Fara í innihald

Jimmy Carter

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá James Earl Carter, Jr.)
Jimmy Carter
Carter árið 1977.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1977 – 20. janúar 1981
VaraforsetiWalter Mondale
ForveriGerald Ford
EftirmaðurRonald Reagan
Fylkisstjóri Georgíu
Í embætti
12. janúar 1971 – 14. janúar 1975
VararíkisstjóriLester Maddox
ForveriLester Maddox
EftirmaðurGeorge Busbee
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. október 1924(1924-10-01)
Plains, Georgíu, Bandaríkjunum
Látinn29. desember 2024 (100 ára) Plains, Georgíu, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiRosalynn Smith (g. 1946; d. 2023)
Börn4
HáskóliBandaríski flotaskólinn
StarfBóndi, stjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (2002)
Undirskrift

James Earl „Jimmy“ Carter, Jr. (1. október 192429. desember 2024) var bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum. Hann var 39. forseti Bandaríkjanna á árunum 1977-1981 og vann friðarverðlaun Nóbels árið 2002.

Jimmy Carter var kjörinn forseti í kosningunum 1976, þar sem hann sigraði sitjandi forsetann Gerald Ford. Ford hafði áður verið varaforseti en hafði tekið við forsetaembættinu af Richard Nixon sem sagði af sér vegna Watergatemálsins. Carter náði kjöri á forsetastól sem pólitískur utangarðsmaður sem var ósnertur af hneykslismálum sem höfðu sett bletti á síðustu ríkisstjórnir landsins. Þrátt fyrir að koma þannig í Hvíta húsið með ferskum andvara glataði Carter smám saman vinsældum sínum vegna versnandi efnahagsástands í kjölfar olíukreppunnar 1979 og þjóðarauðmýkinga á borð við innrás Sovétmanna í Afganistan og gíslatökuna í Teheran. Þessir erfiðleikar stuðluðu að því að Carter tapaði endurkjöri á móti Ronald Reagan, frambjóðanda Repúblikana, í forsetakosningunum 1980.

Frá því að forsetatíð hans lauk hafði Carter unnið að margvíslegu friðar- og líknarstarfi sem varð til þess að hann vann friðarverðlaun Nóbels árið 2002. Forsetatíð Carters fékk almennt ekki góð eftirmæli en samkvæmt flestum hefur hann hefur bætt ímynd sína verulega og öðlast aukna virðingu með störfum sínum að henni lokinni.

Þann 1. október 2024 varð Jimmy Carter að fyrsta forseta Bandaríkjanna til þess að verða hundrað ára. Hann lést tæpum þremur mánuðum síðar.

Jimmy Carter fæddist á bóndabæ í þorpinu Plains í suðvesturhluta Georgíu í Bandaríkjunum. Hann á rætur að rekja til Írlands, Skotlands og Englands. Faðir hans var íhaldssamur bóndi sem var hlynntur kynþáttaaðskilnaði en móðir hans var hjúkrunarfræðingur sem hafði unnið sem sjálfboðaliði með Friðarsveitunum (e. Peace Corps) á Indlandi. Fjölskyldan rak jarðhnetubú og heildverslun með áburði og jarðhnetur.[1]

Jimmy var fyrstur úr fjölskyldu sinni til að ljúka menntaskólanámi og að því loknu innritaðist hann í háskóla bandaríska flotans. Hann gegndi þjónustu með flotanum á Karíbahafi í seinni heimsstyrjöldinni.[2] Carter lauk foringjaprófi með gráðu í kjarnorkuverkfræði árið 1946 og varð foringi á bandarískum kjarnorkukafbáti á árunum 1949 til 1953. Hann sneri heim til Georgíu eftir andlát föður síns árið 1953 til þess að taka við rekstri jarðhnetubúsins og tókst að efnast nokkuð á rekstri þess á næstu árum.[1]

Carter hóf afskipti af stjórnmálum níu árum eftir að hann sneri heim og var árið 1962 kjörinn á öldungadeild fylkisþings Georgíu fyrir Demókrataflokkinn.[3] Áður en kjörtímabili hans var lokið fór hann að undirbúa framboð til embættis fylkisstjóra Georgíu en náði ekki kjöri í forkosningum Demókrata árið 1966. Carter bauð sig aftur fram árið 1970 og rak í þetta sinn öfluga kosningabaráttu sem endaði með því að hann var kjörinn fylkisstjóri Georgíu og tók við embætti í janúar 1971.[1]

