Elie Wiesel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elie Wiesel
Elie Wiesel árið 1998.
Fæddur30. september 1928
Dáinn2. júlí 2016 (87 ára)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunParísarháskóli
StörfRithöfundur, kennari, aðgerðasinni
TrúGyðingdómur
MakiMarion Erster Rose (g. 1969)
Börn1
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1986)

Elie Wiesel (30. september 1928 – 2. júlí 2016) var rúmensk-bandarískur rithöfundur, kennari og pólitískur aðgerðasinni. Wiesel var gyðingur sem sat í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz og Buchenwald á tíma helfararinnar. Wiesel samdi 57 bækur á ævi sinni, meðal annars bókina Nótt, þar sem hann fjallaði um reynslu sína sem fangi í útrýmingarbúðunum.

Wiesel hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1986 fyrir störf sín sem formaður bandarísku forsetanefndarinnar um helförina og ýmis önnur mannréttindastörf.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Elie Wiesel fæddist þann 30. september árið 1928 undir nafninu Eliezer Wiesel í bænum Sighet í Rúmeníu. Foreldrar hans voru kaupmenn af gyðingaættum. Wiesel lærði trúfræði gyðinga á unga aldri og átti það eftir að hafa áhrif á ritstörf hans síðar meir.[1]

Wiesel var tæplega ellefu ára þegar seinni heimsstyrjöldin braust út. Hann var sendur ásamt fjölskyldu sinni til útrýmingarbúðanna í Auschwitz árið 1940. Þar voru móðir hans og yngri systir teknar af lífi í gasklefunum. Wiesel var síðar fluttur til útrýmingarbúðanna í Buchenwald ásamt föður sínum, sem lét þar lífið.[2] Bandaríkjaher frelsaði Wiesel úr haldi ásamt öðrum föngum búðanna í stríðslok þann 11. apríl árið 1945.[1]

Líkt og margir aðrir evrópskir gyðingar hafði Wiesel hug á að flytja til Palestínu eftir stríðið en stjórn Bretlands, sem réði þá yfir verndarsvæði í Palestínu, neitaði honum um fararleyfi þangað. Þess í stað var Wiesel vistaður á heimili fyrir fjölskyldulaus ungmenni í Normandí. Frá 1948 til 1951 nam Wiesel bókmenntir, sálfræði og heimspeki við Sorbonne-háskóla í París og vann fyrir sér sem blaðamaður, þýðandi og kennari í biblíufræðum með náminu. Hann varð á þessum tíma fullfær á frönsku.[1]

Wiesel fór til Ísraels árið 1948 sem blaðamaður á vegum franska blaðsins L'Arche til að fylgjast með undirbúningnum á stofnun Ísraelsríkis.[2] Hann fór til Indlands fjórum árum síðar í sömu erindagjörðum og lærði þar ensku. Wiesel hafði hug á að skrifa doktorsritgerð um samanburð á siðfræði kristni og gyðingdóms við siðfræði hindúisma en lauk aldrei við hana. Hann fór til Bandaríkjanna árið 1956 til að skrifa um Sameinuðu þjóðirnar fyrir ísraelska tímaritið Yedioth Ahronot.[2] Dvöl hans varð lengri en hann hafði ætlað sér þar sem hann lenti í slysi og varð að notast við hjólastól í heilt ár. Þar sem dvalarleyfi hans rann út á meðan hann lét sér batna sótti Wiesel um og hlaut bandarískan ríkisborgararétt.[1]

Árið 1956 gaf Wiesel út bókina Og heimurinn hefur verið þögull um reynslu sína sem fangi í útrýmingarbúðum nasista. Bókin var skrifuð á jiddísku, var 800 bls. að lengd og kom í upphafi aðeins út í Argentínu. Wiesel tókst ekki að fá verkið gefið út á frönsku fyrr en árið 1960, en þá hafði það verið stytt niður í 125 bls. og bar titilinn Nótt. Bókin var þýdd á mörg tungumál og vakti athygli fólks á útrýmingarherferð nasista og reynslu gyðinga á styrjaldarárunum.[1]

Wiesel gaf í kjölfarið út nokkrar stuttar sögur með sjálfsævisögulegu ívafi þar sem hann lýsti reynslu gyðinga af stríðinu og sektarkennd þeirra sem lifðu af helförina yfir því að hafa lifað á meðan ættingjar þeirra dóu. Sú vinsælasta af bókum hans frá þessum tíma var bókin Betlari í Jerúsalem, þar sem Wiesel fjallaði um sex daga stríðið. Wiesel tók jafnframt þátt í réttindabaráttu sovéskra gyðinga og í baráttu þeirra til að mega flytja úr landi.[1]

Árið 1969 kvæntist Wiesel Marion Erster Rose, gyðingakonu sem einnig hafði lifað af helförina. Wiesel-hjónin settust að í New York og eignuðust tvö börn.[2] Wiesel hóf störf sem kennari við Boston-háskóla árið 1976 og vann þar sem prófessor í bókmenntum.[3]

Wiesel hlaut á ferli sínum fjölmörg verðlaun fyrir störf sín í þágu gyðinga og ýmissa mannréttindahópa. Hann hlaut frönsku bókmenntaverðlaunin Prix Livre-Inter, Gullorðu bandaríska þingsins fyrir unnin afrek og loks friðarverðlaun Nóbels árið 1986. Þrátt fyrir að njóta mikillar virðingar fyrir störf sín í mannréttindamálum var Wiesel þó einnig gagnrýndur fyrir meint tómlæti sitt gagnvart glæpum Ísraelsstjórnar í garð Palestínumanna.[4][5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „Vitnisburður fyrir heiminn“. Dagblaðið Vísir. 18. október 1987. Sótt 3. mars 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Merkisberi friðar og frelsis“. Morgunblaðið. 26. október 1986. Sótt 4. mars 2020.
  3. "Fond memories of Elie Wiesel in Boston", Boston Globe, 2. júlí 2016
  4. „Bandarískur gyðingur“. Alþýðublaðið. 25. október 1986. Sótt 4. mars 2020.
  5. Uri Avnery (14. október 1986). „Kæri Elie Wiesel“. Þjóðviljinn. Sótt 4. mars 2020.