Fara í innihald

Páskar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi grein fjallar um kristna páska. Sjá einnig Páskahald gyðinga

Páskar er sameiginlegt heiti á einni af aðalhátíðum gyðinga og mestu hátíð í kristnum sið. Þær eiga þó fátt annað sameiginlegt. Orðið á rætur sínar að rekja til hebreska orðsins pesaḥ eða pesach (פֶּסַח) sem þýðir „fara framhjá“, „ganga yfir“ en kom inn í íslensku gegnum orðið pascha í latínu.

Upphaf páska

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt söguhefð gyðinga eiga páskarnir uppruna í útförinni af Egyptalandi (Exodus) er Móses leiddi Ísraelsmenn út úr ánauðinni hjá faraó, gegnum Rauðahafið og eyðimörkina í átt til hins fyrirheitna lands eins og sagt er frá í Biblíunni í 12. kapítula 2. Mósebókar. Þar segir að Guð hafi sagt Móses að hann ætli að „fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað“ svo að faraó sleppti gyðingum úr landi. Til þess að Guð gæti þekkt hvar gyðingarnir bjuggu var þeim uppálagt að slátra lambi og rjóða blóði þess á dyrastafi hýbýla sinna. Pesah (páskar) hefur í þessum texta verið þýtt sem „framhjáganga“ vegna þess að Drottinn hét að „Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland“.

Síðasta kvöldmáltíðin máluð af Leonardo da Vinci á árunum 1495-1498

Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana Festum festorum eða hátíð hátíðanna. Tilefnið er upprisa Jesú en kristnir menn trúa því að hann hafi risið upp frá dauðum á þriðja degi eftir að hann var krossfestur einhvern tíma á árabilinu AD 27 til 33. Samkvæmt frásögum í Nýja testamentinu (Matt. 26.-27. kap., Mark. 14.-15. kap., Lúk. 22.-23. kap. og Jóh. 18.-19. kap.) bar handtöku og krossfestingu Jesú upp á páskahátíð gyðinga. Páskalambið varð að tákni fyrir Jesú í hugum kristinna manna því honum var fórnað á sama hátt og lambinu.

Það er með öllu óvíst hvenær kristnir menn fóru að halda upp á páska. Í frumkristni var nefnilega sunnudagurinn haldinn heilagur til áminnis um upprisu Jesú (enda hvíldardagurinn fluttur frá laugardeginum sem gyðingar höfðu og hafa enn sem hvíldardag). Samkvæmt hefðinni og guðspjöllunum dó Jesús á föstudegi og reis upp frá dauðum á sunnudegi. Að öllum líkindum héldu þeir sem snúist höfðu til kristni í fyrstu söfnuðunum og ekki voru gyðingar ekki upp á páska. Samkvæmt kirkjusagnfræðingnum Socrates Scholasticus (fæddur ár 380) hófu kirkjudeildir að halda upp á páska einungis á einstaka svæðum og nefnir meðal annars að hvorki Jesús né postularnir hafi haldið upp á páska ekki frekar enn neinar aðrar hátíðir.[1] Þegar a annarri öld er hins vegar greinilegt að páskahátíðin var orðin föst í sessi. Í lok þeirrar aldar stóðu yfir miklar deilur um tímasetningu atburða þeirra sem páskarnir eiga að minna á. Það var ekki fyrr en við kirkjuþingið í Níkeu 325 sem samþykkt var að páskarnir mundu ekki fylgja tímasetningu páskahátíðar gyðinga heldur fylgja fullu tungli næst jafndægri á vori eftir allflókinni reglu.

Páskadagur, 2000-2025
Ár Vestræn kristni Austræn kristni
2000 23. apríl 30. apríl
2001 15. apríl
2002 31. mars 5. maí
2003 20. apríl 27. apríl
2004 11. apríl
2005 27. mars 1. maí
2006 16. apríl 23. apríl
2007 8. apríl
2008 23. mars 27. apríl
2009 12. apríl 19. apríl
2010 4. apríl
2011 24. apríl
2012 8. apríl 15. apríl
2013 31. mars 5. maí
2014 20. apríl
2015 5. apríl 12. apríl
2016 27. mars 1. maí
2017 16. apríl
2018 1. apríl 8. apríl
2019 21. apríl 28. apríl
2020 12. apríl 19. apríl
2021 4. apríl 2. maí
2022 17. apríl 24. apríl
2023 9. apríl 16. apríl
2024 31. mars 5. maí
2025 20. apríl

Aðdragandi páska

[breyta | breyta frumkóða]

Lengi vel var sá siður í kaþólsku kirkjunnifasta í 40 daga fyrir páska sem innlifun í píningu og píslarvætti Jesú og er sú fasta kölluð langafasta. Rétttrúnaðarkirkjan heldur enn í þennan sið. Fastan fólst í því að ekki mátti neyta kjötmetis. Dagana þrjá áður en fastan hófst, sem kallaðir voru föstuinngangur, var haldin hátíð sem nefnd var kjötkveðjuhátíð og er enn mikil hátíð í mörgum kaþólskum löndum. Fyrsti dagurinn í föstunni var nefndur öskudagur en þann dag voru trúaðir blessaðir í kirkjunni og fengu krossmark dregið á enni með ösku. Fimmti sunnudagur í föstu var boðunardagur Maríu, þegar María mey fékk boð Gabríels erkiengils um að hún væri hafandi og mundi fæða son Guðs.

