Fara í innihald

Stofnunin um bann við efnavopnum

Hnit: 52°05′28″N 4°16′59″A / 52.091241°N 4.283193°A / 52.091241; 4.283193
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stofnunin um bann við efnavopnum

Aðildarríki OPCW (í grænum lit).
SkammstöfunOPCW
Stofnun29. apríl 1997[1]
GerðMilliríkjastofnun
HöfuðstöðvarHaag, Hollandi
Hnit52°05′28″N 4°16′59″A / 52.091241°N 4.283193°A / 52.091241; 4.283193
Meðlimir193 aðildarríki (Öll ríki sem hafa undirritað efnavopnasamninginn eru sjálfkrafa aðildarríki OPCW. 4 ríki Sameinuðu þjóðanna eru ekki aðilar: Egyptaland, Ísrael, Norður-Kórea og Suður-Súdan)
Opinber tungumálArabíska, kínverska, enska, franska, rússneska, spænska
AðalframkvæmdastjóriFernando Arias
StarfsfólkUm 500[2]
Vefsíðawww.opcw.org

Stofnunin um bann við efnavopnum[3] eða Efnavopnastofnunin[4] (e. Organisation for the Prohibition of Chemical Weapons eða OPCW) er milliríkjastofnun sem sér um framkvæmd alþjóðlega efnavopnasamningsins, sem tók gildi þann 26. apríl árið 1997. Stofnunin, sem telur til sín 193 aðildarríki og á höfuðstöðvar í Haag í Hollandi, beitir sér fyrir varanlegu banni og eyðingu á efnavopnum á alþjóðavísu.

Stofnunin gengur úr skugga um að aðildarríki haldi sig við skilyrði efnavopnasamningsins, sem bannar notkun efnavopna og skyldar aðildarríkin til að farga þeim. Í þessu skyni metur stofnunin yfirlýsingar ríkjanna og gerir sannprófanir til að sjá hvort þær standist.

Stofnunin hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2013 fyrir „umfangsmikla vinnu sína til að útrýma efnavopnum“. Formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar, Thorbjørn Jagland, sagði: „Sáttmálarnir og starfsemi OPCW hafa orðið til þess að notkun efnavopna er orðin óviðunandi samkvæmt alþjóðalögum“.

Skipulag og starfsemi

[breyta | breyta frumkóða]
Fjórði sérfundur ráðstefnu aðildarríkja Efnavopnastofnunarinnar árið 2018.

Starfsemi og uppbygging Efnavopnastofnunarinnar byggist á efnavopnasamningum frá árinu 1997. Öll ríki sem hafa skrifað undir samninginn eru jafnframt aðilar að stofnuninni. Helsta starfsemi OPCW fer fram á ráðstefnum aðildarríkjanna, sem eru jafnan haldnar árlega og eru opnar öllum aðildarríkjum, sem hafa þar jafnan kosningarétt. Flest aðildarríkin senda fastafulltrúa á ráðstefnuna, sem yfirleitt er einnig sendiherra ríkisins til Hollands. Ákvarðanir um öll helstu málefni er varða stofnunina eru tekin á ráðstefnunum (til dæmis um hegningaraðgerðir) og jafnframt ákvarðanir um breytingar á sáttmálanum (til dæmis um leiðbeiningar til upfyllingar á samningnum eða viðurlög gagnvart samningsbrotum).[2]

Framkvæmdaráð Efnavopnastofnunnar fer með framkvæmdavald innan hennar. Í framkvæmdaráðinu sitja 41 meðlimur sem kjörnir eru af ráðstefnunni til tveggja ára. Aðildarríki Efnavopnastofnunarinnar eiga rétt til skiptis á sæti í framkvæmdaráðinu. Framkvæmdaráðið leggur meðal annars drög að framkvæmda- og fjárhagsáætlun fyrir ráðstefnuna til samþykktar og vinnur með tækniskrifstofunni að öllum málefnum sem tengjast sáttmálanum.[2]

Tækniskrifstofan annast sannprófanir sem kveðið er á um í efnavopnasamningnum og önnur störf sem ráðstefnan og framkvæmdaráðið fela henni. Flestir starfsmenn Efnavopnastofnunarinnar vinna hjá tækniskrifstofunni. Helstu aðgerðir Efnavopnastofnaninar fara fram hjá rannsóknar- og sannprófunardeildum tæknistofunnar.

Öll aðildarríki stofnunarinnar greiða fjárframlög til hennar samkvæmt leiðréttri álagningarskrá Sameinuðu þjóðanna.[5] Fjárhagsáætlun Efnavopnastofnunarinnar árið 2019 nam tæplega níu og hálfum milljarði íslenskra króna.[6]

Efnavopnastofnunin hefur vald til að úrskurða hvort efnavopnum hafi verið beitt í árás sem hefur sætt rannsókn stofnunarinnar. Í júní árið 2018 veitti stofnunin sjálfri sér vald til að lýsa aðila ábyrga fyrir efnavopnaárás.[7][8]

Sannprófanir

[breyta | breyta frumkóða]

Eyðingarstöðvar efnavopna

[breyta | breyta frumkóða]

Starfsmenn Efnavopnastofnunarinnar hafa eftirlit með öllum virkum eyðingarstöðvum efnavopna til að staðfesta að efnavopnunum sé fargað og skrásetja magn vopnanna sem fargað er.[9] Þar sem eyðing vopnanna fer jafnan fram í hættulegu umhverfi eru öryggismyndavélar yfirleitt notaðar til að hafa eftirlit með henni.[10]

Iðnaðarrannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknir fara fram til að sannprófa hvort aðildarríki fari eftir skilyrðum samningsins um framleiðslu bannefna og hvort ríki hafi tilgreint iðnaðarframleiðslu sína með réttum hætti samkvæmt skilmálum efnavopnasáttmálans.[11] Nákvæmni og tíðni rannsóknanna fara eftir því í hvaða hættuflokki efnið sem verið er að framleiða er[12] en eru óbreytileg eftir stöðu aðildarríkisins.

