Fara í innihald

Dominique Pire

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dominique Pire
Dominique Pire árið 1958.
Fæddur10. febrúar 1910
Dáinn30. janúar 1969 (58 ára)
ÞjóðerniBelgískur
MenntunPáfaháskóli Heilags Tómasar af Akvínó (1934–1936)
Kaþólski háskólinn í Leuven (1936–1937)
StörfGuðfræðingur, munkur
TrúKaþólskur
ForeldrarGeorges Pire & Berthe Ravet
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1958)

Dominique Pire (10. febrúar 1910 – 30. janúar 1969; fæddur Georges Charles Clément Ghislain Pire) var belgískur prestur og munkur í Dóminíkanareglunni. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1958 fyrir störf sín við að aðstoða flóttafólk sem hafði hrakist á vergang í seinni heimsstyrjöldinni.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Georges Pire fæddist í bænum Dinant í Belgíu. Hann var elstur af fjórum börnum embættismannsins Georges Pire eldri og Berthe (Ravet) Pire.[1]

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 neyddist fjölskylda Pire til að flýja á báti til Frakklands til þess að forðast þýska herinn. Eftir að samið var um vopnahlé árið 1918 gat fjölskyldan snúið heim til Dinant, sem hafði þá verið lagt í rúst.[2]

Pire nam fornfræði og heimspeki í skólanum Collège Notre-Dame de Bellevue og gekk átján ára gamall í klaustur Dóminíkanareglunnar í Huy. Hann tók prestsvígslu þann 23. september 1932 og tók um leið upp nafnið Dominique í höfuðið á stofnanda reglunnar. Hann nam síðan guðfræði og félagsvísindi við Páfaháskóla Heilags Tómasar af Akvínó í Róm og útskrifaðist þaðan með doktorsgráðu í guðfræði árið 1936. Doktorsritgerð hans bar titilinn Sinnuleysið eða óraunhæf og eyðileggjandi óskynsemi (fr. L’Apatheia ou insensibilité irréalisable et destructrice).[3]

Starfsferill

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa lokið námi sneri Pire aftur í La Sarte-klaustrið í Huy og einbeitti sér að því að hjálpa fátækum fjölskyldum að ná endum saman. Í seinni heimsstyrjöldinni veitti Pire belgísku andspyrnuhreyfingunni prestsþjónustu og tók þátt í ýmsum aðgerðum hennar, meðal annars í að smygla flugmönnum bandamanna út úr landinu. Pire hlaut nokkur heiðursmerki fyrir frammistöðu sína eftir stríðið.

Árið 1940 byrjaði Pire að rannsaka málefni flóttamanna sem höfðu hrakist frá heimilum sínum í stríðinu og skrifaði bók um þá með titlinum Du Rhin au Danube avec 60,000 D. P. (ísl. Frá Rín til Dónár með 60.000 flóttamönnum). Hann stofnaði samtök til þess að hjálpa flóttafólkinu. Samtökin komu á fót styrktarsjóðum fyrir flóttamannafjölskyldur og byggðu á sjötta áratugnum fjölda svokallaðra „Evrópuþorpa“ í Austurríki og Þýskalandi til að veita þeim heimili.[4] Þrátt fyrir að vera dóminíkamunkur neitaði Pire alltaf að blanda trú sinni við skuldbindingar sínar í þágu hinna verr stöddu. Yfirboðarar hans í reglunni sýndu honum ekki alltaf skilning fyrir þetta.

Pire hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1958. Eftir að hafa unnið verðlaunin tók Pire þátt í stofnun „Friðarháskóla“ til að auka almenningsvitund á friðarmálefnum. Pire komst síðar að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að ná fram heimsfriði án þess að uppræta fátækt. Hann stofnaði því Friðareyjurnar, frjáls félagasamtök sem ætlað var að hjálpa til við langtímaþróun dreifbýlissamfélaga í þróunarríkjum. Samtökin hófu starfsemi í Bangladess og Indlandi.

Pire lést þann 30. janúar árið 1969 í kaþólska sjúkrahúsinu í Louvain vegna kvilla eftir skurðaðgerð. Rúmum 30 árum eftir dauða hans störfuðu samtökin fjögur sem hann stofnaði enn. Árið 2008 hóf Las Casas-stofnunin í Blackfriars-salnum í Oxford-háskóla verkefnaáætlun til heiðurs Pire.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Georges Pire“ (enska). Nóbelsverðlaunin. Sótt 22. mars 2020.
  2. „Archived copy“ (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí 2012. Sótt 22. mars 2020.
  3. Servais Pinkaers, "A Dialogue and Action for Peace: Dominique Pire (1910–1969)" Geymt 19 mars 2009 í Wayback Machine in Preaching Justice: Dominican Contributions to Social Ethics in the Twentieth Century, edited by Francesco Compagnoni OP and Helen Alford OP, Dublin: Dominican Publications, 2007, ISBN 1-905604-07-6, Part 1, Section B, 6, p. 137.
  4. Robert Merril Bartlett (1. apríl 1962). „„Opinn faðmur ...". Kirkjuritið. Sótt 22. mars 2020.
  5. Las Casas Institute Geymt 9 júlí 2013 í Wayback Machine on Blackfriars Hall website