Maria Ressa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Maria Ressa
Maria Ressa árið 2021.
Fædd2. október 1963 (1963-10-02) (60 ára)
ÞjóðerniFilippseysk
MenntunPrinceton-háskóli (BA)
Filippseyjaháskóli í Diliman
StörfBlaðamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (2021)
Vefsíðarappler.com
mariaressa.com

Maria Angelita Ressa (f. 2. október 1963) er filippseysk-bandarískur blaðamaður og meðstofnandi og framkvæmdastjóri fréttavefsíðunnar Rappler.[1] Hún hafði áður unnið í tæpa tvo áratugi sem rannsóknarblaðamaður CNN í Suðaustur-Asíu. Ressa hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2021 ásamt rússneska blaðamanninum Dmítríj Múratov fyrir bar­áttu þeirra fyr­ir tján­ing­ar­frelsi í heima­löndum sínum.[2]

Ressa hefur starfað sem yfirmaður fréttastofu CNN bæði í Djakarta í Indónesíu og í Maníla á Filippseyjum. Hún hefur jafnramt stýrt frétta­stofu stærstu sjón­varps­stöðvar Fil­ipps­eyja, ABS-CBN. Hún stofnaði Rappler árið 2012 ásamt tveimur starfssystrum sínum.[3]

Árið 2020 var Ressa dæmd sek fyrir meiðyrði[4][5] vegna brota gegn umdeildum lögum um netglæpi sem sett höfðu verið árið 2012.[6][7] Dómurinn gegn henni var víða gagnrýndur af mannréttindahópum og blaðamönnum sem árás gegn fjölmiðlafrelsi.[8][9][10]

Árið 2018 var Ressa í hópi blaðamanna sem bandaríska tímaritið Time útnefndi manneskju ársins fyrir baráttu þeirra gegn falsfréttum. Þann 13. febrúar 2019 var Ressa handtekin vegna ásakana um að Rappler hefði birt falsfréttir um viðskiptajöfurinn Wilfredo Keng. Fréttin, sem birt var árið 2012, fjallaði um tengsl hans við fyrrverandi dómara við hæstarétt landsins.[11] Í júní 2020 var hún sakfelld af dómstóli í Maníla fyrir meiðyrði.[5] Bent hefur verið á að fréttagreinin sem um ræddi var birt áður en netglæpalögin tóku gildi.[12]

Þar sem Ressa er hávær gagnrýnandi Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, hefur víða verið litið á handtöku og sakfellingu hennar sem pólitíska aðför af hálfu ríkisstjórnarinnar.[13][14] Ressa tók fyrsta viðtal sitt við Duterte á níunda áratugnum, þegar hann var borgarstjóri Davaó. Árið 2015, þegar Duterte var í framboði til forseta, tók Ressa við hann viðtal sem vakti heimsathygli þar sem hann viðurkenndi að hafa drepið þrjár manneskjur á borgarstjóratíð sinni. Eftir að Duterte var kjörinn forseti fór Ressa í auknum mæli að beina sjónum sínum að nettröllum úr hópi stuðningsmanna Duterte sem dreifðu falsfréttum á vefnum í þágu forsetans. Rappler fjallaði einnig um fíkniefnastríð Duterte og fjölda fólks sem hefur verið tekið af lífi án dóms og laga á stjórnartíð hans. Duterte hefur á móti sakað Rappler um að flytja falsfréttir og stjórn hans hefur sakað miðilinn um að stunda skattsvik.[3] Ressa og miðill hennar voru sýknuð af ákæru um skattalagabrot í september 2023.[15]

Ressa er meðal 25 leiðtoga í upplýsinga- og lýðræðisnefnd Blaðamanna án landamæra.[16]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Arsenault, Adrienne (27. apríl 2017). 'Democracy as we know it is dead': Filipino journalists fight fake news“. CBC News.
  2. „Múratov og Ressa hljóta friðarverðlaunin“. mbl.is. 8. október 2021. Sótt 8. október 2021.
  3. 3,0 3,1 Guðrún Hálfdánardóttir (19. nóvember 2020). „„Handtakið tíkina". mbl.is. Sótt 8. október 2021.
  4. Regencia, Ted (15. júní 2020). „Maria Ressa found guilty in blow to Philippines' press freedom“. aljazeera.com (enska). Afrit af uppruna á 12. nóvember 2020. Sótt 14. febrúar 2021.
  5. 5,0 5,1 Ratcliffe, Rebecca (15. júní 2020). „Maria Ressa: Rappler editor found guilty of cyber libel charges in Philippines“. The Guardian (bresk enska). ISSN 0261-3077. Sótt 15. júní 2020.
  6. „Philippines: Maria Ressa's cyber libel verdict 'a method of silencing dissent'. Deutsche Welle (www.dw.com) (bresk enska). 15. júní 2020. Afrit af uppruna á 16. júní 2020. Sótt 14. febrúar 2021.
  7. „Philippine cybercrime law takes effect amid protests“. BBC News. 3. október 2012.
  8. „Philippines: CFWIJ condemns cyber libel conviction of Maria Ressa“. The Coalition For Women In Journalism (bandarísk enska). 15. júní 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júní 2020. Sótt 29. júní 2020.
  9. „US Senators Durbin, Markey, Leahy slam Ressa libel verdict“. Philippine Daily Inquirer (enska). 17. júní 2020. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júní 2020. Sótt 29. júní 2020.
  10. Cabato, Regine (15. júní 2020). „Conviction of Maria Ressa, hard-hitting Philippine American journalist, sparks condemnation“. The Washington Post.
  11. Kjartan Kjartansson (13. febrúar 2021). „Útgefandi gagnrýninnar fréttavefsíðu handtekinn á Filippseyjum“. Vísir. Sótt 8. október 2021.
  12. Markús Þ. Þórhallsson (15. júní 2020). „Maria Ressa dæmd en berst ótrauð áfram“. RÚV. Sótt 8. október 2021.
  13. Gonzales, Cathrine (15. júní 2020). „Robredo: Ressa's cyber libel conviction a threat to Filipinos' freedom“. Philippine Daily Inquirer (enska). Sótt 29. júní 2020.
  14. Dancel, Raul (15. júní 2020). „Court finds prominent Philippine journalist and Duterte critic Maria Ressa guilty of cyber-libel“. The Straits Times (enska). Sótt 29. júní 2020.
  15. Markús Þ. Þórhallsson (12. september 2023). „Fjölmiðill Nóbelsverðlaunahafa sýknaður í skattalagamáli“. RÚV. Sótt 12. september 2023.
  16. „Maria A. Ressa | Reporters without borders“. RSF. 9. september 2018. Sótt 15. júní 2020.