Fara í innihald

Ted Kennedy

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ted Kennedy
Kennedy á tíunda áratugnum.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Massachusetts
Í embætti
7. nóvember 1962 – 25. ágúst 2009
ForveriBenjamin A. Smith II
EftirmaðurPaul G. Kirk
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. febrúar 1932
Boston, Massachusetts, Bandaríkjunum
Látinn25. ágúst 2009 (77 ára) Hyannis Port, Massachusetts, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiJoan Bennett (g. 1958; sk. 1982)
Victoria Reggie (g. 1992)
Börn3
HáskóliHarvard-háskóli (AB)
Virginíuháskóli (LLB)
VerðlaunNansen-verðlaunin (2009)
Undirskrift

Edward Moore „Ted“ Kennedy (22. febrúar 1932 – 25. ágúst 2009) var bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum sem sat á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Massachusetts frá árinu 1962 til dauðadags árið 2009. Hann var yngri bróðir Johns F. Kennedy Bandaríkjaforseta og Roberts F. Kennedy dómsmálaráðherra og öldungadeildarþingmanns. Ted Kennedy var einn af þaulsetnustu öldungadeildarþingmönnum í sögu Bandaríkjanna og var á sínum tíma einn helsti málsvari frjálslyndisstefnu í bandarískum stjórnmálum.

Ted Kennedy fæddist þann 22. febrúar árið 1932 og var níunda og yngsta barn Josephs Kennedy og Rose Kennedy. Þau voru bæði af ríkum írskum ættum sem nutu mikilla ítaka í stjórnmálum. Ted Kennedy hóf nám við Harvard-háskóla árið 1950 en var vikið úr skólanum ári síðar vegna prófsvindls, en hann hafði fengið vin sinn til að taka fyrir sig próf í spænsku. Kennedy gekk þá í herinn og gegndi tveggja ára herþjónustu í Evrópu. Að henni lokinni hóf hann aftur nám við Harvard og útskrifaðist þaðan með próf í sagnfræði og stjórnsýslu árið 1956. Hann lauk laganámi við Virginíuháskóla tveimur árum síðar.[1]

Ted Kennedy hóf afskipti af stjórnmálum árið 1958 þegar hann hjálpaði eldri bróður sínum, John F. Kennedy, við kosningabaráttu hans til sætis á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Massachusetts. Sætið losnaði árið 1961, þegar John Kennedy tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Ted Kennedy var þá of ungur til þess að geta tekið sæti á öldungadeildinni en John bað ríkisstjóra Massachusetts að skipa fjölskylduvin Kennedy-ættarinnar í sætið til bráðabirgða þar til Ted yrði þrítugur og gæti gefið kost á sér til þings. Ted Kennedy gaf kost á sér þegar hann hafði aldur til árið 1962 og var kjörinn á öldungadeildina fyrir þingsætið í Massachusetts. Hann átti eftir að vera endurkjörinn á þingið sjö sinnum.[1]

Árið eftir að Ted Kennedy var kjörinn á öldungadeildina var John F. Kennedy forseti myrtur í Dallas. Annar eldri bróðir Teds, öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum dómsmálaráðherrann Robert F. Kennedy, var einnig myrtur árið 1968. Eftir dauða eldri bræðra sinna var Ted Kennedy eini eftirlifandi stjórnmálaskörungur Kennedy-ættarinnar og margir litu til hans sem hugsanlegs forsetaframbjóðanda.[1]

Árið 1969 áttu sér stað atburðir sem spilltu verulega fyrir frama Kennedys í bandarískum stjórnmálum. Kvöldið 18. júlí þetta ár keyrði Kennedy frá veislu í sumarbústað sínum á Chappaquiddick-eyju og kvaðst ætla að taka síðustu ferjuna til Martha's Vinyard. Í stað þess að keyra að ferjustaðnum ók Kennedy bílnum í átt að ströndinni. Bíllinn fór út af brú, honum hvolfdi og hann sökk á tveggja og hálfs metra dýpi. Kennedy tókst að komast út úr bílnum og upp á land. Hann yfirgaf slysastaðinn síðan án þess að tilkynna yfirvöldum um slysið. Með honum í bílnum var 28 ára gömul kona að nafni Mary Jo Kopechne, sem drukknaði í bílnum eftir að Kennedy var farinn. Lögreglan fann lík hennar í bílnum daginn eftir, áður en Kennedy tilkynnti um slysið. Kennedy var í kjölfarið dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir að yfirgefa slysstaðinn en refsingunni var frestað svo Kennedy afplánaði aldrei fangelsisvistina.[2]

Chappaquiddick-atvikið svokallaða gerði í reynd út af við ímynd Kennedys sem vænlegs forsetaefnis.[2] Margir voru ekki ánægðir með útskýringar Kennedys á slysinu og orðrómar fóru á kreik um hugsanlegt ósiðlegt athæfi hans í tengslum við dauða Mary Jo Kopechne.[3]

Þrátt fyrir atvikið hvöttu stuðningsmenn Kennedys hann til að gefa kost á sér í forsetakosningum Bandaríkjanna árin 1972 og 1976 en hann neitaði að verða við því.[4] Kennedy tók loks af skarið fyrir forsetakosningarnar 1980 og bauð sig fram í forvali Demókrataflokksins á móti sitjandi forseta Bandaríkjanna, Jimmy Carter. Carter var á þessum tíma óvinsæll og því þóttu horfur Kennedys á að sigra hann í forvalinu góðar í fyrstu. Upphaf gíslatökunnar í Teheran hafði hins vegar þau áhrif að sameina flokkinn og þjóðina að baki Carter og stuðlaði að því að Carter tókst með naumindum að sigra Kennedy.[5] Upprifjun almennings á Chappaquiddick-atvikinu og ýmsum þáttum úr einkalífi Kennedys áttu jafnframt þátt í að sökkva framboði hans.[6]

Kennedy sat áfram á öldungadeild Bandaríkjaþings næstu áratugina og hafði mikil áhrif á lagasetningar og á stefnu Demókrataflokksins. Meðal annars lagði Kennedy áherslu á umbætur í heilbrigðis- og menntakerfi Bandaríkjanna og barðist fyrir réttindum innflytjenda. Kennedy studdi Barack Obama í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 2008.[1] Sama ár greindist Kennedy með illkynja æxli í heila. Hann lést úr krabbameininu þann 25. ágúst árið 2009.[7]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Bogi Þór Arason (27. ágúst 2009). „„Frjálslynda ljónið" fallið frá“. Morgunblaðið. bls. 16.
  2. 2,0 2,1 „Kvalræði Kennedys“. Lesbók Morgunblaðsins. 17. nóvember 1979. bls. 6–7; 14.
  3. Ævar R. Kvaran (28. desember 1988). „Dularfulli skugginn í lífi Edwards Kennedy“. Vikan. bls. 42; 44–45.
  4. Erik Bergaust (14. janúar 1973). „Kennedy eftir fjögur ár?“. Alþýðublaðið. bls. 4–5.
  5. Kolbeinn Þorsteinsson (23. maí 2008). „Síðasti erfðaprinsinn“. Dagblaðið Vísir. bls. 16.
  6. Anders Hansen (27. apríl 1980). „Edward Kennedy“. Morgunblaðið. bls. 20–21.
  7. „Edward Kennedy látinn“. mbl.is. 26. ágúst 2009. Sótt 28. júlí 2009.