Alþjóðasamtök lækna gegn kjarnorkuvá

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alþjóðasamtök lækna gegn kjarnorkuvá
International Physicians for the Prevention of Nuclear War
Merki Alþjóðasamtaka lækna gegn kjarnorkuvá
SkammstöfunIPPNW
Stofnun1980; fyrir 44 árum (1980)
HöfuðstöðvarFáni Bandaríkjana Malden, Massachusetts, Bandaríkjunum
Vefsíðawww.ippnw.org

Alþjóðasamtök lækna gegn kjarnorkuvá (enska: International Physicians for the Prevention of Nuclear War eða IPPNW) eru félagasamtök lækna, læknanema og heilbrigðisstarfsmanna í 63 löndum sem helga sig „fræðslu almennings um afleiðingar kjarnorkustríðs og getuleysi almannavarna og heilbrigðisþjónustunnar ef til slíks stríðs kæmi“.[1] Höfuðstöðvar samtakanna eru í bænum Malden í Massachusetts. Samtökin hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1985.[2][3]

Aðildarfélög IPPNW eru ýmis innlend læknasamtök sem eiga það sameiginlegt að berjast fyrir eyðingu kjarnavopna og gegn kjarnorkustríði. Aðildarhóparnir eru margvíslegir að stærð; allt frá fámennum hópum lækna og læknanema upp í samtök sem telja til sín tugþúsundir meðlima og stuðningsmanna. Þar sem aðildarhóparnir eru sjálfstæð félög innan alþjóðlegra félagasamtaka vinna þau að ýmsum málefnum sem snerta meðal annars stríð, heilsugæslu, samfélagsréttlæti og náttúruvernd.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Alþjóðasamtök lækna gegn kjarnorkuvá voru stofnuð árið 1980 að undirlagi lækna frá Bandaríkjunum og Sovétríkjunum sem komu sér saman um að vinna gegn mögulegri kjarnorkustyrjöld milli landanna tveggja.[4] Læknarnir vísuðu til fyrstu siðareglu læknastéttarinnar – þeirrar að ef engin lækning væri til gegn sjúkdómi bæri læknum að koma í veg fyrir hann – og komu saman til að útskýra fyrir yfirvöldum og almenningi hvernig læknisfræðileg og vísindaleg staða yrði ef kæmi til kjarnorkustríðs og til að mæla með eyðingu kjarnavopna úr vopnabúrum ríkja.

Stofnforsetar samtakanna voru Bernard Lown frá Bandaríkjunum og Jevgeníj Tsjazov frá Sovétríkjunum. Til liðs við þá gengu fleiri læknar á borð við Jim Muller, Ioan Moraru frá Rúmeníu, Eric Chivian frá Bandaríkjunum og Míkhaíl Kúzín og Leoníd Íljín frá Sovétríkjunum. Þeir settu á fót teymi til að leggja mat á upplýsingar sem japanskir kollegar þeirra höfðu safnað saman upp úr rannsóknum á afleiðingum karnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki. Fjallað var um læknisfræðileg áhrif bruna- og sprengjusára og meiðsla vegna geislavirkni.

Læknarnir veittu mannkyni þá viðvörun að kjarnorkustríð yrði hinsta farsótt heimsins, að engin lækning gegn því yrði í boði og að ekki yrði hægt að bregðast við því á vettvangi heilsugæslu. Skilaboð þeirra bárust milljónum manns um allan heim. David Lange, fyrrum forsætisráðherra Nýja-Sjálands komst svo að orði að Læknar gegn kjarnorkuvá hefðu „gert læknisfræðilegan veruleika hluta af pólitískum veruleika“.

Á fyrstu fimm árunum frá stofnun sinni unnu Læknar gegn kjarnorkuvá í nánu samstarfi við aðildarhópa sína í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum og fræddu heilsugæslustarfsmenn, stjórnmálalaiðtoga og almenning um heilsu- og umhverfisafleiðingar kjarnorkustríða. Fyrir að sameina þannig lækna beggja megin við járntjaldið í kalda stríðinu hlutu Læknar gegn kjarnorkuvá friðarfræðsluverðlaun UNESCO árið 1984[5] og friðarverðlaun Nóbels árið 1985.[2][3] Í tilkynningu Nóbelsnefndarinnar kom fram að samtökin hefðu „stuðlað að því að efla andstöðu almennings gegn beitingu kjarnorkuvopna og komið því til leiðar að mannúðarsjónarmið og heilbrigðismál [nytu] nú meiri athygli en áður“.[6]

Ráðstefna Lækna gegn kjarnorkuvá árið 1992.

Þrátt fyrir að kalda stríðinu hafi lokið með hruni Sovétríkjanna árið 1991 eiga Bandaríkin og Rússland enn þúsundir kjarnavopna sem hægt er að beita með litlum fyrirvara. Á árunum eftir kalda stríðið stafar enn kjarnorkuhætta af dreifingu kjarnavopna og möguleikanum á kjarnorkuhryðjuverkum.