Carter reyndist framsækinn fylkisstjóri sem talaði fyrir réttindum bandarískra blökkumanna. Hann fjölgaði verulega þeldökkum starfsmönnum í stjórnsýslu Georgíu, jafnaði fjárframlög fylkisins til skóla fyrir svört og hvít börn og veitti blökkumönnum óheftan aðgang að listasafni fylkisins.[4] Carter reyndi jafnframt að koma betra skipulagi á stjórnsýslukerfið með því að fækka deildum og opinberum embættum. Þegar Carter lét af embætti fylkisstjóra var um 116 milljón dollara tekjuafgangur í fylkissjóðnum.[1]

Á landsþingi Demókrata árið 1972 studdi Carter Henry Jackson sem forsetaframbjóðanda flokksins í næstu kosningum, en George McGovern varð að endingu fyrir valinu og bað hrapalegan ósigur fyrir Richard Nixon forseta í forsetakosningunum 1972. Haustið 1974, stuttu eftir að Nixon sagði af sér, fór Carter að undirbúa eigið forsetaframboð. Árið 1976 gaf hann út bókina Why Not the Best?, sem varð helsta barátturit hans í kosningabaráttunni. Carter var á þessum tíma nánast óþekktur utan Georgíu en honum tókst að nýta sér þetta með því að stilla sjálfum sér upp sem pólitískum utangarðsmanni og leggja áherslu á að hann væri óháður valdaklíkum og spilltri flokkapólitík. Slagorð Carters í kosningabaráttunni var „Hvaða Jimmy?“ (e. Jimmy Who?) og vísaði til þess að hann væri óskrifað blað í pólitík.[5]

Carter vann örugga sigra í forkosningum Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í New Hampshire og Iowa og var að endingu kjörinn forsetaframbjóðandi flokksins á landsþingi Demókrata í New York árið 1976. Varaforsetaefnið í framboði Carters var Walter Mondale, öldungadeildarþingmaður frá Minnesota.[5]Í forsetakosningunum atti Carter kappi við sitjandi forsetann Gerald Ford úr Repúblikanaflokknum, en hann hafði sest ókjörinn á forsetastól eftir afsögn Nixons. Í kosningabaráttunni lofaði Carter meðal annars stofnun sjúkrasamlaga sem skyldu fjármögnuð af heildarskatttekjum ríkisins og sérstökum tekjuskatti, einföldun á stjórnsýslu alríkisstjórnarinnar og aukinni áherslu á umhverfisvernd. Hann var aftur á móti andstæðingur frjálsra þungunarrofa og kvaðst ekki vilja veita fylkjum ríkisins ákvörðunarrétt í því málefni.[6]

Í forsetakosningunum 1976 vann Carter nauman en öruggan sigur gegn Ford með um 50 prósentum atkvæða á landsvísu og 297 atkvæðum í kjörmannaráðinu. Carter tók við af Ford sem forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 1977.

Forseti Bandaríkjanna (1977–1981)

[breyta | breyta frumkóða]
Jimmy Carter (í miðjunni) ásamt Anwar Sadat og Menachem Begin í Camp David árið 1978.

Strax á öðrum degi sínum í forsetaembætti gaf Carter út almenna og skilyrðislausa sakaruppgjöf fyrir þúsundir manna sem höfðu svikist undan herkvaðningu í Víetnamstríðinu, sem hafði verið eitt af kosningaloforðum hans.[7]

Vinsældir Carters dvínuðu talsvert á fyrsta ári hans í embætti. Meðal annars varpaði það skugga á fyrirheit Carters um bætt siðferði í ríkisstjórninni þegar Bert Lance, fjárlagastjóri Hvíta hússins, varð að segja af sér í september 1977 vegna ásakana um fjármálamisferli.[8] Carter reyndi að halda fjarlægð við pólitíska gangverkið í Washington en hafði þess í stað með sér fjölda samstarfsmanna sinna frá Georgíu sem höfðu litla reynslu af stjórnmálum alríkisins. Samband forsetans við Bandaríkjaþing og við áhrifamenn í Demókrataflokknum varð því með stirðara móti. Almennt var heiðarleiki Carters sjálfs ekki dreginn í efa en gjarnan var litið á hann sem hrekklausan sveitamann sem hefði ekki vit á alvöru bandarískra stjórnmála.[9]

