Fara í innihald

James K. Polk

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
James K. Polk
James K. Polk árið 1849.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1845 – 4. mars 1849
VaraforsetiGeorge M. Dallas
ForveriJohn Tyler
EftirmaðurZachary Taylor
Fylkisstjóri Tennessee
Í embætti
14. október 1839 – 15. október 1841
ForveriNewton Cannon
EftirmaðurJames C. Jones
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Í embætti
7. desember 1835 – 3. mars 1839
ForveriJohn Bell
EftirmaðurRobert M. T. Hunter
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir Tennessee
Í embætti
4. mars 1825 – 3. mars 1839
ForveriJohn Alexander Cocke
EftirmaðurHarvey Magee Watterson
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. nóvember 1795
Pineville, Norður-Karólínu, Bandaríkjunum
Látinn15. júní 1849 (53 ára) Nashville, Tennessee, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiSarah Childress (g. 1824)
BörnSamuel Polk (ættleiddur)
Jane Knox (ættleidd)
HáskóliNorður-Karólínuháskóli í Chapel Hill
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður, plantekrueigandi
Undirskrift

James Knox Polk (2. nóvember 179515. júní 1849) var 11. forseti Bandaríkjanna og þjónaði því embætti frá 1845 til 1849. Hann lést einungis þremur mánuðum eftir að hann lét af embætti árið 1849. Polk er gjarnan talinn einn mikilvægasti og afkastamesti forseti Bandaríkjanna á árunum frá sjálfstæðisstríðinu til borgarastyrjaldarinnar. Þrátt fyrir að gegna aðeins einu kjörtímabili tókst Polk að inna af hendi öll fjögur helstu kosningaloforð sín: Að lækka innflutningsskatta, stofna sjálfstæðan ríkissjóð, innlima hið umdeilda Oregon-fylki og þenja Bandaríkin út til Kyrrahafsstrandar Ameríku.

Polk var Demókrati og pólitískur lærlingur Andrews Jackson. Hann hafði verið fylkisstjóri Tennessee og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings áður en hann var kjörinn forseti árið 1844. Kjör hans til forseta kom á óvart þar sem keppinautur hans um embættið, Vigginn Henry Clay, var mun þekktari stjórnmálamaður.

Sem forseti samdi Polk við Bretland um hið umdeilda Oregon-landsvæði. Bretar og Bandaríkjamenn gerðu báðir tilkall til Oregon-sýslunnar, sem var á Kyrrahafsströnd Ameríku á endimörkum Bandaríkjanna og bresku Norður-Ameríku (þar sem nú er Kanada). Hvorugt ríkið vildi heyja stríð um landsvæðið, sem var afskekkt og strjálbýlt, og því féllust ríkin að endingu á samning um að skipta Oregon-sýslunni í tvennt við 49. breiddargráðu en að hvort ríkið um sig fengi siglingaréttindi þar sem fljót héraðsins rynnu á landsvæði hins.

Polk var helsti hvatamaðurinn að stríði Bandaríkjanna við Mexíkó sem braust út árið 1846. Forverki Polks, John Tyler, hafði þegið beiðni Lýðveldisins Texas um að gerast fylki í Bandaríkjunum en það kom í hlut Polks að fá Mexíkó til að samþykkja innlimunina. Lýðveldið Texas hafði lýst yfir sjálfstæði frá Mexíkó eftir byltingu árið 1836 en Mexíkanar höfðu aldrei viðurkennt sjálfstæði þess og voru ekki hrifnir af þessum tilþreifunum Bandaríkjamanna um að innlima landsvæði sem þeir litu enn á sem réttmætan hluta af Mexíkó. Polk vissi að til þess að tryggja innlimun sína á Texas og vinna landsvæði sem hann hafði lofað kjósendum sínum við Kyrrahaf væri stríð við Mexíkó óhjákvæmilegt. Polk sendi því bandaríska herinn inn á umdeilt svæði við mexíkósku landamærin. Þegar mexíkóski herinn skaut á þann bandaríska sakaði Polk Mexíkana um að „úthella bandarísku blóði á bandarískri grundu“[1] og fékk Bandaríkjaþing til að lýsa yfir stríði.[2]

Bandaríkin unnu öruggan sigur gegn Mexíkó í stríðinu og hertóku Mexíkóborg árið 1848. Sama ár var friðarsáttmáli undirritaður þar sem Mexíkanar létu af hendi landsvæði sem spannar í dag Kaliforníu og Nýju-Mexíkó, auk þess sem þeir viðurkenndu innlimun Bandaríkjamanna á Texas. Þessir landvinningar voru ein stærsta útþensla í sögu Bandaríkjanna og með þeim uppfyllti Polk fyrirheit Bandaríkjanna um að ráða yfir Kyrrahafsströnd Norður-Ameríku.

Þótt Polk sé oft hrósað fyrir það hve miklu hann náði fram á forsetatíð sinni hefur hann einnig verið gagnrýndur, bæði á ævi sinni og í seinni tíð, fyrir að hefja illa dulbúið innrásarstríð gegn Mexíkó sem kostaði fjölda mannslífa. Gagnrýnendur Polks segja hann hafa leikið Mexíkó grátt, sett slæmt fordæmi fyrir Bandaríkin og stuðlað að auknum ágreiningi um þrælahald sem átti eftir að leiða til bandarísku borgarastyrjaldarinnar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Greenberg, Amy S. (2012). A Wicked War: Polk, Clay, Lincoln, and the 1846 U.S. Invasion of Mexico. New York: Alfred A. Knopf, bls. 101–104.
  2. Merry, Robert W. (2009). A Country of Vast Designs: James K. Polk, the Mexican War, and the Conquest of the American Continent. New York: Simon & Schuster, bls. 245–246.


Fyrirrennari:
John Tyler
Forseti Bandaríkjanna
(18451849)
Eftirmaður:
Zachary Taylor


  Þetta æviágrip sem tengist sögu og stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  Þessi Bandaríkja-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.