Dymbilvika og páskarnir

[breyta | breyta frumkóða]
Rússneskur íkon af upprisu Jesú frá 16. öld.

Síðasta vikan fyrir páska er oftast nefnd dymbilvika eða kyrravika á íslensku en hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum gegnum aldirnar.[2] Þar á meðal má nefna dymbildagar, dymbildagavika, dymbildægur, dymbilvika, passíuvika, efsta vika, helga vika, helg dagar og píningarvika.

Dymbilvikan hefst með pálmasunnudegi en samkvæmt Mattheusarguðspjallinu reið Jesú þann dag á asna inn í Jerúsalem til að halda páska gyðinga, margir fögnuðu honum með því að veifa pálmagreinum og hylltu hann sem konung og frelsara. Á fimmtudeginum borðaði Jesús með lærisveinum sínum í síðasta sinn og er það nefnt síðasta kvöldmáltíðin. Dagurinn er nefndur skírdagur vegna þess að Jesús þvoði fætur lærisveina sina fyrir máltíðina, en skír í þessu samhengi þýðir hreinn. Föstudagurinn langi snýst allur um sakfellingu Jesú, krossfestingu og dauða. Páskahátíð gyðinga Pesach, var haldin á laugardeginum á sabbatinu. Þennan dag lá öll starfsemi niðri en daginn eftir, á sunnudeginum, var venjulegur virkur dagur. Það var þá sem María Magdalena og María móðir Jakobs, samkvæmt, Markúsarguðspjallinu 16. kafla, sáu að Jesús var ekki lengur í gröfinni því að hann hafði risið upp frá dauðum. Kristnir menn halda þess vegna páskadaginn sem gleði og fagnaðardag. Jesús lifði þrátt fyrir að hafa verið tekinn af lífi á krossinum og það gerir páskana að mestu hátíð kristinna manna og forsendu kristinnar trúar.

Samkvæmt guðspjöllunum birtist Jesús mörgum og víða eftir upprisuna allt fram að uppstigningardegi 40 dögum eftir páska, þá steig hann til himna og situr þar við hægri hönd Guðs.

Hvenær eru páskar?

[breyta | breyta frumkóða]

Tímasetning páska hefur ekki alltaf verið sú sama. Samkvæmt tímatali gyðinga (sem er tungltímatal) ber páska alltaf upp á 14. daginn í vormánuðinum Nisan en þá er alltaf fullt tungl. Kristnir menn fluttu fljótlega páskadaginn yfir á næstkomandi sunnudag enda álitu þeir að Jesús hafi endurrisið á þeim vikudegi. Allt frá árinu 325 ber páskadaginn ætíð upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægri á vori. Tunglfyllingardagur þessi er þó ekki raunveruleg tunglfylling heldur er hann reiknaður út samkvæmt ákveðinni reglu en fylgir þó oftast raunverulegri tunglfyllingu nokkuð náið.[3] Í vestrænni kristni geta páskar allra fyrst verið 22. mars og seinast 25. apríl.[4]

Nýtt tímavandamál kom upp þegar júlíanska tímatalið var yfirgefið fyrir það gregoríanska á 14 til 16 öld. Stærsti hluti rétttrúnaðarkirknanna fylgdu áfram júlíanska tímatalinu í kirkjuárinu. Þess vegna ber páskana þar upp á aðra daga en í öðrum kirkjudeildum.

Frídagur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Mánudagurinn eftir páska, annar í páskum, er almennur frídagur á Íslandi. Einnig var fram til ársins 1770 þriðji í páskum almennur frídagur, en það ár var hann afhelgaður. Eins var um þriðja í jólum, þrettándinn og þriðja í hvítasunnu, sem einnig höfðu verið helgi-og frídagur, þar sem konungi fannst íslensk alþýða hafa of mikið af almennum frídögum.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Theresa Urbainczyk, Socrates of Constantinople: Historian of Church and State (Ann Arbor: University of Michigan Press, 1997). ISBN 0-472-10737-2.
  2. „Af hverju eru páskarnir ekki alltaf á sama tíma?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 20.5.2018)
  3. Astronomical Society of South Australia Einföld aðferð að reikna út alla páskadaga frá AD 326 til 4099.
  4. „Af hverju eru páskarnir ekki alltaf á sama tíma?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 20.5.2018)


breyta Kristnar hátíðir

Aðventa | Jól | Pálmasunnudagur | Dymbilvika | Páskar | Uppstigningardagur | Hvítasunnudagur | Allraheilagramessa