Hinrik 3. Frakkakonungur
| ||||
Hinrik 3.
| ||||
Ríkisár | 1574 – 1589 | |||
Skírnarnafn | Alexandre Édouard de France | |||
Fæddur | 19. september 1551 | |||
Château de Fontainebleau, Frakklandi | ||||
Dáinn | 2. ágúst 1589 (37 ára) | |||
Château de Saint-Cloud, Frakklandi | ||||
Gröf | Saint-Denis-kirkja, París | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Hinrik 2. Frakkakonungur | |||
Móðir | Katrín af Medici | |||
Drottning | Lovísa af Lorraine |
Hinrik 3. (19. september 1551 – 2. ágúst 1589 var konungur Frakklands frá 1574 til dauðadags og konungur Póllands og stórhertogi Litháens frá 1573 til 1575. Hann var upphaflega nefndur Alexandre Édouard en nafni hans var breytt í Henri 1564. Í Póllandi kallaðist hann Henryk Walezy og í Litháen Henrikas Valua.
Prins og hertogi af Anjou
[breyta | breyta frumkóða]Hinrik var fjórði sonur Hinriks 2. Frakkakonungs og konu hans Katrínar af Medici. Eldri bræður hans voru Frakkakonungarnir Frans 2. og Karl 9. Hann var útnefndur hertogi af Angoulême og Orléans 1560 og hertogi af Anjou 1566. Móðir hans hélt mikið upp á hann og hann var að mörgu leyti talinn fremri bræðrum sínum. Hann var listelskur og bókhneigður en hafði lítinn áhuga á veiðum og íþróttum (nema skylmingum), öfugt við föður sinn og bræður. Karl bróðir hans hafði horn í síðu hans og öfundaði hann af hreysti hans og góðri heilsu en Karl var heilsuveill. Talið er líklegt að Hinrik hafi verið samkynhneigður eða þó öllu fremur tvíkynhneigður því hann átti ýmsar ástkonur.
Árið 1570 kom til greina að Hinrik gengi að eiga Elísabetu Englandsdrottningu. Hann var þá tæplega tvítugur en hún 37 ára. Ekkert var þó úr því og er talið líklegt að Elísabet hafi aðallega verið að stríða Spánverjum með því að gera sig líklega til að mægjast frönsku konungsættinni. Hinrik virðist ekki hafa verið hrifinn af hugmyndinni, talaði illa um Elísabetu og gerði mikið úr aldursmuninum.
Hinrik barðist í Frönsku trúarbragðastríðunum og stýrði meðal annars liði kaþólikka í umsátrinu um La Rochelle. Hann tengdist einnig Bartólómeusarvígunum en tók þó ekki beinan þátt í slátruninni. Hann var þó ekki heittrúaður og hafði í bernsku sagst hliðhollur húgenottum.
Konungur Póllands
[breyta | breyta frumkóða]Vorið 1573 var Hinrik kjörinn konungur Póllands og stórhertogi Litháen en Sigmundur 3. Ágústus Póllandskonungur hafði dáið sumarið áður án þess að eiga erfingja og var þá ákveðið að ríkjasamband Póllands og Litháen skyldi framvegis kjósa sér konung. Pólverjar/Litháar ákváðu að kjósa sér franskan konung og fá í staðinn stuðning gegn Rússum og Tyrkjum og fjárhagsaðstoð. Einnig var ætlast til þess að Hinrik gengi að eiga Önnu Jagiellon, systur Sigmundar konungs, sem var fimmtug að aldri, nærri þrjátíu árum eldri en Hinrik.
Hinrik kom ekki til Póllands fyrr en í janúar 1574 og var krýndur í febrúar. Hann hafnaði því þó að giftast Önnu og leist ekki vel á sig í hinu nýja konungsríki sínu, þótti það fátækt og frumstætt. Stjórnartíð hans varð þó ekki löng því að í júní bárust honum fregnir af því að Karl bróðir hans væri látinn og hann hefði erft frönsku krúnuna. Hélt hann þá þegar til Frakklands svo lítið bar á og sviptu Pólverjar hann krúnunni sumarið 1975 en ungverski prinsinn Stefán Báthory fékk hana í staðinn og giftist Önnu.
Konungur Frakklands
[breyta | breyta frumkóða]Hinrik var krýndur konungur Frakklands 13. febrúar 1575 í dómirkjunni í Reims. Daginn eftir gekk hann að eiga Lovísu af Lorraine. Hjónaband þeirra er sagt hafa verið hamingjusamt framan af en þeim tókst ekki að eignast erfingja og olli það þeim báðum miklu hugarangri og óhamingju, ekki síst eftir að yngsti bróðir Hinriks, Frans hertogi af Anjou, dó 1584. Þá var húgenottinn Hinrik af Navarra næsti erfingi krúnunnar.
Árið 1576 hafði Hinrik undirritað samkomulag við húgenotta þar sem þeir fengu ýmsum kröfum sínum framgengt. Það varð til þess að Hinrik hertogi af Guise stofnaði Kaþólska bandalagið og á endanum þurfti Hinrik að taka aftur flest það sem húgenottar höfðu fengið. Jafnframt fékk hertoginn konunginn til að tilkynna að tilkall Hinriks af Navarra til krúnunnar væri ógilt. Togstreita milli konungsins og hertogans varð sífellt meiri og þegar hertoginn kom til Parísar vorið 1588 flúði konungurinn borgina og hélt til Blois-hallar í Loire-dal, sem raunar var helsta aðsetur hans. 23. dsember sama ár komu hertoginn af Guise og bróðir hans, kardínálinn af Guise, til hallarinnar til fundar við konung en hann greip þá tækifærið og lét menn sína vega þá báða og handtaka son hertogans.
Hertoginn af Guise hafði verið vinsæll í Frakklandi og morðin kveiktu mikla reiði í garð konungs, sem gekk þá í bandalag við Hinrik af Navarra og gerði sig líklegan til að ráðast á París með her sínum. Áður en til þess kom náði þó ungur dóminíkanamunkur, Jacques Clément, að ráðast að konungi og stinga hann í kviðinn, 1. ágúst 1589. Sárið virtist í fyrstu ekki banvænt en dró konunginn þó til dauða daginn eftir og mikill fögnuður braust út í París þegar fréttist af dauða hans. Hann var síðasti konungurinn af Valois-ætt; með valdatöku Hinriks 4. hófst tímabil Búrbóna-ættarinnar.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Henry III of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. júní 2010.
Fyrirrennari: Karl 9. |
|
Eftirmaður: Hinrik 4. |