Austur-Tímor

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýð­stjórnar­lýð­veld­ið Tímor-Leste
Repúblika Demokrátika Timor Lorosa'e
República Democrática de Timor-Leste
Fáni Austur-Tímor Skjaldarmerki Austur-Tímor
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Unidade, Acção, Progresso (portúgalska)
Eining, aðgerðir, framfarir
Þjóðsöngur:
Pátria
Staðsetning Austur-Tímor
Höfuðborg Dili
Opinbert tungumál tetum, portúgalska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti José Ramos-Horta
Forsætisráðherra Xanana Gusmão
Sjálfstæði frá Portúgal
 • Viðurkennt 28. nóvember 1975 
 • Endurheimt 20. maí 2002 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
154. sæti
15.007 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
153. sæti
1.340.513
78/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 5,315 millj. dala (180. sæti)
 • Á mann 4.031 dalir (193. sæti)
VÞL (2019) 0.606 (141. sæti)
Gjaldmiðill bandaríkjadalur
Tímabelti UTC+9
Þjóðarlén .tp
Landsnúmer +670

Austur-Tímor eða Tímor-Leste er ríki í Suðaustur-Asíu. Það nær yfir eystri hluta eyjunnar Tímor, sem er stærst Litlu-Sundaeyja, útlenduna Oecussi-Ambeno á Vestur-Tímor (sem tilheyrir Indónesíu) og eyjarnar Atauro og Jaco. Landið hét áður Portúgalska Tímor þar til Indónesar réðust inn í landið árið 1975. Þeir héldu því til 1999 þegar landið fékk sjálfstjórn með fulltingi Sameinuðu þjóðanna. Landið fékk svo fullt sjálfstæði þann 20. maí 2002.

Portúgalir stofnuðu verslunarstaði á Tímor á 16. öld einkum vegna þess hve þar óx mikið af sandalviði. Nýlendan Portúgalska Tímor var stofnuð árið 1769 þegar Portúgalir stofnuðu borgina Dili. Alþjóðadómstóllinn í Haag staðfesti landamærin milli Portúgalska Tímor og vesturhlutans sem Hollendingar réðu yfir árið 1914. Í kjölfar Nellikubyltingarinnar í Portúgal árið 1974 hurfu Portúgalir frá nýlendunni sem leiddi til borgarastyrjaldar. Annar stríðsaðilinn, Fretilin, lýsti yfir stofnun sjálfstæðs ríkis 28. nóvember 1975. Indónesía gerði innrás í desember sama ár og lýsti Austur-Tímor 27. hérað Indónesíu í júlí árið eftir. Ofbeldi og kúgun einkenndu hernám Austur-Tímor og skæruliðahreyfingin Falintil barðist gegn hernámsliðinu allt til 1999. Blóðbaðið í Dili árið 1991 varð til þess að alþjóðasamfélagið snerist gegn Indónesíu og eftir fall Suhartos árið 1998 var ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Austur-Tímor undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Sjálfstæði Austur-Tímor gekk formlega í gildi árið 2002.

Austur-Tímor er annað tveggja landa í Asíu þar sem meirihluti íbúa er kaþólskrar trúar. Um helmingur landsmanna er ólæs og 37,4% landsmanna eru undir alþjóðlegum fátæktarmörkum. Efnahagur Austur-Tímor hefur þó vaxið hratt undanfarin ár. Helstu útflutningsafurðir landsins eru olía og gas, auk kaffis.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Austur-Tímor liggur á mörkum Suðaustur-Asíu og Eyjaálfu.[1] Eyjan Tímor er austust Litlu-Sundaeyja. Norðan við eyjuna eru Ombai-sund, Wetar-sund og Bandahaf. Tímorhaf skilur milli eyjunnar og Ástralíu í suðri. Indónesíska héraðið Austur-Nusa Tenggara liggur vestan við Austur-Tímor. Landið er 14.919 km2 að stærð. Efnahagslögsaga Austur-Tímor er 70.326 km2.[2]

Stór hluti landsins er fjöll og hæsti tindur þess er Tatamailau (líka þekkt sem Ramelau-fjall) 2.963 metrar á hæð.[3] Á eyjunni ríkir heitt og rakt hitabeltisloftslag með greinilegt regntímabil og þurrkatímabil. Höfuðborgin, stærsta borgin og aðalhafnarborgin er Dili, en önnur stærsta borgin er Baucau á austurhluta eyjunnar. Austur-Tímor er milli 8. og 10. breiddargráðu suður og 124. og 128. lengdargráðu austur.