Carter kom því til leiðar að Bandaríkjamenn skiluðu stjórn Panamaskurðarins til íbúa Panama þrátt fyrir talsverða andstöðu innan Bandaríkjanna.[10] Skurðurinn var þó ekki að fullu afhentur íbúum landsins fyrr en árið 1999.[11] Carter hélt einnig áfram starfi forvera sinna við að bæta samskipti Bandaríkjanna við Alþýðulýðveldið Kína, sem leiddi til þess að Bandaríkin og Kína tóku upp formlegt stjórnmálasamband þann 1. janúar 1979. Um leið rufu Bandaríkin stjórnmálasamband sitt við Lýðveldið Kína á Taívan og viðurkenndu tilkall meginlandsstjórnarinnar til eyjarinnar.[12][10]

Árið 1978 fundaði Carter ásamt Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, og Anwar Sadat, forseta Egyptalands, og stýrði viðræðum milli þeirra í viðleitni til þess að stofna til friðar milli landanna. Niðurstaða viðræðanna var að leiðtogarnir undirrituðu Camp David-samkomulagið þann 17. september 1978 en í því fólst að Egyptar viðurkenndu sjálfstæði Ísraels og stofnuðu til stjórnmálasambands við ríkið en Ísraelar skiluðu Sínaískaga til Egyptalands. Jafnframt gerði samkomulagið ráð fyrir því að Palestínumenn á Vesturbakkanum og Gasaströndinni myndu fá sjálfsstjórn að fimm árum liðnum en að Ísraelar myndu áfram fá að halda herliði þar af öryggisástæðum.[13]

Í júní 1979 undirritaði Carter samning um takmörkun langdrægra kjarnaflauga (SALT-II) ásamt Leoníd Brezhnev, leiðtoga Sovétríkjanna. Þegar Sovétmenn réðust inn í Afganistan í desember var hins vegar hætt við að leggja samninginn til samþykktar Bandaríkjaþings, enda var þá engin von um að hann yrði samþykktur.[12] Carter tók jafnframt ákvörðun um að Bandaríkjamenn skyldu sniðganga Ólympíuleikana sem voru haldnir í Moskvu árið 1980 til að mótmæla hernaði Sovétmanna í Afganistan. Í ræðu sinni um stöðu ríkjasambandsins árið 1980 setti forsetinn fram Carter-kenninguna svokölluðu, sem gekk út á að Bandaríkin myndu líta á allar tilraunir Sovétmanna til að ná fótfestu við Persaflóa sem ógn í sinn garð og myndu beita öllum ráðum til að sporna við því.[14]

Gíslatakan í Íran og kosningabaráttan 1980

[breyta | breyta frumkóða]
Carter og Ronald Reagan í sjónvarpskappræðum forsetaframbjóðenda árið 1980.

Verstu erfiðleikar Carters hófust eftir að íranska byltingin var gerð árið 1978. Áhrif byltingarinnar á olíuframleiðslu Írans komu af stað olíukreppu árið 1979 sem hafði sérlega slæm áhrif á efnahag Bandaríkjanna. Carter brást við kreppunni með því að grípa til sparnaðaraðgerða í ríkisútgjöldum en þessar aðgerðir höfðu ekki tilætluð áhrif. Aftur á móti reitti aðhaldsstefnan marga Demókrata til reiði, þar sem þeir töldu hana stríða gegn efnahagsstefnunni sem flokkurinn hafði haldið frá tíma Franklins D. Roosevelt og nýju gjafarinnar.[12] Óvinsæl stefna Carters leiddi til þess að öldungadeildarþingmaðurinn Ted Kennedy, yngsti bróðir Johns F. Kennedy heitins Bandaríkjaforseta, bauð sig fram á móti honum í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 1980.[15] Carter tókst aðeins með naumindum að tryggja sér endurútnefningu flokksins fyrir kosningarnar.

Eftir að byltingin var gerð í Íran neitaði Carter í fyrstu að veita Múhameð Resa Pahlavi Íranskeisara, sem hafði þá tapað völdum, hæli í Bandaríkjunum. Þegar fréttist að keisarinn væri illa haldinn af krabbameini heimilaði Carter honum hins vegar að koma í stutta heimsókn til Bandaríkjanna til að gangast undir læknismeðferð. Ákvörðun Carters vakti mikla reiði meðal íranskra byltingarmanna, sem brugðust við þann 4. nóvember 1979 með því að ráðast á bandaríska sendiráðið í Teheran og taka þar 65 Bandaríkjamenn í gíslingu.[14] Byltingarmennirnir kröfðust þess að fá keisarann framseldan gegn lausn gíslanna auk þess sem þeir fóru fram á formlega afsökunarbeiðni fyrir fyrri afskipti Bandaríkjanna af innanríkismálum Írans, sér í lagi fyrir valdaránið 1953. Carter brást við með því að stöðva olíuverslun við Íran, frysta eignir Írana í Bandaríkjunum og vísa fjölda Írana úr landi.[16] Í apríl 1980 skipaði Carter hernaðaraðgerðina „Arnarkló“ til þess að frelsa gíslana en sú aðgerð misheppnaðist algerlega þar sem herþyrlur Bandaríkjamanna lentu í sandstormi og biluðu. Í aðgerðinni létust átta bandarískir hermenn og einn Írani. Uppákoman var gífurlegur persónulegur ósigur fyrir Carter og þótti auðmýkjandi fyrir Bandaríkin öll.[17]

