Arthur Henderson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Arthur Henderson
Arthur Henderson árið 1910.
Utanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
7. júní 1929 – 24. ágúst 1931
ForsætisráðherraRamsay MacDonald
ForveriAusten Chamberlain
EftirmaðurMarkgreifinn af Reading
Innanríkisráðherra Bretlands
Í embætti
23. janúar 1924 – 4. nóvember 1924
ForsætisráðherraRamsay MacDonald
ForveriWilliam Bridgeman
EftirmaðurSir William Joynson-Hicks
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. september 1863
Glasgow, Skotlandi
Látinn20. október 1935 (72 ára) London, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
TrúarbrögðMeþódismi
AtvinnaStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1934)

Arthur Henderson (13. september 1863 – 20. október 1935) var breskur járnmótasmiður, verkalýðsforingi og stjórnmálamaður úr Verkamannaflokknum. Hann var þrívegis leiðtogi Verkamannaflokksins og gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum í bresku ríkisstjórninni á ferli sínum, meðal annars embætti innanríkisráðherra (1924) og utanríkisráðherra (1929-1931). Henderson vann til friðarverðlauna Nóbels árið 1934 fyrir að stýra afvopnunarráðstefnu Þjóðabandalagsins í Genf árin 1932-1934.

Æska og uppvöxtur[breyta | breyta frumkóða]

Arthur Henderson fæddist á Paterson-stræti 10 í Anderston-hverfinu í Glasgow árið 1863. Móðir hans var þerna að nafni Agnes og faðir hans var textílverkamaðurinn David Henderson, sem lést þegar Arthur var tíu ára gamall. Eftir dauða Davids fluttu mæðginin til Newcastle-upon-Tyne í norðausturhluta Englands. Þar giftist Agnes Robert Heath.

Henderson vann í járnmótaverksmiðju frá því hann varð tólf ára. Hann lauk lærlingsnámi sínu þar á sautján ára aldri, flutti til Southampton í eitt ár og sneri síðan aftur til Newcastle-upon-Tyne til að vinna sem járnmótasmiður.

Henderson varð meþódisti árið 1879 (hann hafði áður verið meðlimur í safnaðarkirkjunni) og gerðist héraðspredikari. Eftir að hann missti vinnuna árið 1884 einbeitti hann sér að predikun.

Verkalýðsleiðtogi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1892 hóf Henderson þátttöku í verkalýðsbaráttu þegar hann var kjörinn í launað starf skipuleggjanda fyrir stéttarfélag járnmótasmiða. Henderson var mótfallinn verkföllum og taldi þau valda meiri skaða en þau voru virði. Þess vegna var Henderson á móti stofnun stéttarfélagasambandsins GFTU (e. General Federation of Trade Unions), sem hann taldi að myndi leiða til fleiri verkfalla.

Verkamannaflokkurinn[breyta | breyta frumkóða]

Henderson var meðal 129 verkalýðsforingja og sósíalista sem greiddu atkvæði með tillögu Keirs Hardie um að stofna fulltrúasamband verkalýðsfélaganna (e. Labour Representation Committee eða LRC), sem varð síðar að breska Verkamannaflokknum. Árið 1903 var Henderson kjörinn gjaldkeri LRC og var jafnframt kjörinn á breska þingið í aukakosningum í kjördæminu Barnard Castle. Frá 1903 til 1904 var Henderson einnig bæjarstjóri bæjarins Darlington í Durham-sýslu.[1]

Árið 1906 breytti fulltrúaráðið nafni sínu í Verkamannaflokkinn og vann 29 þingsæti í kosningum sama ár. Þegar Hardie sagði af sér sem foringi flokksins árið 1908 var Henderson kjörinn til að taka við af honum. Henderson var flokksleiðtogi í tvö ár en sagði síðan af sér árið 1910.

Ráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 sagði flokksleiðtoginn Ramsay MacDonald af sér í mótmælaskyni. Henderson var kjörinn flokksleiðtogi á ný í hans stað.

Árið 1915 ákvað H. H. Asquith forsætisráðherra að stofna til þjóðstjórnar til að heyja stríðið. Henderson gekk í stjórnina og varð fyrstur Verkamanna til að gegna ráðherraembætti, sem menntamálaráðherra.

