Ernesto Teodoro Moneta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ernesto Teodoro Moneta
Fæddur20. september 1833
Dáinn10. febrúar 1918 (84 ára)
ÞjóðerniÍtalskur
MenntunHáskólinn í Pavia
StörfBlaðamaður, rithöfundur, byltingarmaður
MakiErsilia Caglio (g. 1875)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1907)

Ernesto Teodoro Moneta (20. september 1833 – 10. febrúar 1918) var ítalskur blaðamaður, þjóðernissinni, byltingarhermaður og síðar friðarsinni sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1907. Hann tók upp kjörorðin In varietate unitas!, sem síðar urðu kenniorð Evrópusambandsins.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Ernesto Teodoro Moneta var úr mílanskri aðalsfjölskyldu sem meðal annars taldi til sín framkvæmdastjóra myntsláttunnar í Mílanó og rakti ættir sínar til aðalsmannsins Oldrado de Montariis, sem hafði tekið þátt í fyrstu krossferðinni árið 1096. Foreldrar Ernestos voru Carlo Aurelio Moneta og Giuseppina Muzio. Faðir hans útvegaði honum snemma trausta vinnu í fjármálageiranum fyrir tilstilli afa hans, Giuseppe Moneta, sem hafði verið einn af fyrstu iðnframleiðendum sápu og vítissóda í nútímasögu Ítalíu.

Ernesto Teodoro ólst upp í tveimur sveitasetrum sem fjölskylda hann átti í Missaglia og hlaut menntun í heimahúsum. Á unga aldri tók hann þátt í bardögum gegn austurríska keisaradæminu, sem þá réð yfir stórum hlutum af norðurhluta Ítalíu. Árið 1848, þegar Moneta var aðeins 15 ára, barðist hann með uppreisnarmönnum í götuvígjunum í fimm dögunum í Mílanó, sem mörkuðu upphaf fyrsta ítalska sjálfstæðisstríðsins. Hann gerðist jafnframt meðlimur í Frímúrarareglunni, sem þá var mikilvægur söfnuður í forsvari fyrir útbreiðslu frjálslyndishugmynda á Ítalíu.

Í byrjun sjötta áratugsins stundaði Moneta stjórnmála- og lögfræðinám við Háskólann í Pavia en hætti fljótt námi til þess að geta einbeitt sér að baráttunni fyrir sameiningu Ítalíu. Moneta gekk í hernaðarháskóla í Ivrea og árið 1859 tók hann þátt í þúsundmannaleiðangri Giuseppe Garibaldi til Sikileyjar og barðist með ítölskum hermönnum gegn Austurríkismönnum í þriðja ítalska sjálfstæðisstríðinu árið 1866.

Eftir sameiningu Ítalíu gerðist Moneta alþjóðlegur friðarsinni þrátt fyrir þjóðernishyggju sína. Frá 1867 til 1896 var hann ristjóri mílanska fréttablaðsins Il Secolo, sem gefið var út af Edoardo Sonzogno.

Árið 1887 stofnaði Moneta Langbarðasambandið fyrir friði og gerðardómum (ít. Unione Lombarda per la Pace e l'Arbitrato), sem kallaði eftir afvopnun og talaði fyrir stofnun Þjóðabandalags og Fasts gerðardómstóls. Moneta vann friðarverðlaun Nóbels árið 1907 ásamt Louis Renault.

Á síðustu æviárum Moneta varð þjóðernishyggja hans friðarhyggjunni yfirsterkari og hann studdi opinberlega bæði landvinninga Ítala í Líbíu árið 1912 og inngöngu Ítala í fyrri heimsstyrjöldina árið 1915.

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Þann 2. desember árið 1875 kvæntist Moneta Ersiliu Caglio (1845–1899), dóttur Luigi Caglio. Saman áttu þau tvö börn sem breyttu árið 1893 ættarnafni sínu í Moneta Caglio.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]