José Ramos-Horta

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
José Ramos-Horta
José Ramos-Horta árið 2022.
Forseti Austur-Tímor
Núverandi
Tók við embætti
20. maí 2022
ForsætisráðherraTaur Matan Ruak
Xanana Gusmão
ForveriFrancisco Guterres
Í embætti
17. apríl 2008 – 20. maí 2012
ForsætisráðherraXanana Gusmão
ForveriFernando de Araújo (starfandi)
EftirmaðurTaur Matan Ruak
Í embætti
20. maí 2007 – 11. febrúar 2008
ForsætisráðherraEstanislau da Silva
Xanana Gusmão
ForveriXanana Gusmão
EftirmaðurVicente Guterres (starfandi)
Forsætisráðherra Austur-Tímor
Í embætti
26. júní 2006 – 19. maí 2007
ForsetiXanana Gusmão
ForveriMari Alkatiri
EftirmaðurEstanislau da Silva
Persónulegar upplýsingar
Fæddur26. desember 1949 (1949-12-26) (74 ára)
Dili, Portúgölsku Tímor (nú Austur-Tímor)
ÞjóðerniAusturtímorskur
StjórnmálaflokkurÓflokksbundinn
MakiAna Pessoa Pinto (skilin)
Börn1
HáskóliAntioch-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1996)
Undirskrift

José Manuel Ramos-Horta (f. 26. desember 1949) er austurtímorskur stjórnmálamaður sem er núverandi forseti Austur-Tímor. Hann tók við embætti eftir kosningar árið 2022 en hafði áður gegnt forsetaembættinu frá 2007 til 2012. Þar áður hafði hann verið utanríkisráðherra landsins frá 2002 til 2006 og forsætisráðherra frá 2006 til 2007. Ramos-Horta hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1996 ásamt landa sínum, Carlos Filipe Ximenes Belo, fyrir tilraunir sínar til að finna „friðsamlega og réttláta lausn“ á sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor undan Indónesíu.[1][2]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

José Ramos-Horta fæddist árið 1949 í Dili og er af bæði tímorskum og portúgölskum ættum. Hann vann ungur fyrir sér í blaðamennsku og gerðist virkur í sjálfstæðishreyfingum Austur-Tímor, sem var á þessum tíma portúgölsk nýlenda.[3]

Árið 1970 var Ramos-Horta dæmdur í tveggja ára útlegð til Mósambík fyrir að gagnrýna portúgölsku nýlenduyfirvöldin. Fjórum árum síðar tók hann þátt í stofnun róttæku sjálfstæðishreyfingarinnar Fretilin, sem lýsti yfir sjálfstæði Austur-Tímor þann 28. nóvember 1975. Ramos-Horta varð utanríkisráðherra í stjórn hins nýja ríkis, en sú stjórn varð ekki langlíf því að aðeins um viku síðar réðst her Indónesíu inn í Austur-Tímor og hertók landið.[3] Indónesar limuðu Austur-Tímor formlega inn í Indónesíu og stóðu fyrir afar ofbeldisfullu hernámi í landinu þar sem Ramos-Horta missti meðal annars systur sína og þrjá bræður.[3]

Útlegð frá Austur-Tímor[breyta | breyta frumkóða]

Ramos-Horta flúði frá Austur-Tímor þremur dögum fyrir innrás Indónesa og settist að í Sydney í Ástralíu, þar sem hann vann sem prófessor í alþjóðarétti.[4] Eftir hernám Indónesa ferðaðist Ramos-Horta um heiminn til að tala fyrir sjálfstæði Austur-Tímor, vekja athygli á mannréttindabrotum indónesískra stjórnvalda þar í landi og rak jafnframt mannréttindastofnun fyrir Austur-Tímor í Sydney.[3]

