Fara í innihald

Rjómi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd af þeyttum rjóma ofan á heitu súkkulaði.

Rjómi er mjólkurafurð sem verður til þegar mjólkurfita er skilin frá ófitusprengdri mjólk. Áður var þetta gert með því að láta mjólkina standa þar til rjóminn settist á yfirborðið og þá var hann fleyttur ofan af en fitusnauðari hluta mjólkurinnar var rennt undan og því nefnist hann undanrenna. Seinna komu skilvindur til sögunnar og nú er mjólk skilin í stórvirkum vélum í mjólkurbúum.

Vegna þess að rjómi er ekki fitusprengdur er hægt að þeyta hann en þá setjast fitukúlurnar utan um loftbólur og bindast saman með hjálp próteins. Þannig eykst rúmmál hans um helming. Hérlendis er rjómi til þeytingar með 36% fituinnihaldi, auk þess sem fá má matreiðslurjóma sem er 15% feitur, en víða erlendis er hægt að fá feitari rjóma (double cream), allt að 48%. Hleyptur rjómi (clotted cream) er raunar 55% feitur.

Eftir gerilsneyðingu rjóma þarf að halda honum köldum í lengri tíma en við vinnslu t.d. nýmjólkur vegna „innri hita“ sem myndast í fitukúlunum. Ef ekkert væri að gert myndi hitastig rjómans hækka á nýjan leik og þannig skemmast.

Sýrður rjómi er rjómi sem hefur verið sýrður með mjólkursýrugerlum og þykknar við það.

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.