Albert Luthuli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Albert Luthuli
Albert Luthuli árið 1960.
FæddurUm 1898
Dáinn21. júlí 1967
FlokkurAfríska þjóðarráðið
TrúMeþódismi
MakiNokukhanya Bhengu
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1960)

Albert John Luthuli (f. í kringum 1898; d. 21. júlí 1967), einnig stafað Lutuli, var suður-afrískur kennari, aðgerðasinni og stjórnmálamaður. Luthuli var forseti Afríska þjóðarráðsins frá árinu 1952 til dauðadags og var sem slíkur áberandi í baráttunni gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku og gegn yfirráðum hvíta minnihlutans í landinu. Luthuli hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1960 fyrir friðsamlega baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnunni og öðrum kynþáttalögum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Albert Luthuli fæddist í Suður-Ródesíu (nú Simbabve) en fluttist ungur ásamt móður sinni til Suður-Afríku. Þau settust að í þorpinu Groutville, þar sem föðurafi Alberts hafði verið ættflokkshöfðingi og öldungur kristins safnaðar. Albert Luthuli hlaut menntun í barnaskóla kristniboðsins í Groutville og síðan í kennaraskóla þess. Luthuli vann síðar sem kennari í skólunum og kenndi meðal annars tónlist, landafræði, kennsluæfingar, sagnfræði og súlúmál.[1]

Luthuli varð ritari kennarasamtaka blökkumanna í Suður-Afríku árið 1927 og formaður þeirra árið 1933. Sem fulltrúi svörtu kennarastéttarinnar átti Luthuli í stirðu sambandi við yfirvöld hvíta minnihlutans í landinu. Álits svartra kennara var ekki leitað í lagasetningum um hagsmuni starfsstéttarinnar og aðgangur svartra barna að grunnnámi var mjög skertur eftir að Luthuli hafði lokið skólagöngu sinni.[1]

Árið 1936 voru blökkumenn alfarið sviptir kosningarétti í Suður-Afríku með Herzog-lögunum svokölluðu.[2] Luthuli, sem hafði verið kjörinn ættbálkshöfðingi í heimabæ sínum sama ár, sagði upp kennarastarfinu og hóf feril í þjónustu hins opinbera. Luthuli tók meðal annars þátt í stofnun Sambands sykurframleiðenda í Suður-Afríku og var kjörinn fyrsti formaður þeirra. Ræktun sykurreyrs var þá einn helsti atvinnuvegur blökkumanna í Suður-Afríku og stjórnvöld höfðu nýlega gefið út bráðabirgðalög til að takmarka sykurframleiðslu vegna markaðsörðugleika. Stuttu eftir stofnun samtakanna tókst að tryggja sanngjarnt söluverð og örugga sölu á sykrinum.[1] Luthuli stofnaði jafnframt til hreyfinga til að koma í veg fyrir stofnunar ölkráa í þéttbýlum landsins.[1]

Árið 1945 gekk Luthuli í Afríska þjóðarráðið og stofnaði til friðsamlegrar þjóðernishreyfingar í anda Gandhis. Undir forystu Luthuli stóðu afrískir og indverskir meðlimir Þjóðarráðsins fyrir herferð borgaralegrar óhlýðni gegn kynþáttalögum í Suður-Afríku. Þeldökkir landsmenn voru hvattir til að fara inn á bókasöfn og önnur rými sem voru aðeins ætluð hvíta minnihlutanum, setjast á bekki hvítra í almenningsgörðum og nýta sér banka, póst og aðrar almenningsþjónustur hinna hvítu. Andófsherferðin var árangursrík þar til stjórnvöld settu strangari refsingar upp á allt að þriggja ára fangelsisvist gegn hvers kyns brotum gegn kynþáttalögunum.[2]

Árið 1952 lét ríkisstjórn Suður-Afríku svipta Luthuli höfðingjatign sinni og senda hann heim til Groutville. Hið sama ár var Luthuli kjörinn forseti Þjóðarráðsins. Árið 1956 var Luthuli handtekinn fyrir landráð og byltingaráróður og sendur í fangelsi í Jóhannesarborg ásamt 155 öðrum andófsmönnum. Luthuli var sleppt eftir eins árs fangavist en ákæran gegn honum var ekki felld niður fyrr en árið 1961 eftir að sannað þótti að hann hefði aldrei talað fyrir valdbeitingu.[2]

Luthuli hélt ræður víðs vegar um landið gegn kynþáttalögum og minnihlutastjórn og vitnaði þar m.a. gjarnan í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Árið 1959 var Luthuli bannað að ferðast til Jóhannesarborgar til að tala við ársþing Þjóðarráðsins og skipað að halda sig í Groutville í fimm ár. Luthuli óhlýðnaðist banninu og fór með lest til Jóhannesarborgar en var nær samstundis handtekinn er hann steig út á brautarstöð borgarinnar. Eftir fjöldamorðin í Sharpeville árið 1960 greip Luthuli til þess að brenna vegabréf sitt í þúsunda vitna viðurvist til þess að mótmæla lögum sem skylduðu þeldökka landsmenn til að ganga með vegabréf með persónuupplýsingum hvert sem þeir fóru.[2][1] Þessi gjörningur Luthuli leiddi til þess að hann var dæmdur í eins og hálfs árs varðhald fyrir lagabrot.[1]

Luthuli var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels árið 1960 fyrir friðsamlega baráttu sína í þágu svarta meirihlutans í Suður-Afríku.[3] Við verðlaunaafhendinguna í Ósló hélt Luthuli ræðu þar sem hann gagnrýndi hvít nýlenduyfirráð í Afríku en hrósaði kristniboðum fyrir að hafa unnið að þjóðfélagsumbótum fyrir innfædda Afríkubúa.[1]

Á árunum eftir verðlaunaafhendinguna fór að gæta óánægju með Luthuli innan Þjóðarráðsins meðal meðlima sem þótti hann of hæglátur. Margir meðlimir vildu gerast róttækari og hefja vopnaða baráttu gegn hvítu minnihlutastjórninni. Þessi gagnrýni, samhliða banni minnihlutastjórnarinnar á starfsemi stjórnmálasamtaka blökkumanna, skertu mjög áhrif Luthuli á síðustu æviárum hans.[4]

Árið 1962 var Luthuli kjörinn rektor Háskólans í Glasgow, en var ekki leyft að ferðast frá Suður-Afríku til að þiggja embættið formlega við heiðursathöfn í skólanum. Luthuli lést árið 1967 af slysförum eftir að hafa orðið undir vöruflutningalest.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 Ólafur Ólafsson (14. júní 1964). „Albert Luthuli: Þjóðfrelsishetja S.-Afríku-lýðveldisins“. Lesbók Morgunblaðsins. Sótt 18. mars 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Frelsisvon S.-Afríku – Albert Luthuli“. Morgunblaðið. 5. nóvember 1961. Sótt 18. mars 2020.
  3. „Friðarvinurinn Albert Luthuli“. Frjáls þjóð. 16. desember 1961. Sótt 18. mars 2020.
  4. „Að Luthuli látnum“. Alþýðublaðið. 27. júlí 1967. Sótt 18. mars 2020.
  5. „Albert Lutuli, kunnasti blökkumannaleiðtogi Suður-Afríku, nýlátinn af sökum slyss“. Vísir. 24. júlí 1967. Sótt 18. mars 2020.