Fara í innihald

Krímkanatið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krímkanatið árið 1600.

Krímkanatið (krímtatarska: Qırım Hanlığı, قريم خانلغى‎; pólska: Chanat Krymski - Khanat Krymsky; rússneska: Крымское ханство - Krímskoje khanstvo; úkraínska: Кримське ханство - Krymske khanstvo; tyrkneska: Kırım Hanlığı) var ríki Krímtatara sem stóð frá 1441 til 1783. Það var langlífast þeirra ríkja sem urðu til við upplausn Gullnu hirðarinnar. Nokkrar ættir Krímtatara undir stjórn Hacı Giray klufu sig frá Gullnu hirðinni með stuðningi Stórfurstadæmisins Litháen og stofnuðu sjálfstætt ríki á Krímskaga við Svartahaf. Fljótlega eftir lát Hacı Giray lenti ríkið á áhrifasvæði Tyrkjaveldis og allir nýir kanar þurftu samþykki Tyrkjasoldáns. Ottómanar komu þó fram við Krímtatara sem bandamenn fremur en undirsáta.

Hátindi sínum náði ríkið undir stjórn Devlet 1. Giray sem tókst að koma í veg fyrir fyrirætlanir Ottómana um að grafa skipaskurð milli Volgu og Don. Hann barðist við Rússa um yfirráð yfir Tatarahéruðunum Kasan og Astrakan og rændi Moskvu 1571. Aðeins ári síðar beið hann síðan mikinn ósigur fyrir Rússum í orrustunni við Molodi.

Krímkanatinu tók að hnigna á sama tíma og Tyrkjaveldi hnignaði. Riddaralið Krímtatara úreltist eftir því sem herir helstu samkeppnisríkja, Rússa og Pólverja, væddust nútímaskotvopnum. Kalmikar settust að nálægt ósum Volgu á fyrri helmingi 17. aldar og eftir að þeir gerðust bandamenn Rússa tóku þeir þátt í herförum þeirra gegn Krímtöturum. Herfarir Rússa í Rússnesk-tyrkneska stríðinu 1735-1739 og Rússnesk-tyrkneska stríðinu 1768-1774 gerðu þeim kleift að kljúfa Krímkanatið frá Tyrkjaveldi og gera það að áhrifasvæði Rússa. Þann 8. apríl 1783 innlimaði Katrín mikla Krímkanatið í Rússneska keisaradæmið og síðasti kaninn Şahin Giray leitaði hælis í Tyrkjaveldi árið 1787.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.