Desmond Tutu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Desmond Tutu
Desmond Tutu
Fæddur 7. október 1931 (1931-10-07) (90 ára)
Klerksdorp, Suður-Afríku
Starf/staða Biskup, guðfræðingur
Trú Enska biskupakirkjan
Maki Nomalizo Leah Tutu (g. 1955)
Háskóli King's College London
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1984)
Undirskrift

Desmond Mpilo Tutu (f. 7. október 1931) er suður-afrískur biskup og guðfræðingur sem er þekktur fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og fyrir önnur störf í þágu mannréttinda. Tutu var biskup ensku biskupakirkjunnar í Jóhannesarborg frá 1985 til 1986 og síðan erkibiskup Höfðaborgar frá 1986 til 1996. Tutu var fyrsti þeldökki maðurinn til að gegna þessum embættum. Tutu reyndi að blanda hugmyndum úr svartri guðfræði og afrískri guðfræði en í stjórnmálum telur hann sig til sósíalista.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Tutu fæddist til fátækrar fjölskyldu af Xhosa- og Tswana-þjóðerni í Klerksdorp. Hann vann sem kennari, giftist á fullorðinsárum Nomalizo Leah Tutu og eignaðist með henni nokkur börn. Árið 1960 var hann vígður sem prestur í ensku biskupakirkjunni og árið 1962 flutti hann til Bretlands til að nema guðfræði í Konungsháskólanum í London. Hann sneri aftur til Afríku árið 1966 og kenndi guðfræði í háskóla Botsvana, Lesotó og Svasílands. Árið 1972 varð hann framkvæmdastjóri guðfræðinámsstyrkja í Afríku. Þessari stöðu gegndi hann frá London en þurfti þó að ferðast reglulega um Afríku. Hann var kominn aftur til Suður-Afríku árið 1975 og varð þá prestur í Dómkirkju heilagrar Maríu í Jóhannesarborg og síðan biskup Lesótó. Í krafti þessara kirkjuembætta tók hann virkan þátt í baráttunni gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnu suður-afrískra stjórnvalda og minnihlutastjórn hvítra nýlenduherra. Frá 1978 til 1985 var Tutu aðalritari suður-afríska kirkjuráðsins og varð sem slíkur einn fremsti baráttumaður Suður-Afríku gegn aðskilnaðarstefnunni. Tutu varaði ríkisstjórn Þjóðarflokksins við því að áframhaldandi aðskilnaðarstefna myndi leiða til ofbeldis milli kynþáttanna en hvatti þó sjálfur til friðsamlegra mótmæla og efnahagsþvingana af hálfu erlendra ríkisstjórna til að koma á breytingum.

Árið 1985 varð Tutu biskup Jóhannesarborgar og árið 1986 varð hann erkibiskup Höfðaborgar, sem er æðsta embætti ensku biskupakirkjunnar í suðurhluta Afríku. Sem leiðtogi kirkjunnar reyndi hann að komast að sameiginlegum niðurstöðum og stóð meðal annars fyrir því að konum var leyft að gegna prestsstörfum í kirkjunni. Árið 1986 varð hann forseti Afríska kirkjusambandsins (All-African Conference of Churches; AACC) og ferðaðist enn víðar um álfuna. Þegar Frederik Willem de Klerk forseti leysti Nelson Mandela, einn helsta baráttumanninn gegn aðskilnaðarstefnunni, úr fangelsi og hóf viðræður við hann til að binda enda á hana gerðist Tutu milliliður og sáttasemjari milli ýmissa fylkinga blökkumanna í landinu. Eftir að almennar kosningar voru haldnar árið 1994 og Mandela var kjörinn forseti útnefndi hann Tutu sem formann Sann­leiks- og sátta­nefnd­ar sem átti að rannsaka mannréttindabrot sem báðar fylkingar höfðu framið í baráttunni um aðskilnaðarstefnuna.[1]

Síðan aðskilnaðarstefnan leið undir lok hefur Tutu barist fyrir réttindum samkynhneigðra og tjáð sig um ýmis málefni. Meðal annars hefur hann talað um deilur Ísraela og Palestínumanna[2], mótmælt Íraksstríðinu og gagnrýnt suður-afrísku forsetana Thabo Mbeki og Jacob Zuma. Árið 2010 dró Tutu sig í hlé frá opinberum störfum.[3]

Tutu var mjög umdeildur allt frá því að hann byrjaði að láta á sér bera á áttunda áratuginum. Hvítir íhaldsmenn sem studdu aðskilnaðarstefnuna hötuðu hann og sumum hvítum frjálslyndismönnum þótti hann of róttækur. Aftur á móti sökuðu margir svartir róttæklingar hann um að vera of hófsamur og um að vera of umhugað um velvild hvíta minnihlutans og marx-lenínistar gagnrýndu hann fyrir andkommúnískar skoðanir hans. Tutu var ávallt mjög vinsæll í samfélagi blökkumanna í Suður-Afríku og á heimsvísu naut hann mikillar virðingar fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni. Meðal annars hlaut hann friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín árið 1984.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Tutu varar við harðstjórn“. mbl.is. 31. október 1998. Sótt 9. september 2018.
  2. „Tutu skammar Ísraela og Palestínumenn“. Vísir. 29. maí 2008. Sótt 9. september 2018.
  3. „Des­mond Tutu dreg­ur sig í hlé“. mbl.is. 7. október 2010. Sótt 9. september 2018.