Randal Cremer

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Randal Cremer
Fæddur18. mars 1828
Dáinn22. júlí 1908 (80 ára)
London, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StörfStjórnmálamaður
FlokkurFrjálslyndi flokkurinn
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1903)

Sir William Randal Cremer (18. mars 1828 – 22. júlí 1908), yfirleitt kallaður Randal Cremer, var enskur stjórnmálamaður sem sat á þingi fyrir Frjálslynda flokkinn. Hann var friðarsinni og baráttumaður fyrir stofnun alþjóðlegra gerðardómstóla. Fyrir þau störf vann Cremer til friðarverðlauna Nóbels árið 1903.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Cremer kom úr verkamannafjölskyldu frá bænum Fareham í suðurhluta Englands. Faðir hans var vagnstjóri sem yfirgaf fjölskylduna stuttu eftir að Randal fæddist. Móðir hans ól hann upp ásamt tveimur systrum hans og sá til þess að hann hlyti menntun við meþódistaskóla í nágrenninu. Cremer jók við menntun sína með því að sækja ókeypis námskeið og gerðist síðar lærlingur hjá smiði og varð síðar fær trésmiður.[2]

Eftir að hafa flutt til London árið 1852 varð Cremer virkur sem skipuleggjandi í stéttarfélögum og varð brátt þekktur verkalýðsleiðtogi. Árið 1865 var hann kjörinn ritari Alþjóðasamtaka verkalýðsins, en hann sagði af sér tveimur árum síðar þar sem honum fannst samtökin vera orðin of róttæk. Þótt Cremer væri ötull stuðningsmaður framsækinna stefnumála og nyti virðingar Karls Marx var hann ekki hlynntur hugmyndinni um byltingu öreiganna.[3]

Hlutverk í alþjóðlegu gerðardómshreyfingunni[breyta | breyta frumkóða]

Cremer hóf að mæla með auknu hlutverki alþjóðlegra gerðardómstóla til að leysa úr milliríkjadeilum um það leyti sem hann bauð sig fyrst fram á þing án árangurs árið 1868.[3]

Cremer náði kjöri á þing fyrir Frjálslynda flokkinn í kjördæminu Haggerston í hverfinu Shoreditch í Hackney árið 1885. Hann sat á þingi til ársins 1895 og svo aftur frá árinu 1900 til dauðadags árið 1908.

Sem þingmaður gerði Cremer bandalög við skoðanasystkini sín bæði í Evrópu og í Ameríku, meðal annars við Frédéric Passy, William Jennings Bryan og Andrew Carnegie. Með tengslaneti sínu og skipulagshæfni átti Cremer mikinn þátt í að setja á fót milligöngustofnanir sem tókst á ævi hans að leysa úr fjölda milliríkjadeilna á friðsamlegan hátt. Þar á meðal var hann einn stofnenda Alþjóðaþingmannasambandsins og Alþjóðlega gerðardómssambandsins og átti árið 1897 þátt í að fá samþykki breska þingsins á Olney-Pauncefote-sáttmálanum milli Bretlands og Bandaríkjanna, sem hefði skyldað ríkin til að leita til gerðardóma við úrlausn landamæradeilna eins og yfirstandandi deilu ríkjanna um landamæri nýlendunnar Essequibo við Venesúela (öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði síðar samningnum og hann tók því aldrei gildi). Hann lagði einnig grunn að friðarráðstefnunum í Haag árin 1899 og 1907.[3]

Cremer vann friðarverðlaun Nóbels árið 1903 fyrir störf sín við sáttagerðir í milliríkjadeilum. Hann var sá fyrsti sem vann verðlaunin einsamall. Af 8.000 punda verðlaunafénu ánafnaði hann Alþjóðlega gerðardómssambandinu 7.000.[4] Hann var jafnframt nefndur riddari frönsku heiðursorðunnar,[5] riddari hinnar norsku Orðu Ólafs helga og hlaut breska riddaranafnbót árið 1907.

Randal Cremer-grunnskólinn í Haggerston er nefndur eftir Cremer.[6]

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Cremer lést þann 22. júlí 1908 úr lungnabólgu og lét eftir sig bú upp á 2.241 pund.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „The Nobel Peace Prize 1903 Randal Cremer“. nobelprize.org.
  2. Lee, Sidney, ritstj. (1912). "Cremer, William Randal" . Dictionary of National Biography (2. viðauki). 1. London: Smith, Elder & Co.
  3. 3,0 3,1 3,2 Mark Mazower (2012). „Chpt 3: The empire of Law“. Governing the world. Allen Lane. ISBN 9780-7-1399683-8.
  4. 4,0 4,1 Sir W. Cremer's Will". The Cardiff Times. David Duncan and William Ward. 24. október 1908.
  5. Among the world's peacemakers: an epitome of the Interparliamentary Union, ritstj. Hayne Davis, 1908
  6. „Randal Cremer Primary School“. Hackney Borough Council. Sótt 24. ágúst 2009.