Carter var rúinn vinsældum þegar kom að forsetakosningunum 1980. Í kosningunum bað Carter herfilegan ósigur gegn Ronald Reagan, frambjóðanda Repúblikanaflokksins. Forsetinn vann aðeins í sex fylkjum auk höfuðborgarinnar og hlaut aðeins 41 prósent atkvæða á landsvísu og 49 atkvæði í kjörmannaráðinu. Carter vonaðist þó til þess að geta frelsað gíslana áður en hann viki úr embætti fyrir Reagan og þann 19. janúar 1981 tókst senditeymi hans, undir stjórn varautanríkisráðherrans Warrens Christopher, að semja um lausn þeirra eftir viðræður við Írana í Alsír.[18] Gíslarnir voru hins vegar ekki leystir úr haldi fyrr en daginn eftir, aðeins örfáum mínútum eftir að Carter lét af embætti og Reagan sór embættiseið. Talið er að tímasetningin hafi verið valin til þess að auðmýkja Carter enn frekar.[14]

Kenningar hafa lengi verið uppi um að aðilar með tengsl við kosningaherferð Reagans hafi haft samband við Írana og fengið þá til að sleppa gíslunum ekki fyrr en eftir kosningarnar með vilyrðum um að Reagan myndi gefa þeim betri skilmála en Carter ef hann næði kjöri. Þessi kenning var staðfest að nokkru leyti árið 2023 þegar Ben Barnes, stjórnmálamaður frá Texas, greindi frá því að hann hefði farið ásamt John Connally, fyrrum fylkisstjóra Texas, í ferð til Mið-Austurlanda árið 1980. Barnes kvað Connally hafa fengið stjórnir ýmissa ríkja til að láta skilaboð ganga áfram til Írans um að sleppa gíslunum ekki fyrr en eftir kosningarnar.[19]

Að lokinni forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]
Jimmy Carter árið 2013.

Carter var áfram virkur í bandarískum þjóðfélagsmálum og alþjóðastjórnmálum eftir að hann lét af forsetaembætti. Frá níunda áratuginum rak Carter ásamt eiginkonu sinni, Rosalynn, Carter-friðarstofnunina í Atlanta. Stofnunin vinnur að mannréttindum og bættum lífsskilyrðum í um áttatíu ríkjum. Meðal annars hefur stofnunin beitt sér fyrir útrýmingu gíneuormsins, sníkjudýrs sem sest að í mannslíkamanum, í Afríku. Carter tók einnig þátt í friðarumleitunum milli Norður- og Suður-Kóreu á vegum Bandaríkjastjórnar árið 1994, í Bosníustríðinu árið 1995 og í borgarastyrjöldinni í Súdan á tíunda áratuginum. Carter-stofnunin hefur einnig tekið þátt í eftirliti með framkvæmd kosninga í Mexíkó, Perú, Níkaragva, Venesúela og á Austur-Tímor.[20] Carter tók jafnframt þátt í friðarumleitunum í sýrlensku borgarastyrjöldinni og átti fund með Bashar al-Assad Sýrlandsforseta.[21]

Árið 2002 hlaut Carter friðarverðlaun Nóbels fyrir „áratuga óeigingjarnt starf við að leita lausna á alþjóðlegum deilum, að vinna að framgangi lýðræðis og mannréttinda og efnahagslegra og félagslegra framfara“.[22]

Carter tilkynnti að hann hefði greinst með krabbamein í heila í ágúst árið 2015.[23] Í desember sama ár tilkynnti hann að hann væri laus við krabbameinið.[21]

Þann 18. febrúar 2023 ákvað Carter að fara á heimili sitt með fjölskyldu sinni og gangast undir líknarmeðferð fremur en að fara aftur á sjúkrahús til að vera undir læknaeftirliti.[24]

Carter varð hundrað ára gamall þann 1. október 2024 og fyrstur fyrrum Bandaríkjaforseta til að ná svo háum aldri.[25]

