Menachem Begin
Menachem Begin מנחם בגין | |
---|---|
Forsætisráðherra Ísraels | |
Í embætti 21. júní 1977 – 10. október 1983 | |
Forseti | Ephraim Katzir Yitzhak Navon Chaim Herzog |
Forveri | Yitzhak Rabin |
Eftirmaður | Yitzhak Shamir |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 16. ágúst 1913 Brest, Rússlandi (nú Hvíta-Rússlandi) |
Látinn | 9. mars 1992 (78 ára) Tel Aviv, Ísrael |
Þjóðerni | Ísraelskur |
Stjórnmálaflokkur | Herut (1948–1988) Likud (1988–1992) |
Maki | Aliza Arnold (1939–82) |
Börn | Ze'ev Binyamin, Hasia og Leah |
Háskóli | Varsjárháskóli |
Starf | Skæruliði, stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Menachem Begin (16. ágúst 1913 – 9 mars 1992) var ísraelskur stjórnmálamaður, stofnandi Likud-flokksins og 6. forsætisráðherra Ísraels. Fyrir stofnun Ísraelsríkis var hann leiðtogi síonískra hernaðarsamtaka að nafni Irgun sem höfðu klofnað frá samtökunum Haganah. Hann lýsti yfir uppreisn gegn bresku stjórninni sem var andvíg gyðingahreyfingunni. Sem leiðtogi Irgun gerði hann árásir á bresk skotmörk í Palestínu.[1] Seinna meir börðust Irgun-samtökinn á móti aröbunum í borgarastríði í bresku Palestínu.
Begin var kjörinn á Knesset, þing Ísraelsríkis, við fyrstu setningu þess árið 1949, sem leiðtogi og stofnandi stjórnmálaflokksins Herut (sem síðar rann inn í Likud). Begin varð einn sýnilegasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn ríkisstjórn vinstriflokksins Mapai (sem síðar varð ísraelski Verkamannaflokkurinn). Hann sat í stjórnarandstöðu eftir átta kosningar í röð (fyrir utan þátttöku hans í þjóðstjórn sem sett var á fót í sex daga stríðinu). Flokkur hans hafði lengi verið á útjaðri ísraelskra stjórnmála en hann varð smám saman þóknanlegri ísraelskri alþýðu. Þegar flokkurinn vann kosningasigur og Begin varð forsætisráðherra árið 1977 var endi bundinn á þriggja áratuga stjórn Verkamannaflokksins.
Sem forsætisráðherra undirritaði Begin friðarsáttmála við Egyptaland árið 1979 og hlaut fyrir það friðarverðlaun Nóbels ásamt Anwar Sadat Egyptalandsforseta. Eftir undirritun friðarsáttmálans voru ísralskir hermenn kallaðir frá Sínaískaga, sem Ísraelar höfðu hertekið frá Egyptalandi í sex daga stríðinu. Ríkisstjórn Begins studdi síðar byggingu ísraelskra byggða á Vesturbakkanum og Gasaströndinni. Begin fyrirskipaði sprengjuárásir á Osirak-kjarnorkustöðina í Írak og innrás í Líbanon árið 1982 til þess að uppræta vígi Frelsissamtaka Palestínu þar í landi. Þetta hóf stríð Ísraels við Líbanon árið 1982. Eftir því sem stríðsátökin í Líbanon drógust á langinn og kristnir líbanskir bandamenn Ísraela frömdu voðaverk í landinu varð Begin sífellt einangraðari.[2][3] Því lengur sem ísraelski herinn var í Líbanon, því meira leið ísraelski efnahagurinn fyrir það og er ríkið var farið að glíma við óðaverðbólgu fór gagnrýni á Begin að aukast. Begin var á þessum tíma enn að syrgja konu sína, Alizu, sem hafði látist í nóvember 1982, og svo fór að hann sagði af sér í október næsta ár.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ John J. Mearsheimer og Stephen M. Walt, The Israel Lobby and U.S. Foreign Policy, at 102 (Farrar, Straus og Giroux 2007).
- ↑ Gwertzman, Bernard. Christian Militiamen Accused of a Massacre in Beirut Camps; U.S. Says the Toll is at Least 300 (Geymt). The New York Times. 19. september 1982.
- ↑ Thompson, Ian. Primo Levi: A Life. 2004, bls. 436.
Fyrirrennari: Yitzhak Rabin |
|
Eftirmaður: Yitzhak Shamir |