Malala Yousafzai

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Malala Yousafzai

Malala Yousafzai (f. 12. júlí 1997) er pakistönsk baráttukona sem hefur barist fyrir réttindum barna og þá helst stúlkna til að fá að ganga í skóla. Árið 2012 reyndu Talibanar að ráða hana af dögum og síðan þá hefur hún verið búsett í Bretlandi. Hún hlaut Friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína árið 2014, yngst til að vinna þau verðlaun, aðeins 17 ára gömul.

Barnæskan[breyta | breyta frumkóða]

Fjölskylda hennar rak nokkra einkaskóla og faðir hennar, Ziauddin Yousafzai var þekktur talsmaður fyrir menntun í Pakistan en þar er eitt hæsta hlutfall barna utan skóla í heiminum. Hann var einnig þekktur mótherji Talibana sem vilja takmarka almenna menntun og stöðva menntun stúlkna.

Malala naut þess að vera í skóla og árið 2009 þegar völd Talibana jukust á hennar heimaslóðum byrjaði hún að skrifa pistla fyrir BBC undir dulnefni um ótta hennar við stjórn Talibana. Hún óttaðist að skólinn hennar yrði fyrir árás því feðginin fengu morðhótanir vegna skólanna en þrátt fyrir það héldu þau áfram að tala fyrir rétti til menntunar. Sumarið 2009 kom Malala fram í heimildarmynd sem gerð var fyrir The New York Times og þar kom fram að hún væri höfundur pistlana á BBC.

Morðtilraun[breyta | breyta frumkóða]

Malala var orðin þjóðþekkt og vinsæl í heimalandi sínu fyrir baráttu sína fyrir menntun stúlkna aðeins 14 ára gömul. Það varð til þess að leiðtogar Talibana ákváðu að taka hana af lífi. Þann 9. október 2012 kom grímuklæddur maður með byssu upp í skólabíl þar sem Malala og skólafélagar hennar sátu. Maðurinn spurði eftir henni með nafni og skaut þremur skotum. Eitt skotið fór í gegnum höfuð hennar, háls og öxl og næstu daga var hún meðvitundarlaus og í bráðri lífshættu. Um leið og heilsa hennar leyfði var hún flutt á spítala í Bretlandi og fjölskylda hennar kom á eftir henni. Hún var útskrifuð af spítalanum þremur mánuðum síðar. Þessi morðtilraun vakti mikla athygli og reiði um allan heim.

Verðlaun[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2011 fékk hún Friðarverðlaun ungmenna í Pakistan og var tilnefnd af Desmond Tutu erkibiskupi til alþjóðlegu barna friðarverðlaunanna. Malala fékk Friðarverðlaun Nóbels árið 2014 fyrir baráttu sína gegn undirokun gagnvart börnum og unglingum og fyrir rétti allra barna til menntunar. Hún er yngsti handhafi þeirra verðlauna og verðlaunaféð lét hún renna til framhaldsskóla fyrir stúlkur í Pakistan.

Malala Fund[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2013 stofnuðu feðginin, Malala og Ziauddin, Malala sjóðinn til að vekja athygli á þeim áhrifum sem skortur á menntun hefur á stúlkur. Sjóðurinn stefnir að því að tryggja öllum stúlkum heims skólagöngu.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]