Fara í innihald

Denis Mukwege

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Denis Mukwege
Denis Mukwege árið 2014.
Fæddur1. mars 1955 (1955-03-01) (69 ára)
MenntunFríháskólinn í Brussel
StörfKvensjúkdómalæknir
TrúHvítasunnukirkjan
VerðlaunSakharov-verðlaunin (2014)
Friðarverðlaun Nóbels (2018)

Denis Mukengere Mukwege (f. 1. mars 1955) er kongóskur kvensjúkdómalæknir. Hann stofnaði og vinnur hjá Panzi-sjúkrahúsinu í Bukavu, en þar sérhæfir hann sig í meðferðum á konum sem uppreisnarsveitir í landinu hafa nauðgað. Hann hefur hlúð að þúsundum fórnarlamba nauðgunar frá tíma seinna Kongóstríðsins, sumum þeirra oftar en einu sinni, og afgreiðir allt að tíu sjúklinga á dag á 18 klst. vinnudegi sínum. Samkvæmt fréttablaðinu The Globe and Mail er Mukwege „líklega helsti sérfræðingur heimsins í meðferð á áverkum eftir nauðganir.“

Árið 2018 hlutu þau Mukwege og Nadia Murad friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu þeirra gegn kynferðisofbeldi í stríði.[1]

Denis Mukwege er sonur hvítasunnuprests[2] og stundaði grunnám í konunglegum skóla í Bukavu á tíma belgískra nýlenduyfirráða í Kongó. Hann hlaut framhaldsnám í Bwindi-háskólanum í Bukavu og útskrifaðist þaðan með gráðu í lífefnafræði árið 1974. Eftir að hafa unnið í tvö ár í tæknideild Háskólans í Kinsasa hóf hann læknisnám í Háskólanum í Búrúndí.

Mukwege hlaut læknisgráðu árið 1983 og hóf læknisstörf í sjúkrahúsinu í Lemera, sunnan við Bukavu. Árið 1984 hlaut hann námsstyrk frá trúaboðsmiðstöð sænskra hvítasunnumanna[3] til að mennta sig í meðferð kvensjúkdóma í Háskólanum í Angers í Frakklandi. Hann stofnaði þar ásamt heimamönnum samtökin Esther Solidarité France-Kivu til að hjálpa heimalandi sínu.[4]

Þann 24. september 2015 hlaut Mukwege doktorsgráðu í læknavísindum hjá Fríháskólanum í Brussel eftir að hafa varið doktorsritgerð sína um orsakir, greiningar og meðferðir á saurfistlum í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó.[5]

Læknisferill og mannréttindastörf

[breyta | breyta frumkóða]

Mukwege sneri aftur til Kongó árið 1989 þrátt fyrir að eiga vel launað starf í Frakklandi. Hann gerðist yfirlæknir í sjúkrahúsinu í Lamera.

Árið 1996 var sjúkrahús Mukwege lagt í rúst í fyrra Kongóstríðinu. Mukwege slapp með líf sitt en fjöldi sjúklinga og lækna hans voru myrtir í árásinni. Hann flúði til Naíróbí en ákvað síðan að snúa aftur til Kongó. Með hjálp sænsku hjálparsamtakanna PMU (Pingstmissionens Utvecklingssamarbete) stofnaði hann Panzi-sjúkrahúsið í Bukavu. Hann hefur þar þurft að hlúa að tíðum limlestingum á kynfærum kvenna. Mukwege ákvað að gera heimnum kunnugt um kynferðislegar misþyrmingar sem konur mega sæta í austurhluta Kongó og beita sér fyrir auknu hjálparstarfi í þágu fórnarlamba kynferðisofbeldis. Á svæði þar sem hópnauðganir eru algeng stríðsvopn hefur Mukwege sérhæft sig í verndun og læknisaðstoð fyrir fórnarlömbin, auk þess að vinna að auknu aðgengi að sálfræði, lög- og fjárhagsaðstoð fyrir þau.

Mukwege er almennt talinn einn helsti sérfræðingur á heimsvísu í meðferð á fistlum. Hann hefur hlotið tvær háskólaviðurkenningar fyrir rannsóknarstörf sín í þeim efnum.

Þann 25. október árið 2012 var Mukwege sýnt banatilræði í miðbæ Bukavu. Fjórir menn réðust inn á heimili hans, héldu dætrum hans í gíslingu og skutu öryggisvörð hans til bana. Mukwege slapp heilu og höldnu þegar nágrannar hans skárust í leikinn.[6] Eftir tilræðið flutti hann í nokkra mánuði til Belgíu en sneri aftur til Kongó næsta ár til að halda störfum sínum áfram.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Mukwege og Murad hljóta friðarverðlaun Nóbels“. RÚV. 5. október 2018. Sótt 6. október 2018.
  2. Emmanuelle Portejoie, « Un Martin Luther King africain. L’action du gynécologue Denis Mukwege est nourrie par une foi très engagée. », Réforme, bls. 3651, 31. mars 2016.
  3. Page sur le Mukwege.
  4. 4,0 4,1 Gaëlle Rolin, « Denis Mukwege, le garde du corps des Congolaises », Le Figaro, 2. desember 2013, bls. 41.
  5. „Le Dr. Denis Mukwege à l'ULB : plus de 800 personnes présentes à la défense de thèse de l'homme qui répare les femmes“. Newmedia. Sótt 6. október 2018.
  6. « Agression contre le Mukwege à Bukavu, sa sentinelle est abattue », lesoir.be, 26. október 2010.