Kraká
Kraká | |
---|---|
Land | Pólland |
Sýsla | Litla-Pólland |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri | Jacek Majchrowski |
Flatarmál | |
• Samtals | 326,85 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 219 m |
Mannfjöldi (2021) | |
• Samtals | 800.653 |
• Þéttleiki | 2.325/km2 |
Póstnúmer | 30-024 til 31-962 |
Svæðisnúmer | (+48) 12 |
Tímabelti | UTC +1 / UTC +2 (sumar) |
Vefsíða | krakow.pl |
50°04′N 19°57′A / 50.067°N 19.950°A Kraká (pólska: Kraków, þýska: Krakau, latína: Cracovia) er önnur stærsta borg Póllands og höfuðborg Litla-Pólland sýslu. Hún er í suðurhluta Póllands við ána Vislu.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu heimildir um byggð í Kraká er hægt að rekja aftur til 996. Það er þó talið að allstór bær hafi verið þar nokkru lengur, og fyrst á Wawel hæðinni. Árið 1000 var Kraká gerð að biskupssetri og árið 1038 að höfuðborg Póllands.
Á 13. öld var borgin endurskipulögð samkvæmt svokölluðu "skákborðsskipulagi", þannig að frá aðaltorginu lágu fjórar götur í hverja átt, sem voru svo tengdar með minni götum og umhverfis allt lágu borgarmúrarnir. Fyrir utan borgarmúrana lágu svo minni og sjálfstæðir bæir sem með tímanum urðu sameinaðir Kraká. Árið 1364 var í Kraká stofnaður elsti háskóli í Póllandi, Uniwersytet Jagielloński, sem þá kallaðist Akademia Krakowska.
Á 15. og 16. öld var Pólland eitt af stórveldum Evrópu og í Kraká átti því sér stað ör þróun. Borgin var miðstöð menninngar, lista og verslunar auk þess sem stórir hlutar hennar, m.a. kastalinn á Wawel hæðinni voru endurbyggðir. Á 16. öld voru íbúar Kraká um 30 þúsund.
Með sameiningu Póllands og Litháen varð Kraká í útjaðri ríkisins. Varsjá fór að taka við sem staður funda og kosninga, og árið 1609 varð höfuðborgin endanlega færð þangað. Konungar voru þó enn krýndir í Kraká fram til 1734.
Með skiptingu Póllands milli nágrannalanda 1795 komst Kraká undir stjórn Austurríkis. Á árunum 1815-1846 varð hún höfuðborg Lýðveldisins Kraká, sem formlega var sjálfstætt, en var í raun undir sameiginlegri stjórn þeirra þriggja landa sem höfðu skipt Póllandi milli sín, Austurríkis, Rússlands og Prússlands. Mikil endurnýjun átti sér þá stað á borginni, mestur hluti borgarmúranna var rifinn og í stað síkisins var reistur garður sem kallast Planty. Einnig þótti ráðhúsið taka of stóran hluta af aðaltorginu og því tekið í sundur og aðeins turninn skilinn eftir.
Eftir byltingu árið 1846 var Kraká aftur innlimuð í Austurríki og var hluti þess fram til 1918 þegar Pólland öðlaðist sjálfstæði á ný. Árið 1978 var miðborg Kraká skráð á heimsminjaskrá UNESCO.
Áhugaverðir staðir
[breyta | breyta frumkóða]Kraków er mjög vel varðveitt borg og skartar byggingum frá ýmsum tímabilum. Aðaltorgið í borginni er það stærsta í allri Mið- og Austur-Evrópu. Á torginu eru meðal annars:
- Kirkja heilags Albert (pl: Kościoł św. Wojciecha) - ein elsta kirkjan í Kraká, talið að byrjað hafi verið að byggja hana á 10. öld.
- Maríukirja (pl: Kościół Mariacki) - eitt frægasta tákn Kraká og einnig Póllands, kirkja frá 13. öld með tveimur misháum turnum. Úr þeim efri er spilað á klukkutíma fresti sérstakt lag kallað "Hejnał" sem hefur orðið að tákni Kraká.
- Ráðhústurninn - það eina sem er orðið af ráðhúsinu sem var tekið í sundur 1820.
- Sukiennice - markaðstorg frá 13. öld sem hýsir nú aðallega túristamarkað.
- Stytta af þjóðskáldinu Adam Mickiewicz.
Út frá aðaltorginu liggja götur í allar áttir, meðal annars helstu verslunargötur borgarinnar, Grodzka og Floriańska. Við enda Floriańska götunnar er eina borgarhliðið sem enn stendur og hluti af gömlu virki sem kallast Barbakan.
Aðeins utan við gamla miðbæinn liggur Wawel-hæðin þar sem gamli konungskastalinn stendur. Einn hluti kastalans er dómkirkja þar sem flestir konungar Póllands eru grafnir. Wawel hæðinni tengist þjóðsaga um dreka sem ætlaði að éta alla íbúa Kraká en var drepinn af fátækum skósmið sem fékk konungsdótturina að launum. Í Wawel hæðinni er lítill hellir sem er sagður hafa búið í, og fyrir utan stendur stytta af drekanum sem er vinsæll myndatökustaður fyrir túrista.
Í Kraká er einnig mjög vel varðveitt gyðingahverfi sem kallast Kazimierz. Þar eru m.a. nokkur bænahús gyðinga og grafreitur.
Á undanförnum árum hefur Kraká orðið vinsæll ferðmannastaður og á hverju ári heimsækja borgina 3-4 milljónir ferðamanna. Frá og með vori 2004 hafa Heimsferðir staðið fyrir beinu leiguflugi til Kraká nokkrum sinnum á ári.