Á tíunda áratugnum stofnuðu Læknar gegn kjarnorkuvá alþjóðanefnd til að rannsaka heilsu- og umhverfisafleiðingar kjarnorkuvopnaframleiðslu og -tilrauna og unnu með bandarísku Orku- og umhverfismálastofnuninni (IEER) við að skrásetja þessar afleiðingar. Nefndin gaf út bókaröð um rannsóknirnar, þar á meðal Radioactive Heaven and Earth, Plutonium: The Deadly Gold of the Nuclear Age og Nuclear Wastelands, þar sem fjallað var um heilsu- og umhverfisáhrif kjarnorkuhergagnaframleiðslunnar á heimsvísu.

Í október árið 2007 stóðu Læknar gegn kjarnorkuvá ásamt Konunglega læknisfræðifélaginu í Bretlandi fyrir ráðstefnu um fyrirliggjandi upplýsingar um afleiðingar kjarnorkuvopna. Upplýsingarnar um loftslagsafleiðingar kjarnorkustyrjaldar sem kynntar voru á ráðstefnunni voru notaðar til grundvallar í verkefni Lækna gegn kjarnorkuvá um „kjarnorkuhungursneyð“. Hægt er að nálgast niðurstöður og úrdrátt um læknisfræðilegar afleiðingar kjarnorkustríða á hlekknum Zero Is the Only Option: Four Medical and Environmental Cases for Eradicating Nuclear Weapons Geymt 12 september 2017 í Wayback Machine.

Í seinni tíð hafa Læknar gegn kjarnorkuvá og undirhópar þeirra beint athygli að heilsu- og umhverfisafleiðingum úranvinnslu. Meðal annars hafa samtökin staðið fyrir heilsukönnunum á Indlandi og andmælt áætlunum Ástralíu um aukningu á útflutningi úrans. Árið 2010 gaf alþjóðaráð samtakanna út yfirlýsingu þar sem kallað var eftir alþjóðlegu banni gegn námugrefstri á úrani vegna hættu gegn lýðheilsu sem honum fylgir.

Læknar gegn kjarnorkuvá hafa einnig rannsakað kjarnorkuhættu sem fylgir notkun lækna á auðguðu úrani til þess að framleiða samsætur í lækningaskyni.

Samtökin settu á fót Alþjóðlega her­ferð til af­náms kjarna­vopna (ICAN) árið 2007. ICAN er í dag leiðandi meðal frjálsra félagasamtaka sem berjast fyrir alþjóðlegum sáttmála um bann við og förgun kjarnorkuvopna og starfar ásamt rúmlega 200 mannréttinda-, friðar- og umhverfissamtökum í rúmlega 80 löndum. ICAN hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2017.[7]

Á tíunda áratugnum fóru Læknar gegn kjarnorkuvá að fjalla um þá ógn sem lýðheilsu og almenningsöryggi stafar af vopnuðu ofbeldi almennt. Samtökin helga sig því að binda enda á stríðsrekstur og því að fræða alþjóð um heilsuvandamál sem rekja má til hans. Fyrstu meiriháttar umsvif Lækna gegn kjarnorkuvá sem ekki tengdust kjarnavopnum voru í alþjóðlegri herferð til að banna jarðsprengjur. Samtökin tóku þátt í herferð gegn almennu vopnavaldi árið 2001 þegar þau settu á fót verkefnið Aiming for Prevention, sem hefur tekið á sig víðari mynd frá stofnun þess og tekur nú til sín umfjöllun um lýðheilsuógnir af völdum hvers kyns vopnaðs ofbeldis. Verkefnið er rekið af undirhópum Lækna gegn kjarnorkuvá á suðurhveli jarðar þar sem vopnað ofbeldi er daglegt brauð og mikill hluti af fjármagni heilsugæslunnar fer í að bregðast við því.

Læknar gegn kjarnorkuvá tóku ásamt ýmsum öðrum borgaralegum friðarsamtökum í að hvetja til samþykktar Vopnaviðskiptasamningsins (ATT). Samtökin eru jafnframt virkur aðili í Ofbeldisvarnarbandalagi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.

Læknar gegn kjarnorkuvá hafa þróað læknisfræðiáfanga og -námskeið í háskólum í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Kanada. Samtökin styðja og hvetja til fræðslu til þess að auka almenningsvitund á tengslunum milli friðar og heilsu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Alþjóðaþing Samtaka lækna gegn kjarnorkuvá: Bann verði sett við tilraunasprengingum“. Morgunblaðið. 19. júlí 1988. Sótt 4. mars 2020.
  2. 2,0 2,1 „International Physicians for the Prevention of Nuclear War“. IPPNW.org. Sótt 31. mars 2015.
  3. 3,0 3,1 „The Nobel Peace Prize 1985“. Nobelprize.org. Sótt 4. mars 2020.
  4. Rensberger, Boyce (12. október 1985). „Prize May Provide Boost For Antinuclear Drive“. Washington Post (bandarísk enska). ISSN 0190-8286. Sótt 9. mars 2018.
  5. [1] Geymt 3 febrúar 2012 í Wayback Machine
  6. „Vindum upp á stórseglið“. Þjóðviljinn. 12. október 1985. Sótt 6. mars 2020.
  7. „5 Reasons Why ICAN Won the Nobel Peace Prize“. Time (enska). Sótt 9. mars 2018.