Árið 1916 neyddi David Lloyd George Asquith til að segja af sér og tók við af honum sem forsætisráðherra. Henderson gekk í stríðsstjórn Lloyd George sem ráðherra án ráðuneytis. Næsta ár lagði Henderson fram tillögu um alþjóðaráðstefnu til að ræða um stríðið en tillögunni var hafnað af öðrum ráðherrum stjórnarinnar. Henderson sagði í kjölfarið af sér.[2]

Henderson einbeitti sér þaðan af að því að byggja upp grasrótarstuðning við Verkamannaflokkinn í hverju kjördæmi. Áður hafði flokkurinn verið lítt skipulagður á landsvísu og hafði aðallega starfað innan stéttarfélaga og jafnaðarsamtaka. Ásamt Ramsay MacDonald og Sidney Webb þróaði Henderson árið 1918 kerfi kjördæmafélaga um allt Bretland. Félögin störfuðu án beinna tengsla við verkalýðsfélögin og voru opin hverjum sem var samþykkur stefnu flokksins. Henderson sá einnig til þess að flokkurinn tók upp formlega stefnuskrá sem Webb lagði drög að. Ritið bar titilinn Verkalýðurinn og nýja samfélagsskipanin (e. Labour and the New Social Order) og var í megindráttum stefnuskrá Verkamannaflokksins til ársins 1950. Í stefnuskránni var Verkamannaflokknum lýst sem jafnaðarmannaflokki sem skyldi beita sér fyrir lágmarkslífsskilyrðum fyrir alla, fyrir þjóðnýtingu iðnviða og háum tekjusköttum á hina ríku.[3]

Kosningarnar 1918 og þriðji áratugurinn[breyta | breyta frumkóða]

Henderson tapaði þingsæti sínu í þingkosningunum þann 14. desember 1918, sem höfðu verið boðaðar innan sólarhrings frá lokum vopnaðra átaka. Í kosningunum vann bandalag frjálslyndra og íhaldsmanna undir forystu Lloyd George afgerandi sigur.[4] Henderson komst aftur á þing árið 1919 eftir aukakosningar í kjördæminu Widnes. Hann varð agameistari þingflokks Verkamanna en datt aftur út af þingi í kosningunum 1922.

Vladímír Lenín hafði mjög lítið álit á Henderson. Í bréfi til þjóðfulltrúa Sovétríkjanna í utanríkismálum, Georgíj Tsjítsjerín, skrifaði Lenín um frammistöðu Hendersons á Genúaráðstefnunni 1922: „Henderson er eins heimskur og Kerenskíj og þess vegna hjálpar hann okkur.“[5]

Henderson komst aftur á þingið árið 1923 eftir aukakosningu í kjördæminu Austur-Newcastle, en tapaði sæti sínu enn á ný í almennum þingkosningum sama ár. Hann sneri enn á ný aftur á þingið eftir enn einar aukakosningarnar aðeins tveimur mánuðum síðar, í þetta skipti í kjördæminu Burnley.

Árið 1924 var Henderson útnefndur innanríkisráðherra í fyrstu ríkisstjórn Verkamannaflokksins, þar sem MacDonald var forsætisráðherra. Þessi ríkisstjórn hrundi síðar sama ár og bað ósigur í þingkosningum sem fylgdu í kjölfarið.

Eftir að hafa náð endurkjöri á þingið árið 1924 neitaði Henderson að keppa við MacDonald um formannsstólinn. Henderson hafði áhyggjur af klofningi innan Verkamannaflokksins og gaf því út bækling með titlinum Verkamannaflokkurinn og þjóðin þar sem hann reyndi að útskýra markmið flokksins.

Utanríkisráðherra[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1929 stofnaði Verkamannaflokkurinn minnihlutastjórn með MacDonald sem forsætisráðherra. Henderson varð utanríkisráðherra stjórnarinnar og reyndi sem slíkur að draga úr spenningi sem hafði aukist í Evrópu frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Henderson kom á stjórnmálasambandi við Sovétríkin og hét stuðningi Bretlands við Þjóðabandalagið.[6]

