Fara í innihald

René Cassin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
René Cassin
Fæddur5. október 1887
Dáinn20. febrúar 1976 (88 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfLögfræðingur, lögfræðiprófessor, dómari
TrúGyðingdómur
MakiGhislaine Bru (1913-2002)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1968)

René Cassin (5. október 1887 – 20. febrúar 1976) var franskur lögfræðingur, ríkiserindreki og stjórnmálamaður. Cassin var meðlimur í útlagaríkisstjórn Frjálsra Frakka á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og tók síðar þátt í samningu Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Cassin var varaforseti franska ríkisráðsins frá 1944 til 1959 og síðan forseti Mannréttindadómstóls Evrópu frá 1965 til 1968. Árið 1968 hlaut Cassin friðarverðlaun Nóbels og mannréttindaverðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir störf sín.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

René Cassin fæddist í borginni Bayonne í Basses-Pyrénées í Frakklandi og var kaupmannssonur af gyðingaættum. Cassin nam lögfræði við Parísarháskóla og aðra franska háskóla og útskrifaðist með lögfræðipróf árið 1908. Hann hlaut doktorsgráðu í lögum, hagfræði og stjórnmálum árið 1914 og varð prófessor við lagadeild Háskólans í Lille árið 1919. Hann hóf störf sem prófessor við Parísarháskóla næsta ár.[1]

Cassin barðist í fyrri heimsstyrjöldinni og særðist illa af sprengjubroti. Eftir stríðið var Cassin á árunum 1924 til 1936 fulltrúi Frakka hjá Þjóðabandalaginu.[1]

Eftir ósigur Frakklands árið 1940 í síðari heimsstyrjöldinni flúði Cassin til London og gekk til liðs við útlegðarríkisstjórn Frjálsra Frakka undir forystu Charles de Gaulle. Cassin varð dóms- og menntamálaráðherra í útlegðarstjórninni og starfaði auk þess sem lögfræðiráðgjafi de Gaulles í málefnum sem vörðuðu samninga við bresku ríkisstjórnina og viðurkenningu á lagalegri stöðu frönsku útlagastjórnarinnar.[1]

Eftir seinna stríð vann Cassin frá 1946 til 1958 sem fulltrúi Frakklands hjá Sameinuðu þjóðunum og tók meðal annars þátt í stofnun Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Cassin var jafnframt varaformaður Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem lagði drög að Mannréttindayfirlýsingunni sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í París árið 1948. Eleanor Roosevelt, formaður Mannréttindanefndarinnar, lýsti því yfir að Cassin hefði verið aðalhöfundur mannréttindayfirlýsingarinnar.[1]

Réné Cassin var varaforseti franska ríkisráðsins frá 1944 til 1959. Þegar Mannréttindadómstóll Evrópu var stofnaður árið 1959 var Cassin kjörinn einn af dómurum hans og átti hann eftir að dæma við dómstólinn til dauðadags. Cassin varð forseti Mannréttindadómstólsins frá 1965 til 1968.[1]

Verðlaun og viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

Stytta af René Cassin í Forbach í Frakklandi.

Árið 1947 var René Cassin kjörinn í frönsku stjórnmála- og siðfræðiakademíuna.

Þann 10. október 1968 var Cassin sæmdur friðarverðlaunum Nóbels[2][3] fyrir starf sitt við samningu Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna tuttugu árum fyrr og sem dómari við Mannréttindadómstólinn. Cassin tók við verðlaununum við athöfn í Ósló þann 10. desember sama ár.[4] Árið 1969 notaði hann verðlaunaféð til að stofna René Cassin-mannréttindastofnunina (IIDH).

Cassin hlaut jafnframt mannréttindaverðlaun Sameinuðu þjóðanna árið 1968.

Þann 5. október árið 1987, á hundrað ára afmæli Cassins, voru jarðneskar leifar hans fluttar í Panthéon-hvelfinguna í París.[3]

Eftirmæli[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2001 voru óháðu félagasamtökin CCJO René Cassin stofnuð í minningu Cassins til að stuðla að mannréttindum frá sjónarhorni gyðinga. Samtökin veita René Cassin-orðuna fyrir framúrskarandi framtök í þágu mannréttinda. Sem foringi ísraelska bandalagsins í Frakklandi barðist Cassin fyrir borgararéttindum gyðinga og var virkur í zíonistahreyfingunni. Gagnfræðiskóli í Jerúsalem er nefndur eftir honum.

Árið 2003 stofnaði ríkisstjórn Baskalands til René Cassin-verðlaunanna í því skyni að „viðurkenna og verðlauna einstaklinga eða hópa sem hafa á einka- eða atvinnuvettvangi sýnt eindreginn vilja til að efla, verja og tryggja mannréttindi“. Verðlaunin eru veitt þann 10. desember, á alþjóðlega mannréttindadeginum.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 Sigurgeir Sigurjónsson (1. maí 1976). „René Cassin“. Tímarit lögfræðinga. Sótt 16. mars 2020.
  2. René Cassin, Fondation René Cassin“..
  3. 3,0 3,1 Antoine Prost, « L'inconnu du Panthéon », L'Histoire n°455, janvier 2019, p. 20-21.
  4. Prix Nobel de la Paix à Oslo. INA.fr.
  5. „Premio René Cassin“.