Austasti hluti Austur-Tímor eru Paitchau-fjöll og stöðuvatnið Ira Lalaro þar sem fyrsta náttúruverndarsvæði landsins er, Nino Konis Santana-þjóðgarðurinn.[4] Þar er að finna síðustu leifarnar af þurrum hitabeltisskógi í landinu. Þar lifa margar einstakar jurta- og dýrategundir og mannabyggð er dreifð.[5] Undan norðurströndinni eru mörg kóralrif sem eru talin í hættu.[6]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Xanana Gusmão, fyrsti forseti Austur-Tímor eftir að hernámi Indónesíu lauk.

Forseti Austur-Tímor er þjóðhöfðingi landsins og er kosinn í beinum kosningum til fimm ára. Vald forseta er takmarkað, en hann skipar forsætisráðherra og hefur neitunarvald gagnvart löggjöf. Í kjölfar þingkosninga skipar forsetinn oftast leiðtoga þess flokks sem unnið hefur meirihluta þingsæta sem forsætisráðherra Austur-Tímor og ríkisstjórn samkvæmt ráðleggingum hans. Forsætisráðherrann er stjórnarleiðtogi.[7][8]

Þing Austur-Tímor kemur saman í einni deild. Þingmenn eru kjörnir í almennum kosningum til fimm ára í senn. Fjöldi sæta er breytilegur frá 52 til 65. Stjórnarskrá Austur-Tímor er byggð á stjórnarskrá Portúgals. Uppbygging innlendrar stjórnsýslu og stofnana er enn á frumstigi. Meðal helstu stofnana eru Ríkislögregla Austur-Tímor, Flugmáladeild Austur-Tímor og Innflytjendastofnun Austur-Tímor.

Ríkislögregla Austur-Tímor var stofnuð af Sameinuðu þjóðunum árið 2002, áður en landið fékk fullveldi, til að viðhalda lögum og reglu í landinu.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Austur-Tímor skiptist í fjórtán sveitarfélög (municípios) sem aftur skiptast í 66 stjórnsýslumiðstöðvar (postos administrativos), 452 þorp (sucos) og 2.233 hverfi (aldeias).

Sveitarfélög Austur-Tímor


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „United Nations“. United Nations. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. apríl 2010. Sótt 28. mars 2010.
  2. Exclusive Economic Zones – Sea Around Us Project – Fisheries, Ecosystems & Biodiversity – Data and Visualization.
  3. „Mount Ramelau“. Gunung Bagging. 10. apríl 2015. Sótt 18. desember 2016.
  4. „Nino Konis Santana National Park declared as Timor-Leste's (formerly East Timor) first national park“. Petside. Wildlife Extra.
  5. Norwegian energy and Water Resources Directorate (NVE) (2004), Iralalaro Hydropower Project Environmental Assessment
  6. „ReefGIS – Reefs At Risk – Global 1998“. Reefgis.reefbase.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. september 2018. Sótt 28. mars 2010.
  7. Shoesmith, Dennis (apríl 2003). „Timor-Leste: Divided Leadership in a Semi-Presidential System“. Asian Survey. 43 (2): 231–252. doi:10.1525/as.2003.43.2.231. ISSN 0004-4687. OCLC 905451085. Afrit af upprunalegu geymt þann apríl 14, 2021. Sótt desember 13, 2021. „The semi-presidential system in the new state of Timor-Leste has institutionalized a political struggle between the president, Xanana Gusmão, and the prime minister, Mari Alkatiri. This has polarized political alliances and threatens the viability of the new state. This paper explains the ideological divisions and the history of rivalry between these two key political actors. The adoption of Marxism by Fretilin in 1977 led to Gusmão's repudiation of the party in the 1980s and his decision to remove Falintil, the guerrilla movement, from Fretilin control. The power struggle between the two leaders is then examined in the transition to independence. This includes an account of the politicization of the defense and police forces and attempts by Minister of Internal Administration Rogério Lobato to use disaffected Falintil veterans as a counterforce to the Gusmão loyalists in the army. The December 4, 2002, Dili riots are explained in the context of this political struggle.“
  8. Neto, Octávio Amorim; Lobo, Marina Costa (2010). „Between Constitutional Diffusion and Local Politics: Semi-Presidentialism in Portuguese-Speaking Countries“ (PDF). APSA 2010 Annual Meeting Paper. SSRN 1644026. Sótt 25. ágúst 2017.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.