„Svikráð“ MacDonalds[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf kreppunnar miklu árið 1929 skók bresku ríkisstjórnina. Stjórnin var á einu máli um að viðhalda gullfætinum og forðast tekjuhalla í ríkisútgjöldum en aftur á móti var hún klofin um það hvort skerða bæri atvinnuleysisbætur um 10%. Í fyrstu studdi Henderson MacDonald í gegnum fjármála- og stjórnmálakreppuna í ágúst 1929. Efnahagskreppan versnaði um alla Evrópu og gullforði Bretlands var hætt kominn. Ríkisstjórnin hlaut neyðarlán hjá bönkum í New York en ríkið þurfti meira fé og gat aðeins fengið það með því að draga úr tekjuhallanum. Til þess að ná því fram stungu MacDonald og fjármálaráðherrann Philip Snowden upp á skerðingu atvinnuleysisbóta. Henderson hafnaði tillögunni og sagði síðan af sér ásamt tæpum helmingi ríkisstjórnarinnar. Konungurinn bað MacDonald um að sitja áfram og stofna til þverpólitískrar þjóðstjórnar til að draga úr tekjuhallanum. MacDonald féllst á þetta þann 24. ágúst 1931 og stofnaði neyðarstjórn ásamt meðlimum allra þingflokka. Í nýju stjórninni sátu fjórir fulltrúar Verkamannaflokksins (kallaðir „Þjóðverkamenn“) sem stóðu með MacDonald ásamt fjórum Íhaldsmönnum og tveimur Frjálslyndum. Bresk verkalýðsfélög og Verkamannaflokkurinn voru afar andsnúin nýju stjórninni og andstaða þeirra leiddi til þess að MacDonald og stuðningsmenn hans voru reknir úr flokknum. Henderson var sá eini sem greiddi atkvæði gegn brottrekstri þeirra. Í kjölfarið féllst Henderson með semingi á að gerast flokksleiðtogi á ný og leiddi Verkamannaflokkinn í þingkosningum á móti þjóðstjórn MacDonalds þann 27. október. Í kosningunum galt Verkamannaflokkurinn afhroð og hlaut aðeins 52 þingsæti. MacDonald vann stærsta kosningasigur í sögu Bretlands en Henderson datt aftur út af þingi og sagði af sér sem flokksleiðtogi næsta ár.[7]

Síðari störf[breyta | breyta frumkóða]

Henderson komst aftur á þing eftir aukakosningar í Clay Cross árið 1933. Með því hafði hann verið kjörinn fimm sinnum á þing í aukakosningum í kjördæmum sem hann hafði ekki áður setið fyrir á þingi. Henderson hefur komist oftast allra breskra þingmanna á þing eftir að hafa dottið út af þingi.

Henderson reyndi það sem hann átti eftir ólifað að koma í veg fyrir aðra styrjöld. Hann vann ásamt Heimsfriðarbandalaginu og stýrði afvopnunarráðstefnunni í Genf árin 1932-1934. Fyrir það hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 1934. Þann 3. apríl 2013 var Nóbelsorðu hans stolið úr opinberum bústað borgarstjóra Newcastle.[8]

Henderson lést árið 1935, þá 72 ára gamall. Allir þrír synir Hendersons gegndu herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni. Sá elsti þeirra, David, féll í valinn árið 1916 sem höfuðsmaður með Middlesex-herdeildinni. Eftirlifandi synir Hendersons gerðust einnig stjórnmálamenn í Verkamannaflokkum. Miðsonur hans, William, hlaut barónstign sem Henderson barón árið 1945 og yngsti sonurinn, Arthur, var titlaður Rowley barón árið 1966.

Einkaskjöl Hendersons frá 1915 til 1935 eru geymd í sögu- og fræðamiðstöð Verkamannaflokksins á Alþýðusögusafninu í Manchester.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Chris Lloyd (13. apríl 2013). „Arthur Henderson: a Labour pioneer“ (enska). The Northern Echo. Sótt 7. apríl 2020.
  2. Eric Hopkins, A Social History of the English Working Classes, 1815–1945 (Hodder & Stoughton, 1979) p. 219. ISBN 0713103167.
  3. Bentley B. Gilbert, Britain since 1918 (1980) p 49.
  4. Katz, Liane (4 April 2005) "Women and the Welsh Wizard". Politics.guardian.co.uk. Skoðað 6. apríl 2020.
  5. Handskrifað bréf í rússneska skjalasafninu fyrir félags- og stjórnmálasögu (r. Российский государственный архив социально-политической истории), fond 2, opis 2, delo 1,1119, birt sem Document 88 í bókinni The Unknown Lenin, ritstj. Richard Pipes, Yale University Press, 1996. ISBN 0300076622.
  6. David Carlton (1970). MacDonald versus Henderson: The Foreign Policy of the Second Labour Government. Palgrave Macmillan. ISBN 9781349006755.
  7. Andrew Thorpe, "Arthur Henderson and the British political crisis of 1931." Historical Journal 31#1 (1988): 117-139. in JSTOR
  8. "Nobel Peace Prize Medal Stolen in Newcastle". BBC News. 3 April 2013.
  9. Collection Catalogues and Descriptions, Labour History Archive and Study Centre, afrit af upprunalegu geymt þann 13. janúar 2015, sótt 6. mars 2020