Þáttaskil urðu árið 1991 í viðhorfi alþjóðasamfélagsins til Austur-Tímor þegar blaðamenn urðu vitni að fjöldamorðum indónesíska hersins á óbreyttum borgurum í Dili.[5] Næsta ár lagði Ramos-Horta fram friðartillögur þar sem gert var ráð fyrir því að Austur-Tímor myndi hljóta sjálfstæði í þremur áföngum: Í hinum fyrsta ættu fulltrúar Austur-Tímora, Indónesa og Portúgala að semja um aðgerðir til að auka trúnaðartraust milli fylkinganna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, í öðrum ætti Austur-Tímor að hljóta sjálfstjórn og koma sér upp innlendu lýðræðislegu þingi og í hinum þriðja ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Austur-Tímor og framtíðarstjórnarfyrirkomulag ríkisins.[6]

Árið 1996 var Ramos-Horta sæmdur friðarverðlaunum Nóbels ásamt austurtímorska biskupnum Carlos Filipe Ximenes Belo. Norska Nóbelsnefndin tók fram að með verðlaunun austurtímorsku baráttumannanna væri ætlunin að vekja athygli heimsins á „gleymdu stríði“ í Austur-Tímor þar sem fjöldi fólks hafði látið lífið. Meðal þeirra sem tilnefndu Ramos-Horta til friðarverðlaunanna voru Kristín Ástgeirsdóttir og aðrar Alþingiskonur íslenska Kvennalistans.[7]

Eftir að indónesíski einræðisherrann Suharto féll frá völdum árið 1998 var loks slakað á klónni í Austur-Tímor og þar efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmenn kusu með miklum meirihluta sjálfstæði undan Indónesíu í stað þess að þiggja aukið sjálfræði innan hennar. Sameinuðu þjóðirnar tóku þá til bráðabirgða við stjórn landsins og í desember 1999 kom Ramos-Horta loks heim úr útlegðinni. Hann varð fyrsti utanríkisráðherra í stjórn hins sjálfstæða Austur-Tímor frá 2002 til 2006 og lagði í því embætti áherslu á sáttir við Indónesa og á aukin samskipti við ASEAN-ríkin.[8]

Stjórnmálaferill eftir sjálfstæði[breyta | breyta frumkóða]

Ramos-Horta varð forsætisráðherra Austur-Tímor árið 2006 eftir afsögn Mari Alkatiri, sem lá undir ásökunum um að hafa beitt dauðasveitum til að þagga niður í pólitískum andstæðingum sínum.[9] Ramos-Horta og aðrir áhrifamenn, meðal annars Xanana Gusmão forseti, höfðu hótað afsögn ef Alkatiri yrði ekki látinn fara. Við embættistöku sína lagði Ramos-Horta áherslu á að koma þúsundum manna aftur til síns heima sem höfðu flúið frá Dili vegna óeirða í mótmælum gegn Alkatiri.[10]

Árið 2007 bauð Ramos-Horta sig fram til forseta Austur-Tímor. Hann vann sigur í annarri umferð kosninganna og var svarinn í embætti þann 20. maí sama ár. Þann 11. febrúar 2008 varð Ramos-Horta fyrir byssuskoti þegar uppreisnarmenn úr röðum hersins réðust á heimili hans og reyndu að myrða hann. Ramos-Horta særðist alvarlega og þurfti að dveljast á sjúkrahúsi í Ástralíu í nokkra mánuði á meðan honum batnaði.[11]

Ramos-Horta bauð sig fram til endurkjörs árið 2012 en hafði þá glatað stuðningi CNRT, flokks Xanana Gusmão.[12] Hann lenti í þriðja sæti í fyrri umferð forsetakosninganna á eftir mótframbjóðendunum Francisco Guterres og Taur Matan Ruak.[13] Eftir ósigur Ramos-Horta var honum boðið að gerast milligöngumaður Sameinuðu þjóðanna í hernaðardeilum í Gíneu-Bissá.[14] Hann varð formaður friðargæsluskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í landinu árið 2013.

