341 sig vera Pólverja, 846.719 sögðust vera Slesíubúar, 232.547 Kasúbíubúar og 147.814 Þjóðverjar. Aðrir minnihlutahópar töldu 163.363 manns (0,41%) og 521.470 (1,35%) gáfu ekki upp neitt þjóðerni.[213] Opinberar tölur um íbúa innihalda ekki farandverkafólk án dvalarleyfis eða Karta Polaka (ríkisborgaraskírteini).[214] Yfir 1,7 milljón úkraínskir ríkisborgarar störfuðu löglega í Póllandi árið 2017.[215] Fjöldi aðfluttra fer ört vaxandi og ríkið samþykkti 504.172 atvinnuleyfisumsóknir útlendinga árið 2021.[216]

Borgir og bæir

[breyta | breyta frumkóða]

Bielsko-Biała, Białystok, Bydgoszcz, Częstochowa, Gdańsk, Gdynia, Gniezno, Goleniów, Karpacz, Katowice, Kielce, Kołobrzeg, Koszalin, Kraká, Lublin, Łowicz, Łódź, Malbork, Nowe Warpno, Olsztyn, Opole, Police, Poznań, Radom, Sopot, Stargard Szczeciński, Szczecin, Świnoujście, Toruń, Varsjá, Wolin, Wrocław, Zakopane

Kotlet schabowy með ýmsum salötum

Pólsk matargerð hefur breyst í gegnum tíma vegna breytilegra aðstæðna í landinu. Hún er svipuð öðrum eldunarhefðum sem er að finna annars staðar í Mið-Evrópu og Austur-Evrópu og jafnvel í Frakklandi og á Ítalíu. Áhersla er lögð á kjöt, sérstaklega svínakjöt, nautakjöt og kjúkling (mismunandi eftir svæðum), og vetrargrænmeti svo sem kál, ásamt kryddi. Ýmiss konar núðlur er líka að finna í mörgum réttum, meðal þeirra helstu eru kluski, auk kornplantna eins og kasza. Pólsk matargerð er almennt vegleg og mikið er notað af eggjum og rjóma. Hefðbundnu réttirnir krefjast mikils undirbúnings. Margir Pólverjar eyða miklum tíma í að undirbúa og borða hátíðarrétti sína, sérstaklega um jól og páska. Þá getur tekið nokkra daga til að búa til alla réttina.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Poland“. 28. febrúar 2017.
  2. Norman Davies, Europe: A History, Pimlico 1997, p. 554: Poland-Lithuania was another country which experienced its 'Golden Age' during the sixteenth and early seventeenth centuries. The realm of the last Jagiellons was absolutely the largest state in Europe
  3. Piotr Stefan Wandycz (2001). The price of freedom: a history of East Central Europe from the Middle Ages to the present. Psychology Press. bls. 66. ISBN 978-0-415-25491-5. Sótt 13. ágúst 2011.
  4. Gehler, Michael; Steininger, Rolf (2005). Towards a European Constitution: A Historical and Political Comparison with the United States (enska). Böhlau Verlag Wien. bls. 13. ISBN 978-3-205-77359-7. „Poland had actually managed to pass a first progressive constitution on 3, May 1795; this was Europes first written constitution.“
  5. Tatjana Tönsmeyer; Peter Haslinger; Agnes Laba (2018). Coping with Hunger and Shortage under German Occupation in World War II. Springer. bls. 188. ISBN 978-3-319-77467-1.
  6. „Poland promoted to developed market status by FTSE Russell“. Emerging Europe. september 2018. Sótt 1. janúar 2021.
  7. „The World Factbook — Central Intelligence Agency“. www.cia.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júní 2011. Sótt 12. apríl 2019.
  8. „Human Development Indicators – Poland“. Human Development Reports. United Nations Development Programme. 2020. Sótt 16. desember 2020.
  9. „World's Safest Countries Ranked — CitySafe“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. apríl 2017. Sótt 14. apríl 2017.
  10. „Poland 25th worldwide in expat ranking“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2018. Sótt 14. apríl 2017.
  11. Administrator. „Social security in Poland“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 24. apríl 2017.
  12. „Healthcare in Poland – Europe-Cities“. Afrit af upprunalegu geymt þann 24. apríl 2017. Sótt 24. apríl 2017.
  13. Thompson, Wayne C. (2021). Nordic, Central, and Southeastern Europe 2020-2022. Blue Ridge Summit: Rowman & Littlefield Publishers. bls. 322. ISBN 9781475856262.
  14. Lukowski, Jerzy; Zawadzki, Hubert (2001). A Concise History of Poland. Cambridge: Cambridge University Press. bls. 4. ISBN 0521551099.
  15. Lehr-Spławiński, Tadeusz (1978). Język polski. Pochodzenie, powstanie, rozwój (pólska). Warszawa: Państwowe Wydawnictwo Naukowe. bls. 64. OCLC 4307116.
  16. Potkański, Karol (2004) [1922]. Pisma pośmiertne. Granice plemienia Polan (pólska). 1 & 2. árgangur. Kraków: Polska Akademia Umiejętności. bls. 423. ISBN 9788370634117.
  17. Everett-Heath, John (2019). „Poland (Polska)“. The Concise Dictionary of World Place-Names. Oxford: University Press. ISBN 9780191905636.
