Charles Albert Gobat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Charles Albert Gobat
Fæddur21. maí 1843
Dáinn16. mars 1914 (70 ára)
ÞjóðerniSvissneskur
MenntunHáskólinn í Basel
Háskólinn í Heidelberg
StörfLögfræðingur, kennari, stjórnmálamaður
BörnMarguerite Gobat
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1902)
Undirskrift

Charles Albert Gobat (21. maí 1843 – 16. mars 1914) var svissneskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem vann friðarverðlaun Nóbels árið 1902 ásamt Élie Ducommun fyrir forystu sína við Alþjóðlegu friðarskrifstofuna.

Æska og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Gobat fæddist þann 21. maí árið 1843 í Tramelan í Sviss. Hann var sonur mótmælendaprests og var bróðursonur Samuels Gobat, trúboða sem varð síðar biskup af Jerúsalem. Gobat hlaut menntun í Háskólanum í Basel, Háskólanum í Heidelberg, Háskólanum í Bern og Parísarháskóla. Hann hlaut doktorsgráðu sína frá Háskólanum í Heidelberg árið 1867.

Laga- og stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Að loknu doktorsnámi hóf Gobat lögmannsstörf í Bern og kenndi jafnframt franskan borgararétt við Háskólann í Bern. Hann opnaði síðan lögmannsstöfu í Delémont í kantónunni Bern, sem varð brátt ein umsvifamesta lögmannsstofa umdæmisins.

Eftir fimmtán ára lögmannsferil hóf Gobat afskipti af stjórnmálum og menntamálum. Árð 1882 var hann útnefndur umsjónarmaður almenningsmenntunar í kantónunni Bern og gegndi hann þeirri stöðu í 30 ár. Hann var framsýnn í menntamálum og gerði margar mikilvægar breytingar á menntakerfinu. Meðal annars gerði hann kerfisbreytingar á grunskólamenntun, náði auknu fjármagni til að jafna hlutfallið milli nemenda og kennara, jók tungumálakennslu og bauð nemendum upp á margvísleg starfsnám auk hinna hefðbundnu sérhæfðu menntunar sem viðgekkst þá.

Árið 1891 gaf Gobat út sagnfræðiritið Bernarlýðveldið og Frakkland á tíma trúarbragðastyrjaldanna (fr. République de Berne et la France pendant les guerres de religion) og hlaut góðar viðtökur fyrir það. Verki hans um alþýðusögu Sviss frá árinu 1900 var einnig vel tekið.

Gobat var jafnframt virkur í stjórnmálum og var kjörinn til margra mikilvægra embætta. Hann var kjörinn á þing kantónunnar Bern árið 1882. Frá 1884 til 1890 sat hann á svissneska kantónuráðinu og frá 1890 til dauðadags árið 1914 sat hann í þjóðráðinu, hinni málstofu svissneska löggjafarþingsins. Gobat var talinn frjálslyndur umbótamaður bæði í stjórn- og menntamálum. Árið 1902 studdi hann margvíslega löggjöf sem miðaði að því að verslunarsamningar yrðu lagðir fyrir gerðarnefndir. Gobat vann með Alþjóðaþingmannasambandinu, sem Randal Cremer, handhafi friðarverðlauna Nóbels árið 1903, hafði stofnað árið 1889. Árið 1892 varð Gobat forseti fjórðu samkomu sambandsins í Bern, og stofnaði Alþjóðaþingmannaskrifstofuna (fr. Bureau Interparlementaire). Hann var aðalritari skrifstofunnar, sem starfaði með friðarhreyfingum við alþjóðasáttagerðir og samskipti milli þingja. Á þriðju samkomu Alþjóðaþingmannasambandsins í Róm árið 1891 var Alþjóðlega friðarskrifstofan stofnuð, en Gobat var í forsvari fyrir hana þegar hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1913.

Síðari æviár[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1902 hlaut Gobat friðarverðlaun Nóbels ásamt Élie Ducommun fyrir forystu þeirra í Alþjóðafriðarskrifstofunni.

Eftir dauða Ducommun árið 1906 tók Gobat við sem forseti friðarskrifstofunnar.

Gobat lést þann 16. mars árið 1914 í Bern. Á miðri friðarráðstefnu stóð hann á fætur eins og hann hygðist taka til máls en hneig niður og lést um klukkustund síðar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]