Élie Ducommun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Élie Ducommun
Fæddur19. febrúar 1833
Dáinn7. desember 1906 (63 ára)
ÞjóðerniSvissneskur
StörfBlaðamaður, stjórnmálamaður, friðarsinni
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1902)

Élie Ducommun (19. febrúar 1833 – 7. desember 1906) var svissneskur blaðamaður, stjórnmálamaður, Frímúrari og friðarsinni. Hann tók þátt í stofnun Bandalags friðar og frelsis (fr. Ligue de la paix et de la liberté) og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1902 ásamt Charles Albert Gobat.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Élie Ducommun í fullum skrúða stórmeistara stórstúkunnar Alpínu í Sviss.

Árið 1855, þegar Ducommun var 22 ára, gerðist hann ritstjóri róttæka tímaritsins La Revue de Genève að beiðni svissneska þingforsetans James Fazy. Hann ritstýrði tímaritinu til ársins 1862. Ducommun sat á fylkisþingi kantónunnar Genf fyrir flokk róttækra lýðræðissinna frá 1858 til 1862 og frá 1864 til 1866. Hann sagði af sér þingmennsku árið 1865 og flutti frá Genf til Delémont, þar sem hann vann sem blaðamaður hjá tímaritinu Progrès[1]

Árið 1868 flutti Ducommun til Bern og varð þýðingarstjóri í þinghúsi borgarinnar. Hann sat á fylkisþingi kantónunnar Bern frá 1868 til 1878. Árið 1869 tók hann þátt í svissneska Alþýðubankans og sat í framkvæmdastjórn bankans til ársins 1892. Árið 1871 stofnaði Ducommun tímaritið L'Helvétie og talaði þar fyrir endurskoðun á svissnesku stjórnarskránni, en breytingunum var að endingu hafnað í atkvæðagreiðslu árið 1872.

Hið sama ár varð Ducommun aðalritari járnbrautarfélags í Bern. Hann gegndi þeirri stöðu til ársins 1903, en þá var félagið endurþjóðnýtt af svissneska ríkinu. Hann sat á þingi í borginni Biel frá 1874 til 1877.[1].

Frímúrarareglan[breyta | breyta frumkóða]

Ducommun var vígður inn í Frímúrarastúkuna La Prudence í Genf þann 11. apríl árið 1857, þegar hann var 24 ára. Hann varð síðar ræðismaður stúkunnar og seinna stórmeistari stúkunnar Temple Unique. Síðar gekk hann í stúkuna Zur Hoffnung í Bern og varð stórmeistari hennar frá 1882 til 1884. Hann varð loks stórmeistari stórstúkunnar Alpínu frá 1890 til 1895.[2]

Friðarstörf[breyta | breyta frumkóða]

Brjóstmynd af Élie Ducommun í Saint-Jean-garði í Genf.
Fæðingarstaður Élie Ducommun á Coutance-götu í Genf.

Élie Ducommun hóf snemma bæði í ræðu og riti[3] að tala fyrir friði á grundvelli lýðræðis og frelsis og fyrir úrlausn milliríkjadeilna með alþjóðlegum gerðardómstólum. Eftir að hafa gengið í sérstaka friðarmálanefnd í Genf árið 1863 skipulagði hann friðarráðstefnu í Genf árið 1867 ásamt Giuseppe Garibaldi, Pierre Jolissaint og James Fazy.[4] Árið 1868 tók Ducommun þátt í stofnun friðarsamtaka sem urðu síðar kölluð Bandalag friðar og frelsis (fr. Ligue de la paix et de la liberté) og varð varaforseti þeirra í 25 ár.[3] Hann ritstýrði fréttaritinu Les États-Unis d'Europe (ísl. Bandaríki Evrópu) frá 1868 til 1870.[5] Árið 1891, á þriðju friðarráðstefnu samtakanna í Róm, var ákveðið að stofna Alþjóðlegu friðarskrifstofuna[6] til þess að stýra aðgerðum aðildarfélaganna. Undir lok 19. aldarinnar og sér í lagi frá árinu 1870 spruttu fjölmargar friðarhreyfingar upp í ýmsum löndum og nauðsynlegt varð að reka alþjóðlega stofnun til að hjálpa þjóðarhreyfingunum að samhæfa aðgerðir sínar. Élie Ducommun varð aðalritari Alþjóðlegu friðarskrifstofunnar árið 1891[7] og gegndi embættinu til dauðadags. Sem aðalritari birti hann fjölda ritverka í nafni alþjóðlegra friðarhreyfinga og friðarráðstefna[8], meðal annars áróðursrit fyrir friðarráðstefnuna í Haag árið 1889. Hann ritaði einnig fordæmingar á ofsóknum á armenum í Tyrkjaveldi og stóð fyrir undirskriftasöfnun sem send var til svissneska þingsins og til forseta Bandaríkjanna þar sem þau voru hvött til að stilla til friðar í seinna Búastríðinu.[9]

Vegna starfa sinna með alþjóðlegum friðarhreyfingum hlaut Ducommun friðarverðlaun Nóbels ásamt Charles Albert Gobat árið 1902.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Victor Monnier, « Notes et documents pour servir à la biographie d'Elie Ducommun », Revue européenne des sciences sociales, vol. XXII, no 67,‎ 1984, bls. 139-164.
  2. Roger Durand (ritstj.), Elie Ducommun, 1833-1906, chancelier d'Etat, secrétaire général du Bureau International de la Paix, prix Nobel de la Paix en 1902, Genf, Association « Genève, un lieu pour la paix », 2002, 294 bls.
  3. 3,0 3,1 Ruedi Brassel-Moser, « Elie Ducommun, médiateur radical », Intervalles: revue culturelle du Jura bernois et de Bienne, no 64 « Pacifisme(s). Prix Nobel de la Paix 1902: Albert Gobat et Élie Ducommun »,‎ 2002, bls. 75-97 (ISSN 1015-7611).
  4. Monnier 1984, bls. 145ff.
  5. Bernard Lescaze (2002). „La collaboration aux États-Unis d'Europe“. Genève: un lieu pour la paix. Mélanges biographiques (franska) (2): pp. 169-182. ISBN 2-88163-028-6.
  6. „Permanent International Peace Bureau - History Organization“. Nobelprize.org (enska). Sótt 6. maí 2020.
  7. Monnier 1984, bls. 145ff.
  8. Christophe Zürcher (21. júlí 2011). „Ducommun, Elie“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júlí 2021. Sótt 6. maí 2020.
  9. Brassel-Moser 2002, bls. 89ff.
  10. „The Nobel Peace Prize 1902. Élie Ducommun, Albert Gobat“. Nobelprize.org (enska). Sótt 6. maí 2020.