  18. „Af hverju skrifa Íslendingar Pólland með tveimur L-um?“. Vísindavefurinn.
  19. Buko, Andrzej (2014). Bodzia. A Late Viking-Age Elite Cemetery in Central Poland. Leiden: Brill. bls. 36, 62. ISBN 9789004281325.
  20. Hannan, Kevin (1994). Language and Identity in a West Slavic Borderland: The Case of Teschen Silesia. Austin: University of Texas. bls. 127. OCLC 35825118.
  21. 21,0 21,1 21,2 21,3 21,4 21,5 21,6 21,7 Dabrowski, Patrice M. (2014). Poland. The First Thousand Years. New York: Cornell University Press. ISBN 9781501757402.
  22. Kamusella, Tomasz (2022). Words in Space and Time: A Historical Atlas of Language Politics in Modern Central Europe. Budapest: Central European University Press. bls. 9. ISBN 9789633864180.
  23. Małecki, Antoni (1907). Lechici w świetle historycznej krytyki (pólska). Lwów (Lviv): Zakład Narodowy im. Ossolińskich. bls. 37. ISBN 9788365746641.
  24. Andersson, Theodore Murdock; Morkinskinna, Ellen Gade (2000). The Earliest Icelandic Chronicle of the Norwegian Kings (1030-1157). Ithaca: Cornell University Press. bls. 471. ISBN 9780801436949.
  25. Fabisiak, Wojciech (2002). Dzieje powiatu wrocławskiego (pólska). Wrocław: Starostwo Powiatowe. bls. 9. ISBN 9788391398531.
  26. Chwalba, Andrzej (2002). Kalendarium dziejów Polski (Chronology of Polish History) (pólska). Kraków: Wydawnictwo Literackie. bls. 7. ISBN 9788308031360.
  27. Jurek, Krzysztof (2019). Poznać przeszłość 1. Karty pracy ucznia. Poziom podstawowy (pólska). Warszawa (Warsaw): Nowa Era. bls. 93. ISBN 9788326736537.
  28. Subbaraman, Nidhi (12. desember 2012). „Art of cheese-making is 7,500 years old“. Nature News. doi:10.1038/nature.2012.12020. ISSN 0028-0836. S2CID 180646880.
  29. Attema, P. A. J.; Los-Weijns, Ma; Pers, N. D. Maring-Van der (Desember 2006). „Bronocice, Flintbek, Uruk, Jebel Aruda and Arslantepe: The Earliest Evidence Of Wheeled Vehicles In Europe And The Near East“. Palaeohistoria. University of Groningen. 47/48: 10–28 (11).
  30. Gardawski, Aleksander; Rajewski, Zdzisław; Gąssowski, Jerzy (6. september 1957). „Archeologia i pradzieje Polski“ (pólska). Państwowe Zakł. Wydawn.
  31. Ring, Trudy; Watson, Noelle; Schellinger, Paul (28. október 2013). Northern Europe: International Dictionary of Historic Places (enska). Routledge. ISBN 9781136639449. Sótt 31. mars 2019.
  32. Davies, Norman (2001). Heart of Europe. The Past in Poland's Present (enska). Oxford: Oxford University Press. bls. 247. ISBN 9780192801265.
  33. Zdziebłowski, Szymon (27. apríl 2018). „Archeolog: mamy dowody na obecność rzymskich legionistów na terenie Polski“. Nauka w Polsce (pólska). Ministerstwo Edukacji i Nauki. Sótt 8. ágúst 2021.
  34. Maciej Kosiński; Magdalena Wieczorek-Szmal (2007). Z mroku dziejów. Kultura Łużycka (PDF) (pólska). Muzeum Częstochowskie. Rezerwat archeologiczny (Museum of Częstochowa). bls. 3–4. ISBN 978-83-60128-11-4. Sótt 9. janúar 2013. „Możemy jedynie stwierdzić, że kultura łużycka nie tworzyła jednej zwartej całości. Jak się wydaje, jej skład etniczny był niejednorodny.“
  35. Mielnik-Sikorska, Marta; og fleiri (2013), „The History of Slavs Inferred from Complete Mitochondrial Genome Sequences“, PLOS ONE, 8 (1): e54360, Bibcode:2013PLoSO...854360M, doi:10.1371/journal.pone.0054360, PMC 3544712, PMID 23342138
  36. Brather, Sebastian (2004). „The Archaeology of the Northwestern Slavs (Seventh To Ninth Centuries)“. East Central Europe. 31 (1): 78–81. doi:10.1163/187633004x00116.
  37. Trubačev, O. N. 1985. Linguistics and Ethnogenesis of the Slavs: The Ancient Slavs as Evidenced by Etymology and Onomastics. Journal of Indo-European Studies (JIES), 13: 203–256.
  38. Dabrowski, Patrice (2014). Poland: The First Thousand Years. Ithaca: Cornell University Press. bls. 21–22. ISBN 9781501757402.
  39. Ramet, Sabrina (2017). The Catholic Church in Polish History. From 966 to the Present. New York: Palgrave Macmillan US. bls. 15. ISBN 978-1-137-40281-3.
  40. 40,0 40,1 40,2 Curta, Florin; Holt, Andrew (2016). Great Events in Religion. Santa Barbara: ABC-CLIO. bls. 468, 480–481. ISBN 9781610695664.
  41. Knoll, Paul W.; Schaer, Frank, ritstjórar (2003), Gesta Principum Polonorum / The Deeds of the Princes of the Poles, Central European Medieval Texts, General Editors János M. Bak, Urszula Borkowska, Giles Constable & Gábor Klaniczay, Volume 3, Budapest/ New York: Central European University Press, bls. 87–211, ISBN 978-963-9241-40-4
  42. Ożóg, Krzysztof (2009). The Role of Poland in the Intellectual Development of Europe in the Middle Ages. Kraków: Societas Vistulana. bls. 7. ISBN 978-83-61033-36-3.
  43. Davies, Norman (2005a). God's Playground: A History of Poland, Volume I (2nd. útgáfa). Oxford: Oxford University Press. bls. 27–28. ISBN 978-0-231-12817-9.
  44. Kumor, Bolesław; Obertyński, Zdzisław (1974). Historia Kościoła w Polsce. Poznań: Pallottinum. bls. 12. OCLC 174416485.
  45. Gerard Labuda (1992). Mieszko II król Polski: 1025–1034 : czasy przełomu w dziejach państwa polskiego. Secesja. bls. 112. ISBN 978-83-85483-46-5. Sótt 26. október 2014. „... w wersji Anonima Minoryty mówi się znowu, iż w Polsce "paliły się kościoły i klasztory", co koresponduje w przekazaną przez Anonima Galla wiadomością o zniszczeniu kościołów katedralnych w Gnieźnie...“
  46. Krajewska, Monika (2010). Integracja i dezintegracja państwa Piastów w kronikach polskich Marcina Kromera oraz Marcina i Joachima Bielskich9 (pólska). Warszawa (Warsaw): W. Neriton. bls. 82. ISBN 978-83-909852-1-3.
  47. Anita J. Prazmowska (2011). A History of Poland. Palgrave Macmillan. bls. 34–35. ISBN 978-0-230-34537-9. Sótt 26. október 2014.[óvirkur tengill]
  48. Melton, J. Gordon (2011). Religious Celebrations. An Encyclopedia of Holidays, Festivals, Solemn Observances, and Spiritual Commemorations. Santa Barbara: ABC-CLIO. bls. 834. ISBN 978-1-59884-206-7.
  49. Hourihane, Colum (2012). The Grove encyclopedia of medieval art and architecture. 2. árgangur. New York: Oxford University Press. bls. 14. ISBN 9780195395365.
  50. Biber, Tomasz; Leszczyński, Maciej (2000). Encyklopedia Polska 2000. Poczet władców. Poznań: Podsiedlik-Raniowski. bls. 47. ISBN 978-83-7212-307-7.
  51. Krasuski, Jerzy (2009). Polska-Niemcy. Stosunki polityczne od zarania po czasy najnowsze. Wrocław: Zakład Narodowy im. Ossolińskich. bls. 53. ISBN 978-83-04-04985-7.
  52. Maroń, Jerzy (1996). Legnica 1241 (pólska). Warszawa (Warsaw): Bellona. ISBN 978-83-11-11171-4.
  53. Davies, Norman (2010) [1996]. Europe: A History. New York: Oxford University Press. bls. 366. ISBN 9780198201717.
  54. Dembkowski, Harry E. (1982). The union of Lublin, Polish federalism in the golden age. East European Monographs. bls. 271. ISBN 978-0-88033-009-1.
  55. Kula, Marcin (2000). Zupełnie normalna historia, czyli, Dzieje Polski zanalizowane przez Marcina Kulę w krótkich słowach, subiektywnie, ku pożytkowi miejscowych i cudzoziemców. Warszawa (Warsaw): Więzi. bls. 58–59. ISBN 978-83-88032-27-1.
  56. Wróblewski, Bohdan (2006). Jaki znak twój? Orzeł Biały. Piekary Śląskie: ZP Grupa. bls. 28. ISBN 978-83-922944-3-6.
  57. Stanley S. Sokol (1992). The Polish Biographical Dictionary: Profiles of Nearly 900 Poles who Have Made Lasting Contributions to World Civilization. Bolchazy-Carducci Publishers. bls. 60. ISBN 978-0-86516-245-7.
  58. Britannica Educational Publishing (2013). Estonia, Latvia, Lithuania, and Poland. Britannica Educational Publishing. bls. 139. ISBN 978-1-61530-991-7.
  59. Wróbel, Piotr (2004). „Poland“. Í Frucht, Richard C. (ritstjóri). Eastern Europe: An Introduction to the People, Lands, and Culture. 1. árgangur. ABC-CLIO. bls. 10. ISBN 978-1-57607-800-6. Sótt 8. apríl 2013. „At the same time, when most of Europe was decimated by the Black Death, Poland developed quickly and reached the levels of the wealthiest countries of the West in its economy and culture.“
  60. Magill, Frank N. (2012). The Middle Ages. Dictionary of World Biography. 2. árgangur. Hoboken: Taylor & Francis. bls. 210. ISBN 978-1-136-59313-0.
  61. Watson, Noelle (2013). Northern Europe. International Dictionary of Historic Places. New York: Routledge, Taylor & Francis. bls. 388. ISBN 978-1-136-63944-9.
  62. Magill 2012, bls. 64
  63. 63,0 63,1 Davies 2001, bls. 256
  64. Halecki, Oscar (1991). Jadwiga of Anjou and the Rise of East-Central Europe. Polish Institute of Arts and Sciences of America. bls. 116–117, 152. ISBN 978-0-88033-206-4.
  65. Griessler, Christina (2020). The Visegrad Four and the Western Balkans. Baden-Baden: Nomos. bls. 173. ISBN 978-3-7489-0113-6.
  66. Jerzy Wyrozumski – Historia Polski do roku 1505 (History of Poland until 1505), Państwowe Wydawnictwo Naukowe (Polish Scientific Publishers PWN), Warszawa 1986, ISBN 978-83-01-03732-1
  67. Norman Davies (1996). Europe: a history. Oxford University Press. bls. 428. ISBN 978-0-19-820171-7. „By 1490 the Jagiellons controlled Poland–Lithuania, Bohemia, and Hungary, but not the Empire.“
  68. Frost, Robert I. (2018). The Making of the Polish-Lithuanian Union 1385-1569. 1. árgangur. Oxford: University Press. bls. 242. ISBN 9780198800200.
  69. Graves, M. A. R. (2014). The Parliaments of Early Modern Europe. Hoboken: Taylor & Francis. bls. 101. ISBN 978-1-317-88433-0.
  70. Graves 2014, bls. 101, 197
  71. 71,0 71,1 Paul W. Knoll (2011). „Religious Toleration in Sixteenth-Century Poland. Political Realities and Social Constrains.“. Í Howard Louthan; Gary B. Cohen; Franz A.J. Szabo (ritstjórar). Diversity and Dissent: Negotiating Religious Difference in Central Europe, 1500–1800. Berghahn Books. bls. 30–45. ISBN 978-0-85745-109-5.
  72. Houlden, J. L. (2015). Jesus in History, Legend, Scripture, and Tradition: A World Encyclopedia. Denver, Colorado: ABC-CLIO. bls. 577–578. ISBN 978-1-61069-804-7.
  73. 73,0 73,1 Butterwick, Richard (2021). The Polish-Lithuanian Commonwealth, 1733-1795. Yale University Press. bls. 21, 14. ISBN 978-0-300-25220-0.
  74. Parker, Geoffrey (2017). Global Crisis. War, Climate Change and Catastrophe in the Seventeenth Century. New Haven: Yale University Press. bls. 122. ISBN 978-0-300-21936-4.
  75. Parker 2017, bls. 122
  76. Ward, Adolphus; Hume, Martin (2018). The Wars of Religion in Europe. Vachendorf: Perennial Press. ISBN 978-1-5312-6318-8.
  77. O'Connor, Kevin (2015). The History of the Baltic States. 2nd Edition. árgangur. Westport: ABC-CLIO. bls. 37–38. ISBN 978-1-61069-916-7.
  78. Halina Lerski (30. janúar 1996). Historical Dictionary of Poland, 966-1945. ABC-CLIO. bls. 678. ISBN 978-0-313-03456-5. Sótt 2. júlí 2012.
  79. Szujski, Józef (1894). Dzieła Józefa Szujskiego. Dzieje Polski (pólska). 3. árgangur. Kraków: Szujski-Kluczycki. bls. 162–163. OCLC 717123162.
  80. Peterson, Gary Dean (2014). Warrior Kings of Sweden. The Rise of an Empire in the Sixteenth and Seventeenth Centuries. McFarland, Incorporated, Publishers. bls. 107. ISBN 978-1-4766-0411-4.
  81. Dyer, Thomas Henry (1861). The History of Modern Europe. From the Fall of Constantinople, in 1453, to the War in the Crimea, in 1857. Volume 2. árgangur. London: J. Murray. bls. 504. ISBN 978-3-337-75029-9.
  82. Dzięgielewski, Jan (1994). Encyklopedia historii Polski: A-M (pólska). Polska: Morex. bls. 101. ISBN 978-83-902522-1-6.
  83. Kizwalter, Tomasz (1987). Kryzys Oświecenia a początki konserwatyzmu polskiego (pólska). Warszawa (Warsaw): Uniwersytet Warszawski. bls. 21. OCLC 23942204.
  84. Scott, H. M. (2015). The Oxford Handbook of Early Modern European History, 1350-1750. 2. árgangur. Oxford: Oxford University Press. bls. 409–413. ISBN 978-0-19-102000-1.
  85. Czapliński, Władysław (1976). Władysław IV i jego czasy [Władysław IV and His Times] (pólska). Warsaw: PW "Wiedza Poweszechna". bls. 170, 217–218.
  86. Scott 2015, bls. 409
  87. 87,0 87,1 Scott 2015, bls. 409–413
  88. Scott 2015, bls. 411
  89. Scott 2015, bls. 409–412, 666
  90. Butterwick 2021, bls. 88
  91. Butterwick 2021, bls. 83–88
  92. Butterwick 2021, bls. 89–91
  93. Butterwick 2021, bls. 108–109
  94. Butterwick 2021, bls. 108–116
  95. Józef Andrzej Gierowski – Historia Polski 1764–1864 [History of Poland 1764–1864], Państwowe Wydawnictwo Naukowe (Polish Scientific Publishers PWN), Warszawa 1986, ISBN 978-83-01-03732-1, pp. 1–74
  96. Ted Tapper; David Palfreyman (2005). Understanding Mass Higher Education: Comparative Perspectives On Access. RoutledgeFalmer. bls. 140. ISBN 978-0-415-35491-2. Sótt 17. mars 2013.
  97. Butterwick 2021, bls. 176
  98. Polska Akademia Nauk (1973). Nauka polska. Polska Akademia Nauk. bls. 151. Sótt 30. ágúst 2021.
  99. Butterwick 2021, bls. 260
  100. Butterwick 2021, bls. 310
  101. Józef Andrzej Gierowski – Historia Polski 1764–1864 (History of Poland 1764–1864), pp. 74–101
  102. Bertholet, Auguste (2021). „Constant, Sismondi et la Pologne“. Annales Benjamin Constant. 46: 65–85.
  103. Schulz-Forberg, Hagen (2005). Unravelling Civilisation: European Travel and Travel Writing. Peter Lang. bls. 162. ISBN 9052012350.
  104. Storozynski, Alex (2009). The Peasant Prince: Thaddeus Kosciuszko and the Age of Revolution (Google Books). New York: St. Martin's Press, 352 pages. ISBN 978-1-4299-6607-8.
  105. Gardner, Monica Mary (1942). The Rising of Kościuszko (Chapter VII) (Project Gutenberg).
  106. Nicholls, David (1999). Napoleon. Oxford: ABC-CLIO. bls. 204. ISBN 978-0-87436-957-1.
  107. Lukowski, Jerzy; Zawadzki, W.H. (2001). A Concise History of Poland. Cambridge: Cambridge University Press. bls. 313. ISBN 978-0-521-55917-1.
  108. Carolina Armenteros; Dawn Dodds; Isabel Divanna; Tim Blanning (2008). Historicising the French Revolution. Newcastle: Cambridge Scholars. bls. 247. ISBN 978-1-4438-1157-6.
  109. Kappeler, Andreas (27. ágúst 2014). The Russian Empire: A Multi-ethnic History. Routledge. ISBN 978-1-317-56810-0 – gegnum Google Books.
  110. Lucassen, Leo; Feldman, David; Oltmer, Jochen (6. september 2006). Paths of Integration: Migrants in Western Europe (1880–2004). Amsterdam University Press. ISBN 978-90-5356-883-5 – gegnum Google Books.
  111. Restivo, Sal (2005). Science, Technology, and Society: An Encyclopedia. New York: Oxford University Press. bls. 613. ISBN 1280835133.
  112. Koryś, Piotr (2018). Poland From Partitions to EU Accession: A Modern Economic History, 1772–2004. Springer. ISBN 978-3-319-97126-1.
  113. Paris 1919: Six Months that Changed the World (2001), p. 208.
  114. Curtis, Glenn E. (1994). Poland: A Country Study. 550. árgangur (3. útgáfa). Washington, D.C.: Federal Research Division of the Library of Congress. bls. 29. ISBN 978-0-844-40827-9.
  115. Wandycz, Piotr S. (2009). „The Second Republic, 1921-1939“. The Polish Review. University of Illinois Press. 54 (2): 159–171. JSTOR 25779809.
  116. Kukiel, Marjan (1929). „The Polish-Soviet Campaign of 1920“. The Slavonic and East European Review. Modern Humanities Research Association. 8 (22): 48–65. JSTOR 4202361.
  117. Bitter glory: Poland and its fate, 1918 to 1939; p. 179
  118. Machray, Robert (nóvember 1930). „Pilsudski, the Strong Man of Poland“. Current History. University of California Press. 33 (2): 195–199. doi:10.1525/curh.1930.33.2.195. JSTOR 45333442.
  119. Porter-Szücs, Brian (6. janúar 2014). Poland in the Modern World: Beyond Martyrdom. John Wiley & Sons. ISBN 978-1-118-59808-5 – gegnum Google Books.
  120. "Russian parliament condemns Stalin for Katyn massacre". BBC News. 26 November 2010
  121. Michael Geyer (2009). Beyond Totalitarianism: Stalinism and Nazism Compared. Cambridge University Press. bls. 152–153. ISBN 978-0-521-89796-9.
  122. Steven J. Zaloga; Richard Hook (1982). The Polish Army 1939–45. Osprey Publishing. bls. 3–. ISBN 978-0-85045-417-8. Sótt 6. mars 2011 – gegnum Google Books.[óvirkur tengill]
  123. Jerzy Jan Lerski (1996). Historical Dictionary of Poland, 966–1945. Greenwood Publishing Group. bls. 18. ISBN 978-0-313-26007-0. Sótt 6. mars 2011 – gegnum Google Books.
  124. E. Garrison Walters (1988). The other Europe: Eastern Europe to 1945. Syracuse University Press. bls. 276–. ISBN 978-0-8156-2440-0. Sótt 6. mars 2011 – gegnum Google Books.
  125. Kochanski, Halik (2014). The Eagle Unbowed: Poland and the Poles in the Second World War. Harvard University Press. ISBN 978-0-674-06814-8.
  126. Gordon Welchman, The Hut Six Story, 1982, p. 289.
  127. 127,0 127,1 Jerzy Jan Lerski (1996). Historical Dictionary of Poland, 966–1945. Greenwood Publishing Group. bls. 34. ISBN 978-0-313-26007-0 – gegnum Google Books.
  128. Stanisław Salmonowicz, Polskie Państwo Podziemne, Wydawnictwa Szkolne i Pedagogiczne, Warszawa, 1994, ISBN 978-83-02-05500-3, p. 37
  129. The Warsaw Rising, polandinexile.com
  130. Browning, Christopher R.; Matthäus, Jürgen (2004). The origins of the Final Solution: the evolution of Nazi Jewish policy, September 1939 – March 1942. Comprehensive history of the Holocaust. Lincoln: University of Nebraska Press. ISBN 978-0-8032-1327-2.
  131. Snyder, Timothy (2015). Black earth: the Holocaust as history and warning (First. útgáfa). New York: Tim Duggan Books. ISBN 978-1-101-90345-2.
  132. Materski & Szarota (2009) Quote: Liczba Żydów i Polaków żydowskiego pochodzenia, obywateli II Rzeczypospolitej, zamordowanych przez Niemców sięga 2,7- 2,9 mln osób.Source: IPN.
  133. „Poland Historical Background“.
  134. „Polish Victims“. United States Holocaust Memorial Museum.
  135. Piotrowski, Tadeusz. „Poland World War II casualties (in thousands)“.
  136. Materski & Szarota (2009) Quote: Łączne straty śmiertelne ludności polskiej pod okupacją niemiecką oblicza się obecnie na ok. 2 770 000.
  137. „Documenting Numbers of Victims of the Holocaust and Nazi Persecution“. United States Holocaust Memorial Museum.
  138. Wardzyńska, Maria (2009). Był rok 1939. Operacja niemieckiej policji bezpieczeństwa w Polsce. Intelligenzaktion [The Year was 1939: Operation of German Security Police in Poland. Intelligenzaktion] (PDF) (pólska). Institute of National Remembrance. ISBN 978-83-7629-063-8. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 29. nóvember 2014. Sótt 4. janúar 2020. „Oblicza się, że akcja „Inteligencja" pochłonęła ponad 100 tys. ofiar. Translation: It is estimated that Intelligenzaktion took the lives of 100,000 Poles.“
  139. Grzegorz Motyka, Od rzezi wołyńskiej do akcji "Wisła". Konflikt polsko-ukraiński 1943–1947. Kraków 2011, p. 447. See also: Book review by Tomasz Stańczyk: "Grzegorz Motyka oblicza, że w latach 1943–1947 z polskich rąk zginęło 11–15 tys. Ukraińców. Polskie straty to 76–106 tys. zamordowanych, w znakomitej większości podczas rzezi wołyńskiej i galicyjskiej."
  140. „What were the Volhynian Massacres?“. 1943 Wołyń Massacres Truth and Remembrance. Institute of National Remembrance. 2013.
  141. Materski & Szarota (2009)
  142. Holocaust: Five Million Forgotten: Non-Jewish Victims of the Shoah. Geymt 25 janúar 2018 í Wayback Machine Remember.org.
  143. „Polish experts lower nation's WWII death toll“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. ágúst 2019.
  144. Bogumiła Lisocka-Jaegermann (2006). "Post-War Migrations in Poland". In: Mirosława Czerny. Poland in the geographical centre of Europe. Hauppauge, New York: Nova Science Publishers. pp. 71–87. ISBN 978-1-59454-603-7. Google Books preview.
  145. Eberhardt, Piotr (2006). Political Migrations in Poland 1939–1948 (PDF). Warsaw: Didactica. ISBN 978-1-5361-1035-7. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 26. júní 2015.
  146. Eberhardt, Piotr (2011). Political Migrations On Polish Territories (1939–1950) (PDF). Warsaw: Polish Academy of Sciences. ISBN 978-83-61590-46-0. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 20. maí 2014. Sótt 31. ágúst 2022.
  147. "European Refugee Movements After World War Two". BBC – History.
  148. „ARTICLE by Karol Nawrocki, Ph.D.: The soldiers of Polish freedom“. Sótt 6. mars 2022.
  149. Arthur Bliss Lane I saw Poland betrayed: An American Ambassador Reports to the American People. Indianapolis: The Bobbs-Merrill Company, 1948.
  150. „Warsaw Pact: Definition, History, and Significance“. Sótt 6. mars 2022.
  151. „Polska. Historia“. PWN Encyklopedia (pólska). Afrit af upprunalegu geymt þann 1. október 2006. Sótt 11. júlí 2005.
  152. „Solidarity Movement– or the Beginning of the End of Communism“. september 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 28 mars 2022. Sótt 6. mars 2022.
  153. Hunter Jr., Richard J.; Ryan, Leo V. (2006). „A RETROSPECTIVE ANALYSIS AND FUTURE PERSPECTIVE: "Why Was Poland's Transition So Difficult?". The Polish Review. University of Illinois Press. 51 (2): 147–171. JSTOR 25779611.
  154. Kowalik, Tadeusz (2011). From Solidarity to Sell-Out: The Restoration of Capitalism in Poland. New York, NY: Monthly Review Press.
  155. Spieser, Catherine (apríl 2007). „Labour Market Policies in Post-communist Poland: Explaining the Peaceful Institutionalisation of Unemployment“. Politique européenne. 21 (1): 97–132. doi:10.3917/poeu.021.0097.
  156. Poláčková, Hana (1994). „Regional Cooperation in Central Europe: Poland, Hungary, Czech Republic and Slovakia: from Visegrad to CEFTA“. Perspectives. SAGE Publishers (3): 117–129. JSTOR 23615759.
  157. Sieradzka, Monika (3. nóvember 2019). „After 20 years in NATO, Poland still eager to please“. DW News. Deutsche Welle. Sótt 26. mars 2022. „Poland's NATO accession in 1999 was meant to provide protection from Russia.“
  158. Szczerbiak, Aleks (september 2004). „History Trumps Government Unpopularity: The June 2003 Polish EU Accession Referendum“. West European Politics. 27 (4): 671–690. doi:10.1080/0140238042000249876. S2CID 153998856.
  159. Kundera, Jaroslaw (september 2014). „Poland in the European Union. The economic effects of ten years of membership“. Rivista di Studi Politici Internazionali. 81 (3): 377–396. JSTOR 43580712.
  160. „Europe's border-free zone expands“. BBC News. 21. desember 2007. Sótt 28. júlí 2011.
  161. Smith, Alex Duval (7. febrúar 2016). „Will Poland ever uncover the truth about the plane crash that killed its president?“. The Guardian. Warsaw. Sótt 26. mars 2022.
  162. Turkowski, Andrzej. „Ruling Civic Platform Wins Parliamentary Elections in Poland“. Carnegie Endowment for International Peace.
  163. Lynch, Suzanne. „Donald Tusk named next president of European Council“. The Irish Times.
  164. „Poland elections: Conservatives secure decisive win“. BBC News. 25. október 2015.
  165. „Poland's populist Law and Justice party win second term in power“. The Guardian. 14. október 2019.
  166. „Rule of Law: European Commission acts to defend judicial independence in Poland“. European Commission (enska). Sótt 15. nóvember 2020.
  167. „Commission v Poland: What Happened, What it Means, What it Will Take“. Verfassungsblog (bandarísk enska). 10. mars 2020. Sótt 15. nóvember 2020.
  168. „Poland's Duda narrowly beats Trzaskowski in presidential vote“. BBC News. 13. júlí 2020.
  169. „Number of people who crossed the Polish border from the war-stricken Ukraine as of July 2022, by date of report“. Statista. 28. júlí 2022.
  170. „Powierzchnia i ludność w przekroju terytorialnym w 2018 roku“. stat.gov.pl.
  171. 171,0 171,1 „Cechy krajobrazów Polski – Notatki geografia“.
  172. https://1001miejsc.pl/odkryj-cuda-natury-w-polsce-9-najciekawszych/3/#:~:text=Mierzeja%20Helska,Kaszubi%2C%20silnie%20kultywuj%C4%85cy%20swoje%20tradycje Geymt 12 desember 2021 í Wayback Machine.
  173. 173,0 173,1 „Podróż przez regiony geograficzne Polski“. regiony-projekt.gozych.edu.pl.
  174. „European Plain | plain, Europe“. Encyclopedia Britannica.
  175. „Najwyższe szczyty w Tatrach Polskich i Słowackich“. www.polskie-gory.pl. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2021. Sótt 23. ágúst 2021.
  176. 176,0 176,1 176,2 Serwis Rzeczypospolitej Polskiej (n.d.). „Civil Service; Basic information about Poland“. www.gov.pl (enska). Government of the Republic of Poland. Sótt 8. mars 2022.
  177. Stanisz, Piotr (2020). Religion and Law in Poland (enska). Alphen aan den Rijn: Kluwer Law International. bls. 13. ISBN 9789403529738.
  178. Central Intelligence Agency (2021). CIA World Factbook 2021-2022 (enska). New York: Skyhorse Publishing. ISBN 9781510763814.
  179. Foundations of Law: The Polish Perspective (enska). Warszawa (Warsaw): Wolters Kluwer Polska. 2021. bls. 127. ISBN 9788382231731.
  180. Gwiazda, Anna (2015). Democracy in Poland: Representation, participation, competition and accountability since 1989. Florence: Taylor and Francis. bls. 67. ISBN 9781315680118.
  181. 181,0 181,1 Granat, Mirosław; Granat, Katarzyna (2021). The Constitution of Poland: A Contextual Analysis. Oxford: Hart Publishing. bls. 51, 52, 221. ISBN 9781509913947.
  182. Piotr Machnikowski; Justyna Balcarczyk; Monika Drela (2017). „Political System (III)“. Contract law in Poland (enska). Alphen aan den Rijn: Kluwer Law International. ISBN 9789041189332. OCLC 1046634087.
  183. 183,0 183,1 Jasiński, Wojciech; Kremens, Karolina (2019). „Political System and Administrative Structure (IV)“. Criminal law in Poland (enska). Alphen aan den Rijn: Kluwer Law International. ISBN 9789403513249.
  184. 184,0 184,1 Bień-Kacała, Agnieszka; Młynarska-Sobaczewska, Anna (2021). „The Speaker, Presidium, and Convent of Seniors, Parliamentary Committees (II), s. 281“. Constitutional law in Poland (enska). Alphen aan den Rijn: Kluwer Law International. ISBN 9789403533001.
  185. http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=490658
  186. http://www.icelandonline.is/ferdaheimurisl/polland.htm
  187. 187,0 187,1 „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. nóvember 2011. Sótt 25. október 2011.
  188. http://snara.is/vefbaekur/g.aspx?dbid=2&action=search&sw=Sles%C3%ADa
  189. http://snara.is/s4.aspx?sw=ermland&dbid=Íslenska&action=search[óvirkur tengill]
  190. Jan Cienski, Warsaw, Poland's growth defies eurozone crisis Financial Times, 1 July 2012. Internet Archive.
  191. „Pracujący w rolnictwie, przemyśle i usługach | RynekPracy.org“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. apríl 2020. Sótt 28. maí 2020.
  192. „Polish economy seen as stable and competitive“. Warsaw Business Journal. 9. september 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. september 2010. Sótt 28. júlí 2011.
  193. Dorota Ciesielska-Maciągowska (5. apríl 2016). „Hundreds of foreign companies taken over by Polish firms over the last decade“. Central European Financial Observer (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 13 apríl 2016. Sótt 17. júní 2017.
  194. Thomas White International (September 2011), Prominent Banks in Poland. Emerging Market Spotlight. Banking Sector in Poland (Internet Archive). Retrieved 6 November 2014.
  195. Worldbank.org, Global Financial Development Report 2014. Appendix B. Key Aspects of Financial Inclusion (PDF file, direct download). Retrieved 6 November 2014.
  196. Schwab, Klaus. „The Global Competitiveness Report 2010–2011“ (PDF). World Economic Forum. bls. 27 (41/516). Sótt 25. apríl 2011.
  197. „Exports of goods and services (BoP, current US$) | Data“. data.worldbank.org.
  198. „Exports of goods and services (% of GDP) | Data“. data.worldbank.org. Sótt 6. september 2021.
  199. „GUS podał najnowsze dane dot. bezrobocia w Polsce“. 23. október 2018. Sótt 28. október 2018.
  200. Ivana Kottasová (30. júlí 2019). „Brain drain claimed 1.7 million youths. So this country is scrapping its income tax“. CNN. Sótt 30. júlí 2019.
  201. Statistics Poland (2021). Preliminary results of the National Population and Housing Census 2021 (enska). Główny Urząd Statystyczny GUS. bls. 1.
  202. Statistics Poland (2021). Area and population in the territorial profile (enska og pólska). Główny Urząd Statystyczny GUS. bls. 20.
  203. „Fertility rate, total (births per woman) - Poland“. World Bank. Sótt 12. mars 2022.
  204. „Median age“. CIA World Factbook. Central Intelligence Agency. Sótt 12. mars 2022.
  205. „Urban population (% of the population) - Poland“. World Bank. Sótt 13. mars 2022.
  206. „Distribution of population by degree of urbanisation, dwelling type and income group - EU-SILC survey“. European Statistical Office "Eurostat". European Commission. 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 21 janúar 2023. Sótt 6. apríl 2022.
  207. Funkcje Metropolitalne Pięciu Stolic Województw Wschodnich Geymt 27 mars 2009 í Wayback Machine - Markowski
  208. World Urbanization Prospects - United Nations - Department of Economic and Social Affairs / Population Division, The 2003 Revision (data of 2000)
  209. Eurostat, Urban Audit database Geymt 6 apríl 2011 í Wayback Machine, accessed on 12 March 2009. Data for 2004.
  210. Cox, Wendell (2013). „Major Metropolitan Areas in Europe“. New Geography. Joel Kotkin and Praxis Strategy Group.
  211. European Spatial Planning Observation Network, Study on Urban Functions (Project 1.4.3) Geymt 24 september 2015 í Wayback Machine, Final Report, Chapter 3, (ESPON, 2007)
  212. Jażdżewska, Iwona (september 2017). „Changes in population density of the urban population in southern Poland in the period 1950-2011 against the background of political and economic transformation“. Miscellanea Geographica. Sciendo. 21 (3): 107–113. doi:10.1515/mgrsd-2017-0017. ISSN 2084-6118. S2CID 134111630.
  213. Struktura narodowo-etniczna, językowa i wyznaniowa ludności Polski. Narodowy Spis Powszechny Ludności i Mieszkań 2011 [National-ethnic, linguistic and religious structure of Poland. National Census of Population and Housing 2011] (PDF) (pólska). Central Statistical Office. 2015. bls. 36. ISBN 978-83-7027-597-6.
  214. Statistics Poland (n.d.). The Concept of the International Migration. Statistics System in Poland (PDF) (enska). Główny Urząd Statystyczny GUS. bls. 5.
  215. „Filling Poland's labour gap“. Poland Today. Afrit af upprunalegu geymt þann 12 maí 2022. Sótt 24. mars 2019.
  216. Departament Rynku Pracy MRPiPS (2021). „Zezwolenia na pracę cudzoziemców“. psz.praca.gov.pl (pólska).