Þegar rannsóknir á framleiðslustöðvum á efnum í tveimur hæstu hættuflokkunum fara fram er vandlega gengið úr skugga um hvort öll efnin eru á sínum stað og hvort magn þeirra sé í samræmi við yfirlýsingu aðildarríkisins.[13] Þegar framleiðslustöðvar á efnum í öðrum og þriðja hættuflokki sæta rannsókn er leitað að vísbendingum um hvort verið sé að framleiða efni í hæsta hættuflokknum gagnstætt yfirlýsingum og reglum sáttmálans. Þegar framleiðslustöðvar á efnum í þriðja og lægsta hættuflokknum eru rannsakaðar er helsta markmiðið að sannprófa yfirlýsingu aðildarríkisins og ganga úr skugga um að ekki sé verið að framleiða hættulegri efni.[13] Rannsóknir á efnaframleiðslu í 2. hættuflokki mega taka mest 96 klukkustundir en í neðri hættuflokkum aðeins einn sólarhring. Engin tímamörk gilda um rannsóknir á efnaframleiðslu í hæsta hættuflokknum.[14]

Vefengingarkannanir og kannanir á meintri notkun

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar ásökun um notkun efnavopna eða framleiðslu bannefna hefur verið lögð fram af aðildarríki má skipa könnunarhóp samkvæmt sáttmálanum. Könnunarhópur hefur aldrei verið skipaður, en Efnavopnastofnunin tók hins vegar þátt í könnun á meintri notkun efnavopna í sýrlensku borgarastyrjöldinni ásamt starfshópi Sameinuðu þjóðanna. Vefengingarkannanir eru aðeins framkvæmdar ef aðildarríki hefur óskað eftir þeim og hefur lagt fram sönnunargögn um vanefndir.[15]

Samskipti við Sameinuðu þjóðirnar

[breyta | breyta frumkóða]

Efnavopnastofnunin er ekki undirstofnun í Sameinuðu þjóðunum en starfar þó náið með þeim bæði í stefnumótun og í aðgerðaráætlunum. Þann 7. september árið 2000 undirrituðu stofnanirnar tvær samstarfssáttmála sem gerði grein fyrir því hvernig starfsemi þeirra skyldi samhæfð. Eftirlitsmenn OPCW ferðast jafnframt með ferðapassa frá Sameinuðu þjóðunum með sérstökum límmiða sem gerir grein fyrir stöðu þeirra, forréttindum og friðhelgi.[16] Ríkjahópar Sameinuðu þjóðanna vinna jafnframt með Efnavopnastofnuninni til að stýra skiptingu á meðlimum framkvæmdarráðsins og til að bjóða upp á óformlegan umræðuvettvang.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Chemical Weapons - Organization for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW)“. United Nations Office for Disarmament Affairs. Afrit af uppruna á 13. október 2013. Sótt 11. október 2013.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Organization for the Prohibition of Chemical Weapons (OPCW)“. Nuclear Threat Initiative. Afrit af uppruna á 12. október 2013. Sótt 11. október 2013.
  3. „Samningur um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra“. Alþingi. 1997. Sótt 29. desember 2019.
  4. „Skammstafanir“. Utanríkisráðuneyti Íslands. Sótt 29. desember 2019.
  5. „Nuclear Threat Initiative - NTI“. Afrit af uppruna á 25. febrúar 2011. Sótt 14. janúar 2017.
  6. „OPCW by the Numbers“. OPCW (enska). Afrit af uppruna á 2. febrúar 2019. Sótt 31. janúar 2019.
  7. Sanchez, Raf (27. júní 2018). „UK overcomes Russian resistance to strengthen OPCW chemical weapons watchdog“. The Telegraph (bresk enska). ISSN 0307-1235. Afrit af uppruna á 27. júní 2018. Sótt 27. júní 2018.
  8. „Chemical watchdog gets new powers“. BBC News (bresk enska). 27. júní 2018. Afrit af uppruna á 27. júní 2018. Sótt 27. júní 2018.
  9. Destruction of Chemical Weapons and Its Verification Pursuant to Article IV Geymt 14 maí 2011 í Wayback Machine. [CWC], Verification Annex
  10. „List of new inspection equipment and revised specifications for approved inspection equipment“. OPCW. Afrit af uppruna á 9. mars 2012. Sótt 1. nóvember 2010.
  11. „The Intersection of Science and Chemical Disarmament“. Afrit af uppruna á 16. janúar 2017. Sótt 14. janúar 2017.
  12. „Australia's National Authority for the Chemical Weapons Convention“. Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade. Afrit af uppruna á 26. mars 2011. Sótt 31. mars 2011.
  13. 13,0 13,1 Verification Annex, part VI,VII, VIII and IX of the Chemical Weapons Convention Geymt 24 nóvember 2011 í Wayback Machine. OPCW
  14. „An inspector calls! Your company site and the Chemical Weapons Convention“. Department of Energy of Climate Change (United Kingdom). Sótt 1. apríl 2011.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]
  15. Tom Z. Collina. „The Chemical Weapons Convention (CWC) at a Glance“. Armscontrol.org. Afrit af uppruna á 21. apríl 2011. Sótt 24. apríl 2011.
  16. OPCW, The Legal Texts TMC Asser Press, p336