Carter lést þann 29. desember 2024 á heimili sínu eftir að hafa gengist undir líknarmeðferð í nærri tvö ár. Með því varð Jimmy Carter að fyrsta forseta Bandaríkjanna úr röðum Demókrata til þess að deyja síðan Lyndon B. Johnson árið 1973.[26][27]

Eiginkona Carters frá árinu 1946 til 2023 var Rosalynn Carter (f. Eleanor Rosalynn Smith). Hún var á sínum tíma ein áhrifamesta forsetafrú í sögu Bandaríkjanna og var vön því að sitja ríkisstjórnarfundi til að fylgjast með gangi mála.[28] Þau Jimmy eiga fjögur börn saman.[29]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „„Hvaða Jimmy?" á sl. ári — Forseti Bandaríkjanna í ár?“. Morgunblaðið. 16. júlí 1976. bls. 10-11.
  2. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 379. ISBN 978-9935-9194-5-8.
  3. „James Earl Carter 39. forseti Bandaríkjanna“. Morgunblaðið. 20. janúar 1977. bls. 10, 19.
  4. Jón Þ. Þór 2016, bls. 380.
  5. 5,0 5,1 Jón Þ. Þór 2016, bls. 381.
  6. „Jimmy Carter — næsti forseti Bandaríkjanna“. Alþýðublaðið. 4. nóvember 1976. bls. 5.
  7. „Carter náðar andstæðinga Víetnamstríðsins“. Þjóðviljinn. 22. janúar 1977. bls. 3.
  8. Lance Morrow (18. júní 1978). „Hver er Jimmy Carter?“. Lesbók Morgunblaðsins. bls. 12-13, 15.
  9. Jón Þ. Þór 2016, bls. 382.
  10. 10,0 10,1 Don Obendorfer (11. mars 1979). „Þverstæðurnar í utanríkisstefnu Carters“. Morgunblaðið. bls. 22-23.
  11. „Panamaskurðurinn formlega afhentur“. mbl.is. 14. desember 1999. Sótt 21. apríl 2021.
  12. 12,0 12,1 12,2 Jón Þ. Þór 2016, bls. 383.
  13. Einar Már Jónsson (1. október 1978). „Samningarnir í Camp David“. Þjóðviljinn. bls. 4-5.
  14. 14,0 14,1 14,2 Jón Þ. Þór 2016, bls. 384.
  15. Anders Hansen (27. apríl 1980). „Edward Kennedy“. Morgunblaðið. bls. 20-21.
  16. Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (14. júlí 2005). „Gíslatakan í Teheran 1979“. Deiglan. Sótt 22. apríl 2021.
  17. Pálmi Jónasson (4. nóvember 2019). „40 ár frá gíslatökunni í Teheran“. RÚV. Sótt 22. apríl 2021.
  18. „„Loksins get ég brosað...". Morgunblaðið. 20. janúar 1981. bls. 30.
  19. Samúel Karl Ólason (19. mars 2023). „Grófu undan endurkjöri Carters og spiluðu með líf fimmtíu og tveggja gísla“. Vísir. Sótt 26. mars 2023.
  20. „„Besti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna". Morgunblaðið. 11. desember 2002. bls. 16.
  21. 21,0 21,1 Freyr Gígja Gunnarsson (6. desember 2015). „Jimmy Carter laus við krabbamein í heila“. RÚV. Sótt 21. apríl 2021.
  22. „Jimmy Carter hlaut friðarverðlaun Nóbels“. mbl.is. 11. október 2002. Sótt 21. apríl 2021.
  23. Guðjón Helgason (12. ágúst 2015). „Jimmy Carter með krabbamein“. RÚV. Sótt 21. apríl 2021.
  24. Samúel Karl Ólason (18. febrúar 2023). „Jimmy Carter liggur banaleguna“. Vísir. Sótt 26. mars 2023.
  25. Samúel Karl Ólason (1. október 2024). „Hundrað ára eftir tæp tvö ár á bana­legunni“. Vísir. Sótt 1. október 2024.
  26. Sólrún Dögg Jósefsdóttir (29. desember 2024). „Jimmy Carter látinn“. Vísir. Sótt 29. desember 2024.
  27. Ástrós Signýjardóttir (29. desember 2024). „Jimmy Carter er látinn“. RÚV. Sótt 29. desember 2024.
  28. „Rosalynn Carter“. Lesbók Morgunblaðsins. 17. maí 1980. bls. 6-7.
  29. „Hin valdamikla forsetafrú Bandaríkjanna“. Heimilistíminn. 18. maí 1980. bls. 4-5.


Fyrirrennari:
Gerald Ford
Forseti Bandaríkjanna
(1977 – 1981)
Eftirmaður:
Ronald Reagan