Ramos-Horta gaf aftur kost á sér til forseta Austur-Tímor árið 2022, á móti sitjandi forsetanum Francisco Guterres. Ramos-Horta sagðist gefa kost á sér þar sem hann teldi Guterres hafa farið út fyrir valdsvið sitt á forsetatíð sinni. Í aðdraganda kosninganna endurnýjaði Ramos-Horta bandalag sitt við Xanana Gusmão. Hann lenti í fyrsta sæti í fyrri umferð kosninganna, þar sem hann hlaut 45,86 prósent atkvæðanna en Guterres aðeins 22,35.[15] Ramos-Horta vann stórsigur í seinni umferð kosninganna þann 20. apríl með 62 prósentum atkvæða á móti 38 prósentum sem Guterres fékk.[16]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Hvöttu til viðræðna um framtíð Austur-Tímor“. Morgunblaðið. 11. desember 1996. Sótt 21. janúar 2020.
  2. „Heiðraðir fyrir baráttu í þágu kúgaðrar smáþjóðar“. Morgunblaðið. 12. október 1996. Sótt 21. janúar 2020.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 „Sterkur karakter en ljúfur og hógvær“. Dagblaðið Vísir. 12. apríl 1997. Sótt 21. janúar 2020.
  4. „Hvöttu til viðræðna um framtíð Austur-Tímor“. Morgunblaðið. 11. desember 1996. Sótt 21. janúar 2020.
  5. Kristín Ástgeirsdóttir (1. febrúar 1997). „Á Nóbelshátíð í Ósló“. Vera. Sótt 21. janúar 2020.
  6. „Friðarverðlaun til fulltrúa frelsisbaráttu Austur-Tímor“. Dagur. 12. október 1996. Sótt 21. janúar 2020.
  7. Auðunn Arnórsson (15. apríl 1997). „Sjálfstæði Austur-Tímor bíður fráfalls Suhartos“. Morgunblaðið. Sótt 21. janúar 2020.
  8. Margrét Heinreksdóttir (7. október 2001). „Altekinn gleði, auðmýkt og þakklæti“. Morgunblaðið. Sótt 21. janúar 2020.
  9. „Afsögn fagnað á Austur-Tímor“. Morgunblaðið. 27. júní 2006. Sótt 21. janúar 2020.
  10. „Tekur við á Austur-Tímor“. Fréttablaðið. 9. júlí 2006. Sótt 21. janúar 2020.
  11. „Ramos-Horta úr lífshættu eftir skotárás“. Morgunblaðið. 12. janúar 2008. Sótt 21. janúar 2020.
  12. „Snúa baki við Ramos-Horta“. RÚV. 1. mars 2012. Sótt 20. apríl 2022.
  13. „Ramos-Horta úr leik“. RÚV. 18. mars 2012. Sótt 21. janúar 2020.
  14. „Ramos-Horta miðlar málum“. RÚV. 16. apríl 2012. Sótt 21. janúar 2020.
  15. „Nóbelsverðlaunahafi og Íslandsvinur vill aftur í forsetastólinn“. Fréttablaðið. 20. mars 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. apríl 2022. Sótt 20. apríl 2022.
  16. Þórgnýr Einar Albertsson (21. apríl 2022). „Íslandsvinurinn Ramos-Horta forseti á ný“. RÚV. Sótt 21. apríl 2022.


Fyrirrennari:
Mari Alkatiri
Forsætisráðherra Austur-Tímor
(26. júní 200619. maí 2007)
Eftirmaður:
Estanislau da Silva
Fyrirrennari:
Xanana Gusmão
Forseti Austur-Tímor
(20. maí 200711. febrúar 2008)
Eftirmaður:
Vicente Guterres
(starfandi)
Fyrirrennari:
Fernando de Araújo
(starfandi)
Forseti Austur-Tímor
(17. apríl 200820. maí 2012)
Eftirmaður:
Taur Matan Ruak
Fyrirrennari:
Francisco Guterres
Forseti Austur-Tímor
(20. maí 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti