Innrás Rússa í Úkraínu 2022–

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Innrás Rússa í Úkraínu 2022
Hluti af stríði Rússlands og Úkraínu
2022 Russian invasion of Ukraine.svg
Árásir á Úkraínu
Dagsetning24. febrúar 2022
Staðsetning
Stríðsaðilar
Fáni Rússlands Rússland
Flag of Donetsk People's Republic.svg Alþýðulýðveldið Donetsk
Flag of the Luhansk People's Republic.svg Alþýðulýðveldið Lúhansk
Stuðningur:
Fáni Hvíta-Rússlands Hvíta-Rússland
Fáni Úkraínu Úkraína
Leiðtogar
Fáni Rússlands Vladímír Pútín
Fáni Úkraínu Volodymyr Zelenskyj
Fjöldi hermanna
Mannfall og tjón
Alls um 200.000+ drepnir og særðir (skv. BNA),[4][5][6]
160.000 drepnir (skv. Úkraínumönnum)
Um 6.000 drepnir (skv. Rússum)
Alls um 100.000 drepnir og særðir (skv. BNA)
10.000 drepnir (skv. Úkraínumönnum)
61.000 skv. Rússum
Almennir borgarar drepnir: Um 9.000- 41.000 (skv. Úkraínu)

Þann 24. febrúar 2022 gerðu Rússar innrás í Úkraínu. Innrásin er hluti af hernaðardeilum á milli ríkjanna sem hafa staðið yfir frá árinu 2014. Stríðið skapaði milljóna manna flóttamannastraum sem var sá mesti frá seinni heimsstyrjöld.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Átök Rússlands og Úkraínu má rekja aftur til ársins 2014, til Evrómajdan-mótmælanna og úkraínsku byltingarinnar þar sem forsetanum Víktor Janúkovytsj var steypt af stóli. Janúkovytsj hafði verið náinn bandamaður ríkisstjórnar Rússlands og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, og hafði í aðdraganda mótmælanna hætt við fyrirhugað samkomulag um nánara samband Úkraínu við Evrópusambandið.[7]

Eftir að Janúkovytsj var steypt af stóli sendu Rússar herlið á Krímskaga og héldu þar atkvæðagreiðslu sem leiddi til þess að Krímskagi var formlega innlimaður inn í rússneska sambandsríkið.[8] Árið 2014 hófust jafnframt uppreisnir í austurhluta Úkraínu, þar sem meirihluti íbúa er rússneskumælandi.[9] Aðskilnaðarsinnarnir í austurhluta Úkraínu lýstu yfir stofnun sjálfstæðra „alþýðulýðvelda“ í Donetsk og Lúhansk. Rússar veittu aðskilnaðarsinnunum aðstoð en stjórnvöld í Rússlandi neituðu því jafnan að um væri að ræða rússneska stjórnarhermenn.[10][11]

Innrásin[breyta | breyta frumkóða]

2022[breyta | breyta frumkóða]

Þann 26. febrúar hæfði rússnesk eldflaug blokk í Kænugarði.

Undir lok ársins 2021 og í byrjun ársins 2022 söfnuðu Rússar tæplega 200.000 manna herliði við landamæri Úkraínu, sem vakti ótta í Úkraínu og á Vesturlöndum um að Pútín hygðist fyrirskipa innrás í landið.[12] Rússnesk stjórnvöld þvertóku ítrekað fyrir að innrás væri yfirvofandi en ráðamenn þar lögðu jafnframt fram kröfur um að Úkraínu yrði meinaður aðgangur að Atlantshafsbandalaginu um alla framtíð og að bandalagið fjarlægði alla hermenn og öll vopn sín úr Austur-Evrópu.[13]

Febrúar[breyta | breyta frumkóða]

Þann 21. febrúar lýsti Pútín yfir sjálfstæði Alþýðulýðveldanna Donetsk og Lúhansk, héraða rússneskumælandi aðskilnaðarsinna sem höfðu klofið sig frá Úkraínu árið 2014 með stuðningi Rússa.[14] Pútín sendi í kjölfarið rússneska hermenn yfir úkraínsku landamærin til að gegna „friðargæslu“ í Donetsk og Lúhansk.[15] Í ræðu sem Pútín hélt við viðurkenningu sína á sjálfstæði héraðanna efaðist hann um sögulegar forsendur fyrir Úkraínu sem sjálfstæðu ríki og sakaði stjórnvöld þar um að fremja þjóðarmorð.[16]

Morguninn 24. febrúar 2022 hófu Rússar allsherjarinnrás í Úkraínu. Innrásin fór fram bæði frá héruðunum í austurhluta landsins, frá Krímskaga og frá Hvíta-Rússlandi með stuðningi stjórnar Alexanders Lúkasjenkó.[17][18] Rússneski herinn gerði árás á olíubirgðastöð suður af Kyjív.[19]

Í yfirlýsingu sinni um innrásina sagði Pútín markmið hennar vera að brjóta niður hernaðarmátt Úkraínu og „afmá nasisma“ úr stjórn ríkisins.[20] Hugmyndin um að Úkraínu sé stýrt af nýnasistum hefur verið áberandi í rússneskum áróðri til réttlætingar innrásinni. Hún styðst sumpart við starfsemi nýnasískra öfgaþjóðernishreyfinga á borð við Azovsveitina, sem hefur stöðu undirliðs í úkraínska þjóðvarðliðinu og hefur barist í stríðinu í austurhluta Úkraínu frá 2014.[21] Hreyfingin situr hins vegar ekki í ríkisstjórn Úkraínu og framboð tengt henni fékk enga kjörna fulltrúa í síðustu þingkosningum landsins. Úkraínumenn hafa þvertekið fyrir ásakanir Pútíns um nasisma og hafa bent á að forseti landsins, Volodymyr Zelenskyj, sé sjálfur Gyðingur og hafi misst ættingja í Helförinni.[22]

Rússnesk stjórnvöld hafna því að um innrás sé að ræða og kalla átökin í Úkraínu ávallt „sérstaka hernaðaraðgerð.“[23] Umfjöllun um innrásina hefur verið stranglega ritskoðuð innan Rússlands og þungar refsingar hafa verið lagðar við því að nota hugtökin stríð eða innrás um atburðina.[24][25]

Mars[breyta | breyta frumkóða]

Sprengjum er varpað á útjaðra Kharkív þann 1. mars.

Rússar sátu um Kharkív, aðra stærstu borg landsins en mættu harðri mótstöðu. Ráðist var m.a. á ráðhúsið, hersjúkrahús og skóla.[26] Harðar árásir voru á borgir í suðri, Kherson og Maríúpol, með eldflaugum og stórskotaliði.[27] Í Kyjív var fjarskiptaturn sprengdur.[28]

Kherson féll í hendur rússneskra hermanna þann 3. mars, á áttunda degi innrásarinnar, og var þá fyrsta úkraínska stórborgin sem var hernumin.[29]

Flóttafólk streymdi til Evrópulanda frá Úkraínu, aðallega Póllands, voru þeir orðnir tæpar 2 milljónir 8. mars.[30]

Þann 11. mars voru gerðar loftárásir í borgum í norðvestri; Lútsk og Ívano-Frankívsk. Einnig í Dnípro í miðhlutanum. Loftárás var gerð 13. mars á herflugvöll nærri Lvív við pólsku landamærin þar sem tugir létust. Úkraínumenn hófu gagnsókn á ýmsum stöðum t.d. vestur af Kyjív og tóku landsvæði aftur.[31] Loftárás var gerð á rússneskt herskip við Berdjansk við Azovhaf.[32]

Mariupol var eyðilögð að mestu og flestir íbúanna flúðu. Rússar gerðu m.a. árás á leikhús þar sem borgarar höfðu flúið. Um 300 létust.[33] Flestir íbúanna höfðu flúið í lok mars og um 5.000 látist. 29. mars var gerð loftárás á stjórnarbyggingu í borginni Mykolajív í suðri. Daginn eftir voru gerðar árásir á Tsjerníhív í norðri.[34]

Undir lok marsmánaðar hófu rússneskar hersveitir undir stjórn hershöfðingjans Aleksandrs Tsjajko að hörfa frá Kænugarði, sem hafði verið umsetinn frá því stuttu eftir að innrásin hófst.[35] Þrátt fyrir að hafa ekki náð að hertaka höfuðborgina sögðust Rússar hafa náð upphaflegum markmiðum sínum og að þeir myndu nú einbeita sér að frelsun Donbas-héraðanna í austurhluta Úkraínu.[36][37] Vegna undanhalds Rússa endurheimtu Úkraínumenn mikið landsvæði í kringum Kænugarð, allt að 35 kílómetra austan við borgina.[38] Meðal annars endurheimtu úkraínskir hermenn bæinn Írpín þann 28. mars.[39]

Apríl[breyta | breyta frumkóða]

Árás var gerð á hafnarborgina Odesa í suðvesturhlutanum.

Eftir að Rússar hörfuðu frá úthverfum Kænugarðs tilkynnti úkraínski ríkissaksóknarinn Íryna Venedíktova að lík 410 almennra borgara hefðu fundist á svæðunum sem Rússar höfðu haft umráð yfir. Einnig tilkynntu Úkraínumenn að 280 lík hefðu fundist í fjöldagröfum í borginni Bútsja, sem Rússar höfðu hernumið en svo hörfað frá.[40] Úkraínumenn sökuðu Rússa um að standa fyrir úthugsuðum fjöldamorðum á almennum borgurum á meðan þeir réðu yfir borginni en Rússar höfnuðu ásökununum.[41]

Rússar hófu sókn í austurhéruðunum eða Donbas og gerðu þar loftárásir eftir að hafa hörfað úr svæðum í norðri. Fólksflótti varð úr austurhéruðunum.[42] Loftárás var gerð á almenna borgara á lestarstöð í borginni Kramatorsk. Tugir létust.[43]

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kom til fundar við Zelenskyj í Kænugarði. Hún lofaði skjótri afgreiðslu ef Úkraína sækti um aðild að Evrópusambandinu og aukinni fjárhagsaðstoð við landið.[44]

Rússneska beitiskipinu Moskvu var sökkt á Svartahafi af úkraínskum loftskeytum þann 14. apríl.

Þann 14. apríl gerði Úkraínuher loftárás á þriðja stærsta skip rússneska flotans, beitiskipið Moskvu, á Svartahafi.[45] Staðfest var síðar sama dag að skipinu hefði verið sökkt.[46] Rússar sögðu að kviknað hafi í vopnageymslu skipsins og minntust ekki á loftárás.

Rússar hófu nýja stórsókn í austurhéruðum Úkraínu þann 19. apríl.[47]

Maríúpol var umkringd af Rússum fyrir utan Azovstal-járnvinnsluverið þar sem úkraínskir hermenn og borgarar héldu til.[48] Árásir á lestarstöðvar 25. apríl í vestur-Úkraínu var liður í því að stöðva vopnaflutninga til landsins að sögn Rússa.

26. apríl bárust fregnir af sprengingum í héraðinu Transnistría sem er innan Moldóvu. Leiðtogi rússneska þjóðarbrotsins þar sagði að Úkraínumenn hefðu staðið fyrir þeim en Úkraínumenn sögðu þetta vera átyllu fyrir árás í héraðið.[49]

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fór til fundar í Moskvu og Kænugarði til friðarumleitanna og ræddi við Pútín og Zelenskyj. Á meðan Guterres var í Kænugarði voru loftárásir gerðar á borgina.

Maí[breyta | breyta frumkóða]

Byrjað var að hleypa borgurum frá Azovstal-verksmiðjunni en samningar um björgun hafa reynst erfiðir. Þann 7. maí bárust fregnir um að öllum almennum borgurum verið bjargað úr verksmiðjunni.[50] Bardagar héldu áfram í Donbas og var skóli þar sem 90 héldu til sprengdur í bænum Bilohorivka með þeim afleiðingum að 60 létust.[51] Einnig voru gerðar loftárásir á Odesa meðal annars á íbúðablokkir og hótel.

Pútín hélt ræðu í Moskvu á sigurdeginum 9. maí þar sem minnst var sigurs á Nasistum í seinni heimsstyrjöld. Þar gagnrýndi hann Nató og Bandaríkin fyrir að stofna Rússlandi í hættu og réttlæti árásina á Úkraínu. Líkti hann enn fremur átökunum við seinni heimsstyrjöldina.[52]

Úkraínumenn sögðust hafa hrakið Rússa frá Kharkív, annarri stærstu borginni, 11. maí.[53]

Rússar lýstu yfir sigri í Maríúpol þegar síðustu úkraínsku hermennirnir voru handsamaðir í Azovstal-járnverinu. Árásir voru gerðar á vestræna vopnasendingu vestur af Kænugarði að sögn Rússa.

25. maí voru Rússar komnir nálægt borginni Sjevjerodonetsk í Vestur-Lúhansk og gerðu harðar árásir á hana.[54]

Júní[breyta | breyta frumkóða]

Miðpunktur bardaga var í kringum Sjevjerodonetsk í byrjun júní og sögðust Úkraínumenn hafa hrakið Rússa frá borginni. Rússar voru með sókn í átt að annarri borg í Donbas, Slovjansk. Loftárásir voru gerðar á austur-Kænugarð, í fyrsta sinn síðan í apríl, og sögðust Rússar hafa gert árás á skriðdrekasendingu frá Vesturlöndum.[55]

Um miðjan júní höfðu Rússar náð yfirráðum yfir 80% af Sjevjerodonetsk og eyðilagt brýr sem voru flóttaleiðir úr borginni.[56] Í lok mánaðarins var úkraínskum hermönnum skipað að yfirgefa borgina.[57]

Þann 27. júní gerðu Rússar loftskeytaárás á verslunarmiðstöð í borginni Krementsjúk í miðhluta landsins þar sem nálægt 1000 manns voru. 20 manns létust og tugir særðust. Rússar sögðust hafa gert árás á vopnageymslu við hliðina á verslunarmiðstöðinni.

Íbúum í nálægri borg, Lysytsjansk, var gert að flýja hana.[58] Síðustu dagana í júní voru gerðar miklar loftárásir á borgina.[59]

30. júní lýstu Úkraínumenn yfir að þeir hefðu náð Snákaeyju í Svartahafi af Rússum.[60]

Júlí[breyta | breyta frumkóða]

Þann 1. júlí var gerð loftárás á íbúðabyggð og tómstundasvæði í Odesa þar sem um 20 manns létust. Rússar hófu að flytja korn sem þeir sölsuðu undir sig frá herteknum svæðum, þ.e. höfninni í Berdjansk.

Rússar sögðust hafa náð Lysytsjansk 3. júlí en Úkraínumenn neituðu því fyrst. Síðar sagði talsmaður úkraínska hersins að herinn hefði hörfað.[61]

Þrír létust í sprengingum í rússnesku borginni Belgorod nálægt landamærum Úkraínu. Rússar sögðu Úkraínumenn hafa gert árásina.[62]

Borgirnar Slovjansk og Kramatorsk voru þær einu af stærri borgum í Donetsk sem voru í höndum Úkraínumanna eftir 3. júlí. Rússar gerðu árásir á smærri þéttbýlisstaði, 35 létust í loftárás á fjölbýlishúsi í Tsjasív Jar 9. júlí. Íryna Veresjtsjúk, aðstoðarráðherra, hvatti íbúa vestur af Donbas í borgunum Kherson og Zaporízjzja til forða sér.[63] Úkraínumenn gerðu loftárás 12. júlí á vöruhús austur af Kherson, í borginni Nova Kakhovka, þar sem þeir sögðu Rússa geyma skotfæri.[64]

Loftskeytaárásir á borgina Vínnytsja í vesturhluta landsins voru gerðar um miðjan júlí þar sem tugir létust.

Þrátt fyrir að hafa gert samning um kornútflutning við Úkraínu í lok júlí gerðu Rússar árásir á höfnina í Odesa þar sem útflutningur fór fram.[65]

Rússar og Úkraínumenn kenndu hvor öðrum um þegar árás var gerð á fangelsi í vestur-Donetsk þar sem um 50 úkraínskir stríðsfangar féllu.[66]

Úkraínumenn hófu gagnsókn að borginni Kherson í suðri.[67]

Ágúst[breyta | breyta frumkóða]

Árás var gerð í byrjun ágúst við kjarnorkuver nálægt borginni Zaporízjzja. Rússar réðu yfir verinu en héldu úkraínskum starfsmönnum þar. Báðir aðilar kenndu hvor öðrum um árásina og sögðu Úkraínumenn Rússa nýta sér verið sem herstöð.

Árás var gerð á herflugvöll á Krímskaga þar sem Rússar geymdu orrustuþotur. Rússar sögðu ekkert hafa skemmst þrátt fyrir að gervihnattamyndir sýndu annað. Úkraínumenn lýstu ekki yfir ábyrgð á árásinni.[68]

Í lok ágúst gerðu Rússar árás á lestarstöð nálægt Dnípró þar sem 25 létust. Sögðust þeir hafa gert hana á hernaðarflutninga og fellt 200 hermenn. [69]

Barist var um borgina Kherson og samnefnt hérað. Gerðu Úkraínumenn árásir á vopnabúr Rússa og birgðalínur. Rússar skutu flugskeytum á borgina. [70]

September[breyta | breyta frumkóða]

Úkraínumenn hófu gagnsókn suðaustur af Kharkív og varð ágengt að endurheimta landsvæði. [71]

Þann 10. september lýstu Úkraínumenn yfir að þeir hefðu náð borginni Izjúm suðaustur af Kharkív.[72] Þar fundust síðar fjöldagrafir með hundruðum manna [73]. Þeir náðu jafnframt borginni Kúpjansk, sem var ásamt Ízjúm mikilvægur hluti í birgðakeðju Rússa.[74] Í gagnsókn sinni á næstu dögum tókst Úkraínumönnum að endurheimta mikið landsvæði í Kharkív-héraði og náðu allt til landamæra Rússlands í norðanverðu héraðinu.[75] Rússar brugðust við gagnsókninni með árásum á innviði, meðal annars með því að slá út rafmagns- og vatnsflutninga og stöðva lestarsamgöngur.[76]

Þann 21. september tilkynnti Pútín að gripið yrði til takmarkaðrar herkvaðningar í Rússlandi til þess að halda hernaðinum í Úkraínu áfram. Á sama tíma hafði verið tilkynnt að leppstjórnir Rússa í Donetsk, Lúhansk, Kherson og Zaporízjzja myndu halda atkvæðagreiðslur um það að gerast hluti af Rússneska sambandsríkinu líkt og hafði verið gert á Krímskaga árið 2014.[77]

Leppstjórnir Rússa á hernámssvæðum þeirra í Donetsk, Lúhansk, Kherson og Zaporízjzja hófu atkvæðagreiðslur um að gerast hluti af Rússlandi þann 23. september.[78] Fjórum dögum síðar tilkynntu héraðsstjórnir á hernumdu svæðunum í Lúhansk og suðurhlutum Kherson og Zaporízjzja að yfirgnæfandi meirihlutar kjósenda hefðu samþykkt að héruðin skyldu sameinast Rússlandi.[79] Ýmsir erlendir þjóðarleiðtogar fordæmdu atkvæðagreiðslurnar og sögðu niðurstöður þeirra hafa verið ákveðnar fyrirfram. Volodymyr Zelenskyj Úkraínuforseti sagði þær markleysu og að þær myndu engu breyta um þær fyrirætlanir Úkraínumanna að endurheimta héruðin.[80] Úkraínumenn kenndu Rússum um þegar í lok mánaðarins sprakk gasleiðsla Nordstream á fjórum stöðum á hafsvæði Danmerkur og Svíþjóðar.

Október[breyta | breyta frumkóða]

Áróðursfrímerki frá Úkraínu sem sýnir sprenginguna á Krímskagabrúnni.

Úkraínuher umkringdi þúsundir rússneskra hermanna þegar borgin Lyman í vestur-Donetsk var endurheimt. Úkraínumenn luku við að endurheimta Lyman þann 2. október og Rússar viðurkenndu að þeir hefðu hörfað þaðan.[81][82]

Rússar héldu áfram að gera árásir á bílalestir óbreyttra borgara í Zaporízjzja og Kharkív-héruðum, þar sem tugir létust.

Þann 8. október sprakk bílasprengja á brú Rússa yfir Kertsj-sund sem tengir austurhluta Krímskaga við Rússland. Sprengingin olli því að hluti brúarinnar hrundi í sjóinn og olli að minnsta kosti þremur dauðsföllum samkvæmt Rússum. Brúin hafði verið byggð eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og gegndi mikilvægu hlutverki í rússneskum samgöngum til Krímskaga. Meðal annars hafði brúin verið notuð til að flytja hergögn, olíu og aðrar vistir til rússneskra hermanna í Úkraínu.[83] Rússar svöruðu árásinni á Kertsj-brúna tveimur dögum síðar með sprengjuárásum á úkraínska samskipta-, orku- og hernaðarinnviði, meðal annars árásum á miðbæ Kænugarðs.[84]

Sama dag og brúin var sprengd upp skipaði Vladímír Pútín hershöfðingjann Sergej Súrovíkin nýjan yfirmann alls rússneska heraflans í Úkraínu. Súrovíkín hefur áður stýrt hernaðarinngripi Rússa í sýrlensku borgarastyrjöldina, þar sem honum tókst að snúa vörn í sókn í þágu stjórnarhersins með því að beina sprengjuárásum að óbreyttum borgurum.[85] Aukning í árásum Rússa á borgaraleg skotmörk á næstu dögum þótti til marks um að Súrovíkín hygðist beita svipuðum aðferðum í Úkraínu.[86][87]

Árásir á orku- og vatnsinnviðir voru víða í Úkraínu í lok mánaðar. Um 40% landsins var án rafmagns um tíma. [88]

Nóvember[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun nóvember lýsti Súrovíkín yfir að rússneski herinn myndi hörfa frá Kherson borg.[89] Eftir afturhald Rússa frá borginni endurheimtu úkraínskar hersveitir Kherson þann 11. nóvember.[90]

Desember[breyta | breyta frumkóða]

Rússar héldu áfram árásum á orku- og vatnsinnviði í Úkraínu.

Þann 5. desember sögðust Rússar hafa skotið niður flygildi við rússneska herflugvelli í Saratov og Rjasan. Sprengingarnar ullu mannfalli. [91] Úkraínumenn gerðu árásir á höfuðstöðvar Wagner-hópsins sem dvaldi á hóteli í borginni Kadívka í Lúhansk. Árásir voru einnig gerðar á hersetuliðið í borginni Melítopol í Zaporízjzjía-fylki. [92]

2023[breyta | breyta frumkóða]

Janúar[breyta | breyta frumkóða]

Úkraínumenn gerðu árás í byrjun janúar á bækistöð rússneska hersins í Makíjívka í Donetsk þar sem yfir 400 létust. Rússar héldu áfram loftárásum, sér í lagi með írönskum drónum, á Kýiv og fleiri borgir. [93] Harðir bardagar voru við borgina Bakhmút norður af Donetsk-borg og mikið mannfall á báða bóga.

Febrúar[breyta | breyta frumkóða]

Harðir bardagar voru á austurvígstöðvunum, aðallega við Bakhmút. Úkraínsk yfirvöld töldu að Rússar væru að safna 200.000 manna aukaliði til að hefja nýja sókn. [94]

Mars[breyta | breyta frumkóða]

Jevgeníj Prígozhín, leiðtogi Wagner-hópsins sagði að Bakhmút væri umkringd í byrjun mars. Hann sakaði stuttu síðar rússnesk stjórnvöld um svik með því að senda of fá vopn í orrustuna um borgina.[95] 9. mars gerðu Rússar mestu loftárásir á landið síðan í janúar. [96]

Um miðjan mánuðinn ákváðu Pólverjar og Slóvakar að senda herþotur til Úkraínu. Rússar sögðust ætla að granda þeim í andsvari sínu.[97]

Friðarumleitanir[breyta | breyta frumkóða]

Sendinefndir Rússa og Úkraínumanna ræddu mögulegt vopnahlé eða friðarsamninga með hléum frá 27. febrúar. Fyrsti fundur sendinefndanna fór fram nærri landamærum Úkraínu og Hvíta-Rússlands við Pripjat.[98] Í mars funduðu sendinefndir ríkjanna í Istanbúl í Tyrklandi. Úkraínumenn hafa sagst viljugir til að ganga að sumum kröfum Rússa eins og að gerast ekki aðilar að Atlantshafsbandalaginu og að Úkraína verði hlutlaust ríki með tilliti til öryggissjónarmiða.[99][100] Úkraínumenn hafa hins vegar hafnað því að gefa eftir landsvæði innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra sinna sem Rússar eða alþýðulýðveldin í Donbas gera tilkall til.[101]

Þann 30. september lýsti Volodymyr Zelenskyj því yfir að frekari friðarviðræður við Rússa kæmu ekki til greina svo lengi sem Vladímír Pútín væri áfram við völd í Rússlandi. Þessi yfirlýsing kom í kjölfar þess að Pútín lýsti yfir innlimun á fjórum úkraínskum héruðum í Rússland.[102]

Viðbrögð[breyta | breyta frumkóða]

Mótmæli gegn innrásinni í Helsinki.
Meðlimir í ungliðahreyfingu Sameinaðs Rússlands í Kabarovsk stilla sér upp í Z til að lýsa yfir stuðningi við innrásina.

Fordæmingar og efnahagsrefsingar[breyta | breyta frumkóða]

Evrópusambandið tilkynnti að það myndi setja á hörðustu efnahagslegu refsingar í sögu sambandsins. Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu var færður frá Sankti Pétursborg, Formúla 1 frá Sotsjí og Rússum meinuð þátttaka í íþróttakeppnum og í söngvakeppninni Eurovision. Flugfélaginu Aeroflot var bannað að fljúga til Bretlands og önnur Evrópulönd fylgdu í kjölfarið og bönnuðu Rússum að fljúga um evrópska lofthelgi. Eignir og bankareikningar rússneskra auðkýfinga voru fryst. Rússneskum bönkum var meinað af ESB, Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum að notast við SWIFT-millifærslukerfið.[103] Visa og Mastercard hættu starfsemi í Rússlandi og mörg fjölþjóðafyrirtæki eins og IKEA og Samsung.

Rússlandi var vikið úr Evrópuráðinu vegna innrásarinnar þann 25. febrúar 2022.[104] Þann 2. mars samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á sérstökum neyðarfundi ályktun þar sem innrás Rússa í Úkraínu var „hörmuð“ og stríðsaðilar hvattir til að leggja niður vopnin. Kína og Indland sátu hjá og Rússland, Hvíta-Rússland, Eritrea, Norður-Kórea og Sýrland greiddu atkvæði á móti. António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, lýsti því yfir að innrásin væri brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.[105] Þann 7. apríl var Rússland jafnframt rekið úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.[106]

Fjöldi sendiráðsstarfsmanna hefur verið rekinn úr Evrópulöndum.

Mótmæli[breyta | breyta frumkóða]

Mótmæli voru víða um heim og við sendiráðsbústað Rússlands við Túngötu þann 24. febrúar, næstu daga og reglulega eftir það.[107]

Í ágúst var Kænugarðstorg nálægt rússneska sendiráðinu formlega nefnt af borgarstjóra Reykjavíkur.

Flóttamenn og mannúðaraðstoð[breyta | breyta frumkóða]

Nálægt 13 milljónir hafa farið yfir landamærin frá Úkraínu frá því að innrásin hófst, flestir til Póllands. Um 7,3 milljónir flóttamanna hafa verið skráðir í Evrópu þar af hafa um 4 milljónir fengið verndarstöðu.[108] Einnig hafa yfir 8 milljónir flúið innan Úkraínu. Flóttafólkið var mestmegnis konur og börn en 18–60 ára karlmenn voru skyldugir til að vera eftir í landinu því til varnar.

Við landamæri Pólland, Rúmeníu, Ungverjalands, Slóvakíu og Moldóvu var flóttamannastraumur. Evrópusambandið sagðist ætla að taka á móti flóttamönnum næstu 3 ár án þess að þeir þyrftu að sækja um vernd.

Á Íslandi höfðu 2.700 sótt um vernd í mars 2023.

Hernaðarstuðningur[breyta | breyta frumkóða]

Evrópusambandið fjármagnar kaup á vopnum og flutning þeirra til Úkraínu.[109] Bandaríkin hafa einnig séð Úkraínu fyrir vopnum, jafnvel tveimur mánuðum fyrir stríðið.[110] NATÓ ákvað að auka viðbúnað sinn í Austur-Evrópu og senda þangað 40.000 hermenn.

Í byrjun apríl sendi Tékkland skriðdreka til Úkraínu.[111]

Í janúar 2023 var ákalli Úkraínu um skriðdreka og hernaðarfarartæki svarað og Evrópulönd og Bandaríkin sendu fjölda þeirra. [112]

Stuðningur við innrásina[breyta | breyta frumkóða]

Á vikunum eftir að innrásin hófst varð bókstafurinn Z stuðningstákn við innrásina og við Vladímír Pútín. Ástæðan er sú að stafurinn var ritaður á marga af skriðdrekum og herbílum Rússa í Úkraínu sem myndir náðust af í aðdraganda innrásarinnar. Uppruni þessarar notkunar Z, sem ekki er til í kyrillíska stafrófinu, er óljós, en stafurinn hefur verið notaður til að merkja rússnesk herfarartæki ásamt öðrum bókstöfum eins og O, X, A og V. Herbílar og skriðdrekar sem merktir eru með Z tilheyra eystri herdeild rússneska hersins.[113] Rússneska varnarmálaráðuneytið segir bókstafinn standa fyrir „za pobedu“ (til sigurs), „za mir“ (fyrir frið), „za nashikh“ (fyrir þjóð okkar) og fleira.[114]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 The military balance 2021. Abingdon, Oxon: International Institute for Strategic Studies. 2021. ISBN 978-1032012278.
  2. Julian E., Barnes; Michael, Crowley; Eric, Schmitt (10 January 2022). „Russia Positioning Helicopters, in Possible Sign of Ukraine Plans“. The New York Times (enska). Afrit from the original on 22 January 2022. Sótt 20 January 2022. American officials had expected additional Russian troops to stream toward the Ukrainian border in December and early January, building toward a force of 175,000.
  3. Bengali, Shashank (18 February 2022). „The U.S. says Russia's troop buildup could be as high as 190,000 in and near Ukraine“. The New York Times (bandarísk enska). Afrit from the original on 18 February 2022. Sótt 18 February 2022.
  4. „100,000 Russian troops killed or injured in Ukraine, US says“. Associated Press. 10 November 2022. Sótt 10 November 2022.
  5. US estimates 40,000 Ukraine civilians killed or wounded in Russia's invasion
  6. ‘Well over’ 100,000 Russian troops killed or wounded in Ukraine, U.S. says
  7. „Enn mótmælt í Kænugarði“. RÚV. 13. desember 2013. Sótt 24. febrúar 2022.
  8. „Krímskagi formlega orðinn hluti af Rússlandi“. Vísir. 21. mars 2014. Sótt 24. febrúar 2022.
  9. Guðsteinn Bjarnason (30. ágúst 2014). „Fasistar og hryðjuverkamenn“. Morgunblaðið. bls. 28.
  10. Bogi Þór Arason (1. ágúst 2017). „Hyggjast stofna Litla Rússland“. Morgunblaðið. bls. 17.
  11. Bogi Þór Arason (13. febrúar 2015). „Efast um að friður komist á“. Morgunblaðið. bls. 24.
  12. Markús Þ. Þórhallsson (4. desember 2021). „Óttinn við innrás Rússa í Úkraínu magnast enn“. RÚV. Sótt 22. febrúar 2022.
  13. Samúel Karl Ólason (17. febrúar 2022). „Segja Rússa nær því að gera innrás í Úkraínu“. Vísir. Sótt 22. febrúar 2022.
  14. Ólöf Ragnarsdóttir (22. febrúar 2022). „Pútín viðurkennir sjálfstæði Donetsk og Luhansk“. RÚV. Sótt 22. febrúar 2022.
  15. Ólöf Ragnarsdóttir (21. febrúar 2022). „Hefur þegar skipað hernum inn í Donetsk og Luhansk“. RÚV. Sótt 22. febrúar 2022.
  16. Jón Trausti Reynisson (21. febrúar 2022). „Eldræða Pútíns réttlætir innrás Rússa í Úkraínu - herlið sent af stað“. Stundin. Sótt 22. febrúar 2022.
  17. „Bein lýsing - Innrás í Úkraínu“. Fréttablaðið. 24. febrúar 2022. Sótt 24. febrúar 2022.
  18. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, Atli Ísleifsson og Samúel Karl Ólason (24. febrúar 2022). „Vakt­in: Alls­herj­ar­inn­rás Rúss­a í Úkra­ín­u“. Vísir. Sótt 24. febrúar 2022.
  19. Markús Þ. Þórhallsson (27. febrúar 2022). „Olíubirgðastöð og olíuleiðsla standa í ljósum logum“. RÚV. Sótt 2. mars 2022.
  20. Atli Ísleifsson (24. febrúar 2022). „Mark­miðið að brjóta niður hernaðar­mátt Úkraínu og „afmá nas­ismann". Vísir. Sótt 7. mars 2022.
  21. Arnar Þór Ingólfsson (6. mars 2022). „Öfgahægrivandinn ekki meiri í Úkraínu en í nágrannaríkjunum“. Kjarninn. Sótt 7. mars 2022.
  22. Þorgrímur Kári Snævarr (26. febrúar 2022). „Rússar og Úkraínumenn skiptast á nasistaásökunum“. Fréttablaðið. Sótt 7. mars 2022.
  23. Sunna Ósk Logadóttir (24. febrúar 2022). „Sprengjuárásir hafnar í Úkraínu“. Kjarninn. Sótt 19. mars 2022.
  24. Anna Kristín Jónsdóttir (3. mars 2022). „Andóf í Rússlandi undir ægivaldi Pútíns“. RÚV. Sótt 19. mars 2022.
  25. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (4. mars 2022). „Rússar loka á erlenda fjölmiðla“. Vísir. Sótt 19. mars 2022.
  26. „Rússneskir fallhlífarhermenn lentir í Kharkiv“. RÚV. Ævar Örn Jósepsson 2022. Sótt 2. mars 2022.
  27. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (2. mars). „Versti dagur stríðsins hingað til“. Vísir. Sótt 2. mars 2022.
  28. „Sjónvarpsturninn sprengdur og útsendingar rofnar“. mbl.is. 2. mars 2022. Sótt 3. mars 2022.
  29. Ævar Örn Jósepsson (3. mars 2022). „Rússar hafa hertekið úkraínsku hafnarborgina Kherson“. RÚV. Sótt 3. mars 2022.
  30. Ævar Örn Jósepsson (8. mars 2022). „Yfir 1.700.000 hafa flúið Úkraínu“. RÚV. Sótt 8. mars 2022.
  31. Ukraine war: Ukrainian fightback gains ground west of Kyiv BBC, sótt 24. mars 2022
  32. Russian warship destroyed in occupied port of Berdyansk, says Ukraine BBC skoðað 24. mars 2022
  33. Bogi Ágústsson (25. mars 2022). „Óttast að 300 hafi látist í árás á leikhús í Mariupol“. RÚV. Sótt 25. mars 2022.
  34. War in Ukraine: Russia launches new attacks after peace promise BBC, sótt 30. mars 2022.
  35. Ari Brynjólfsson (29. mars 2022). „Rússar hörfa til baka til að umkringja Kænugarð síðar“. Fréttablaðið. Sótt 4. apríl 2022.
  36. Ólöf Rún Erlendsdóttir (30. mars 2022). „Rússar segjast ætla að draga úr árásum við Kyiv“. RÚV. Sótt 4. apríl 2022.
  37. Samúel Karl Ólason (25. mars 2022). „Rússar segjast hafa náð markmiðum sínum og einbeita sér að Donbas“. Vísir. Sótt 4. apríl 2022.
  38. „Úkraínumenn spyrna til baka“. mbl.is. 25. mars 2022. Sótt 4. mars 2022.
  39. Ingunn Lára Kristjánsdóttir (28. mars 2022). „Úkraínski herinn endur­heimtir Irpin“. Fréttablaðið. Sótt 3. apríl 2022.
  40. „„410 lík finnast á víð og dreif við Kænugarð“. mbl.is. 3. mars 2022. Sótt 3. mars 2022.
  41. „„Úthugsuð fjöldamorð". mbl.is. 3. mars 2022. Sótt 3. mars 2022.
  42. Árásir harðna í austurhéruðum Úkraínu RÚV, sótt 6. apríl 2022.
  43. Tugir létust í loftárás á járnbrautarstöð í Donetsk RÚV, sótt 8. apríl 2022.
  44. Úkraína á heima í Evrópufjölskyldunni, RÚV, sótt 9. apríl 2022
  45. Russian warship Moskva: What do we know? BBC sótt 14. apríl 2022
  46. „Flaggskip Rússa í Svartahafi sokkið“. mbl.is. 14. mars 2022. Sótt 14. mars 2022.
  47. „Stórsókn Rússa í Donbas hafin“. mbl.is. 19. mars 2022. Sótt 19. mars 2022.
  48. Mariupol steelworks: 'Block it so a fly can't pass,' Putin orders, BBC, sótt 23. apríl 2022
  49. Ásakanir ganga á víxl vegna sprenginga í Moldóvu, RÚV, sótt 27. apríl
  50. Sigurjón Björn Torfason (7. maí 2022). „Allir al­­mennir borgarar farnir frá Azovs­­tal verk­smiðjunni“. Fréttablaðið. Sótt 7. maí 2022.
  51. Ukraine war: 60 people killed after bomb hits school, Zelensky says BBC, sótt 9. maí 2022
  52. Ukraine War: Putin gives few clues in Victory Day speech BBC, sótt 9. maí 2022
  53. Russia pushed back from Kharkiv, BBC, sótt 12. maí 2022
  54. Barist við borgarmörk í Severodonetsk RÚV, sótt 25. maí 2022
  55. Ukraine: Explosions shake Kyiv while battles rage in east BBC, sótt 6. júní 2022
  56. [1] AP, sótt 19. júní 2022
  57. Severodonetsk: Ukrainian forces told to retreat from key eastern city BBC NEWS, sótt 24. júní 2022
  58. Civilians in Lysychansk urged to evacuate as Russian forces close in CNN, sótt 27. júní 2022
  59. Innikróuð í Lysytsjansk vegna linnulausra loftárása RÚV, sótt 30. júní 2022
  60. Rússneski herinn yfirgefur Snákaeyju Rúv, sótt 30. júní 2022
  61. BBC News - Ukraine confirms Russia captured eastern city Lysychansk BBC, sótt 3. júlí 2022
  62. BBC News - Ukraine blamed by Russia for deadly blast in border city of Belgorod BBC, sótt 3. júlí 2022
  63. 15 fórust í flugskeytaárás á fjölbýlishús, RÚV, sótt 10. júlí 2022
  64. https://www.bbc.com/news/world-europe-62132441 Ukraine claims arms depot attack in occupied Kherson with Himars rockets], BBC, skoðað 12. júlí 2022
  65. BBC News - Ukraine war: Explosions rock Ukrainian port hours after grain deal BBC, sótt 23. júlí 2022
  66. Ukraine war: UN and Red Cross should investigate prison deaths, says Ukraine, BBC, sótt 30. júní 2022
  67. Úkraínski herinn sækir fram í hernuminni borg, Vísir, sótt 24. júlí 2022
  68. BBC News - Ukraine war: Crimea blasts significantly hit Russian navy BBC. Sótt 12/8 2022
  69. Létu lífið í árás á lestarstöð í Úkraínu Rúv, sótt 25/8 2022
  70. Segja hundrað flugskeytum skotið á Kherson RÚV, skoðað 30/8 2022
  71. News - Zelensky hails 'good news' as settlements recaptured from Russia BBC, sótt 8/9 2022
  72. Vinna að frelsun bæja umhverfis Izyum RÚV, sótt 11/9 2022
  73. Ukraine war: Hundreds of graves found in liberated Izyum city - officials BBCnews, sótt 16 september 2022
  74. „Gagnsókn Úkraínu markar þáttaskil“. mbl.is. september 2022. Sótt september 2022.
  75. Samúel Karl Ólason (september 2022). „Rýnt í stöðuna í Úkraínu: Hafa náð frumkvæðinu af Rússum“. Vísir. Sótt september 2022.
  76. Hólmfríður Gísladóttir (september 2022). „Hörð gagnsókn Úkraínumanna virðist koma Rússum í opna skjöldu“. Vísir. Sótt september 2022.
  77. Einar Þór Sigurðsson (september 2022). „Pútín svarar með her­kvaðningu og blæs til stór­sóknar í Úkraínu“. Fréttablaðið. Sótt september 2022.
  78. Markús Þ. Þórhallsson (september 2022). „Atkvæðagreiðsla um innlimun hafin í fjórum héruðum“. RÚV. Sótt september 2022.
  79. „Segja innlimun samþykkta með yfirgnæfandi stuðningi“. mbl.is. september 2022. Sótt september 2022.
  80. Markús Þ. Þórhallsson (september 2022). „Þakkar þjóðarleiðtogum fyrir fordæmingu atkvæðagreiðslu“. RÚV. Sótt september 2022.
  81. Samúel Karl Ólason (1. október 2022). „Lyman er í höndum Úkraínumanna“. Vísir. Sótt 5. október 2022.
  82. Ævar Örn Jósepsson (2. október 2022). „Úkraínumenn hafa endurheimt öll völd í bænum Lyman“. RÚV. Sótt 5. október 2022.
  83. „Brú Rússa á Krímskaga sprengd í loft upp“. Viðskiptablaðið. 8. október 2022. Sótt 10. október 2022.
  84. Hólmfríður Gísladóttir; Ellen Geirsdóttir Håkansson (10. október 2022). „Tugir særð eða látin eftir sprengingar Rússa í morgun“. Vísir. Sótt 10. október 2022.
  85. „Stórskemmd brú – skúrkur settur yfir innrásarliðið“. Varðberg. 9. október 2022. Sótt 14. október 2022.
  86. „Bein lýsing - Innrás í Úkraínu“. Fréttablaðið. 24. febrúar 2022. Sótt 24. febrúar 2022.
  87. Oddur Ævar Gunnarsson (10. október 2022). „Nýr her­foringi Rússa ætli að beita sömu taktík í Úkraínu og í Sýr­landi“. Fréttablaðið. Sótt 14. október 2022.
  88. Ukraine war: Kyiv water supply restored but blackouts remainBBC, sótt 2. nóv. 2022
  89. Rússar hörfa frá KhersonRÚV, sótt 9/11, 2022
  90. Brynjólfur Þór Guðmundsson (11. nóvember 2022). „Úkraínski fáninn við hún í Kherson“. RÚV. Sótt 14. nóvember 2022.
  91. Russian military airfields hit by explosions BBC, sótt 5/12 2022
  92. Ukraine strikes Wagner HQ in Luhansk, governor saysBBC, sótt 11 des. 2022
  93. Ukraine claims hundreds of Russians killed by missile attack BBC, sótt 2/1 2022
  94. Úrvinda hermenn búast við enn harðari átökum Vísir, sítt 6/2 2023
  95. BBC News - Ukraine war: Russia's Wagner boss suggests 'betrayal' in Bakhmut battle BBC, sótt 6/3 2023
  96. BBC News - Ukraine war: Russia fires hypersonic missiles in new barrage BBC, sótt 9/3 2023
  97. Ætla að granda herþotum sem sendar verða til Úkraínu Vísir, sótt 17/3 2023
  98. Þorgrímur Kári Snævarr (27. febrúar 2022). „Fallast á viðræður við hvítrússnesku landamærin“. Fréttablaðið. Sótt 7. mars 2022.
  99. Urður Ýrr Brynjólfsdóttir (16. mars 2022). „„Raun­særri" friðar­við­ræður milli Úkraínu og Rúss­lands“. Fréttablaðið. Sótt 7. apríl 2022.
  100. Oddur Ævar Gunnarsson (28. mars 2022). „Friðar­við­ræður hefjast á ný: Segir Úkraínu til í hlut­leysi“. Fréttablaðið. Sótt 7. apríl 2022.
  101. „Gefur ekki eftir metra af landi“. mbl.is. 31. mars 2022. Sótt 7. apríl 2022.
  102. „Fréttir: Friðarviðræður koma ekki til greina“. RÚV. september 2022. Sótt 10. október.
  103. „West to cut some Russian banks off from Swift“ (enska). BBC. 2022. Sótt 27. febrúar 2022.
  104. Ingunn Lára Kristjánsdóttir (25. febrúar 2022). „Þórdís Kolbrún fagnar brottvikningu Rússa úr Evrópuráðinu“. Fréttablaðið. Sótt 26. febrúar 2022.
  105. „Allsherjarþingið gagnrýnir innrás Rússa í Úkraínu“. unric.org. Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu. 2. mars 2022. Sótt 2. mars 2022.
  106. „Rússland rekið úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna“. mbl.is. 7. apríl 2022. Sótt 4. apríl 2022.
  107. Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson; Jón Trausti Reynisson (24. febrúar 2022). „Mótmæltu „ofbeldi og yfirgangi" við rússneska sendiráðið“. Stundin. Sótt 26. febrúar 2022.
  108. Ukraine refugee situation Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna
  109. Alexander Kristjánsson (27. febrúar). „ESB fjármagnar vopnaflutning til Úkraínu“. RÚV. Sótt 2. mars 2022.
  110. US rushing $200 in weapons for Ukraines defense Reuters, 16. mars 2022
  111. Oddur Ævar Gunnarsson (6. apríl 2022). „Fyrsta NATÓ-ríkið sendir skriðdreka til Úkraínu“. Fréttablaðið. Sótt 6. apríl 2022.
  112. BBC News - Ukraine war: Western allies to send fighting vehicles to Kyiv BBC, sótt 11. jan. 2023
  113. Erla María Markúsdóttir (15. mars 2022). „Hvernig „Z" varð að yfirlýstu stuðningstákni við innrásina í Úkraínu“. Kjarninn. Sótt 7. mars 2022.
  114. „Áróðursbókstafnum Z dreift til stuðnings Úkraínustríðinu“. Varðberg. 8. mars 2022. Sótt 7. mars 2022.