Þriðja ríkið
Þriðja ríkið (stundum kallað Þýskaland Hitlers) var Þýskaland undir flokksræði nasista og leiðtoga þeirra Adolfs Hitlers 1933 til 1945. „Þriðja“ vísar til þess að Þýska keisaraveldið var „annað ríkið“ og hið Heilaga rómverska ríki „fyrsta ríkið“.
Undir stjórn nasista rak Þýskaland útþenslustefnu í nafni kenningarinnar um landrými (Lebensraum) og ofsótti gyðinga og önnur þjóðarbrot innan ríkisins á grundvelli hugmynda um arískan uppruna Þjóðverja og nauðsyn þess að viðhalda eða endurheimta „hreinleika“ kynþáttarins. Í nafni þessara hugsjóna stunduðu Þjóðverjar árásargjarna utanríkisstefnu og lögðu nágrannalönd sín undir sig með hervaldi á fyrstu árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Bæði í Þýskalandi og hinum hernumdu löndum var stunduð skipuleg einangrun og fjöldamorð á gyðingum, sígaunum, stríðsföngum, fötluðum, samkynhneigðum og fleiri hópum sem taldir voru ógnun við hinn aríska kynþátt. Morð á gyðingum voru svo víðtæk, kerfisbundin og skilvirk að þau eru nefnd helförin.
Þriðja ríkið náði hátindi sínum á fyrstu árum styrjaldarinnar og Þýskaland varð stórveldi í Evrópu um 1940. Eftir ósigur Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni var Þýskaland og stór hluti Evrópu í rúst og landinu var skipt í tvö ríki: Vestur-Þýskaland og Austur-Þýskaland, sem saman náðu yfir mun minna landsvæði en Þýskaland gerði fyrir styrjöldina. Prússland leið formlega undir lok sem sérstakt fylki. Þýsku ríkin tvö sameinuðust svo á ný árið 1990.