Orrustan um Bretland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndir úr orrustunni um Bretland.

Orrustan um Bretland (Battle of Britain á ensku; Luftschlacht um England á þýsku) var herför í seinni heimsstyrjöldinni þar sem konunglegi breski flugherinn (Royal Air Force eða RAF) varði Bretland gegn loftárásum þýska flughersins (Luftwaffe). Orrustunni hefur verið lýst sem fyrstu stóru stríðsátökunum sem háð voru eingöngu í lofti.[1]

Í Bretlandi er orrustan formlega talin hafa staðið frá 10. júlí til 31. október 1940. Þessi tími samsvarar hrinu næturárása þýska flughersins sem Bretar kalla „leiftrið“ (the Blitz; hugtakið er dregið af þýska hugtakinu Blitzkrieg eða leifturstríði) og stóð frá 7. september 1940 til 11. maí 1941.[2] Þýskir sagnfræðingar líta fremur á alla orrustuna sem eina herför sem entist frá júlí 1940 til júní 1941.[3]

Helsta markmið Þjóðverja var að neyða Breta til þess að samþykkja að semja um friðarsáttmála. Í júlí árið 1940 hófst hafnarbann gegn Bretlandi og þýski flugherinn einbeitti sér að því að gera árásir á hafnar- og verslunarmiðstöðvar, til dæmis Portsmouth. Þann 1. ágúst var flughernum skipað að ná yfirburðum gagnvart Bretum í lofti. Því hófu Þjóðverjar árásir á flugvelli breska lofthersins.[4] Þegar leið á orrustuna fór þýski flugherinn einnig að gera árásir á verksmiðjur þar sem nýjar flugvélar voru framleiddar. Loks fóru Þjóðverjar að varpa sprengjum á almenna borgara og á svæði nutu táknræns eða pólitísks mikilvægis á Bretlandi. Tilgangurinn var að draga úr baráttuvilja Breta og neyða bresku ríkisstjórnina að samningsborðinu.

Þjóðverjar höfðu á þessum kafla styrjaldarinnar sigrað Frakkland og Niðurlönd og því voru Bretar berskjaldaðir fyrir árás af hafi. Miðstjórn þýska hersins vissi þó að erfitt yrði að gera hafárás á Bretland þar sem konunglegi breski sjóherinn naut öruggra yfirráða á Ermarsundi og Norðursjónum. Þann 16. júlí fyrirskipaði Adolf Hitler undirbúning „Sæljónsaðgerðarinnar“ (Unternehmen Seelöwe) svokölluðu. Í þessari aðgerð áttu Þjóðverjar að gera innrás í Bretland af hafi og úr lofti eftir að þýski loftherinn hefði tryggt sér yfirburði gagnvart Bretum. Í september gerðu Bretar næturárásir á flugstöðvar Þjóðverja á meginlandinu. Þar sem þýska flughernum hafði ekki tekist að vinna bug á þeim breska neyddist Hitler til þess að fresta og loks aflýsa Sæljónsaðgerðinni. Þjóðverjar höfðu ekki ráð á að halda dagárásunum áfram til lengdar en þeir héldu áfram næturárásunum um nokkurt skeið.

Sagnfræðingurinn Stephen Bungay hefur sagt að orrustan hafi verið fyrsti meiriháttar ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni og hafi markað kaflaskil í stríðinu.[5] Orrustan um Bretland er kennd við ræðu sem Winston Churchill flutti á neðri deild breska þingsins þann 18. júní: „Orrustunni um Frakkland, eins og Weygand hershöfðingi kallaði hana, er lokið. Orrustan um Bretland er í þann mund að hefjast.“[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. "92 Squadron – Geoffrey Wellum." Battle of Britain Memorial Flight via raf.mod.uk.. Skoðað 7. júní 2018, geymt 2. mars 2009.
  2. „Introduction to the Phases of the Battle – History of the Battle of Britain – Exhibitions & Displays – Research“. RAF Museum. Sótt 7. júní 2018.
  3. Overy, Richard J. (2013). The Bombing War : Europe 1939–1945. London & New York: Allen Lane, bls. 73–74.
  4. Bungay, Stephen (2000). The Most Dangerous Enemy : A History of the Battle of Britain. London: Aurum Press, bls. 31–33.
  5. Bungay 2000, bls. 388.
  6. Stacey, C P. (1955) The Canadian Army 1939–1945 An Official Historical Summary Queen's Printer, Ottawa, bls. 18.